Bárðar saga Snæfellsáss/8

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Hetta er nefnd tröllkona. Hún átti byggð í Ennisfjalli og var hin mesta hamhleypa og ill viðskiptis bæði við menn og fénað.

Það var einn tíma að hún drap mart fé fyrir Ingjaldi að Hvoli. En er hann varð þess vís fór hann til móts við hana. Leitaði hún þá undan en hann elti hana allt í fjall upp.

Miklir voru í þann tíma fiskiróðrar á Snjófellsnesi og lét þó engi betur sækja en Ingjaldur. Var hann og hinn mesti sægarpur sjálfur.

En er Hetta dró undan mælti hún: „Nú mun eg launa þér fjártjón það er eg veld og vísa þér á mið, það er aldrei mun fiskur bresta ef til er sótt. Þarftu og ekki að bregða vanda þínum að vera einn á skipi sem þú ert vanur að vera.“

Hún kvað þá vísu.

Róa skaltu fjall Firða
fram á lög stirðan,
þar mun gaur glitta,
ef þú vilt Grímsmið hitta.
Þar skaltu þá liggja.
Þór er vís til Friggjar.
Rói norpr hinn nefskammi
Nesið í Hrakhvammi.

Skildi þar með þeim. Þetta var um hausttíma.

Annan dag eftir reri Ingjaldur á sjó og var einn á skipi og rær allt þar til er frammi var fjallið og svo Nesið. Heldur þótti honum lengra en hann hugði. Veður var gott um morguninn. En er hann kom á miðið var undir fiskur nógur.

Litlu síðar dró upp flóka á Ennisfjalli og gekk skjótt yfir. Þar næst kom vindur og fjúk með frosti. Þá sá Ingjaldur mann á báti og dró fiska handstinnan. Hann var rauðskeggjaður. Ingjaldur spurði hann að nafni. Hann kveðst Grímur heita. Ingjaldur spurði hvort hann vildi ekki að landi halda.

Grímur kveðst eigi búinn „og máttu bíða þar til er eg hefi hlaðið bátinn.“

Veður gekk upp að eins og gerði svo sterkt og myrkt að eigi sá stafna í milli. Tapað hafði Ingjadur önglum sínum öllum og veiðarfærum. Voru og árar mjög lúnar. Þóttist hann þá vita að hann mundi ekki að landi ná sakir fjölkynngis Hettu og þetta mundu allt hennar ráð verið hafa. Kallaði hann þá til fulltings sér á Bárð Snæfellsás. Tók Ingjald þá fast að kala því að drjúgum fyllti skipið en frýs hvern ádrykk þann er kominn var. Ingjaldur var vanur að hafa yfir sér einn skinnfeld stóran og var hann þar í skipinu hjá honum. Tók hann þá feldinn og lét yfir sig til skjóls. Þótti honum sér þá vísari dauði en líf.

Það bar til um daginn heima að Ingjaldhvoli um miðdegi að komið var upp á skjá um máltíð í stofu og kveðið þetta með dimmri raust:

Út reri einn á báti
Ingjaldr í skinnfeldi.
Týndi átján önglum
Ingjaldr í skinnfeldi
og fertugu færi
Ingjaldr í skinnfeldi.


Aftr komi aldrei síðan
Ingjaldr í skinnfeldi.

Mönnum brá mjög við þetta en það hafa menn fyrir satt að Hetta tröllkona muni þetta kveðið hafa því að hún ætlaði, sem hún vildi að væri, að Ingjaldur skyldi aldrei aftur hafa komið sem hún hafði ráð til sett.

En er Ingjaldur var nálega að bana kominn sá hann hvar maður reri einn á báti. Hann var í grám kufli og hafði svarðreip um sig. Ingjaldur þóttist þar kenna Bárð vin sinn.

Hann reri snarlega að skipi Ingjads og mælti: „Lítt ertu staddur kumpán minn og voru það mikil undur að þú, jafnvitur maður, lést slíka óvætt ginna þig sem Hetta er og far nú á skip með mér ef þú vilt og prófa að þú fáir stýrt en eg mun róa.“

Ingjaldur gerði svo. Hvarf Grímur þá á bátinum er Bárður kom. Þykir mönnum sem það muni Þór verið hafa. Bárður tók þá að róa allsterklega og allt þar til er hann dró undir land. Flutti Bárður Ingjald heim og var hann mjög þjakaður og varð hann alheill en Bárður fór heim til síns heimilis.