Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Grímseyjarförin

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Það var á einum vetri ofanverðum að Hálfdán prest skorti skreið til bús síns; var þá og ekki skreið að fá í nálægum sveitum, en heldur hart manna á milli. Prestur hafði haft útgjörð mikla í Grímsey eins og þá var títt því miklu var þá fiskisælla við Grímsey en annarstaðar og átti prestur þar skreið allmikla; en um þann tíma var ófært til Grímseyjar sökum brims og stórsjóa. Prestur heitir nú á kölska að hann skuli fá sálu sína ef hann sæki fyrir sig skreiðina til Grímseyjar og láti ekki vökna; ella sé hann af kaupinu. Kölska þykir gott í boði og gengur að kaupinu, en áskilur að prestur leggi til farið. Prestur fær þá kölska öskutrogsræfil og segir hann fái ekki annað far; heldur kölski af stað þó hann væri ekki ríflega heiman búinn. Þetta var að áliðnum degi. En morguninn eftir er kona Hálfdáns prests snemma á fótum og hyggur til veðurs; kemur hún inn aftur og spyr prestur hvernig veðri sé farið, en hún segir bjart sé veður og loft heiðríkt nema dökkur þokuhnoðri sé í landnorðri og fari fljótt yfir. Prestur segir: „Þá mun mál að klæða sig og hefur karl verið fljótur í förum.“ Klæðir prestur sig sem skjótast, og er hann kemur út er kölski kominn í lendingu. Verður honum svo bilt við er hann sér Hálfdán prest að hann gáir sín ekki og gengur brimið yfir farið svo öll skreiðin vöknar og þó ekki meir en svo að aðeins sá vætu á sporðunum. En er kölski skilar skreiðinni sýnir prestur honum sporðana og segir hann sé af kaupinu eftir samningi þeirra. Fékk kölski þessu ekki mótmælt. Er svo sagt að Hálfdán prestur skæri hið þynnsta af blöðkunni á hverjum þorski er í var skreiðinni og fleygði í kölska og segði hann skyldi hafa það fyrir flutningskaup. Er þynnsta blaðkan á sporði þorsksins jafnan kölluð skollablaðka síðan.[1]


  1. Hér af kemur það – segir séra Jón Norðmann – að menn sumstaðar á landi vilja ekki éta aftasta roðið af sporðblökunni. Í Grímsey heitir þetta veiði og vilja menn þar ei heldur borða það, „til að borða ekki af sér veiðina“.