Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/17

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur ekki verið villulesin


17 fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu hafi numið um 10% í lok árs 2006. Væri ekkert sem benti „til annars en að áframhaldandi aukning verði í umsvifum íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja bæði innan lands og utan“, en það hefði mikil áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins, sem miklar og vaxandi kröfur væru gerðar til. Í minnisblaði, sem Tryggvi Pálsson sendi bankastjórn Seðlabanka Íslands 9. nóvember 2007, sagði meðal annars að lausafjárþrengingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi leitt til efasemda um mat á verðmæti eigna bankanna og erfiðleika við fjármögnun þeirra. Hafi seðlabankinn fylgst grannt með þessu og bankastjórn átt fundi með stjórnendum íslensku bankanna og Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem sérfræðingar á fjármálasviði seðlabankans hafi heimsótt „umsjónarmenn fjármögnunar og áhættustýringar viðskiptabankanna og Straums“ í september 2007. Líkur væru til „að óvissuástand í fjármögnun og stöðu banka verði ekki skammvinnt“ og væri því lagt til að bankastjórn kallaði saman starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda, sem fjallað hafi verið um í samþykkt hennar 24. mars 2006, en til að gæta fyllstu varúðar yrði „gagnlegt að Seðlabankinn undirbúi viðbrögð sín ef svo færi að til hans yrði leitað með yfirlýsingar eða lausafjárfyrirgreiðslu.“ Gerð var tillaga um að þar tækju sæti með Tryggva þau Sigurður Sturla Pálsson, Tómas Örn Kristinsson og Sylvía K. Ólafsdóttir, en að auki myndu Sigríður Logadóttir og Perla Ö. Ásgeirsdóttir vinna með honum. Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað kom saman til 4. fundar síns 15. nóvember 2007 og tók þá sæti í honum Jónína S. Lárusdóttir, sem var orðin ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu í stað Kristjáns Skarphéðinssonar. Samkvæmt fundargerð var undir dagskrárlið um stöðu og horfur á fjármálamörkuðum fjallað um svonefnt stöðumat, sem Tryggvi Pálsson hafi kynnt, en þar væri leitað svara við því hvort íslenska fjármálakerfinu væri búin meiri hætta en á árunum 2005 og 2006. Niðurstaða þessa mats hafi verið sú að „hætturnar eru meiri núna þar sem áhættur á eignahlið bankanna hafa aukist verulega og fjármögnunarvandinn er almennari og síst betri en var 2005/2006.“ Tryggvi hafi sýnt „endurgreiðsluferil þriggja stærstu viðskiptabankanna næstu tvö árin.“ Lausafjárstaða þeirra væri viðunandi og ekki uppi bráður vandi í fjármögnun þeirra, en skuldatryggingarálög hafi „snarhækkað á síðustu mánuðum“ og fjármagnskostnaður bankanna og viðskiptamanna þeirra þar með líka. Ingimundur Friðriksson hafi bætt því við að „lausafjárþrengingar gætu staðið mánuðum saman og hlutabréfaverð lækkað frekar en orðið er.“ Jónas Fr. Jónsson hafi nefnt að ef taka ætti mið af skuldatryggingarálagi sem „vísbendingu um líkur á