Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Upp og heim

Úr Wikiheimild

Á einu sumri var það að óþerrisamt var mjög öndverðan sláttinn; voru tún víðast um sveit öll þegar slegin og rökuð, en ekki fang inn hirt, og svo var á Þönglabakka. Kom þá upp á þerrir góður og var öll taða breidd til þurrks á Þönglabakka. Var henni haldið til þurrks dag allan og nóttina á eftir og var þá þur. Tóku menn þá til að sæta upp töðuna og var því verki lokið er áliðið var dags, enda var þá fólk allt þreytt mjög af verkinu og þurfti við bæði hvíld og svefn. Á Tindum eða Tindrastöðum bjó kona gömul; hún var sögð margkunnandi. Hún kom að Þönglabakka þennan dag; og er verkmenn prests gengu til hvíldar kom hún að máli við prest og bauðst til að hjálpa honum til að hirða töðuna er veður var áskyggilegt; mundi hann aftur vinna sér verk fyrir þegar sér lægi á, og kvaðst prestur það þiggja mundu. Gekk þá prestur séra Hálfdan til heygarðs síns, en kerling gekk út í tún og að sátu einni og er hún kom að sátunni sló hún við henni svuntu sinni og mælti: „Upp og heim,“ – síðan að annari, sló við henni svuntu sinni og mælti sömu orðum: „Upp og heim.“ Svo gekk hún sð hinni þriðju og svo að hverri eftir aðra og skoppaði léttfætt á milli þeirra unz hún hafði komið að þeim öllum, slegið við þeim svuntu sinni og mælt: „Upp og heim ,“ – en hver sáta hvarf heim í garð um leið og kerling mælti þetta, en prestur hlóð jafnótt heyinu og gat valla haft undan kerlingu. Var og öll taða komin í garð að Þönglabakka það kveld að náttmálum og hirt túnið.