Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/57

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

48

ljóst, hún var eins og í draumi, og á næsta augnabliki vissi hún ekki af sér. Þegar hún rankaði við sér aptur, var búið að bera hana í rúm. Hún sofnaði nú vært, svo væran hafði hún aldrei sofið síðan nóttina hræðilegu, þegar hún flýði með barnið sitt.

Hana dreymdi fagurt land, — land með hvíld og friði, með iðgrænum ströndum og fögrum, glitrandi vötnum. Þarna var hús, henni var sagt að það væri heimilið hennar, og þar sá hún drenginn sinn, hann var að leika sér, frjáls og glaður. Hún heyrði fótatak mannsins síns; hann kom nær, faðmaði hana upp að sér, og tár hans lauguðu andlit hennar, og hún vaknaði. Það var enginn draumur! Dagurinn var löngu liðinn; drengurinn hennar svaf vært við hlið hennar, á borðinu logaði kertaljós, og við rúmstokkinn sat maðurinn hennar og grét, grét fagnaðar og þakklætis tárum.

Vér höfum eigi ráðrúm til að lýsa öllu því, er kom fyrir þau Georg og Elísu á leið þeirra til Canada, það yrði oflangt mál. Á einum stað náðu ofsækjendur þeirra þeim, og Georg varð að verja hendur sínar og berjast, en með hjálp vina þeirra, sem með þeira voru, komust þau óhult lengra áleiðis. Þau fóru úr einum felustaðnum í annan, unz þau að lokum komust að Erie vatninu; þar stigu þau á skip, til þess að fara yfir um til Kanada.

Það var dýrðlegur dagur. Hinar bláu öldur Erie vatnsins léku bjartar og glitrandi í sólskininu. Hressandi gola blés af ströndinni, og hið fagra skip klauf öldumar tignarlega.