Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fúsi fer að finna kölska

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fúsi fer að finna kölska

Fúsi hafði mök mikil við hulda vætti, álfa og púka og kölska sjálfan. Einu sinni sem oftar vildi hann finna hann og leggur því af stað einn morgun árla heiman að frá Leirulæk og gengur út í flóa þangað til hann kemur að runna einum. Í miðjum runnanum var djúpur og dimmur pyttur; við hann settist Fúsi og sat þar allan daginn. En er kvölda tók sér hann hvar hausinn á kölska gægðist upp úr miðjum pyttinum. Þá segir Fúsi: „Þar kemur hann, glókollurinn.“ Kvaðst Fúsi hafa mikið fyrir því haft að ná honum upp, en þó engu ómaki betur varið, því margt hafi hann sagt sér og mikið lið sér léð og mörg þægileg og holl ráð sér gefið.