Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/13

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

4

„Hún er ekki til sölu,“ sagði Shelby þurlega, „konan mín vill ekki sleppa henni.“

„Látið mig þá fá drenginn.“

„Mér er ekki um að taka drenginn frá móður sinni.“

„En eg er góður við þræla mína, sjáið þér til, það verður maður að vera. Þeir verða að fá nógan mat, annars missa þeir holdin og lækka í verði. Eg er álitinn að vera einhver bezti svertingja salinn á markaðinum, þó skömm sé frá að segja,“ sagði Haley hróðugur mjög. „Eg slæ þá aldrei fyrir það, þótt þeir hríni og barmi sér,“ bætti hann við, „eg get ekki séð neitt illt í því, þó þeir hríni, það er náttúra þeirra, og hún verður að hafa sinn gang, og eg leyfi það.“ Eptir þessa mannúðar tölu tæmdi Haley glas sitt, auðsjáanlega mjög ánægður með sjálfan sig.

Shelby sat þegjandi.

„Nú, nú, hvernig eigum við svo að ljúka málunum? Fæ eg Tómas og drenginn? Já eða nei?“

„Eg ætla að tala við konuna mína,“ sagði Shelby og stundi þungan. „Komið þér aptur seinna í kveld.“

„En það vildi eg að eins sagt hafa, herra Shelby,“ sagði þrælakaupmaðurinn og stóð á fætur úr sæti sínu, „að þessum málum verður að ljúka fljótt, ef þeim annars á að ljúka í — góðu.“

Með þessari hálfgjörðu hótun tók Haley yfirhöfn sína og fór.