Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Silfrúnarstaða-Skeljungur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Silfrúnarstaða-Skeljungur

Skeljungur hefur maður heitið; hann var sauðamaður bóndans á Silfrúnarstöðum í Norðurárdal. Skeljungur var mikill maður vexti, ramur að afli, grályndur í skapi og þótti illur viðureignar. Gætti hann sauða bóndans að seljum þeim er Bessakot heita fram á dalnum og gekk síðla frá þeim á kvöldum.

Þá voru haldnar glímur á Eireksstöðum undir Skjaldbreið og var mönnum boðið til glímunnar um allt land. Lágólfur úr Siglufirði gekk til glímunnar sem segir í sögu Bárðar Snæfellsáss (10. kap.). Þá er Lágólfur kom að sunnan hittust þeir Skeljungur er hann kom frá sauðum, á eyrunum fyrir sunnan Silfrúnarstaði; það var síðla dags. Skeljungur bauð Lágólfi til glímu, en hann vildi ekki skorast undan þótt hann væri göngumóður. Þeir gengust að fast og urðu sveiflur miklar. Mæðist Lágólfur fyr, því hann var göngumóður og ferðlúinn; en er Skeljungur finnur það að Lágólfur tekur að mæðast hefur hann Lágólf á loft og ætlar að bregða honum til sveiflu, en í því gekk fangastakkur Lágólfs í sundur; verður honum þá laus hendin. Snarast hann þá undir Skeljung og bregður svo hart við honum mjöðminni að Skeljungur er þegar allur á lofti; svífur hann þá niður fall mikið svo að sundur gengu báðir lærleggirnir.[1] Lágólfur lét þar Skeljung eftir liggja og gekk braut; kom hann á glugga á Silfrúnarstöðum og kvað vísu þessa:

Við sauðamann á Silfrastöðum glímdi
Lágólfur og braut hans bein;
bar Skeljungur vel sitt mein.

Heim gekk Lágólfur um kvöldið. Menn fóru frá Silfrúnarstöðum um nóttina að leita Skeljungs, en gátu ekki fundið hann því myrkt var orðið. Um morguninn hófu menn leitina af nýju, en fundu ei Skeljung að heldur. Við það urðu menn nú varir að Skeljungur lá ei kyr; hafði hann aftur gengið og farið í helli nokkurn fram í fjallinu er Skeljungshellir heitir og við hann er kenndur. Nú er hrunið mjög framan af hellinum og er hann ei nema smuga ein lítil. Ekki varð mein að Skeljungi það sumar.

Nú líður veturinn hinn næsti fram að jólum og varð lítið eða ekkert mein að Skeljungi, en varir þóttust sauðamenn verða við hann og hugði bóndi að það væri hræðsla ein og hégómi. En jólaaftan kemur sauðamaður ekki heim; ferst það fyrir að leita hans um nóttina. Morguninn eftir var hans leitað og fannst hann þá í skriðu þeirri er Hellisskriða heitir og liggur niður frá Skeljungshelli. Lá hann þar dauður og var brotið hvert bein í honum. Bóndi lætur dysja hann og fær annan sauðamann. Nú líður það ár fram að næstu jólum og ber ekki á Skeljungi, en jólaaftan fer á sömu leið og fyr að sauðamaður kemur ekki heim og fannst hann dauður um morguninn nokkru heimar en hinn fyrri. Mikið mein þótti bónda að um sauðamannadráp sitt og fáir vildu nú verða til að gæta sauða hans, en þó fékk hann hinn þriðja og fór allt á sömu leið og fyr. Um vorið ræður hann sér hjú, en fær nú engan sem vill gæta sauða hans, og líður svo af sumarið.

Um haustið í réttum kemur til hans maður; sá kvaðst Grímur heita. Hann skorar á bónda til veturvistar. Bóndi gjörir honum kost á því ef hann vilji gjörast sauðamaður hans. Grímur spurði hvort þar væri nokkuð vandhæfi á er hann hefði enn eigi ráðið sér sauðamann. Bóndi kvað svo vera og sagði honum hvernig farið hefði um hina fyrri sauðamenn sína. Grímur kvaðst því fúsari að gjörast sauðamaður hans sem þar væri meiri þraut við. Tekur nú Grímur við fjárgeymslunni og líður svo fram að jólum að eigi verður vart við Skeljung. Jólaaftan skilur Grímur við sauðina löngu fyrir dagsetur og gengur heim; líður svo fram að háttatíma að ekki verður vart við Skeljung. Fólk allt svaf í skála einum miklum fram í bænum og voru útidyr á skálanum og þil ramgjört framan undir. Grímur leggst niður utarlega í skálanum þar sem hann var vanur að sofa, en fólkið allt innar frá. Grímur hafði öldungshúð mikla yfir sér. Þegar leið að miðri nóttu vöknuðu menn í skálanum við dunur miklar og dynki; verður þá fólkið hrætt mjög og grúfir sig niður. Færast nú dunurnar nær og er þetta Skeljungur. Hann kemur að skáladyrum, knýr fast hurðina og hrindir henni upp. Skyggnist hann þá inn um skálann og sér hvar Grímur er. Tekur hann þá til húðarinnar og kippir að sér, en Grímur hélt í á móti og spyrndi í þilið. Toguðust þeir nú um húðina unz undan gekk þilið allt. Grímur snaraði þá undir sig húðinni og lét Skeljung draga sig á henni frá bænum þar til er þeir eru komnir á hæð nokkra skammt þaðan; þar stóð steinn einstakur á hólnum er tók meðalmanni í öxl. Sleppir þá Grímur húðinni og ræðst að Skeljungi. Taka þeir fang saman og verða nú sviptingar miklar; finnur Grímur það skjótt að eigi hefir hann afl við Skeljung. Bregður hann honum þá til sniðglímu og kemur Skeljungur niður fall mikið á höfuðið. Tekur þá Grímur sverð sitt og ristir reip af húðinni, en borar þrjú göt á steininn. Þar dregur hann reipið í gegnum og bindur svo Skeljung þar við; fer hann síðan heim og ætlar að sækja eld til að brenna drauginn, en þegar hann kemur aftur er bæði steinninn og draugurinn horfinn. Þykist hann nú vita að draugurinn muni hafa haldið fram eftir dalnum. Gengur hann þá fram dalinn þar til hann kemur á hól annan sem nú heitir Skeljungshóll. Þar finnur hann drauginn og brennir hann til ösku, tekur síðan öskuna og kastar henni í Silungapoll sem var skammt burtu þaðan.

Steinninn er enn á Skeljungshóli og sjást tvö götin en hið þriðja segja menn að sé sokkið í jörðu niður. Steinninn er flatvaxinn nokkuð og aflangur; ávalur er hann til hliðanna. Það sem upp úr jörð stendur tekur svo sem í mjöðm á meðalmanni. Götin eru hvert niður undan öðru og langt bil á milli. Þau eru eins og þau væru boruð með nafri og svo víð að tveim fingrum má stinga í þau. Ei er hann meira en dönsk alin á þykkt, en töluvert er hann lengri á breiddina.

Það vita menn að Norðurá sem rennur eftir dalnum hefir áður runnið miklu vestar en nú rennur hún, en það var kvísl úr henni sem Grímur kastaði í öskunni. Þar er nú aðalfarvegur árinnar og er sagt að Silungapollur hafi þar verið hylur í kvíslinni fram undan Skeljungshóli sem nú er strengurinn í ánni. Sagan segir að allur silungur hafi þá drepizt í hylnum er askan kom í hann, en tveir silungar hafi orðið úr öskunni, báðir svartir að lit. Það er og sagt að annar þeirra hafi einhverju sinni verið veiddur. Var hann þá skorinn í sundur í marga hluti, en skreið jafnóðum saman aftur.


  1. Hér segir öðruvísi frá í sögu Bárðar.