Brennu-Njáls saga/64

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
64. kafli

Steinvör í Sandgili bað Þorgrím austmann vera fyrir fjárforráðum sínum og fara ekki utan og muna svo lát félaga síns og frænda.

Hann svaraði: „Það spáði mér Þórir félagi minn að eg mundi falla fyrir Gunnari ef eg væri hér á landi og mun hann það vitað hafa er hann vissi dauða sinn fyrir.“

Hún mælti: „Eg mun gefa þér til Guðrúnu dóttur mína og féið allt að helmingi við mig.“

„Eigi vissi eg að þú mundir það svo miklu kaupa,“ segir hann.

Síðan kaupa þau þessu að hann skal fá hennar og var þá boð þegar það sumar.

Gunnar ríður til Bergþórshvols og með honum Kolskeggur. Njáll var úti og synir hans og gengu í móti Gunnari og fögnuðu þeim vel. Síðan gengu þeir á tal.

Gunnar mælti: „Hingað er eg kominn að sækja að þér traust og heilræði.“

Njáll sagði að það var skylt.

Gunnar mælti: „Eg hefi ratað í vandræði mikil og drepið marga menn og vil eg vita hversu þú vilt vera láta.“

„Það munu margir mæla,“ segir Njáll, „að þú hafir mjög verið til neyddur. En nú skalt þú gefa mér tóm til ráðagerðar.“

Njáll gekk í braut einn saman og hugsaði ráðið og kom aftur og mælti: „Nú hefi eg nokkuð hugsað málið og líst mér sem þetta muni nokkuð með harðfengi og kappi verða að gera. Þorgeir hefir barnað Þorfinnu frændkonu mína og mun eg selja þér í hendur legorðssökina. Aðra skóggangssök sel eg þér á hendur Starkaði er hann hefir höggvið í skógi mínum á Þríhyrningshálsum og skalt þú sækja þær sakar báðar. Þú skalt fara þangað sem þér börðust og grafa upp hina dauðu og nefna votta að benjum og óhelga þá alla hina dauðu fyrir það er þeir fóru með þann hug til fundar við þig að veita þér ákomur og bráðan bana og bræðrum þínum. En ef þetta er prófað á þingi og því sé við lostið að þú hafir áður lostið Þorgeir og megir fyrir því hvorki sækja þína sök né annarra, þá mun eg svara því máli og segja að eg helgaði þig á Þingskálaþingi svo að þú skyldir bæði mega sækja þitt mál og annarra og mun þá verða svarað máli því. Þú skalt og finna Tyrfing í Berjanesi og skal hann selja þér sök á hendur Önundi í Tröllaskógi er mál á eftir Egil bróður sinn.“

Reið þá Gunnar heim fyrst.

En nokkurum nóttum síðar riðu þeir Njálssynir og Gunnar þangað til sem líkin voru og grófu þá upp alla sem jarðaðir voru. Stefndi Gunnar þeim þá öllum til óhelgi fyrir aðför og fjörráð og reið heim eftir það.