Veislan á Grund/7. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Á meðan húsfreyjan sinnti hirðstjóranum, höfðu griðkonur hennar greitt fyrir mönnum hans. Flestir höfðu nú þegar lokið við að þvo sér og komu greiddir og stroknir út úr lokrekkjunum, búnir til að setjast að borði. Allir höfðu látið eftir vopn sín þar inni, og flestir herklæði sín eða nokkuð af þeim, því að óhægt var mönnum að setjast að borði í þeim. Flestir höfðu aðeins pansara. Virðingamenn einir báru hringabrynjur og brynhosur og báru þær undir litkyrtlunum. Ekki var því eins auðvelt að færa sig úr þeim, enda var mönnum liðugra um allar hreyfingar í þeim hlífum en hinum. Pansarinn var ósveigjanlegur sem klakastakkur, en hringabrynjan lagaði sig hvarvetna eftir líkamanum.

Auk Smiðs hirðstjóra voru þeir helstir virðingamenn í flokknum Jón Guttormsson lögmaður, sem einnig var almennt kallaður Jón skráveifa, og Ormur Snorrason, fyrrverandi lögmaður sunnan og austan. Hann var enn þá ungur að aldri, þótt hann væri meira en fullvaxta, en mikils metinn sökum auðs síns og ættgöfgi.

Þessir tveir menn voru svo ólíkir, að erfitt var að skilja, að þeir ættu báðir heima í sama flokki.

Jón skráveifa bar það með sér, að hann var hvort tveggja í senn vesalmenni og varmenni, enda þótti hann hafa kynnt sig að hvoru tveggja. Ýmsu voru menn vanir af höfðingjum þeirrar aldar, en svo hafði rángirni hans og yfirgangur gengið fram af mönnum, að árið áður höfðu Norðlendingar gert samblástur móti honum og rekið hann aftur frá yfirreiðum sínum. Þá hafði hann hrökklast suður á land við lítinn orðstír. Nú var það á allra manna vitorði, að það var hann, sem rægt hafði frá lífi Árna Þórðarson, og hitt líka, að hann réð til þessarar norðurreiðar við fjölmenni, til að ná sér niðri á Norðlendingum og reka þar harma sinna. Smiður var Austmaður og hér öllum mönnum ókunnur, og hafði það eitt sér til óhelgi unnið að hlýða ráðum Jóns. Allir væntu fremur góðs en ills af honum, ef honum gæfist betri ráðunautur. Allir vissu, að vegna Jóns var flokkurinn hataður, og vegna hans eins fór hann yfir landið eins og svipa guðs: rænandi og ruplandi, særandi og svívirðandi, hvarvetna með blóðug spor að baki sér. Jafnvel í sjálfum flokknum var hann hataður, þótt menn óttuðust hann meira en svo, að menn þyrðu að láta tilfinningar sínar í ljós. Allir, nema Smiður sjálfur, sem blindaður var af trausti á honum, kviðu því, að fyrr eða síðar stæði flokknum einhver mikil óhamingja af honum.

Jón var hár maður vexti, en mjór og lotinn, og bar illa hin góðu herklæði. Illa var hann limaður og allur linmennskulegur. Andlitið var þunnleitt og holdskarpt, með djúpar skorur milli augnanna og poka undir augunum, eins og langvarandi uppdráttarsýki hefði sett á það einkenni sín. Augun voru lítil og lágu innarlega; augnaráðið myrkt, tortryggnislegt og fullt fláttskapar. Gjarnt var honum að líta út undan sér, eins og hann ætti jafnan von á einhverju aftan að sér. Allur bar svipurinn vott um eitthvert rándýrseðli: hóflausa sjálfselsku, logandi fýsnir og miskunnarlausa grimmd. Honum var það vel kunnugt, að fáir voru þeir - ef nokkrir voru -, sem höfðu mætur á honum. Hann var fyrir löngu hættur að vonast eftir því, að nokkur mannleg vera elskaði hann. Nú lét hann sér nægja það, að menn hræddust hann og hlýddu honum. Hann fann kuldann og hatrið leggja á sig úr hvers manns augum; það sakaði ekki, ef þrælsóttinn yfirgnæfði. Ef til vill væru allir þessir menn, sem á honum héngu og áttu honum upphefð sína að þakka, hatursmenn hans, ef til vill sætu þeir allir á svikráðum við hann. Það gerði ekkert til. Meðan hann gat notað þá fyrir böðla á aðra, meðan hann hélt hlífiskildi yfir ránum þeirra og ólifnaði, á meðan þeir gátu auðgast og svallað í skjóli hans, - á meðan voru þeir honum trúir. Þegar honum byði svo við að horfa, sparkaði hann þeim og réði sér aðra menn. Valdið eitt var það, sem hann þyrsti eftir, valdið, sem svalað gæti öllum hans ástríðum, traðkað öllum hans óvinum, launað hans fáu, trúu vinum og hulið glæpi hans með gulli og gersemum. Aldrei hafði það náð meiri blóma en nú. Þessu valdi þjónaði nú Smiður hirðstjóri.

Þetta var sá eldur, sem brann í blóði Jóns skráveifu, sá ormur, sem nagaði hann innan og gerði hann magran og tærðan.

Ormur Snorrason var þessum manni harla ólíkur. Hann var maður fríður sýnum, ljóshærður, fullur að vöngum og sléttleitur, vel vaxinn og vel limaður og allur hinn svipfríðasti og drengilegasti. Hann var stilltur í framgöngu, en þó hinn djarfmannlegasti. Það leyndi sér ekki, að hann horfði hátt til fjár og metorða, en hitt ekki heldur, að hann mat mikils sóma sinn. Nú hafði hann verið utan og verið með konungi, því að þangað stefndu allra framgjarnra manna augu, sem konungsvaldið var. Þar hafði honum verið fyrir lagt að styrkja og staðfesta veldi Smiðs hirðstjóra á Íslandi. Það átti hann að vinna sér til konungshylli. Og orð sitt vildi hann ekki brjóta, þótt ekki væri hann blindur fyrir framferði og félagsskap Smiðs og sæi einnig vel, hve óvænlega þetta horfði. Hann reyndi að beita áhrifum sínum á Smið til góðs, en varð lítið ágengt. Þeir Jón skráveifa og Smiður áttu betur en svo skap saman, að orð hans fengju mikla áheyrn. Hann vissi vel, að engan mann hataði Jón svo í flokknum sem hann, og engum mundi hann vilja vinna meira ógagn. Ekki óttaðist hann „Skráveifuna“, heldur fyrirleit hana; en ekki vildi hann að heldur slíta við þá félagsskap.