Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sástu nokkra nýlundu?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Sástu nokkra nýlundu?“

Einu sinni sem oftar kom yngismaður nokkur til Eiríks prests og bað hann að kenna sér galdur. Eiríkur mælti: „Ekki ertu hæfilegur til að læra hann því mér lízt svo á þig að þú munt ekki hafa hug til að mæta öllu því er honum fylgir.“ Sveinninn svarar: „Því skal ég ekki trúa fyrr en ég reyni það að mér verði hugfátt hvað sem fyrir kemur.“ Eiríkur mælti: „Ef þú vilt máttu vera hér nokkra daga þó það sé ekki til neins.“ Hann kvaðst það gjarnan vilja. Var hann þar svo nokkra daga.

Einn morgun þá hann kom á fætur þykir honum sem hann sjái Eirík ganga út og fer hann þegar eftir honum. Eiríkur gengur nú norður fyrir tún á Vogsósum og sveinninn eftir. Þar verður fyrir þeim hús ógnar stórt; þar ganga þeir inn. Bekkur var allt um kring í húsinu og sezt Eiríkur yzt á bekkinn öðrumegin, en sveinninn tróð sér niður fyrir utan hann. Nú kemur maður og sezt á aðra hönd presti, þá annar og hinn þriðji og svo hvur að öðrum, þar til alsettur var bekkurinn mönnum allt um kring. Þá kemur inn jötunn ógurlega mikill og hafði í hendi skálm brugðna ekki litla. Hann tekur þann er yztur sat öðrumegin og sníður höfuð af honum; svo tekur hann hinn næsta og skar á háls og svo hvurn að öðrum, en þegar á leið seinni bekkinn hugsar sveinninn með sér: „Skal hann ætla að drepa okkur alla? Sitja skal ég meðan prestur situr; hann hefir einhvur ráð fyrir okkur ef þetta eru þá ekki grillur hans.“ Jötunninn heldur áfram verki sínu þar til hann kemur að Eiríki og sker höfuð af honum sem hinum. Við það brá sveininum svo að hann svo að segja sleppti sér af ótta og hljóp öskrandi út og heim til bæjar, gengur inn og veit ekki fyrr en Eiríkur verður fyrir honum í baðstofunni og er að ganga um gólf og spyr: „Fórstu nokkuð eða sástu nokkra nýlundu?“ En sveinninn kom engu orði upp. Eiríkur mælti: „Kom að því sem ég sagði að þú mundir ekki fær til að mæta slíku og far nú heim aftur, heillin góð,“ og svo gjörði sveinninn, og varð ekki af kennslunni.