Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/33

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

24

Einni stundu fyrir sólsetur kom hún að þorpinu við fljótið, þreytt og sárfætt, en hugrökk í hjarta.

Fyrst af öllu leit hún á fljótið, sem lá eins og Jórdan á milli hennar og Kanaan frelsisins hinum megin. Það var snemma vors og fljótið var mjög vatnsmikið og ókyrrt, stórir ísjakar sveifluðust til á hinu skollita vatni. Elísa stóð um stund og horfði á fljótið, og leist eigi á blikuna; hún sá þegar í stað, að hinn venjulegi ferjubátur kom hér að engu haldi. Síðan gekk hún inn í lítið gestgjafahús, sem stóð nálægt árbakkanum, til að spyrjast fyrir.

Gestgjafakonan var að fást við matargjörð yfir eldinum, hún leit upp með gaffalinn í hendinni, þegar Elísa ávarpaði hana með hinni þýðu rödd sinni.

„Er engin ferja eða bátur, til að flytja fólk yfir um fljótið?“ spurði hún.

„Nei,“ sagði konan, „bátarnir urðu að hætta, en í kvöld kemur hingað maður, sem ætlar yfir um fljótið í nótt, ef það verður á nokkurn hátt fært. Svo það mun bezt fyrir þig að setjast niður og bíða; þetta er fallegur drengur“, bætti hún við og bauð Harry köku. En barnið, sem var alveg uppgefið, grét af þreytu.

„Veslings barnið! hann er svo óvanur að ganga, og við höfum gengið hratt,“ sagði Elísa.

„Jæja, farðu með hann inn í herbergið þarna,“ sagði konan, og opnaði dyr á litlu svefnherbergi, og stóð þar uppbúið rúm. — Elísa lagði þreytta drenginn sinn útaf í rúmið, og