Brennu-Njáls saga/37

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
37. kafli

Nú er að taka til heima að Atli spurði Bergþóru hvað hann skyldivinna um daginn.

„Hugað hefi eg þér verkið,“ segir hún. „Þú skalt fara að leita Kols þar til er þú finnur hann því að nú skalt þú vega hann í dag ef þú vilt minn vilja gera.“

„Hér er vel á komið,“ segir Atli, „því að hvortveggi okkar erillmenni. En þó skal eg svo til hans ráða að annar hvor okkarskal deyja.“

„Vel mun þér fara,“ segir hún, „og skalt þú eigi til engis vinna.“

Hann gekk og tók vopn sín og hest og reið í braut. Hann reið upp til Fljótshlíðar og mætti þar mönnum er fóru frá Hlíðarenda.Þeir áttu heima austur í Mörk. Þeir spurðu Atla hvert hann ætlaði.Hann kveðst ríða að leita klárs eins.

Þeir kváðu það lítið erindi slíkum verkmanni „en þó er þá helsteftir að spyrja er á ferli hafa verið í nótt.“

„Hverjir eru þeir?“ segir hann.

„Víga-Kolur húskarl Hallgerðar,“ sögðu þeir, „hann fór frá seli áðan og hefir vakað í alla nótt.“

„Eigi veit eg hvort eg þori að finna hann,“ segir Atli. „Hann er skapillur og búið eg láti annars víti að varnaði.“

„Hinn veg værir þú undir brún að líta,“ segja þeir, „sem þú mundireigi vera ragur“ og vísuðu honum til Kols.

Hann keyrir þá hest sinn og ríður mikinn.

Og er hann mætir Kol mælti Atli til hans: „Gengur vel klyfjabandið?“ segir Atli.

„Það mun þig skipta engu mannfýlan,“ segir Kolur, „og engan þanner þaðan er.“

Atli mælti: „Það átt þú eftir er erfiðast er, en það er að deyja.“

Síðan lagði Atli spjóti til hans og kom á hann miðjan. Kolursveiflaði til hans öxi og missti hans. Síðan féll Kolur af bakiog dó þegar.

Atli reið þar til er hann fann verkmenn Hallgerðar og mælti: „Farið upp til hests Kols og geymið hans. Kolur er fallinn af baki og er hann dauður.“

„Hefir þú vegið hann?“ sögðu þeir.

Hann svarar: „Svo mun Hallgerði sýnast sem hann hafi eigisjálfdauður orðið.“

Síðan reið Atli heim og segir Bergþóru vígið. Hún þakkar honumverk þetta og orð þau sem hann hafði um haft.

„Eigi veit eg,“ segir Atli, „hversu Njáli mun þykja.“

„Vel mun hann í höndum hafa,“ segir hún, „og mun eg segja þér eitt til marks um að hann hefir haft til þings þrælsgjöld þau er vértókum við fyrra sumar og munu þau nú koma fyrir Kol. En þó aðsættir verði þá skalt þú þó vera var um þig því að Hallgerður munengar sættir halda.“

„Vilt þú nokkuð senda mann til Njáls,“ segir Atli, „að segja honum vígið?“

„Eigi vil eg það,“ segir hún. „Mér þætti betur að Kolur væriógildur.“

Þau hættu þá talinu.

Hallgerði var sagt víg Kols og ummæli Atla. Hún kvaðst launaskyldu Atla. Hún sendi mann til þings að segja Gunnari víg Kols.Hann svaraði fá og sendi mann að segja Njáli. Hann svaraði engu.

Skarphéðinn mælti: „Miklu eru þrælar aðgerðameiri en fyrr hafa verið. Þeir flugust þá á og þótti það ekki saka en nú vilja þeir vegast“ og glotti við.

Njáll kippti ofan fésjóðum er uppi var í búðinni og gekk út. Synir hans gengu með honum. Þeir komu til búðar Gunnars.

Skarphéðinn mælti við mann er stóð í búðardyrunum: „Seg þú Gunnari að faðir minn vill finna hann.“

Sá segir Gunnari. Gunnar gekk út þegar og fagnaði vel Njáli og sonum hans. Síðan gengu þeir á tal.

„Illa hefir nú orðið,“ segir Njáll, „er húsfreyja mín skal hafa rofið grið og látið drepa húskarl þinn.“

„Ekki ámæli skal hún af þessu hafa,“ segir Gunnar.

„Dæm þú nú málið,“ segir Njáll.

„Svo mun eg gera,“ segir Gunnar. „Læt eg þá vera menn jafndýra, Svart og Kol. Skalt þú greiða mér tólf aura silfurs.“

Njáll tók fésjóðinn og seldi Gunnari. Hann kenndi féið að það var hið sama sem hann hafði greitt Njáli. Fór Njáll nú til búðar sinnar og var jafnvel með þeim síðan sem áður.

Þá er Njáll kom heim taldi hann á Bergþóru en hún kvaðst aldrei vægja skyldu fyrir Hallgerði.

Hallgerður leitaði á Gunnar mjög er hann hafði sæst á vígið. Gunnar kveðst aldrei bregðast skyldu Njáli né sonum hans. Hún geisaði mjög. Gunnar gaf ekki gaum að því.

Svo gættu þeir til á þeim misserum að ekki varð að.