Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Jónspostilla

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Jónspostilla

Það er alkunnugt að til forna var sú trú á Saltaranum að fjandinn flýði alstaðar fyrir honum. Hitt er máske ekki eins alkunnug að sumstaðar bregður fyrir þeirri trú á Jónspostillu að hún muni verja allri reimleiksaðsókn. Hér að lýtur það sem frá er sagt í Ísl. þjóðsögum, 40. bls. neðst, að kona ein á Básum í Grímsey gekk aldrei svo frá syni sínum meðan hann var ungur að hún ekki skildi eftir hjá honum Jónspostillu opna „svo ekkert illt skyldi granda honum.“ Þetta mun hún einkum hafa gert til þess að Básastelpan sem var fylgidraugur Bása-ættar og -bæjar, skyldi ekki þora að honum. Að lík trú hafi víðar verið á Jónspostillu ræð ég af vísu sem ég hefi fyrir löngu heyrt, ég man ekki hvar, en hún er svona:

Bak við syllu gerir grillu
glettinn villu-andi;
Jónspostillu hafðu á hillu,
hún ver illu grandi.

Eftir því sem ég kemst næst hefir síra Sigurður [Sigurðsson], seinast prestur á Kúlu († 1862), gert vísuna til að spaugast að Jónspostillu-trúnni.