Blaðsíða:Alþjóðasáttmáli um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.pdf/3

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest

Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012 Nr. 10 1979 3

4. Engan hluta þessarar greinar skal túlka þannig að það brjóti í bága við frelsi einstaklinga og félaga til þess að stofna og stjórna menntastofnunum, alltaf að því áskildu að gætt sé grundvallaratriða þeirra sem sett eru fram í 1. mgr. þessarar greinar og því sé fullnægt að menntun sem veitt er í slíkum stofnunum samræmist þeim lágmarksskilyrðum sem ríkið kann að setja.

14. gr.

Sérhvert aðildarríki að samningi þessum sem hefur ekki getað tryggt, er það varð aðili að samningi þessum, skyldubundna ókeypis barnafræðslu á heimalandsvæði sínu eða öðrum landsvæðum undir lögsögu þess, tekst á hendur að útbúa og koma á innan tveggja ára nákvæmri framkvæmdaáætlun til þess að framfylgja í áföngum, innan hæfilegs árafjölda sem ákveðinn skal í áætluninni, grundvallarreglunni um skyldubundna ókeypis menntun öllum til handa.

15. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns:
(a) til þess að taka þátt í menningarlífi;
(b) til þess að njóta ábata af vísindalegum framförum og hagnýtingu þeirra;
(c) til þess að njóta ábata af verndun andlegra og efnislegra hagsmuna sem hljóta má af vísindalegum, bókmenntalegum og listrænum verkum sem hann er höfundur að.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu gera ráðstafanir til þess að framfylgja þessum rétti að öllu leyti, þar á meðal nauðsynlegar ráðstafanir til varðveislu, þróunar og útbreiðslu vísinda og menningar.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða það frelsi sem óhjákvæmilegt er til vísindalegra rannsókna og skapandi starfa.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna ábata þann sem hljóta má af eflingu og þróun alþjóðlegra samskipta og samvinnu á sviði vísinda og menningar.

IV. hluti.

16. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að leggja fram, í samræmi við þennan hluta samningsins, skýrslur um þær ráðstafanir sem þau hafa gert og um framþróun þá sem orðið hefur til þess að gætt sé réttinda þeirra sem viðurkennd eru í samningi þessum;
2.
(a) Allar skýrslur skulu lagðar fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal koma afritum til fjárhags- og félagsmálaráðsins til athugunar í samræmi við ákvæði samnings þessa;
(b) Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal einnig koma á framfæri við sérstofnanir afritum af skýrslunum, eða þeim hlutum þeirra sem máli skipta, frá aðildarríkjum samnings þessa sem eru líka aðilar að þessum sérstofnunum að svo miklu leyti sem þessar skýrslur eða hlutar þeirra snerta einhver mál sem falla undir ábyrgð fyrrgreindra stofnana í samræmi við stofnskrár þeirra.

17. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu láta í té skýrslur sínar í áföngum í samræmi við áætlun sem fjárhags- og félagsmálaráðið skal gera innan eins árs frá gildistöku þessa samnings eftir að samráð hefur verið haft við aðildarríki þau og sérstofnanir sem í hlut eiga.
2. Í skýrslum má greina þau atriði og vandkvæði sem áhrif hafa á að hve miklu leyti skyldum samkvæmt samningi þessum hefur verið framfylgt.
3. Þar sem eitthvert ríki sem aðili er að samningi þessum hefur áður látið Sameinuðu þjóðunum eða einhverri sérstofnun í té upplýsingar sem máli skipta er ekki nauðsynlegt að láta þær upplýsingar í té aftur, en nákvæm tilvísan til þeirra upplýsinga sem þannig hafa verið látnar í té mun nægja.

18. gr.

Fjárhags- og félagsmálaráðið má, í samræmi við þá ábyrgð sem það ber samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda og grundvallarfrelsis, gera samkomulag við sérstofnanirnar um að þær láti ráðinu í té skýrslur um það sem áunnist hefur til efnda á þeim ákvæðum samnings þessa sem falla undir starfssvið þeirra. Í skýrslum þessum má greina frá sérstökum atriðum í ákvörðunum og ályktunum sem lögbærar stofnanir þeirra hafa samþykkt varðandi slíka framkvæmd.

19. gr.

Fjárhags- og félagsmálaráðið má koma á framfæri við mannréttindanefndina til athugunar og almennra ályktana eða, eftir því sem við á, til upplýsinga, skýrslum þeim varðandi mannréttindi sem ríkin leggja fram samkvæmt 16. og 17. gr. og skýrslur varðandi mannréttindi sem sérstofnanirnar leggja fram samkvæmt 18. gr.

20. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum og þær sérstofnanir sem í hlut eiga mega koma á framfæri við fjárhags- og félagsmálaráðið athugasemdum um sérhverja almenna ályktun gerða samkvæmt 19. gr. eða um tilvísun til slíkrar almennrar ályktunar í skýrslu frá mannréttindanefndinni eða um hvert það skjal sem þar er greint frá.

21. gr.

Fjárhags- og félagsmálaráðið má leggja fyrir allsherjarþingið öðru hverju skýrslur með tillögum almenns eðlis og samantekt af upplýsingum sem mótteknar hafa verið frá ríkjum sem aðilar eru að samningi þessum og sérstofnunum um ráðstafanir sem gerðar hafa verið og um framþróun þá sem orðið hefur til þess að almennt sé gætt réttinda þeirra sem viðurkennd eru í samningi þessum.

22. gr.

Fjárhags- og félagsmálaráðið má vekja athygli annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna, undirstofnana þeirra og sérstofnana þeirra sem falið er að láta í té tækniaðstoð, á öllum þeim málum sem greint er frá í skýrslum þeim sem vísað er til í þessum hluta samnings þessa og geta orðið þeim stofnunum til aðstoðar við að ákveða, hverri innan síns valdsviðs, hvort ráðlegt sé að hefjast handa um alþjóðlegar ráðstafanir sem líklegar séu til þess að stuðla að því að samningi þessum sé í vaxandi mæli framfylgt í reynd.

23. gr.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum eru ásátt um að meðal alþjóðlegra aðgerða til þess að framfylgja réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum séu gerð samninga og ályktana, útvegun tækniaðstoðar, svæðisfundir og fundir um tæknimál sem skipulagðir eru til samráðs og athugana í samvinnu við hlutaðeigandi ríkisstjórnir.

24. gr.

Ekkert ákvæði samnings þessa skal túlkað svo að það skerði ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna né ákvæði stofnskráa sérstofnananna sem skilgreina skyldur hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna og sérstofnananna með tilliti til málefna sem fjallað er um í samningi þessum.

25. gr.

Ekkert ákvæði þessa samnings skal túlkað svo að það skerði þann rétt sem öllum þjóðum ber til þess að njóta og hagnýta til fullnustu og óhindrað náttúruauðæfi sín og auðlindir.

V. hluti.

26. gr.

1. Þessi samningur skal liggja frammi til undirskriftar fyrir öll þau ríki sem aðilar eru að Sameinuðu þjóðunum eða sérstofnunum þeirra, fyrir aðildarríki að samþykktum Alþjóðadómstólsins og fyrir sérhvert það ríki sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur boðið að gerast aðili að samningi þessum.