Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bræðurnir

Úr Wikiheimild

Einu sinni kom bóndi nokkur, mesti vinur séra Eiríks á Vogsósum, Gunnbjörn að nafni Gunnarsson úr Kjósarsýslu, með tvo syni sína til séra Eiríks er hétu Sigurður og Jón og biður hann prest að kenna sonum sínum allt sem hann kunni í ýmsum vísindum. Síra Eiríkur virðir drengina fyrir sér nokkra stund og segir síðan að hann skuli kenna Sigurði syni hans, en Jóni vilji hann ekki kenna, því hann hafi engan veginn við það að gjöra. Gunnbjörn faðir þeirra vill að hann kenni það Jóni líka. Síra Eiríkur segir þá drengjunum að koma út með sér, og ganga þeir nokkuð frá bænum þangað til þeir koma að húsi einu og ganga þeir inn í það, og sitja þar tólf menn og sezt síra Eiríkur hjá þeim og skipar drengjunum að standa á gólfinu. Eftir lítinn tíma kemur stór og ógurlegur maður inn með sverð í hendi og höggur hann hvern af öðrum af þessum tólf og er kominn að síra Eiríki. Þá verður Jón hræddur og stekkur út, en Sigurður stendur í sömu sporum. Jón hleypur eins og fætur toguðu heim inn í herbergið hvar faðir hans og síra Eiríkur höfðu talazt við og þegar hann kemur þá sér hann hvar síra Eiríkur situr við borð sitt og er að skrifa. Jón kemur inn mjög óttasleginn. Síra Eiríkur spyr hann: „Barnið mitt, hvað gengur að þér?“ Drengur segir hvernig standi á því að prestur sé hér, hann hafi þó verið í húsinu hvar ljóti maðurinn hafi komið inn í sem hafi drepið alla mennina og hafi ætlað að fara að drepa prestinn; þá sagðist hann hafa orðið hræddur og stokkið út. Síra Eiríkur segir við Gunnbjörn að nú komi að því sem hann hafi sagt honum um Jón að hann sé of huglítill til að læra galdur því meira verði hann að sjá en þetta, og fer Gunnbjörn með Jón aftur heim, en Sigurð son hans tekur síra Eiríkur til kennslu.