Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Heystuldur kerlingar

Úr Wikiheimild

Kona nokkur fullorðin sem bjó á næsta bæ við Eirík prest lagði það í vanda sinn að taka hey úr garði frá presti á nóttinni. Prestur talaði ekkert um það og lét sem hann vissi það ekki. En er þetta hafði lengi gengið var það eitt sinn að hríð var mikil og svalt frost sem stóð alla nóttina. Kerling fór í þetta sinn sem oftar að ná sér heyi frá presti; tók hún fulla kjöltu sína, en þegar hún var að renna sér niður af garðinum flettust fötin upp eftir lærum því heyið sem hún bar togaði í þau að framanverðu, og í þessu ásigkomulagi varð hún í sama bili föst utan á garðinum áveðurs. Um morguninn var prestur snemma á fótum; gengur hann að garðinum og hittir kerlingu og spyr hana hvað hún sé að sýsla þar í jafnillu veðri. Hún svarar engu enda var hún orðin vanmegna af kulda. Prestur segist muni reyna að losa hana ef hún heiti sér því að gjöra þetta aldrei oftar, enda sé það ekki leggjandi upp í frosti og kulda. Konan heitir því; var hún þá laus. Bauð prestur henni inn og veitti henni góðgjörðir og var hún hjá presti meðan hríðin stóð. Ekki er þess getið að hún hafi gletzt við hann síðan.