dyratjald eitt milli hans og þeirrar, sem honum var hugur á; ætlaði hann
því að ganga inn, en ambáttirnar vörðu honum dyrnar. Tók hann þær
þá báðar og fór með þær út úr fremra herberginu og skellti dyrunum að
innanverðu í lás á eftir þeim. Hlupu þær æpandi til húsfreyjunnar í baðherberginu og báru sig grátandi upp undan Núreddín. Sögðu þær, að
hann hefði ruðzt með ofríki inn til Persameyjarinnar fögru. Þótti henni
sonur sinn hafa gert sér mikla skapraun með þessari ofdirfsku sinni, hætti
við baðið og klæddist í snatri. En áður en hún væri alklædd og komin í
herbergi meyjarinnar, var Núreddín farinn frá henni og flúinn á burt.
Persamærin fagra undraðist mjög, er hún sá konu vezírsins koma inn
grátandi og utan við sig; segir hún þá við hana: „Lafði mín, má ég spyrja,
því eruð þér svo hryggar? Hvaða óhapp vildi yður til í baðinu, að þér
skylduð koma svo fljótt aftur?“ „Hverju sætir það,“ mælti kona vezírsins, „að þú spyr sneypulaust að þessu, eftir að Núreddín sonur minn hefur
brotizt inn í herbergi þitt og verið hjá þér einni? Gat meiri ógæfa hent
okkur, hann og mig?“ „Fyrirgefið, lafði!“ mælti Persamærin fagra, „hvernig getur það, sem Núreddín aðhafðist, verið yður eða honum til ógæfu?“
„Hefur maðurinn minn ekki sagt þér," mælti kona Kakans, „að hann
keypti þig handa konunginum? Sagði hann þér ekki, að þú skyldir varast
að láta Núreddín koma of nærri þér?“ „Það er mér ekki úr minni liðið,“
anzaði Persamærin fagra, „en Núreddín hefur sagt mér, að vezírinn, faðir
sinn hafi brugðið á aðra ætlun, og ætli ekki að gefa mig konunginum,
heldur honum. Ég trúði því, og með því ég eins og önnur ambátt hef
verið vanin á auðsveipni frá barnsaldri, þá mun yður skiljast, að ég
gat né vildi varna honum þess, er hann vildi. Já, ég kannast við, að mér
var því ónauðugra að láta eftir honum, sem ég hafði fengið mikla ást á
honum; hlauzt það af því, að við höfum dags daglega verið saman án þess að
nokkur bannaði. Mér sárnar alls ekki, að verða afhuga konunginum, ef ég
má búa saman við Núreddín alla ævi.“ „Guð gæfi þú segðir satt," mælti
kona vezírsins, „og skyldi það vera mér mikil gleði, en vertu viss um það,
að Núreddín hefur dregið þig á tálar, og það tekur engu tali, að faðir
hans hafi gefið honum slíka gjöf. Ó, hversu ófarsæll er hann, hversu ófarsæl er ég, og þó er faðir hans verst farinn vegna hinna þungu eftirkasta,
sem af þessu geta hlotizt. Hann mun ekki vikna svo við tár mín og bænir,
að hann fyrirgefi honum. Hann mun láta reiði sína bitna á honum sem
maklegt er, undir eins og hann kemst að því, hvert ofríki hann hefur sýnt
þér.“ Að svo mæltu tók hún að gráta beisklega, og grétu ambátttirnar með
Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/16
Jump to navigation
Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin
8
