Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Steinninn á hlaðinu í Selárdal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Steinninn á hlaðinu í Selárdal

Miklar eru sögur af afreksverkum Kára; sú er ein er segir frá um kvernstein þann er enn nú stendur á bæjarhlaði í Selárdal. Segja sumir að hann hafi sótt stein þann yfir í Bogahlíð sem liggur sunnan fram í Selárdalnum og borið hann heim í hempuvasa sínum. Aðrir segja svo að hann hafi alskrýddur verið þá hann lét taka [steininn] í Bogahlíð og koma honum heim á staðinn og sett hann niður á bæjarhlaði mitt á milli karldyra og kirkjugarðs, og er nú að segja frá stærð hans og lögun: Hann er hálfur í jörðu niðri, lagaður sem aðrir stórgrýtis kvernsteinar, en það er upp úr stendur er allt höggvið slétt á fjóra vegu, og eins hefur steinninn verið höggvinn sléttur ofan þótt nú sé orðið nokkuð óslétt og holótt af því sem barið hefur verið og klappað ofan í hann; þrjár skálar eður bollar eru klappaðir ofan í steininn; tekur hver þeirra tvær merkur mældar og var títt að hella í þær vatni á hverjum degi. Er svo sagt að Kári hafi mælt svo fyrir að eigi mundu fleiri mjaltakonur verða í Selárdal en svo, að skálar þessar nægðu þeim til að þvo mjölt af höndum sér í þeim. Stærð ens hálfa af steininum eður þess sem nú er fyrir ofan jörð, er: hæðin 18 þumlungar, breiddin 12 þumlungar og lengdin 42 þumlungar.