Fara í innihald

Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/32

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

23

lítils þorps, sem lá ekki langt frá Ohio fljótinu, og hún þekkti veginn vel. Það fyrsta, sem hún í flýti hafði hugsað fyrir flótta sínum, var að komast þangað og þaðan yfir fljótið, þar fyrir utan gat hún að eins vonað til guðs.

Í litla böggulinn hafði hún látið nokkrar smákökur og fáein epli, og notaði hún þau til að flýta för þeirra á þann hátt, að hún lét epli velta spölkorn á undan þeim, og þaut þá drengurinn af öllum mætti á eptir, til að ná því ; og með þessu bragði, sem hún endurtók opt, komst hún yfir marga hálfa míluna. Eptir nokkra stund komu þau að þykkum kjarr-runni, tær lækur rann í gegn um hann. Af því barnið kvartaði um hungur og þorsta, klifraði hún yfir girðinguna með hann, og settist á bak við klett, sem skyggði á þau, svo þau gátu ekki sést neðan af veginum, og gaf hún honum þar morgunverð úr litla bögglinum sínum. Drengurinn furðaði sig á því og féll það illa, að hún vildi einskis neyta, og þegar hann tók um hálsinn á henni, til að reyna að troða dálitlu af brauði uppí hana, þá fannst henni eitthvað í hálsinum á sér, sem ætlaði að kæfa sig.

„Nei, nei, elsku Harry minn! mamma getur ekki borðað, fyr en þú ert óhultur, við verðum að halda áfram — áfram að fljótinu!“ og hún hraðaði för sinni enn meira. Um hádegisbilið nam hún staðar á snyrtilegum bóndabæ, til að kaupa miðdegisverð handa sér og barninu, og svo hélt hún aptur áfram.