Fara í innihald

Bárðar saga Snæfellsáss/10

Úr Wikiheimild

Önundur hét maður og kallaður breiðskeggur. Hann var Úlfarsson Úlfssonar af Fitjum Þórissonar hlammanda. Hann bjó í Reykjardal hinum efra á þeim bæ er á Breiðabólstað heitir. Hann átti Geirlaugu, dóttur Þormóðar af Akranesi, systur Bessa. Þórodda hét dóttir þeirra. Hennar fékk Torfi Valdbrandsson Valþjófssonar Örlygssonar frá Esjubergi. Henni fylgdi heiman hálfur Breiðabólstaður og voru gervir úr tveir bæir. Sjá Torfi drap Kroppsmenn tólf saman og hann réð mest fyrir drápi Hólmsmanna og var þar fyrirmaður Víga-Hörður systurson Torfa og Geir er hólmurinn er við kenndur, Geirshólmur. Torfi var og á Hellisfitjum og Illugi svarti, Sturla goði. Þá voru átján Hellismenn drepnir en Auðun Smiðkelsson brenndu þeir inni á Þorvarðsstöðum. Son Torfa var Þorkell á Skáney.

Oddur hét son Önundar, mikill maður og efnilegur. Eigi þótti annar maður efnilegri til höfðingja þar í sveitum en Oddur.

Þé er hann var tólf vetra gerði hann ferð sína út á Snjófellsnes til skreiðarkaupa og er hann fór heim reið hann um Drangahraun. Þá bar menn hans alla undan fram því Oddur gerði að hesti og varð honum ekki fljótt um. Þá gerði á þoku dimma.

Og er hann rak fyrir sér hestinn um göturnar sá hann hvar maður gekk úr hrauninu ofan að sér. Sá var í grám kufli og hafði klafastaf í hendi. Hann veik að Oddi og heilsaði honum með nafni. Oddur tók vel kveðju hans og spyr hann að nafni.

Hann segist Bárður heita og eiga heima þar á nesinu „á eg við þig erindi. Það fyrst að eg vil vingast við þig og bjóða þér til jólaveislu. Þykir mér og betur að þú játir ferðinni.“

Oddur svarar: „Það skal þá og vera síðan þú leggur það til.“

„Þá gerir þú vel,“ segir Bárður, „en þó vil eg þú segir öngum frá þessu.“

Oddur játar því „en vita vil eg hvert eg skal þessarar veislu vitja.“

„Þú skalt,“ segir Bárður, „fara til Dögurðarár og lát Þorkel skinnvefju vísa þér réttan veg til heimilis míns.“

Síðan skildu þeir og fer Oddur heim og gat ekki um þetta.

En um veturinn sjö náttum fyrir jól reið Oddur heiman einn samt og út á Nes og létti eigi fyrr en hann kom til Dögurðarár. Það var síð um kveld. Þá voru tvær nætur til jóla. Var lúinn hestur hans mjög því hann hafði átt færðir illar og veðrátti harða.

Oddur klappar á dyrum og var langt áður til hurðar var gengið. Þó var það um síðir og hurðu upp lokið á miðjan klofa. Þar kom út höfuð heldur ámátlegt þvi að sjá gægðist út hjá gáttinni. Hann belgdi augun og vildi sjá hvað komið væri úti. Mjög var sjá þunnleitur og ljótur ásýndar. En er hann sá manninn vildi hann aftur reka hurðina en Oddur setti á milli öxarskaftið svo að eigi gekk aftur hurðin. Því næst féll Oddur á hurðina sco fast að hú brotnaði í mola.

Gekk hann þá inní bæinn og þar eftir sem undan var gengið og allt þar til er hann kom í stofu. Þar var bjart og heitt. Þorkell sat á palli. Var hann þá allkátur og bauð Oddi gisting. Var hann þar um nóttina í góðum beina.

En um morguninn var Oddur snemma á fótum og bjuggust þeir til ferðar. Var þá veður kalt og frost mikið, kollheið upp í himininn og eskingur með fjöllum. Þorkell var á göngu en Oddur reið. Stefndu þeir til fjalls og gekk Þorkell fyrir. En er þeir komu í fjallið gerði á myrkur mikið með drífu og því næst tók að fjúka og gerði á hina sterkustu hríð. Fóru þeir svo lengi þar til Oddur tók að ganga en Þorkell leiddi hestinn.

En er minnst var von hvarf Þorkell frá honum í hríðinni svo að hann vissi aldrei hvað af honum varð. Bæði var þá hvasst og kalt, bratt og hált að ganga. Hvarflaði hann þá lengi svo hann vissi aldrei hvar hann fór.

Og nokkuru síðar verður Oddur var við að maður gengur í dimmunni í grám kufli við stóran klafastaf. Lætur hann gnauða broddinn í jöklinum. En er þeir finnast kennir Oddur þar Bárð Snæfellsás. Heilsar hvor öðrum og spyrjast almæltra tíðinda. Biður Bárður hann með sér fara. Ganga þér ekki lengi áður þeir koma í helli stóran og því næst í annan helli og var þar bjart í honum. Þar sátu konur heldur stórar og þó hreinlegar. Voru þá dregin af Oddi klæðin og veittur hinn besti beini. Var hann þar um jólin að öllu vel haldinn. Ekki var þar fleira en heimamenn Bárðar. Á Þórdísi leist Oddi best af dætrum Bárðar og við hana talaði hann flest. Skjótt fann Bárður það og gaf sér ekki að því.

Bárður bauð Oddi þar að vera um veturinn og það þá hann. Síðan lagði Bárður ástfóstur við Odd og kenndi honum lögspeki um veturinn. Var hann síðan kallaður lögvitrari maður en aðrir menn.

En Bárður fann að hugir þeirra Þórdísar og Odds fóru saman. Spurði hann Odd hvort hann vildi eiga Þórdísi.

Oddur segir: „Ekki er því að leyna að eg hefi meira hug lagt á hana en á nokkura konu aðra. Er það og mála sannast ef þú vilt mér hana gifta að eg skal ekki undan ganga.“

Var það og gert að Bárður gifti dóttur sína Oddi og gaf henni fáséna gripi heiman. Skyldi Bárður sækja brullaupið til Odds og færa þangað brúðina. Síðan skildu þeir með vináttu.

Fór Oddur heim og bjóst við boðinu og að nefndum tíma kom Bárður í Tungu með brúðina og þau tólf saman. Þar var Þorkell bundinfóti með bróður sínum og Ormur hinn sterki, mágur hans. Þorkell skinnvefja var og þar með Bárði og tók Oddur allvel við þeim. Þar var og Ingjaldur frá Hvoli og Þórir Knarrarson vinur Bárðar, Einar Sigmundarson frá Laugarbrekku og sjö menn aðrir og þekktu menn þá ekki. Þar voru margir boðsmenn fyrir: Torfi Valbrandsson mágur Odds, Illugi svarti og Geir hinn auðgi úr Geirshlíð, Arngrímur goði úr Norðtungu. Þar var og Galti Kjölvararson frændi Odds og mart annarra manna.

Ekki varð til tíðinda að boðinu. Síðan fór hver heim til sinna heimkynna. Góðar urðu ástir þeirra Odds og Þórdísar. Þrjá vetur voru þau ásamt. Þá andaðist Þórdís og áttu þau ekki barn. Það þótti Oddi mikill skaði.

Síðan fékk Oddur Jórunnar Helgadóttur. Þeirra son var Þorvaldur er réð fyrir brennu Blund-Ketils og Þóroddur er átti Jófríði Gunnarsdóttur. Dætur þeirra Tungu-Odds voru þær Þuríður, er Svarthöfði átti, og Húngerður, er Svertingur Hafur-Bjarnarson átti, og Hallgerður er Hallbjörn átti son Odds frá Kiðjabergi. Kjölvör var móðursystir Odds, móðir Þorleifar, móður Þuríðar, móður þeirra Gunnhildar, er Kolli átti, og Glúms, föður Þórarins, föður Glúms að Vatnsleysu.