Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skráargras

Úr Wikiheimild

Á yngri árum sínum (c. 1750) var Gísli í Hvammi í Fljótum eina nótt um vorið á ferð yfir Lágheiði milli Fljóta og Ólafsfjarðar. Með honum var maður sem Guðmundur hét og átti heima á Gili. Stöldruðu þeir eitthvað lítið við innan til í Heiðarhöllunum; lítur Guðmundur þar niður, bendir á gras eitt og segir: „Hvaða fjandi er það líkt skráargrasi að tarna.“ Gísli fór að inna um til hvers skráargras væri og sagði Guðmundur honum að hver læsing opnaðist þegar það væri borið að skráargatinu. „Það er gaman að reyna það,“ segir Gísli fremur vantrúaður, tekur grasið og ber heim að Þrasastöðum, sem er næsti bær við heiðina. Fara þeir þar að skemmudyrum. Hún er læst og ber Gísli grasið að skráargatinu; hrökk þá skemman strax opin. Gísli varð hálfskelkaður, fleygði grasinu og sagði það skyldi fara bölvað, gerði síðan vart við sig á Þrasastöðum og sagði til að skemman væri opin.