Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Krummasaga

Úr Wikiheimild

Í Vatnsdal fyrir norðan er mælt að nokkrir bæir hafi farizt af skriðum sem fallið hafa úr svokölluðu Vatnsdalsfjalli. Meðal þessara bæja er einn nefndur sem hét Gullberastaðir. Bóndadóttirin hafði haft þá venju að gefa bæjarhrafninum ætíð þegar hún borðaði. Einu sinni þegar hún eftir venju sinni rétti honum út um gluggann það er hún ætlaði að gefa honum þá vildi krummi ekki taka við. Stúlkuna furðaði á þessu og fór út með það. Krummi kom mikið nálægt henni, en vildi þó ekki þiggja snæðinginn, lét samt einlægt líklega svo hún elti hann út í túnið nokkuð frá bænum. En þegar þau voru komin þangað þá heyrði hún miklar dunur uppi í fjallinu og allt í einu féll skriðan báðumegin við þau, en við þann blett er þau stóðu á kom hún ekki. Bærinn fór af, svo krummi launaði henni þannig matinn. En orsökin hvers vegna skriðan féll ekki yfir blettinn sem þau voru á er sagt að hafi verið sú að þegar Guðmundur biskup einhverju sinni hefði verið á ferð þá hefði hann tjaldað á þessum blett og áður hann færi burt hefði hann vígt tjaldstaðinn eins og hann víðar hefði verið vanur að gjöra.[1]

Þess er ennfremur getið að svo sem eftir þrjú ár þá var smali á ferð og reið yfir skriðuna þar sem bærinn hafði staðið og skrapp hestur hans í. Smalinn fer að hugsa um þetta og ímyndar sér það geti verið að hann hafi riðið yfir bæinn og hafi hús brotnað inn. Hann gengur því að holunni og finnur æði mikla ólykt koma upp úr henni. Hyggur hann þá hvers kyns vera muni og hleður þar hjá vörðubrot dálítið. Þegar hann kom heim til sín sagði hann frá þessu. Var þá farið og stækkuð holan svo inn varð komizt. Var þetta búrið og konan í því tórandi. Átti hún að hafa verið þar þegar skriðan féll, en það brotnaði ekki því það var nýbyggt, en hún gat lifað, því þetta var um haust þegar búið var að draga að allar vistir.

  1. Eftir þessu atriði um Guðmund biskup ætti sagan réttast heima í Helgisögum; en ég set hana hér sem dæmi upp á þakklátssemi krumma þó að einnig mætti eftir því heimfæra hingað Skíðastaði eða söguna um þá úr sama flokki og Herjólf og Vilborgu.