Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/58

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

52

hann gat borið. — Já, það gat hann fengið, úr því það var alt sem hann vildi.

Svo lagði hann af stað, og hafði ekki gengið lengi, þegar hann náði liðsforingjunum.

„Hvert ætlar þú“, sagði kapteinninn, þegar hann sá einkennisbúning hermannsins.

„Jeg ætlaði að reyna að finna kongsdæturnar“, svaraði hermaðurinn.

„Það ætlum við líka“, sagði kapteinninn, „og fyrst þú ert í sömu erindagerðum, þá mátt þú koma með okkur, því ef við finnum þær ekki, þá gerir þú það ekki heldur, piltur minn“, sagði hann.

Þegar þeir höfðu gengið nokkurn spöl, fór hermaðurinn af þjóðveginum og beygði inn á stíg, sem lá inn í skóginn.

„Nei, hvert ætlar þú?“ spurði kapteinninn. „Það er best að fara eftir þjóðveginum“, bætti hann við.

„Það getur vel verið“, sagði hermaðurinn, „en þessa götu ætla jeg nú að fara“.

Hann hjelt áfram eftir götuslóðanum, og þegar hinir sáu það, komu þeir á eftir. Þeir gengu svo langar leiðir, yfir mýrar og móa og gegnum þrönga afdali, og altaf var skógurinn jafn þjettur. Loksins birti þó, og þeir komust út úr skóginum, og þá tók við langt einstigi, sem þeir urðu að fara eftir, og á einstiginu stóð bjarndýr mikið á verði, það reis upp á afturfæturna og kom á móti þeim, eins og það ætlaði að jeta þá.

„Hvað eigum við nú að gera?“ sagði kapteinninn.

„Þeir segja, að bjarndýrum þyki gott kjöt“, sagði hermaðurinn og kastaði til dýrsins vænum bita. Svo komust þeir fram hjá birninum. En við hinn endann á einstiginu stóð ljón og það öskraði og kom á móti þeim með gapandi ginið, eins og það ætlaði að gleypa þá.

„Nú er víst best að snáfa heim aftur, hjer komumst við aldrei lifandi fram hjá“, sagði kapteinninn.