Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/42

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

fremur hefur alþjóðleg réttarþróun á sviði mannréttinda fest í sessi þann skilning manna að ekki sé hægt að aðgreina jákvæð mannréttindi, svo sem réttinn til að mynda sér skoðun, frá neikvæðum réttindum, t.d. réttinum til að þurfa ekki að líða skort. Í umræðum Stjórnlagaráðs hefur verið tekið undir þessi sjónarmið og hafa breytingar á mannréttindakaflanum, samkvæmt frumvarpi þessu, því að miklu leyti snúist um að útfæra annarrar kynslóðar réttindin betur, gefa þeim aukna vigt og ríkara efnislegt inntak. Í þessu felst að mannréttindi verði ekki flokkuð í mikilvægisröð heldur séu efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi forsenda þess að geta notið hinna borgaralegu og stjórnmálalegu réttinda. Eða eins og segir í inngangsorðum alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi:

[S]ú hugsjón að menn séu frjálsir og njóti borgaralegs og stjórnmálalegs frelsis, séu óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, jafnt sem efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.[1]

Með því að leggja ríkari áherslu á efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi er ætlun Stjórnlagaráðs að undirstrika þá staðreynd að mannréttindi snerta nánast alla fleti mannlegrar tilvistar og enn fremur að mannréttindi eru skilyrði þess að samfélag geti þrifist í friði, frjálst og með gagnkvæmri virðingu borgaranna. Í slíkri virðingu felst ekki síst viðurkenning á þeim skyldum sem fylgja öllum réttindum. Þær skyldur hvíla á herðum yfirvalda sem eiga að sjá til þess að réttindin séu öllum tryggð en skyldurnar hvíla jafnframt á herðum fólksins í landinu sem þarf hverju sinni að taka á sig nauðsynlegar byrðar til að skapa réttlátt samfélag. Jafnframt skal litið til þess að svo að borgarar geti tekið á sig þær skyldur sem fylgja samfélagslegri ábyrgð þurfa þeim að vera tryggð ákveðin grunnréttindi sem tryggja t.d. jafna möguleika til þátttöku í samfélaginu.

Gagnrýni á aukna áherslu á efnahagsleg og félagsleg réttindi snýst oft um að slík réttindi séu í eðli sínu óskýr og erfitt geti verið að greina nákvæmlega hvaða skyldur þau leggja á herðar ríkisvaldsins. Því sé ekki auðvelt að meta hvort ríkið gerist brotlegt gagnvart þeim skyldum. Sama óvissa á hins vegar einnig við um þau mannréttindi sem löngum hafa þótt sjálfsögð, t.d. friðhelgi einkalífs og almennan kosningarétt. Þannig hafa stjórnvöld visst frelsi til að ákveða hvernig þau réttindi skulu útfærð en á sama tíma tryggja að kjarni réttinda sé virtur. Stjórnvöld þurfa í sífellu að leitast við að útfæra réttindin, auka þau og fylla, borgurunum til góðs.

Þá er því gjarnan haldið á lofti að efnahagsleg og félagsleg réttindi séu kostnaðarsöm fyrir ríkið en sambærileg gagnrýni heyrist sjaldan um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þótt dýrt sé að reka dómskerfi og halda almennar kosningar, svo dæmi séu tekin. Slíkur kostnaður, sem og kostnaður sem fylgir t.d. heilsugæslu og menntakerfi, er eðlileg afleiðing þess að búa í félagslegu réttarríki. Öll mannréttindi fela í sér flóknar og margþættar skyldur yfirvalda og þeirra sem réttindanna njóta.

Auk þess að leggja áherslu á eflingu efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda hefur Stjórnlagaráð unnið markvisst að því að með frumvarpinu sé styrkum stoðum skotið undir starf fjölmiðla og aðgengi einstaklinga að upplýsingum eflt. Aðgangur almennings að upplýsingum og frjálsum fjölmiðlum er snar þáttur mannréttinda og mikilvægur hluti lýðræðis. Ætlunin er að stuðla að virkara aðhaldi almennings gagnvart valdhöfum og að hvetja fjölmiðla til að sinna mikilvægu hlutverki sínu í lýðræðislegu samfélagi.

Þá er lagt til með frumvarpi þessu að ákveðin þriðjukynslóðarréttindi verði vernduð, þau er lúta að vernd náttúru, heilnæmu umhverfi og sjálfbærri þróun.

Í frumvarpi þessu eru nýjar greinar um umhverfismál, auðlindir og dýravernd settar í sama kafla og mannréttindi, líkt og lagt er til í Skýrslu stjórnlaganefndar. Þessar greinar eru nýmæli

  1. Samningur þessi var lögfestur af Íslands hálfu með lögum nr. 78/1997.

40