Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jóhannes læknar stúlku

Úr Wikiheimild

Maður hét Jóhannes; átti hann bú við Dýrafjörð á bæ þeim er að Mosdal heitir.[1] Hann var kallaður margvís. Þá bjó bóndi sá að Rauðsstöðum við Arnarfjörð er Jón hét, bjargálnamaður, en þó barnmargur. Dóttir átti hann elzta og var hún átján vetra þegar hér er komið sögunni. Vinnumaður sá var þar á Rauðsstöðum er hug lagði á dóttir Jóns. Ekki er getið um nafn hans. Lagði hann allt fram er föng á hafði til að geta fengið stúlkuna, en fékk hennar ei að heldur því hvurki vildi hún eða foreldrarnir. Fer hann þá vistferlum þaðan og til Hringsdals. Þar bjó bóndi einn gamall og kallaður forn í skapi. Ekki er hann nefndur.

Haust það sem vinnumaðurinn var fyrst í Hringsdal veiktist stúlkan undarlega. Var henni leitað lækninga og versnaði við allt sem reynt var. Þóttist fólk líka sjá ýmsar undarlegar myndir kringum hana. Verður nú bóndi mjög áhyggjufullur. Tekur hann það ráð að skrifa Jóhannesi og sendir mann með til Dýrafjarðar. Kemur hann síð dags til Kirkjubóls og afhendir bréfið. Er bóndi fár við hann og kveðst ekki gegna bréfinu, Arnfirðingar þykist fremri sér að öllu. Fer bóndi til rúms og sefur alla kvöldvöku; situr kona hans á stokk og prjónar. Ekki gegnir hún störfum og lætur færa til sín það sem hún þarf á að halda. Sefur sendimaður lítið um nóttina af áhyggju. Um morguninn er bóndi árla á fótum og biður þá maðurinn hann farar, en það er ófáanlegt. Fer hann af stað og segir ekki af honum fyrr en kemur til Rauðsstaða og hittir húsbónda sinn. Spyr bóndi frétta og er allkátur, en sendimaður lofar lítt Jóhannes, segir erindislok og kvað fáa gott mundu hljóta af mannfýlunni. Jón bóndi svarar: „Kynlegt er þetta, því í gærkvöld var Jóhannes hér og læknaði dóttir mína. Er henni nú fullbatnað, en þökk hafir þú fyrir ómakið.“ Þóttist nú maðurinn vita að Jóhannes hefði leikið sig töfrum og missýningu. Varð síðan stúlkan heilsugóð og giftist þessum sama manni, og lýkur þessari sögu.

  1. Svo hdr. Hér mun þó vafalaust átt við Jóhannes Ólafsson á Kirkjubóli í Mosdal í Arnarfirði.