Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/33

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

27

og pilturinn væri þegar kominn á höggstokkinn. „Já, jeg skal geyma skærin“, sagði bergþursinn, „og gæta að þeim, og það verð jeg, sem sit hjá kóngsdóttur, meðan hrafnar rífa piltinn“, sagði risinn, og setti skærin í járnskrín með þrem lásum fyrir, en um leið og hann slepti skærunum í skrínið, tók fylgdarsveinninn þau. Hvorugt þeirra gat sjeð hann, því hann hafði Þrísystrahattinn á höfðinu, og svo læsti tröllkarlinn aftur tómu skríninu, en lyklana geymdi hann í holum jaxli, sem hann hafði tannpínu í, þá gleymdi hann ekki hvar þeir væru, hjelt þursinn.

Svo skellihlógu þau bæði tvö.

Þegar komið var yfir miðnætti, fór kóngsdóttir heim aftur. Fylgdarsveinninn sat á hafrinum fyrir aftan hana og þau voru ekki lengi á heimleiðinni.

Daginn eftir var piltinum boðið að konungsborði, en þá var það einhvern veginn svoleiðis með kóngsdóttur, að hún vildi ekki líta við piltinum. En þegar búið var að borða, setti hún upp sakleysissvip, gerði sig blíða í máli og sagði:

„Þú hefir kannske skærin, sem jeg bað þig að geyma í gær?“

„Ójá, hjerna eru þau nú“, sagði piltur, tók þau upp úr vasa sínum, og þeytti þeim á borðið, svo þau köstuðust hátt upp í loftið. Kóngsdóttur hefði ekki getað orðið ver við, þótt hann hefði kastað skærunum framan í hana. En samt gerði hún sig enn blíðari og sagði:

„Fyrst þú hefir gætt skæranna svona vel, þá getur ekki verið erfitt fyrir þig að geyma gullnistið mitt, og fá mjer það aftur í sama mund á morgun.“

„Nei, ætli það verði erfitt“, sagði pilturinn og stakk nistinu í vasa sinn. En þá fór hún að gera að gamni sínu við hann aftur, svo hann gleymdi bæði sjálfum sjer og nistinu, og meðan þau skemtu sjer allra best, náði hún því af honum án þess hann vissi.