Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/126

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

120

Nú fór hann langa vegu og síðan mætti hann úlfi, sem var svo soltinn, að hann gat varla dregist áfram.

„Góði vinur, gefðu mjer hestinn þinn“, sagði úlfurinn. „Jeg er svo svangur, að það gaula í mjer garnirnar, jeg hefi ekki fengið neitt að jeta í tvö ár“.

„Nei“, sagði Randver, „það get jeg ekki gert. Fyrst hitti jeg hrafn, og honum varð jeg að gefa nestið mitt svo sá jeg lax, sem jeg varð að hjálpa út í vatnið aftur, og nú viltu fá hestinn minn. Það er ómögulegt að láta þig hafa hann, því þá hef jeg engan reiðskjóta lengur“.

„Jú, góði, þú verður að hjálpa mjer“, sagði úlfurinn, „jeg skal vera reiðskjóti þinn, jeg skal hjálpa þjer, þegar þjer liggur mest á“.

„Ekki býst jeg nú við mikilli hjálp frá þjer, en þú verður þá víst að fá hestinn, fyrst þú ert svo aðfram kominn“, sagði kóngssonur. Þegar svo úlfurinn hafði jetið hestinn, tók Randver beislið og lagði það við úlfinn, og hnakkinn setti hann á bak honum, og nú var úlfurinn orðinn svo sterkur af að jeta heilan hest, að hann bar konungssoninn eins og ekkert væri, og gekk nú ferðin betur en nokkru sinni fyr.

„Þegar við erum komnir svölítið lengra, skal jeg sýna þjer bústað risans“, sagði úlfurinn, og eftir skamma ferð komu þeir að berginu. „Líttu á“, sagði úlfurinn, „hjer á risinn heima, og þarna sjerðu bræður þína sex, sem risinn gerði að steini, og þarna eru konuefnin þeirra og fylgdarmennirnir. Og þarna eru dyrnar á bústað risans, þar átt þú að fara inn“.

„Nei, það þori jeg ekki“, sagði konungssonur. „Hann drepur mig, risinn!“

„Onei“, svaraði úlfurinn. „Þegar þú kemur inn, finnurðu kóngsdóttur, sem segir þjer hvernig þú skalt fara að því að ganga milli bols og höfuðs á risanum. Og farðu bara að eins og hún segir!“

Jú, Randver konungsson gekk inn, en hræddur var hann. Þegar inn kom, var risinn ekki heima, en í einu