Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kæfubelgurinn

Úr Wikiheimild

Eitthvört haust fór Fúsi með fleirum Mýramönnum suður í kaupstað; var þá kaupstaður í Hólminum og ekki í Reykjavík fyrri en löngu þar eftir. Hafði Fúsi ýmislega sveitavöru fyrir kaupeyrir; þar á meðal var kæfubelgur stór. Vildi nú svo til að Fúsa var vant kæfubelgsins og finnst hann ekki. Komust menn þá að því að austanmaður einn hafði stolið belgnum og vissi Fúsi hvör stolið hafði, en gaf sig ekki að og fór heim við svo búið.

En er leið að jólum um veturinn fréttist til manns með kæfubelg á baki og spurði sá einatt að Leirulæk. Eitt kvöld kom hann loks þangað, ber að dyrum og gjörir boð fyrir Fúsa. Fer Fúsi til dyra og spyr komumann tíðinda og hvörnig á hönum standi. Maðurinn kvaðst vera að austan, en koma nú að sunnan og ekki geta annað en dregizt sífellt með kæfubelg þann er hann hafi á baki og hafi hann borið belginn dag eftir dag og bæ frá bæ og vilji enginn kaupa af sér kæfuna og sjálfur geti hann ekkert úr belgnum etið. Ætlar nú maðurinn að leysa ofan af sér belginn, en getur með engu móti náð hönum af sér því hann er fastur orðinn við hann. Fúsi glottir að og spyr hví hann taki ekki af sér belginn. Komumaður kveðst ekki ná af sér belgnum því hann sé fastur orðinn við hörund sitt. Ætlar hann nú inn um bæjardyrnar, en kemst ekki. Fúsi spyr hvörju það gegni. Maðurinn kvaðst það ekki vita því aldrei hafi fyrri svo við borið þó hann hafi mikið fyrir belgnum haft. Fúsi segir hönum þá að hönum muni hollast að segja sér satt frá hvörnig á belg þessum standi. Neyddist þá austanmaður til að segja satt frá og kveðst hafa stolið belgnum um haustið frá Mýramönnum suður á Hólminum og sagðist hvergi hafa getað eirð haft fyrri en hann kæmist með belginn að Leirulæk. Fúsi tók nú af hönum belginn og réði hönum að stela ekki aftur frá ókunnu fólki, og er sagt að maðurinn hafi gætt þess heilræðis þaðan í frá.