Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/50

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

41

vekja konuna. Eptir litla stund kom hún með barnið á handleggnum; hún var klædd í yfirhöfn, sem frú Bird hafði gefið henni.

Bird bað hana að flýta sér inn í vagninn, og frú Bird fylgdi henni út að vagninum.

Elísa hallaði sér út úr vagninum og rétti frúnni hönd sína, mjúka og fagra hönd, eins og þá, sem að henni var rétt á móti. Hún leit hinum stóru, dökku augum sínum á frú Bird með innilegu þakklæti, og gjörði tilraun til að segja eitthvað. Hún hreifði varirnar, en hún kom engu orði upp; hún benti þá til himins og horfði um leið á frú Bird með augnaráði, sem hún gleymdi aldrei; svo hallaði hún sér aptur í vagnsætið og huldi andlitið í höndum sér. Dyrunum var lokað, og vagninn ók af stað.