Blaðsíða:Alþjóðasáttmáli um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.pdf/2

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

2 Nr. 10 1979 Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012

(a) rétt allra til þess að stofna stéttarfélög og að gerast félagar í því stéttarfélagi sem þeir velja sér, einungis að áskildum reglum hlutaðeigandi félags, í því skyni að efla og vernda efnahags- og félagslega hagsmuni sína. Eigi má binda rétt þennan neinum takmörkunum öðrum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi í þágu þjóðaröryggis eða allsherjarreglu eða til þess að vernda réttindi og frelsi annarra;
(b) rétt stéttarfélaga til þess að mynda landssambönd eða stéttarfélagasambönd og rétt hinna síðarnefndu til þess að stofna eða ganga í alþjóðleg stéttasamtök;
(c) rétt stéttarfélaga til þess að starfa óhindrað, að engum takmörkunum áskildum öðrum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi í þágu þjóðaröryggis eða allsherjarreglu eða til þess að vernda réttindi og frelsi annarra;
(d) verkfallsrétt, að því áskildu að honum sé beitt í samræmi við lög viðkomandi lands.
2. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki vera því til fyrirstöðu að lögmætar takmarkanir séu settar við því að herliðar eða lögreglumenn eða stjórnvaldshafar ríkisins beiti þessum rétti.
3. Ekkert í grein þessari skal heimila ríkjum, sem aðilar eru að samþykkt á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess, að gera ráðstafanir með lögum sem myndu skaða eða beita lögum á þann hátt að það myndi skaða það sem tryggt er í þeirri samþykkt.

9. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga.

10. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að:

1. Mesta mögulega vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té, en hún er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins, sérstaklega við stofnun hennar og á meðan hún er ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna. Frjálst samþykki hjónaefna verður að vera fyrir hendi til stofnunar hjúskapar.
2. Mæðrum skal veitt sérstök vernd í hæfilegan tíma fyrir og eftir barnsburð. Á þessum tíma skal vinnandi mæðrum veitt launað leyfi eða leyfi með nægum almannatryggingargreiðslum.
3. Sérstakar ráðstafanir skal gera til verndar og aðstoðar vegna barna og ungmenna án mismununar vegna ætternis eða annarra aðstæðna. Börn og ungmenni ætti að vernda gegn efnahagslegri og félagslegri misnotkun. Ráðning þeirra í starf sem er skaðlegt siðferði þeirra eða heilsu eða lífshættulegt eða líklegt til þess að hamla eðlilegum þroska þeirra ætti að vera refsivert að lögum. Ríki ættu einnig að setja aldurstakmörk og launuð vinna barna undir þeim mörkum að vera bönnuð og refsiverð að lögum.

11. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða. Aðildarríkin munu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að þessum rétti verði framfylgt og viðurkenna að í þessum tilgangi sé alþjóðasamvinna, byggð á frjálsu samþykki, mjög mikilvæg.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna þann grundvallarrétt sérhvers manns að vera laus við hungur og skulu gera þær ráðstafanir, ein sér og með alþjóðasamvinnu, þar á meðal ráðstafanir samkvæmt sérstökum áætlunum, sem þarf til þess að:
(a) bæta framleiðsluaðferðir, geymslu og dreifingu matvæla með því að notfæra sér tæknilega og vísindalega þekkingu til fulls, með því að miðla þekkingu á grundvallaratriðum um næringu og með því að þróa og endurbæta landbúnaðarkerfi til þess að ná hagkvæmastri þróun og nýtingu náttúruauðlinda;
(b) tryggja sanngjarna dreifingu matvælaforða heimsins í hlutfalli við þarfir, og skal tekið tillit til vandamála landa sem flytja út matvæli og þeirra sem flytja inn matvæli.

12. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu gera ráðstafanir til þess að framfylgja að öllu leyti rétti þessum, þar á meðal ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að:
(a) draga úr fjölda andvana fæddra barna og ungbarnadauða og gera ráðstafanir til heilsusamlegs þroska barnsins;
(b) bæta heilbrigði í umhverfi og atvinnulífi á öllum sviðum;
(c) koma í veg fyrir, lækna og hafa stjórn á landfarsóttum, landlægum sjúkdómum, atvinnusjúkdómum og öðrum sjúkdómum;
(d) skapa skilyrði sem myndu tryggja öllum sjúkraþjónustu og sjúkrameðferð sé um veikindi að ræða.

13. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til menntunar. Þau eru ásátt um að menntun skuli beinast að fullum þroska mannlegs persónuleika og meðvitund um göfgi mannsins og skuli stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Enn fremur eru þau ásátt um að menntun skuli gera öllum kleift að taka þátt í frjálsu þjóðfélagi á virkan hátt, stuðla að skilningi, umburðarlyndi og vináttu á milli allra þjóða og allra kynþátta-, staðfélags- og trúarbragðahópa og efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna til varðveislu friðar.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að, til þess að framfylgja að öllu leyti þessum rétti:
(a) skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds;
(b) skuli framhaldsmenntun í hinum ýmsu myndum, þar á meðal tækni- og iðnframhaldsmenntun, gerð öllum tiltæk og aðgengileg með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum;
(c) skuli æðri menntun gerð öllum jafn aðgengileg á grundvelli hæfni með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum;
(d) skuli hvatt til undirstöðumenntunar og hún aukin eins og mögulegt er fyrir þá sem hafa ekki hlotið eða lokið öllu skeiði barnafræðslu;
(e) skuli þróun skólakerfa á öllum stigum ötullega efld, hæfilegu styrkjakerfi skuli komið á og efnislegur aðbúnaður kennaraliðs skuli stöðugt bættur.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, þegar við á, lögráðamanna til þess að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum, sem hafa sambærileg lágmarksmenntunarskilyrði og þau sem sett eru eða samþykkt kunna að vera af ríkinu og að ábyrgjast trúarlega og siðferðilega menntun barna þeirra í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.