Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Um útburði (inngangur)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, edited by Jón Árnason
Um útburði
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þeir eru á reiki án alls eigin verknaðar og eiga það eingöngu upp á mennina (móður, föður eða aðra sem að þeim standa) að þeir liggja ekki kyrrir. Útburðir voru í fyrri daga kölluð börn þau er dóu áður en þau fengu skírn er ekki var leyft að grafa nærri vígðum stöðum unz Árni Skálholtsbiskup Þorláksson (er dó 1298) skipaði að þau skyldi grafa utan við kirkjugarð, „ok kölluðu fáfróðir menn þau útburði; veitti þat ok mörgu sinni at í þeim stöðum sem þau váru grafin fengu menn fyrir sakir eiginnar ótrúar ok andskotans umsátra ýmisligar sóttir eðr undursamligar sýnir ok margs konar mein sinna fylgjara. En síðan virðuligr faðir Árni biskup eyddi þessi villu fengu menn í þeim stöðum er þau váru síðan jörðuð ekki mein af þessi fjandans umsát.” Nú á dögum heita ekki þau börn útburðir er deyja áður en þau hljóta skírn, heldur aðeins þau sem borin eru út þegar eftir fæðinguna hvort heldur dauð eða lifandi, og verða varla fyrir því önnur börn en óskilgetin, og liggur þá nærri að halda að ógift fólk og búlaust taki helzt til þessa óyndisúrræðis, annaðhvort til að losast við ómegð og þunga er af barninu kynni að rísa eða til að firra sig þeim vansa sem ávallt þykir við það loða að eiga barn í lausaleik.

Þar sem börn eru út borin er sagt að heyrist ýlfur og vein mikið fyrir illum veðrum[1] ýlfran útburða er svo leið og ámátleg að til hennar er jafnað og kallað ámátlegt hljóð „útburðarvæl“ og að „væla (hljóða) eins og útburður“ ef illilega er æpt. Menn hafa ekki aðeins heyrt til útburða, heldur séð þá alloft, og er sagt að þeir gangi á öðru knénu og öðrum olboganum, en hafi fætur og hendur krosslagðar. Útburðir hafa oft þótt villa um menn engu síður en draugar, einkum á náttarþeli eða í þoku, og kosta kapps um að komast þrisvar í kringum menn, en ef þeim tekst það verður hver sá vitstola er fyrir því verður; fleira gjöra þeir illt af sér sem þegar mun sýnt í sögunum sjálfum. Ekki eru útburðir klæðgöfugir og oftast eiga þeir að sjást með mórauðan lepp utan um sig; er það dula sú sem móðirin vafði barnið í er hún bar það út.


  1. Það er sagt að útburðir haldi sig helzt á þeim stað sem barninu var fyrst snarað út, og er það kallað bæli þeirra. Þegar vindur stendur upp á útburðarbæli bera þeir sig mjög aumlega, væla þá og skrækja, og er það kallað að „illa standi í bælið þeirra“ og haft að orðtaki um þann sem er venju fremur úfinn og önugur.