Blaðsíða:Þúsund og ein nótt (bindi 2).pdf/18

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið villulesin


hann svo fagra ambátt, að enginn hefur fegri séð. En í stað þess að færa yðar hátign hana, hefur honum þóknazt að gefa syni sínum hana að gjöf. „Þú ert maklegri að eiga ambátt þessa en konungurinn," sagði hann“ -- því svona mun hann ljúga af illmennsku sinni -— „og tók sonur hans við henni og skemmtir sér nú með henni alla daga. Svona er nú mál með vexti, sem ég hef sagt yðar hátign, og getið þér sjálfur gengið úr skugga um það.“ „Heldur þú ekki,“ mælti vezírinn enn fremur, „að þegar svona er borin sagan, muni konungsmanna vera von á hverri stundinni, og kunna þeir að mölva upp hús mitt og hafa ambáttina á burt með sér? Og þar á ofan bætist allt hitt ólánið, sem óumflýjanlegt er.“ Svaraði þá kona hans: „Við slíku mætti að vísu búast af hinni hræðilegu mannvonzku Sawys, ef hann fengi minnstu vitneskju um þetta. En hvernig getur hann eða aðrir komizt að því, sem gerist hér í húsi? Og ef nú grunsemd skyldi á leggjast, og konungur skyldi vekja máls á því við þig, þá getur þú borið það fyrir, að þér hafi ekki þótt ambáttin samboðin hans hátign, þá er þú hafðir reynt hana, sem þér leizt í fyrstunni, og hafi kaupmaður vélað þig í kaupum. Skaltu segja, að hún sé óviðjafnanlega fögur, en mikið vanti á, að hún sé svo gáfuð, andrík og vel að sér, sem af henni var látið. Mun konungur þá trúa orðum þínum, og hefur Sawy þá skapraun af þessu, að illræði hans verður til ónýtis eins og oft hefur orðið fyrr, þegar hann hefur ætlað að steypa þér. Huggastu því og gefðu ráð þitt í guðs hönd.“ Nú með því vezírnum þótti ráð þetta viturlegt, þá sefaðist hann og ásetti sér að breyta eftir því. En allt fyrir það rénaði ekki reiði hans við Núreddín. Lét Núreddín ekki sjá sig allan daginn og þorði ekki einu sinni að vera hjá neinum af kunningjum sínum, því hann var hræddur um að faðir sinn mundi láta leita að sér hjá þeim. Flýði hann því út úr borginni í aldingarð einn, er hann aldrei kom í endranær; bar enginn þar kennsl á hann. En er mjög var áliðið og hann vissi, að faðir hans var genginn til herbergis síns, kom hann aftur og lét ambáttir móður sinnar ljúka upp fyrir sér; hleyptu þær honum inn sem hljóðlegast. Morguninn eftir gekk hann burt af heimilinu áður en faðir hans var kominn á fætur, og þeirrar varúðar varð hann að gæta í heilan mánuð, þó honum sárnaði það mjög. Sögðu ambáttirnar honum hispurslaust, að faðir hans væri honum eins reiður og fyrri og mundi drepa hann undir eins og hann kæmi í augsýn hans. Vissi kona vezírsins af sögn ambáttanna, að Núreddín var vanur að koma og fara aftur á laun, en ekki dirfðist hún að biðja mann sinn að fyrirgefa honum. En loksins jókst henni hugur og segir hún við

10