Veislan á Grund/8. kafli

Úr Wikiheimild

Skálinn fylltist af vínilm og matareim. Griðkonurnar voru að bera mat og mungát inn á borðið. Húsfreyjan gekk um og leit eftir öllu. Stúlkurnar voru orðnar upplitsdjarfari en þær höfðu verið í fyrstu. Þær voru kvikar á fæti og snarar í snúningum. Allar hreyfingar þeirra báru vott um glaðværð og léttlyndi. Þar var dans í hverju spori. Þær smeygðu sér liðlega inn og fram milli gestanna, sem voru á reiki um skálann, brostu hlýlega til þeirra og litu feimnislega niður fyrir sig, ef þær mættu augum þeirra. Þær sóru sig prýðilega í ættina við fyrstu móður sína, Evu. Húsmóðirin gaf þeim auga og líkaði ágætlega við þær.

Jón skráveifa reikaði meðal annarra fram og aftur um skálann. Hann skimaði tortryggnislega út í hvern krók og kima, eins og hann ætti von á því, að her manns lægi þar falinn. Hann nam staðar við dyrnar, sem lágu fram í afhýsið, og horfði hvasst á manninn, - ef mann skyldi kalla -, sem þar húkti og danglaði á harðfiskinum með hægum, afllausum höggum. Hann virtist vega hann og meta, hvað hann mundi vera gamall og hvað mikill dugur mundi vera eftir í honum. Þetta var eini karlmaðurinn, sem fyrir hann hafði borið á Grund. Og ekki leist honum hann hættulegri en svo, að þrjátíu manns mundu fá ráðið við hann. Hann sneri aftur inn í skálann án þess að gefa „Skreiðar-Steini“ frekari gaum.

„Því er líkast, sem við séum komnir hér í nunnuklaustur,“ mælti hann í eyra Smiðs hirðstjóra.

„Láttu þér vænt um þykja,“ mælti Smiður háðslega. „Nunnur eru öllum konum fýsilegri til faðmlaga. Og svo ert þú veraldarvanur, lögmaður, að ekki mun þér þykja sigurinn sætur, ef engin er fyrirstaðan.“

Jón lét sem hann heyrði ekki gamanyrði hans.

„Mér segir svo hugur um, að hér búi eitthvað undir,“ mælti hann myrkur á svipinn.

„Ætíð sérðu illar vættir í hverju horni,“ gegndi Smiður glaðlega. „Hvað ætti að búa hér undir? Ertu hræddur við munkana hinum megin við ána? Eða við hvað ertu hræddur? Það hélt ég ekki, lögmaður, að þér lægi heyvisk í hjartastað. Nú er ekki margt manna heima um Eyjafjörð. Ég hefi sannfrétt, að Einar bóndi er vestur á landi með alla menn sína. Og Þorsteinn Eyjólfsson býr nú skip sitt í snatri úti á Eyrum og hyggur á það eitt að vera lagður frá landi áður en vér komum. Það hefi ég líka sannfrétt. Eða heldurðu ekki, að honum sé það hollast? - Við hvað ertu þá hræddur?“

„Oft býr kalt undir kvennablíðu,“ mælti Jón og vildi ekki fyllilega gleðjast láta. „Mér þykja viðtökurnar hér helst til vel undir búnar.“

„Kvenfólkið, vinur minn! - Eins og það verði ekki fegið slíkum gestum sem við erum? - Heldurðu ekki, að því finnist hátíð að þjóna oss til borðs og sængur hjá pví, sem þær eru vanar? Líttu á, hve léttstígar þær eru. Kveneðlið er jafnan sjálfu sér líkt. Meiri glæsimenni en hér eru inni hefir aldrei fyrir þessar konur borið. Vertu viss um, að ekki hlakka þær minna til næturinnar en við. - Ég hefi fyrr til kvenna komið. - Hengdu nú ekki hausinn niður eins og kerling, herra lögmaður. Berðu þig höfðinglega og reyndu að ná í eitthvert af þessum fögru, forboðnu aldinum, sem sveigja hér greinarnar, og kreista úr þeim hinn sæta safa.“

Jón skráveifa rétti úr sér, en varp þó enn þungt öndinni. Hann fann, að orðum varð ekki komið við hirðstjórann að þessu sinni til að vekja hjá honum tortryggni. Hann var í slíku skapi, að hann sá ekkert annað en munað og lífsgleði.

Og Smiður var annars hugar en að hlusta á áminningar og aðvaranir. Hann hafði ekki augun af húsfreyjunni, sem stóð skammt frá honum og skipaði fyrir verkum með hógværum myndugleik. Hann laut að eyra Jóns og hvíslaði:

„Líttu á þessa! Húsfreyjuna. Hvar hefirðu séð vænni konu? Drottningarþótti. - Ættgöfgisstórmennska. - Vafin gulli og silfri og dýrum feldum. - Þessi kona lætur ekki smámennum fang sitt falt, - en vel mundi hún láta fara um þann, sem hún hallaði að brjósti sér. - - Þessa óvinnandi borg ætla ég að vinna í nótt.“

Jón var hættur að horfa á húsfreyjuna og hlusta á hirðstjórann. Dísa litla hafði gengið fram hjá og orðið fyrir augum hans. Hann fylgdi henni nokkur spor eftir til þess að missa ekki sjónar af henni. Smiður sá, hvað hann hafðist að, og glotti í kampinn.

Dísa fann þessi myrku, hvössu augu hvíla stöðugt á sér og líkt og borast inn í sig. Hún þaut inn og fram í hálfgerðu fáti og vissi ekki, hvað hún átti af sér að gera. En eitt sinn gekk lögmaðurinn í veg fyrir hana og neyddi hana til að nema staðar.

„Ég vona, að þú gerir mér þá gleði,“ mælti hann blíðlega, „að sitja hjá mér við borðið og skenkja á hjá mér. Ég sit næstur hirðstjóranum.“

Augu Dísu fylltust af tárum. Hún leit eldsnöggt allt í kringum sig, hvort sér kæmi engin hjálp. En hún kom ekki auga á neitt, nema andlit húsmóður sinnar, hart og vægðarlaust. Og frammi fyrir henni stóð lögmaðurinn og beið eftir svarinu.

„Já,“ sagði hún svo lágt, að varla heyrðist.

„Og svo vona ég, að þú fylgir mér til sængur í kvöld.“

Dísa var orðin kafrjóð og gat engu orði upp komið. Hún fann eitthvað mjúkt strjúkast um kinnina á sér um leið og hún skaust fram hjá. Það var hönd lögmannsins.

Ormur Snorrason hafði einnig nánar gætur á því, sem fram fór í skálanum. Og þegar hann sá, að Smiður hirðstjóri var laus við lögmanninn í bili, gekk hann til hans og mælti hljótt við hann.

„Ef þér viljið á orð mín hlýða, herra hirðstjóri, vildi ég ráða yður til að áminna menn okkar um að gæta sér hófs í öllu og sýna það, að þeir séu vaxnir því að veita höfðingjum föruneyti. Yðar orð taka þeir betur til greina en okkar hinna.“

„Hvað eigið þér við?“ mælti Smiður kuldalega og lést ekki skilja.

Ormur varð alvarlegri og einbeittari við undirtektir hans og mælti nokkru fastar en áður:

„Ég á við, að menn vorir láti sín ekki freista of mjög til víns og kvenna. Ég á við, að vér sjálfir og menn vorir sýnum það, að vér séum mannfagnaði og góðum viðtökum vaxnir og kunnum góðra manna hegðan, svo að vér vinnum oss fremur virðingu en fyrirlitningu, einnig í hóp ókunnugra kvenna. Ég á við, að vér sýnum það einnig í gleðinni, að vér séum herrar sjálfra vor, en ekki böðlar.“

„Vel farast yður orð,“ mælti Smiður með kuldaglotti. „En ekki mun ég meina mönnum mínum að gleðjast, þegar gleðin býðst þeim. Svo marga erfiða stund hafa þeir með mér þolað á sjó og landi, og nú síðast uppi á reginöræfum, að illa væri það gert að hamla nú gleði þeirra eina kvöldstund. Að þeirri gleði, sem þeir njóta hér, eiga þeir að búa, hvað annað sem okkur kann að mæta á yfirreiðinni um Norðurland.“

„Taumlausir gleðimenn eru oftast bleyðimenn í bardögum og mannraunum. Ekki kæmi mér það á óvart, þótt linir yrðu þeir til sóknar næstu dagana, sem gleymdu sér í gleðskapnum í kvöld.“

„Ekki óttast ég það. Þeim höfðingja eru engir menn fylgisamir til lengdar, sem ekki leyfir þeim að njóta gleði sinnar í ríkum mæli. Sameiginleg glaðning og sameiginlegar þrautir, sem hvort tveggja gengur á fremsta hlunn, eru það eina, sem tengir menn óslítandi böndum. - Þér eruð illa til höfðingja fallinn, Ormur. Þér hafið kvennaskap. Allt of mikil samviskusemi er ekki leiðin til valda og vegsemdar.“

„Vera má, að svo sé,“ mælti Ormur, og var honum nokkuð farið að þykkna í skapi. „En vitið þér, herra, hver sú gleði er, sem menn okkar sækjast eftir? - Hún er dýrslegt æði, svölun hinna örgustu fýsna í drykkjuskap, ástum, ránum og blóði. Að svala slíkum þorsta til fulls, er yður um megn. Allt Ísland mundi ekki hafa konur og vín og gull svo að nægði. Og hvert verður svo græðginni snúið, er yður brestur mátt til að afla henni saðningar? Á sjálfan yður, herra. - Beislið varginn, áður en hann er vaxinn yður yfir höfuð. Látið menn yðar kenna á myndugleik yðar í kvöld og haldið þeim í skefjum. Þá mun ferð okkar verða öll betri.“

Smiður horfði á hann háðslega og mælti síðan ofurglaðlega:

„Þér eruð ungur og óþroskaður, vinur minn. Þess vegna stendur yður geigur af sjálfri gleðinni. Það er barnakvilli, sem við könnumst allir við, en erum fyrir löngu vaxnir frá. Lítið í kringum yður. Hér eru menn, sem enn getur hitnað um hjartarætur við fegurð og glaðværð. Lítið á lögmanninn okkar. Einnig hans útslitna eltiskinnsandlit er farið að roðna og lifna við. Það er eitthvað komið í augun á honum, sem minnir á gamla glóð. - Þér ætlið þó vonandi ekki að rísa öndverður gegn oss, af því vér njótum gleði vorrar og erum ekki gerðir af eintrjáningum?“

„Það ætla ég ekki að gera. Ég mun fylgja ykkur eftir mætti, þegar á reynir og þið þurfið liðveislu minnar við. Ég mun engu heiti mínu bregðast.“

„Þetta er vel sagt. Ég veit það, Ormur, að þér eruð hugstór í mannraunum og allra manna best vígur. Þér eruð oss á við hverja tíu aðra.“

„Oflof vil ég ekkert heyra, herra,“ mælti Ormur svo hátt, að allir nærstaddir heyrðu. „En eitt vil ég segja yður að lokum. Geri menn okkar hér nokkrar óspektir, eða reyni þeir að beita ofbeldi við konurnar, - þá er mér að mæta. Ég mun þá taka til minna ráða að halda aga og góðri skipan meðal manna okkar, og enginn skal koma fram neinni illmennsku, meðan ég fæ nokkru ráðið. - Ekki einu sinni hirðstjórinn sjálfur.“

Ormur hneigði sig hæversklega og gekk frá honum. - Smiður stóð eftir, dökkur á svipinn, með samanbitnar varir og þagði. Hér var sú festa og alvara fyrir, að hann stóð máttvana.

Húsfreyjan leysti hann úr vandanum að þessu sinni. Hún kallaði hárri röddu, svo að heyrðist um allan skálann, og bað menn ganga til borðs og þiggja það, sem fram væri reitt. Sjálf gekk hún til hirðstjórans og bað hann blíðlega að fylgja sér til borðsins.

Gleðisvipurinn var á svipstundu aftur kominn á andlit hirðstjórans. Hann laut húsfreyjunni djúpt, rétti henni síðan arm sinn og leiddi hana með sér til öndvegisins.