Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/31

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

22

móðirin þaggaði niður sérhvert hið minnsta hljóð, og fullvissaði hann um, að ef hann einungis væri grafkýr, þá mundi hún gæta hans; hann hélt sér því rólegur utan um hálsinn á henni, en þegar hann fór að syfja, spurði hann: „Mamma, þarf ég að vera vakandi, þarf ég þess, mamma?“

„Nei, elsku barn, sofðu, ef þú vilt.“

„En ef ég sofna, mamma, þá læturðu hann ekki taka mig?“

„Nei, svo sannarlega hjálpi mér guð!“ sagði móðirin, og kinnar hennar urðu fölar og það brann bjartur eldur úr hinum dökku augum hennar.

„Ertu viss um það, ertu það, mamma?“

„Já, viss!“ sagði hún og hrökk við, er hún heyrði sinn eigin málróm, því henni virtist hann koma frá einhverri annari, ósýnilegri veru; og drengurinn lagði þreytta höfuðið sitt á öxl hennar og sofnaði skjótt.

Hversu mjög fannst henni þessir mjúku handleggir, er lögðust um háls hennar og hinn hægi andardráttur, sem lék um vanga hennar, leggja krapt og fjör í hreifingar sinar!

Landið umhverfis búgarðinn, tréplöntuteigarnir og skógurinn, allt þaut svimhratt fram hjá henni á flóttanum. Fram hjá einum kennistaðnum eptir annan hélt hún áfram viðstöðulaust og án þess að hægja á sér, unz hið rauðleita morgunsár hitti hana á opinni þjóðbraut margar mílur vegar frá öllum kunnugum stöðvum.

Hún hafði opt farið í kynnisför með húsmóður sinni til