Fara í innihald

Bárðar saga Snæfellsáss/9

Úr Wikiheimild

Óvættur ein er Torfár-Kolla hét en Skinnhúfa öðru nafni, hún átti heima að Hnausum. Hún gerði mart illt bæði í stuldum og manndrápum.

Þórir að Öxnakeldu fann hana á fé sínu um nátt. Þau réðust þegar á og glímdu. Fann Þórir brátt að hún var hið mesta tröll. Var þeirra atgangur bæði harður og langur en þó lauk með því að braut í henni hrygginn og gekk svo af henni dauðri. En er hann stóð upp þá kvað hann vísu:

Tröll er Torfár-Kolla,
trautt er hún laus, frá Hnausum.
Hún gekk leið sem eg ljóða
lotin um eystri Botna.
Hugði eg heimsku flagði
hryggspenning dag þenna.
Missti tröll hið trausta
tír en eg beygði svíra.

Töluðu það margir menn að Bárður mundi enn í þessu hafa hjálpað Þóri því að allir vinir hans kölluðu á hann ef í nokkurum nauðum voru staddir.

Oft sveimaði Bárður um landið og kom víða fram. Var hann svo oftast búinn að hann var í grám kufli og svarðreip um sig, klafakerlingu í hendi og í fjaðurbrodd langan og digran. Neytti hann og hans jafnan er hann gekk um jökla.

Þess er getið að þeir bræður hafi fundist og sæst heilum sáttum, Bárður og Þorkell. Áttu þeir síðan mörg skipti saman og höfðu löngum samvistir saman í Brynjudal í helli þeim er Bárðarhellir er kallaður síðan og haft hafa þeir leika hjá Eiríki í Skjaldbreið á Eiríksstöðum. Þangað sótti og norðan af Siglunesi Lágálfur Lítillardrósarson. Þeir höfðu glímur og voru þeir jafnir Lágálfur og Eiríkur en Eiríkur hafði áður borið af Þorkatli bundinfóta. En síðan glímdu þeir Bárður og Eiríkur og brotnaði hönd hans.

Lágálfur gekk heiman til leiks og heim að kveldi. Hann glímdi um leið við sauðamann Hallbjarnar af Silfrastöðum er Skeljungur hét. Hann var hamrammur. Skeljungur féll og brotnaði fótur hans. Bar Lágálfur hann til bæjar og fór síðan veg sinn og er hann gekk fram eftir Blönduhlíð kom hann á Frostustaði og sunnan undir húsin og að vindglugginum og sá inn í húsið. En bóndi talaði við húsfreyju að hún hefði tekið úr mjölbelg þeim er hékk yfir þeim og sló hana pústur en hún grét við. Lágálfur rétti inn öxina í glugginn og hjó ofan belginn. Kom hann í höfuð bónda og féll hann í óvit. Lágálfur snéri á leið og fer heim á Siglunes um kveldið og er úr þessari sögu. Bóndi raknar við og ætlar belginn sjálfan ofan hafa dottið.

Segja það og nokkurir menn að verið hafi að leikum í Skjaldbreið Ormur Stórólfsson og glímdi við Bergþór Bláfelling og hafi Ormur af borið. Þar var og Ormur skógarnefur ungur. Hann glímdi við Þóri úr Þórisdal. Sá dalur er í Geitlandsjökli. Var Þórir þeirra drjúgari. Þar var og Þórálfur Skólmsson er glímdi við Hallmund úr Balljökli. Var nær um með þeim en Bárður þótti þeim sem sterkastur mundi vera. Skildi svo þessa leika að ekki varð fleira til tíðinda.