Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hrafnamál og forspár

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hrafnamál og forspár

Með því að það hefur bæði þótt örðugt og þó æskilegt að skilja hrafnamál hafa fróðir menn fundið ráð til þess, auk þess sem áður er greint, til að skilja fuglamál, en það er þetta: Maður skal kryfja lifandi hrafn og taka úr honum hjartað og geti hann flogið eða færzt þar á eftir um tvö spor er þeim gefið að skilja hrafnamál eftir það, sem hjartað hefur, en annars ekki. Hrafnshjartað skal maður hafa undir tungurótum sér á meðan maður vill fræðast af hröfnum, en geyma það þess á milli í keri því sem ekkert hefur í komið. Af því þessi aðferð, að fræðast af hröfnum um ýmsa hluti, hefur ekki verið öllum kunnug hafa menn tekið mark á ýmsu öðru, t. d. á flugi hrafnanna og athæfi, og á því hvernig þeir krunka þó þeir ekki hafi skilið hrafnamálið sjálft, og skal hér telja til þess nokkur dæmi:

Ef hrafn flýgur með þér á veg og fljúgi hann fram undan til hægri hliðar á veginn þegar þú ert nýfarinn að heiman merkir það heill og hamingju á þeim degi. En fljúgi hann í móti manni þegar maður fer að heiman eða hátt í loft upp yfir manni merkir það að þeim muni illa ganga og því er bezt að snúa heim aftur og lesa góðar bænir og fara svo sinn veg fram í nafni drottins. – Ef hrafn sezt á kirkjuburstina eða dyrabrandana og snýr vélinu að manni og ypptir fjöðrunum og vængjunum öfuglega, krunkar og teygir sig hræðilega og teygir út vængina og brettir nefið við, sá hrafn segir fyrir dauða nafnkenndra manna í þeirri átt sem hann snýr að nefinu. – Ef einn hrafn eða fleiri flýgur ofan yfir bæjarstétt og sezt á bæjarhauginn og ýmist á dyrabranda og krunkar mjög langt, hann boðar þeim sem á hann horfir dauða almúgamanna eða kunnugra, en ef hann krunkar að glugganum segir hann fyrir skyldmenna dauða þeirra sem í húsinu sitja eða nágranna þeirra. – Ef hrafn valhoppar hingað og þangað uppi á húsunum, haltrar við á fótinn, skiptir um í sér hljóðunum og krunkar upp í loftið, beygir hálsinn og höfuðið, hristir vængina og ypptir fiðrinu, hann boðar að menn séu staddir í sjávarháska eða vatnsháska. – Ef margir hrafnar fljúga saman hvor að öðrum með ýmislegum látum þá eru þeir að tala um mannadauða sín á milli í þeirri átt sem þeir snúa sér þegar þeir setjast. – Ef hrafninn flýgur hátt í loftinu yfir húsin eða á veginn upp yfir manni, krunkar hátt og blaktir vængjunum boðar hann mannadauða í þeirri átt sem hann krunkar. – Ef hrafnarnir þyrpast saman með miklum köllum merkir það rekald við sjó, komið eða ókomið, af fiski eða öðru æti sem sá á hlut í sem þeir krunka framan í. – Stundum öfunda þeir þann sem með mat fer og biðja hann að gefa sér þegar þeir setjast á dyrabranda, og þykir það jafnan rætast sem mælt er „að guð borgar fyrir hrafninn“ ef honum er gefið. En stundum vilja þeir halda hrafnaþing sem áður er sagt. – Það er ekki ný bóla þó menn ætli að hrafnar segi tíðindi og viti marga hluti sem menn vita ekki og má bæði sjá þess víða vott í Fornmannasögum og seinna í munnmælum, og skal hér enn sýna nokkur dæmi í sögum auk enna fyrrtöldu.[1]

  1. Sjá Feigðaraðkall, og Hrafnamál.