Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Gálgagil
Gálgagil
Upp frá bænum Melrakkadal, sem áður er getið, liggur dalur upp í Víðidalsfjall, en fyrir norðan dalinn á norðurenda fjallsins eru núpar tveir, annar sunnar og annar norðar; er syðri núpurinn kallaður Rauðinúpur, en hinn nyrðri Ásmundarnúpur. Sunnan til við núpana að vestan er gil eitt djúpt sem kallað er Gálgagil. Það er sagt að í fyrndinni hafi tólf, aðrir segja átján, sakamenn verið hengdir í gili þessu í einu á tré sem lagt hafi verið yfir gilið og dragi það síðan nafn af því. Seinna hafi tréð verið flutt heim að Melrakkadal og brúkað þar í hesthús; hafi eftir það verið mjög reimt á bænum meðan tréð var við líði. Oft þóktust menn á bæjunum vestur undan Melrakkadal sjá sakamennina koma ofan frá fjallinu, þegar vissi á austanveður; komu þeir þá ríðandi á trénu og börðu fótunum hver í annan. Nú hefir þetta lengi ekki sézt og ekki ber á reimleika í Melrakkadal, en allajafna þykir óhreint í kringum Gálgagil.