Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/13

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þessi síða hefur verið staðfest


Höllin fyrir austan sól og vestan mána

Einu sinni var fátækur þurrabúðarmaður, sem átti mörg börn og lítið handa þeim, hvorki mat nje föt, en falleg voru þau öll, en yngsta dóttirinn þó fallegust, og hún var svo indæl, að annað eins hafði ekki sjest.

Svo var það eitt föstudagskvöld, seint um haust, það var vont veður og koldimt úti. Regnið dundi niður og vindurinn hvein, það var svo hvasst, að það brast og brakaði í öllum veggjum. Öll fjölskyldan sat kringum hlóðirnar, og var að borða eitthvað snarl. Allt í einu var barið á gluggann, það voru barin þrjú högg. Húsbóndinn fór út og ætlaði að athuga, hvað á gengi, og þegar hann kom út, sá hann að þar stóð stóreflis ísbjörn.

„Gott kvöld, maður minn“, sagði ísbjörninn.

„Gott kvöld“, sagði maðurinn.

„Ef þú vilt gefa mjer yngstu dóttur þína“, sagði björninn, „þá skal jeg gera þig jafn ríkan og þú nú ert fátækur“.

Jú, manninum fannst það nú ágætt, að hann skyldi geta orðið svo ríkur, en honum fannst hann endilega þurfa að tala um þetta við dóttur sína fyrst og fór inn og sagði, að það væri stóreflis ísbjörn úti, sem lofaði að gera alla fjölskylduna ríka, ef hann fengi hana. Hún sagði nei, og var treg til, og svo fór maðurinn út aftur og samdi um það við ísbjörninn, að hann skyldi koma aftur næsta föstudagskvöld og fá svar. Alla vikuna voru þau að reyna að tala um fyrir stúlkunni, þau lýstu fyrir henni öllum auðnum, sem þau myndu fá, og að lokum ljet hún undan, hún þvoði og bætti garmana sína, bjó sig sem