Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/11

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

2

„Tómas er sannkristinn,“ sagði Shelby. „Í fyrra haust sendi eg hann til Cincinnati í verzlunar erindum. Tómas, sagði eg við hann, eg reiði mig á þig, af því eg veit að þú ert kristinn. Eg treysti því, að þú bregðist mér ekki. Hann kom heim aptur með tvö þúsund krónur í vasanum. Einn af félögum hans spurði hann: því straukstu ekki til Kanada? Hvernig hefði eg átt að geta það, sagði Tómas, húsbóndinn bar svo gott traust til mín. — Mér þykir mikið fyrir að þurfa að láta hann; þér ættuð sannarlega að vera ánægðir með að fá svo góðan dreng fyrir þetta verð.“

„Það get eg ekki,“ sagði Haley, og dreypti á vínglasi sínu, „bætið þér við smádreng eða stúlkubarni, og þá getur það jafnað sig.“

Hurðinni var lokið bægt upp, og inn kom lítill, fjögra vetra gamall drengur. Það var framúrskarandi fallegur piltur með tinnusvart, silkimjúkt hár, eldsnör en þó blíðleg augu, og spékoppa í kinnum. Hann var laglega búinn í ljósleitum fötum, sem áttu vel við andlitsfall hans.

„Hó, hó, gaukur,“ kallaði Shelby og fleygði rúsínugrein til hans. „Gríptu þetta!“ Drengurinn greip rúsínurnar, en Shelby hló og brá fingrinum undir höku hans.

„Lofaðu manninum að heyra, hvernig þú syngur,“ sagði hann.

Drengurinn söng þegar í stað vísu þessa með skærri rödd og fagurri við angurblítt svertingja lag: