Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur og töðuþjófarnir
Útlit
Einhvern tíma komu vermenn að Vogsósum, stálu þeir töðu frá presti og höfðu sig svo burt hið bráðasta. Þegar þeir komu fyrst að vatni tóku hestarnir að drekka og voru að því lengi dags. Varð þeim ekki komið lengra. Urðu vermenn að hverfa aftur og segja presti til vandræða sinna. Hann brosti við og mælti: „Hún er megn, Vogsósataðan; farið ferða yðar óhindraðir og skal það vera ykkar víti sem þið missið í Grindavík.“ Þangað komu þeir degi seinna en lagsmenn þeirra og höfðu setið af sér hundrað. Ekki vildu vermenn oftar bekkjast til við séra Eirík.