Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Jarðarför föður þeirra

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Nú kemur til að jarða karlinn. Ekki eru nú vandræðin á að bera hann til grafar. Þeir taka brúna meri sem búið átti, leggja á hana reiðing, binda líkið upp á og ætla nú að fara með hann og jarða hann á Barði. En með því þeir höfðu enga grafarmenn að fengið urðu þeir sjálfir að taka gröfina. Þó þykir þeim það ólaglegt að láta ekki gröfina vera tilbúna handa karlinum þegar hann komi að. Endalok ráðagjörðarinnar verða þau að þeir skilja Brúnku eftir á Bakkahlaði með líkið á bakinu um morguninn, „því Brúnka ratar í Barðsgarð,“ sögðu þeir, en fara sjálfir að Barði að taka gröfina og keppast við að verða búnir með hana þegar Brúnka kemur með líkið; bíða þeir hennar á Barði til kvölds. Halda þeir þá loksins heim að Bakka; er þá Brúnka þaðan horfin. Daginn eftir er farið að leita að Brúnku. Finnst hún þá inn á Stafárdal[1] hjá öðrum hrossum með líkið á bakinu. Ekki er getið um hvernig svo gekk um greftran karlsins.


  1. Stafárdalur er búfjárhagi frá Heiði í Sléttuhlíð og Reykjarhóli í Barðssókn; hross frá Bakka fara oft þangað. [Hdr.]