Fara í innihald

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Ómagabálkur

Úr Wikiheimild
Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins (1992)
Höfundur: óþekktur
Ómagabálkur

1.

Svo er mælt að sinn ómaga á hver maður fram að færa á landi hér. Móður sína á maður fyrst fram að færa, en ef hann orkar betur, þá skal hann færa fram föður sinn. Nú má hann betur, þá skal hann börn sín. Nú má hann betur, þá skal hann systkin sín fram færa. Nú má hann betur, þá skal hann færa fram þá menn er hann á arf eftir að taka, og þá menn er hann hefir arftaki tekna. Nú má hann betur, þá skal hann fram færa leysing sinn, þann er hann gaf frelsi. Ef nokkur þeirra manna gengur að hans ráði er nú var taldur, enda eigi hann fé til að færa þá fram, þá verður hann útlagur of það ef þeir ganga. Frá þessum ómögum öllum skal maður eigi seljast arfsali, og frá engum þeim er á fé hans eru komnir.

Ef hann á eigi fé til, þá skal hann ganga í skuld fyr móður sína. Nú þarf faðir hans heldur framfærslu, þá skal hann ganga í skuld fyr hann. Ef hann hefir gengið í skuld fyr föður sinn, enda þurfi móðir hans framfærslu síðan, þá á faðir hans að hverfa til frænda sinna að framfærslunni, en hann skal ganga í skuld fyr móður sína. Ef hann hefir eigi hag til að færa þau fram, þá skal hann fara þangað er hinn nánasti niður er þeim, þeirra manna er fé á til að færa þau fram. Þá skal hann bjóða þeim manni að ganga í skuld fyr þau þar. Skal-at hann meiri skuld eiga en hann leggur fyrir þau ávaxtalaust. Þótt sá leggi meira fé fyrir þau, og skal-at hann meiri skuld eiga en hann væri verður ef hann væri þræll. Ef hann væri í skuld tekinn áður, og þyki þeim manni betra að hafa hann en eigi í skuldinni, er hefir fram að færa annaðtveggja föður hans eða móður, þá skal hann fara að bjóða fyrir hann jafnmikið fé sem hann er skuldfastur, og skal hann úr leysast þaðan úr skuldinni, en ganga hinn veg í skuldina fyrir föður sinn eða móður sína. Ef hann vill eigi ganga í skuldina við þann mann er fram færir föður hans og móður og börn, þá á hinn þó að hvoru að skuldfesta hann. En ef hann vill firrast hann eða flýja, þá skal hann fara til heimilis hans, og beiða hann tilfarar. En ef hann vill eigi til fara, þá skal hann þó leggja lögskuld á hann að hvoru. Lýsa skal hann fyrir heimilisbúum sínum fimm. Hann skal lýsa að Lögbergi að hann hefir lögskuld lagið á hann, enda á hann kost síðan að verja lýriti innihöfn hans, og svo að þiggja verk að honum.

Nú eru firnari ómagar en þeir er hann á arf að taka eftir, og skal hann þó fram færa á fé sínu, ef hann á til. Þá á hann fé til, ef hann á fjögurra missera fúlgu, sér og ómögum sínum og þeim er hann tekur við, og skal fulla fúlgu ætla hverjum þegar er nokkuð skortir á að vinna sér mat.

Kost á maður hvort sem hann vill, að ganga í skuld við börn sín eða selja þau í skuld ella. Sitt barn skal hver maður fram færa á landi hér. Ef systkin manns þurfu framfærslu, þá skal þau fram færa með verkum sínum, og svo þá menn alla er hann á arf eftir að taka, enda útlagast hann um ef hann órækir, þótt honum sé eigi færður.

2. OF ÞÁ ÓMAGA ER TELJA SKAL FÉ Í MÓTI.

Hinn nánasti niður á fram að færa ómaga, ef firnari er, ef hann á fé til. En þá á hann fé og færi til, er hann á betur en fjögurra missera björg sér og konu sinni og sínum ómögum öllum, þeim er hann leggur fyrir á hverjum misserum sex álnar vaðmáls eða meira, af því að þeir mundu koma ella á hendur honum að dæmingu eða eiðfærslu. Þeim skal hann öllum eiga fjögurra missera björg er svo eru komnir á fé hans, slíka sem búar hans fimm virða ef hann skal þá einn fram færa, ef þeir verða allir fullir ómagar. En ef hann stendur að sumum hluta aðeins til ómaga, og skal að þeim hlut ætla þá. Svo skal og ætla þeim er þá kemur við, eða að þeim hluta er hann á við að taka, ef hann á eigi að öllu framfærsluna. Nú ef þeir ómagar koma á hendur honum síðar, er hann á að ganga í skuld fyrir, þá á hann eigi ger að neyta fjárins en fjögurra missera björg sé eftir, og eigu hinir að hverfa af hendi honum er firnari eru, þótt þeir hefði fyrr komið á féið.

Eigi á maður að færa ómaga á hendur ómaga félausum. En ef ungir menn eru, þeir er eigi hafa varðveislu fjár síns, þá skal maður færa ómaga, hvort sem hann vill að dómi eða með eið, á hönd þeim er varðveislu hefir fjárins, og á það fé er hinn ungi maður á. Sitt eldi á hver maður fram að færa.

3. OF ÞÁ ÓMEGÐ ER HJÚ TVÖ EIGU FRAM AÐ FÆRA.

Ef hjú tvö eru, þá á faðir að færa fram börn sín að tveim hlutum en móðir að þriðjungi. Ef þau hafa gert samlag fjár, þá skal hvort þeirra að þeim hlut færa börnin fram, eða ómaga aðra, sem í fénu á. En þau skulu svo skipta með sér, eða svo búar, að móðir skal hafa þau börn er yngri eru en veturgömul, en skipta síðan að jafnaði. Ef annaðtveggja þeirra fellur frá, og lifi barnómagar eftir, þá eigu börnin að taka slíkan hlut af ómögunum sem þau eigu í fé. En ef það þeirra er eftir lifir vill heldur varðveita ómaga en hætta til hins, þá er þess kostur, og skulu ómagarnir af hinna ungu manna fé neyta svo sem búar virða ef þau verða eigi sátt á.

Ef launbörn eru, þá eigu þau í föðurátt að hverfa til framfærslu þar til er þau eru sextán vetra, en síðan til hins nánasta niðs. Ef sektarómagar eru börn, og eigu þau för í þeim fjórðungi þar til er þau eru sextán vetra, en síðan hverfa til frænda. Nú eru sektarómagar enn börn, þá skulu þeir á för vera, hvort sem það eru erfðarómagar eða arfsals. Rétt er hvort sem hjú skipta með sér ómögum eða búar ef þau orka, en ef þau orka eigi, þá skal þriðjungur ómegðar hverfa í móðurátt, en tveir hlutir í föðurátt. Nú þótt annað þeirra orki en annað eigi, þá á það fram að færa börn er heldur má. Eigi skulu þau meðan færa á hendur öðrum mönnum. En búar fimm skulu skipta við bók, og hluta síðan jafnt í báðar áttir því er hvortki þeirra orkar að færa fram, enda á að þeim hluta hvort þeirra fram að færa sem þau hafa handmegn til, ef hvortki hefir fé til. En þar er í áttir er skipt ómögum, þá skal það skipti halda, hvort sem ómagar andast eða verði meiri ómagar en þá er skipt var. En frændur eigu að ráða hvort þeir vilja hafa þeirra búa til skiptis, eða vilja þeir bíða þar til er ómagar koma þeim á hönd og hafa sína búa til skiptis. En ef þau megu eigi bjarga sér til fardaga, þá eigu þau kost að bíða þess að skiptunum er þau eru þrotin, enda eigu þau kost að láta skipta að fardögum, og skipta fénu með því sem eftir er. En ef einn er ómagi, þá skal skipta svo að allir hljóti um sinn á tólf mánuðum að hafa, þeir er til standa, og svo þó að fleiri sé, ef eigi má skipta í áttir.

Búar skulu hluta hver þeirra fyrst skal hafa eða hver þeim næst, en sá er kvaddi á heim að færa þeim er fyrst hlaut, og segja honum hve lengi hann skal annast eða hverjum hann skal færa. En þá er sá hefir annast sem hann skal, er þeirra hlaut fyrst, þá skal hann færa þeim er næst hlaut. Ef sá vill eigi við taka, þá á hinn kost að færa honum með eið. En ef honum var með eið færður, þá skal hann færa með votta, og svo hver öðrum. Ef hinn vill eigi við taka að heldur, þá skal hann heim hafa með sér ómagann, og heimta fúlgur tvennar, og verður hinn útlagur þrem mörkum. En ef ómaginn verður úti dauður af bjargleysi, þá varðar honum fjörbaugsgarð. Það er stefnusök, og skal kveðja níu búa á þingi. Þeim mönnum öllum skal bjóða að koma til skiptisins á vorþingi, er hlut eigu í ómaganum ef þeir eru sams héraðs, og koma til er sjö vikur eru af sumri. En ef síðar skal skipta, þá skal bjóða til sjö nóttum fyrr eða lengra méli.

Nýmæli: Faðir skal fram færa barn sitt að tveim hlutum en móðir að þriðjungi. En ef þau hafa félag sitt gert, þá skulu þau að slíkum hluta færa fram ómaga hvort þeirra sem þau eigu fé til.

Nýmæli: Ef hjú skiljast, og hafa þau eigi bæði fé að halda sínu skoti upp, þá skal að þeim hluta hvort þeirra fram færa ómagana sem þau hafa fé til. En ef annaðtveggja má færa fram börn sín, og skal-at þeim meðan á brott skipta á hendur öðrum mönnum, enda á að þeim hluta hvort þeirra fram að færa sem þau hafa handmegin til, ef hvortki þeirra hefir fé til.

Ef hjú tvö skulu skipta börnum með sér, þá skal svo skipta að hún hafi það barn þau misseri er brjóstdrekkur er, þótt þau vili skipta annan veg síðan. Ef faðirinn andast fyrr, þá skal móðirin þau börn annast, en erfingjar hans skulu inna henni fúlgurnar. En ef móðirin andast fyrr en faðirinn, og er þar fé eftir, þá á hann þau börn að annast meðan þau eru á ómagaaldri, en erfingjar hennar eigu honum fúlgur að inna, ef hann má eigi einn. Ef þau eru þrotin bæði, þá skal skipta börnum í áttir, og að tveim hlutum í föðurætt en að þriðjungi í móðurætt. Ef annaðtveggja þeirra á betur en sjálfu sér, þá skulu búar virða hve miklu það þeirra orki betur, og skal það leggja til þar sem börnin eru. En að þeim hluta er þau megu eigi, þá skal að tveim hlutum hverfa í föðurátt, en að þriðjungi í móðurátt.

Nýmæli: Rétt er að skipta ómögum frá þeim stað er þeir verða þrotráða, enda er þeim rétt að skipta að heimili sínu.

Ef ómagar verða þrotráða fyrir fardaga, þá skal þeim skipta þegar er þau eru þrotráða.

Nýmæli: Rétt er að skipta ómögum að fardögum, ef þess er von að þau þrjóti þau misseri, og fé með ef er, ef tveggja missera fúlga er eftir eða minna, þeim ómögum er þá eru. Þeim skal til bjóða öllum er hlut eigu í ómögunum á vorþingi ef þeir eru sams héraðs, og koma til er sjö vikur eru af sumri. En ef síðar skal skipta, þá skal bjóða þeim til sjö nóttum fyrir, en búa skal kveðja þrem nóttum fyrir skiptið jafnan, og kveðja frá heimili því er þeir láta skipta ómögunum.

4. OF ÓMAGASKIPTI.

Þeir skulu skipta ómögum við bók, fimm búar. En ef ómaginn er einn, þá skulu þeir skipta svo að þeir hafi allir er til eru komnir þann ómaga um sinn á tveim missarum, en eigi stærrum né smærrum en svo.

Ef búar koma eigi til skiptisins, og eru kvaddir að lögum, þá verða þeir útlagir þrem mörkum. Nú koma búar þrír en griðmenn tveir, þá verður þó rétt skipting þeirra. Sá er kvaddi skiptisins skal beiða búa með votta að skipta ómögunum við bók. Nú ef þeir vilja eigi, þá eru þeir útlagir, enda á dómur að dæma á hendur þeim skiptið fjórtán nóttum eftir vopnatak.

Faðirinn skal skipta láta ómögum, og færa með eið á hendur hinum er hlotið hefir. En ef eigi skiptir faðirinn, þá á sá maður að skipta er hlut á í ómögum, eða sá er vill ella, og skipta til hlutfalla.

5. EF JAFNNÁNIR MENN ERU BARNÓMAGANUM.

Ef jafnnánir menn eru fleiri barnómaganum, þá skal sá er ómaginn er á hönd kominn kveðja heimilisbúa sína fimm til að skipta með þeim, enda skulu búar hluta með þeim hver þeirra skal fyrstur hafa eða þar næst eða efstur. Hann á að færa þeim manni er fyrstur hlaut ómagann, og segja honum hve lengi hann skal hafa, eða hverjum hann skal færa. Eigi skal honum færa oftar með eið hinn sama ómaga en um sinn, og færa að þeim hlut er honum var deildur. Hann skal sér af hendi færa með votta, og svo hver þeirra öðrum er annast þann ómaga. En ef þeir vilja eigi við taka, og varðar þeim útlegð, en hinn skal heim hafa ómagann og heimta fúlgur tvennar að þeim.

Ómaginn skal í þeirri átt vera, þar til er hann er sextán vetra gamall, sem hann var í deildur. Ef misdauði verður ómaganna, þá á þess nyt það að vera er ómaginn var deildur. Færa á maður manni ómaga þá er hann er sextán vetra gamall, þeim er nánastur er, hvergi er áður hafði. Þá er hann af ómagaaldri, og skal fara sem erfð önnur, og færa með eið að heimili hans og segja til lögföstum manni með hver skil þeir hafa fært.

6. OF EIÐFÆRSLUR ÓMAGA.

Svo er mælt að maður á að færa manni ómaga með eið að heimili þess er ómaginn er færður, og fara jafnt með sem með stefnu. Ef menn eru í seljum, og er þar bú allt, þá er rétt að færa þangað ómagann með eið. Ef hann hittir hann í verki úti, og er rétt að færa honum ómagann með eið þar þá, en ef eigi er ómaginn einfær til húss, þá eigu þeir að bjóða að færa ómagann til húss, ef hinn er í verki.

[K: Nú eiðfærir maður ómaga, og er rétt að færa að heimili ef lögfastir menn heyra eða heimamenn þar, eða honum sjálfum ella.]

7. EIÐFÆRING.

Svo skal ómaga eiðfæra að nefna votta tvo eða fleiri „í það vætti, að eg vinn eið að bók [K: að krossi], lögeið, og segi það Guði að eg veit eigi annan mann réttara að færa fram þenna ómaga,“ og nefna hann, „sams héraðs, þann er fé og færi hefir til, en þig, N.“ Sannaðarmenn tveir er fylgja honum skulu slíkan eið vinna, og fela það undir eið sinn „að hinn veit-at annan réttara sams héraðs að færa fram þenna ómaga en þig, N.“ Svo skal vanda sannaðarmenn, með þeim manni er með eið færir, sem stefnuvotta. Svo skal lýsa eiðfærslu sem stefnu, ef eigi færa lögfastir menn. Síðan skal sá er færir ómagann nefna enn votta „í það vætti, að eg færi þér N. N-son, færi eg hann til framfærslu og varðveislu og viðtöku að öllum hluta. Færi eg á fé þitt og á færi,“ eða handmegn hans ella, „færi eg að lögum og felk þér á hendi ábyrgð hans að öllu.“ Og skal á kveða af hverjum rifjum hann færir. Nefna skal föður eða móður bæði ómagans og viðtakandans. Þá skal maður bók hafa, er meiri sé en hálsbók, eða kross ellegar.

Svo skal vanda tíð að eiðfæra ómaga heima í héraði sem til þess að eiga hreppadóm. Eigi skal færa um langaföstu né um löghelgar tíðir, og eigi þær vikur sex, tvær fyrir alþingi, og þingvikur tvær, og tvær eftir þing hinar næstu. Eigi á að eiðfæra ómaga á löghelgum tíðum né um langaföstu, en færa með votta. Færa jafnan þess á milli.

Ef maður vinnur svo eið að hann viti engi skyldra sams héraðs, enda viti hann engi skyldan, þá er sem ófært sé. Kostur er að stefna heiman, og svo að lýsa að Lögbergi eða á vorþingi ef þeir eru samþinga, og er þá frændsemi ef þriðjabræðra er eða skyldara. Ef sá maður finnst, er skyldri er, þá skal hinn lýsa þeim á hönd hvorts hann vill á þingi því eða öðru. Ef hann lýsir á öðru þingi, þá skal hann lýsa til fúlgna með.

Þá er ómaginn er sextán vetra gamall eða eldri, og er rétt þá að færa hann með eið, þótt hann hafi fyrr verið færður, þá er hann var yngri, og skal hann hafa hvorts er hann vill, kross eða bók meiri en hálsbók. Ef menn færa ómaga með eið, og gera menn lið fyrir þá, svo að þeir megu eigi ná að fara með til húss [K: til túns], þá er rétt að færa þar með eið er þeir koma framast. Ef þeir verða svo ofliði bornir, að þeir taka ómagann og færa þeim manni með eið er áður fór með ómagann, þá er hver þeirra útlagur um það þrem mörkum, er í þeirri för var, og á ekki eiðfærsla þeirra að standast.

Nýmæli: Ef hann færir þeim manni ómagann er ekki á fé, þá er svo sem ófært sé. Ef maður færir þeim manni ómagann er engi skuldleik á við, þá er sem ófært sé.

Ef maður færir sinn ómaga sjálfs öðrum manni, þá varðar honum útlegð. Ef sá maður færir manni við eið ómagann er eigi á framfærslu hans, og færir þeim manni er við á að taka, enda lætur hann ganga eiðfærðan ómagann að lögum færðan, þá varðar honum það þriggja marka útlegð. En ef ómaginn verður úti dauður af þeim sökum, þá varðar honum það fjörbaugsgarð, og skal kveðja til níu búa á þingi [K: en fimm til útlegðar]. Hinn á kost að hafa heim ómagann er færði, ef hann vill, og heimta fúlgur tvinnar að honum, og útleggst hann um fram. Hann skal færa þeim manni er nánastur er, þeirra manna er hag á til viðtökunnar, enda er rétt að færa þeim manni er firnari er sams héraðs ómaganum, en sá skal færa af höndum sér ómagann að dómi, á hendur þeim er við á að taka, og heimta fúlgurnar að honum. Rétt er að færa ómagann á hendur erfingjanum þó að hann sé óauðgari en hann eigi fram að færa.

Nýmæli: Með votta skal færa arftökumanni ómaga, en eigi með eið.

En hann á að færa af höndum sér, og hreppsmenn með honum. Ef skilur á með hreppsmönnum, og vilja sumir færa en sumir eigi, þá eigu þeir að ráða er færa vilja. Nú vinna sumir hvortki að [K: og er þá sem þeir níti], þá eigu þeir að ala ómagann er eigi vilja færa hann. Rétt er að færa ómagann á alþingi með eið fyrir dóma, og færa þangað til búðar er sá er í búð er við á að taka, við ómaganum, og færa að rúmi hans eða þar er hann heyrir á sjálfur. Rétt er að færa ómagann að skipi ef sá vill á brott fara er við ómaganum á að taka, og færa að búð ef hinn heyrir eigi á. Rétt er að færa ómagann að fiskiskálum með eið, ef menn eru í fiski.

Ef sá maður á eigi fé til að færa fram ómaga þann er honum var færður með eið, þá á hann að færa af höndum sér að dómi, og kveðja heimilisbúa sína fimm til, hvort hann á fé til að færa fram þann ómaga eða eigi. Rétt er að færa ómaga á vorþingi með eið, ef hann heyrir sjálfur fyrir dóma. Færa má þótt skuldaþing sé fast ef sóknarþing er laust.

Ef maður deyr frá þeim ómögum er honum voru færðir með eið, þá eigu þeir að fylgja arfinum, ef hann var arftökumaður ómaganna, meðan arfurinn vinnst til, og fylgja að þeim hluta sem hann átti arfinn að taka eftir ómagann. Ef eigi er fé til, eða var hann eigi erfðarómagi, þá á sá maður að taka við ómaganum er fé eða færi hafi til, er skylstur sé. Ef hinn er þrotinn, er fram færir ómagann, þá á til síns skuldingja hvor að hverfa. Þar kalla menn ómagamót.

Ef maður tekur að veita skiptingarómögum sínum áður skipt sé, þá á hann það eigi að telja í skiptunum.

Ef erfingi ómagans hefir eigi hag til framfærslu, þá skal sá leggja til af verkum sínum allt það er búar virða að hann má miðla umfram um klæðnað sinn. Eigi skal hinum sama manni færa fleiri ómaga en einn á milli alþinga tveggja með eið, úr einum knérunni, en ef fleiri eru ómagarnir úr einum knérunni en einn, þá skal hann færa þá á hendur þeim mönnum er firnari eru.

Nýmæli: En hann skal færa af hendi sér að dómi, og heimta fúlgur að þeim er fram á að færa ómagann.

Ef maður færir fram annars manns ómaga, og vex hinum fé er fram ætti að færa þann ómaga, þá skal hann heimta fúlgur að honum, slíkar sem hann hefir fyrir hann lagðar, vaxtalausar. Ef ómaga vex fé, eða ber undir hann, þá á hann að heimta fúlgurnar að honum, slíkar sem hann hefir lagðar fyrir hann, ávaxtalausar. Eigi á hann það fé í erfð ómaga að heimta, ef hann vildi eigi heimta að honum sjálfum meðan hann lifði.

Hvar þess er maður á eigi hag til að færa fram ómaga þann er á hönd honum er kominn, þá skal hinn nánasti niður hann fram færa. En ef fé ber undir hann síðan, eða vaxa honum fé, þá á hann að taka við ómaga, en hinn á að heimta jafnmikið fé að honum sem hann lagði fyrir ómagann, ávaxtalaust, og eigi sá arf að taka eftir ómagann er fyrri hafði. Ef óskyldri maður verður til en erfingi, og á sá við að taka þá, en eigi á hinn að heimta fúlgur af þeim. Ef fé ber undir ómagann, og á sá maður að heimta fúlgur að honum er hann færir fram, slíkar sem hann hefir fyrir hann lagt, vaxtalausar.

8. LÝSA AÐ LÖGBERGI TIL FRAMFÆRSLU.

Svo er mælt að lýsa skal á þingi til framfærslu ómaganum á hendur arftökumanninum, og á hann að kveðja til búakviðar hvort hann sé arftökumaður ómaga þess eða eigi, eða hvort hann sé hans ómagi eða eigi, og kveðja heimilisbúa fimm til síðan, þess er á hendur er lýstur. Þann ómaga skal dæma á hendur honum nema hann fái sér bjargkvið, og skal hann kveðja sér bjargkviðar heimilisbúa sína fimm, hvort hann eigi fé eða færi til að færa þann ómaga fram.

Nú ef það ber kviður að hann á eigi fé eða færi til að færa fram þann ómaga, þá á sá er lýst hefir að kveðja heimilisbúa hans fimm, hvort hann megi að nokkurum hluta færa fram ómagann eða engum. Hann skal að slíkum hluta fram færa ómagann sem kviður ber hví hann orkar. Sá skal kveðja honum bjargkviðar er á hendur honum lýsti, ef eigi vilja aðrir.

Nýmæli: Nú ef þar ber auðn, þá skal lýsa á hendur frændanum, þeim er hann hyggur að fé eigi til.

9. LÝSING.

Sá maður er ómagasök vill lýsa, hann skal nefna votta að Lögbergi „að því vætti,“ skal hann segja, „að eg lýsi sök N., ómagasök. Lýsi eg til varðveislu og viðtöku og framfærslu að öllum hluta,“ og er rétt að lýsa að sumum hluta ef það vill heldur, og skal nefna þá báða, þann er á hendur er lýst og svo ómagann, og svo feður þeirra beggja eða mæður. „Lýsi eg sök þessa til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsi ég löglýsingu í heyranda hljóði að Lögbergi, og til sóknar fullrar í sumar.“ Hann skal spyrja að þingfesti og heimilisfangi þess er hann sækir, og skal hann lýst hafa og kvatt gagna til á hönd þeim manni er hann sækir fyrstan, fyrr en dómar fari út til saka. En þá síðan er hann hefir lýst ómagasök á hönd manni, þá skal hann segja honum með votta. Nú er sá eigi á þingi, og skal hann þá segja goða þeim er hann er í þingi með.

Nýmæli: En ef hann veit eigi það, þá skal hann segja héraðsmönnum hins.

Nú veit hann eigi það, þá skal hann segja fjórðungsmönnum hins, og skal sagt vera áður dómar fari út til saka, ella er ónýt sökin. En ef þar er sá maður á þingi er sóttur er, og þarf eigi sækjandinn þá að kveðja kviðar til þess.

Maður skal telja frændsemi að dómi með ómaganum og þeim manni er hann er lýstur á hendur, og hefja upp að bræðrum eða systrum eða systkinum, og telja síðan knérunnum til þess er þar kemur er þeir eru. Síðan skal hann nefna votta að því að hann leggur það undir þegnskap sinn að sú er frændsemistala sönn og rétt er hann taldi á milli þeirra N. og N. Hann skal hafa sannaðarmenn tvo. Þeir skulu það leggja undir þegnskap sinn, að þessi er frændsemistala rétt og sönn á milli þeirra sem þá taldi hann. Þá skal dæma þann ómaga á hönd honum, nema hann fái lögvörn fyrir sig, en sú er lögvörn ef það ber kviður að hann á eigi fé til, en sú er önnur lögvörn ef hann fær skyldra mann til, þann er fé eða færi á til, og skal hann lýsa þá þegar á hendur þeim manni, en hafa ómagann sjálfur ef hann festir eigi hisig framfærsluna.

Þar skal maður taka undir ómagalýsing, er áður er borinn kviður með hinni fyrri sökinni eða handsöluð er viðtaka fyrir þá sök. Ef sækjandinn veit eigi heimili þess er hann sækir um ómagasök, enda skyli sækjandi kveðja búa til, þá skal hann kveðja frá heimili ómagans. Nú veit hann eigi það, þá skal hann kveðja frá sínu heimili.

Ef í sinn dóm er sóttur hvor þeirra, arftökumaðurinn og sá er til handa horfir ómaginn, þá skal það vætti bera fram að dómi þeim er sá er sóttur í, er síðar var á hendur lýst, er nefnt var að þá er færileysi bar arftökumannsins.

Nýmæli: Þar er konu er á hönd lýst ómagasök, og skal búandi hennar kveðja henni bjargkviðar, ef hann er á þingi. En sækjandi skal segja honum til þá er hann hefir lýst. En ef búandi konu er eigi þar á þingi, þá er ómagasök er lýst á hönd henni, og svo þar er karlmaður sá er eigi á þingi er á hönd er lýst, þá skal sækjandinn bjóða goða þeim, er sá er í þingi með er sóttur er, að hann kveði honum bjargkviðar. En goði skal kjósa hvort hann vill kveðja eða eigi, svo að sækjandi fái kvatt áður dómar fari út til saka.

Þá er sækjandi skal kveðja þess kviðar hvort maður á fé og færi til að færa ómaga fram, þá skal hann kvatt hafa áður dómar fari út jafnan, og er það þá sóknarkviður. En ef aðrir menn kveðja þess kviðar, þá skulu þeir að dómi kveðja, og svo fremmi er til varna er boðið áður, og er það þá varnarkviður. En ef þar ber auðn um þann mann er á hönd var lýst áður dómar færi út, og skal lýsa til framfærslu meðan dómar eru úti, enda þarf þá eigi að segja til þess. Hver skal þá þó sig ábyrgjast, en þó skal sækjandi kveðja kviðar ef eigi vilja aðrir. Þar er vanefni ber, enda vili hann eigi færa meir til staðar, þá skal færa hver til staðar er vill.

Nýmæli: Þar er maður lýsir sök til ómagaframfærslu, hann skal lýst hafa áður dómur fari út til saka. Nú er eigi sá á þingi er á hönd var lýst, þá skal hinn ganga til búðar þar er hreppsmenn hans eru í búð, og segja þeim með votta, einum ef ein er lýsing. Nú veit hann eigi, þá skal hann segja til goða þeim er sá er í þingi með er sóttur er. Nú spyr hann að þingvist hans að lögum, og getur hann eigi spurt. Þá skal hann segja héraðsmönnum hans, og þess héraðs er samþinga er. Nú vilja þessir menn eigi kveðja bjargkviðar, þá skal sá er sækir.

En ef sá er á þingi er á hönd er lýst, þá er sækjandi eigi skyldur að kveðja. Segja skal maður með votta, þeim manni er hann hefir ómagasök á hönd lýsta, ef hann er á þingi, og á hann þá kviðar að kveðja ef hann vill, en eigi sá er með sök fer.

10. OF VANEFNI.

Þar er vanefni berast, þess manns er á hönd er lýst, enda vill hann eigi meir færa til staðar, þá skal færa hver til staðar er vill. Nú vill engi maður færa til staðar ómagann, þá á að dæma framfærslu ómaganum, slíka sem hann hafði áður. Ef engi kemur vörn fram fyrir hann, þá á að dæma á hendur honum, og í þann hrepp er hann er í, en þeir skulu hann hafa hreppsómaga þau misseri, en að sumri eigu þeir að kveðja honum bjargkviðar.

Nú ef það ber kviður að vanefni mundi bera hið fyrra sumarið ef þá væri kvatt bjargkviðarins, og á þá dómur að dæma hina sömu framfærslu ómaganum sem hann hafði áður, og hverfur þá af hendi honum. Ef þeir menn eru samfjórðungs er ómaginn er dæmdur á hendur, og hinir er áður hafa, þá skulu þeir færa ómagann, er áður höfðu, þangað til þess manns er á hendur er dæmdur. Ef maður gerir eigi við að taka við dæmdum ómaga sams fjórðungs, og varðar það fjörbaugsgarð, og er þegar rétt að stefna um, er reynist, för ómagans.

Nýmæli: Rétt er að maður færi dæmdan ómaga í annan fjórðung [K: innan fjórðungs] ef hann vill, og varðar slíkt sem áður var tínt, ef eigi er við tekið, og jafnan varðar fjörbaugsgarð ef maður lætur ganga dæmdan ómaga.

Ef ómaginn er utan fjórðungs, þá skal á kveða að dómi hvert hann skal sækja ómagann. En hann skal þangað sækja ómagann, og hafa hann á brott færðan er átta vikur [K: sex vikur] lifa sumars eða fyrr. Nú vill hann eigi eftir koma svo, þá skulu hinir hafa ómagann þau misseri, er áður höfðu, og heimta fúlgur tvennar að honum. Þeir skulu stefna um fé það hið næsta sumar eftir, miðvikudag í mitt þing, og stefna hvort sem hann vill í bænda kirkjugarði eða að Lögbergi, og telja varða útlegð. Hann skal kvadda hafa heimilisbúa ómagans [K: heimilisbúa sína] fimm til áður hann stefni, að virða við bók hverrar fúlgu ómaginn þyki verður þau misseri. Búar skulu þar virða fúlgur ómagans tvennar, en hann skal nefna votta og stefna síðan. En síðan er sök er fram sögð og stefnuvætti borið, þá skal hann láta bera fram vætti þau er hann nefndi að virðingu búanna, og þau önnur er nefnd voru að dómsuppsögu hið fyrra sumar, þá er það var dæmt að hann skyldi taka við ómaga eða eftir fara.

Ef ómagi verður dæmdur á hönd manni utan fjórðungs, enda komi hann eigi eftir sem mælt er, þá verður hann útlagur þrem mörkum, og skal hann gjalda fúlgur, en eigi útleggst hann. Svo og ef hann getur þann kvið að hann hafi eigi spurt á því méli, þá er enn hið sama. Ef hann á eigi hag til, þá varðar honum ekki. En ef hann kemur eigi eftir annað sumar, þá varðar honum fjörbaugsgarð, nema honum sé rangt til vísað, þá varðar honum ekki. Nú skal fé það dæma annað sumar að gjalda miðvikudag í mitt þing, í bónda kirkjugarði með álögum og með leigum. Þess á hann og kost að hafa ómagann til þings ef hann vill, og færa hann þangað til búðar er sá er í búð er við ómaganum á að taka, og færa honum með votta ef hann er á þingi. En ef hann er eigi þar, þá skal hann færa á hendur hreppsmönnum hans með votta, og þangað til búðar sem þeir eru flestir í, og mæla svo að „eg færi yður af því að þér eruð í einum hrepp allir“. Nú eigu þeir heim að hafa ómagann, og heimta kostnað sinn að þeim er ómaginn er á hönd dæmdur. Nú hefir hann eigi til þings ómagann, þá skal hinn koma eftir, fjórtán nóttum eftir vopnatak. En ef sá kemur þá eigi eftir, er ómaginn var dæmdur á hönd, þá skal hann nefna votta að því, en síðan stefna þar þegar og telja varða fjörbaugsgarð.

Engi maður á að hafa ómaga sinn til alþingis og láta biðja matar þar, en ef hann hefir, þá varðar fjörbaugsgarð. Engi maður skal láta sitja eftir ómaga sinn á alþingi er hann fer á brott. Nú ef hann lætur eftir sitja ómagann, þá varðar honum fjörbaugsgarð. Ef annar maður flytur eða færir ómaga manns til alþingis, og gengur hann þar og biður matar, þá varðar honum fjörbaugsgarð.

Engi maður skal gefa mat göngumönnum hér á þingi, eigi skulu menn búðir sínar láta opnar standa til þess of matmál. Nú koma göngumenn inn þar of matmál og biðja matar. Þá eigu þeir er búð eigu að fá menn til að færa þá út, en þótt þeir sé allhart út færðir, þá eigu þeir ekki á sér, ef ekki er örkumbl gert að þeim. En ef menn gefa þeim mat, þá varðar þeim fjörbaugsgarð. [Þeim varðar og fjörbaugsgarð] er búðina á ef hann fær eigi menn til að færa þá út. Búðir göngumanna allra eru óhelgar við broti, þeirra er biðja matar á alþingi. Nú vilja menn verja búðir, þá varðar það hverjum þeirra fjörbaugsgarð, enda falla þeir allir óhelgir er fyrir standa ef á þeim er unnið. Ef göngumenn hafa fé með að fara, þá á að taka af þeim gervallt, ef menn vilja. Ef menn ljá göngumönnum fjár síns eða selja að leiga til þings upp, enda verði féið tekið af þeim, þá er eigi heimting til þess fjár. Til þess eins fjár eigu menn heimting, þótt af göngumönnum sé tekið, er þeir hafa stolið, eða þess annars er svo kom í þeirra för að þess ráð fylgdi eigi er fyrir átti að ráða.

11. OF ÞAÐ EF MENN FÆRA ÓMAGA SÍNA Í AÐRA HREPPA EÐA HLAUPAST FRÁ ÞEIM.

Ef maður skýtur niður ómaga sínum, eða færir í hrepp annan en ómaginn eigi að vera, það varðar honum þriggja marka sekt.

Nýmæli: Ef maður hleypur í annan hrepp frá ómögum sínum, þá varðar honum fjörbaugsgarð, og á landeigandi sök þá eða hreppstjórar, en þá sá er vill ef þeir vilja eigi.

Hreppsmenn skulu eigi láta ganga ómaga, þeir skulu færa honum þann ómaga. Ef maður hleypur úr þeim fjórðungi frá ómögum sínum, eða færir hann ómaga sinn í annan fjórðung en ómaginn eigi að vera, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og eigu hreppsmenn sakir þær. Svo og ef hann hleypur af landi á brott frá ómögum sínum, og varðar honum það fjörbaugsgarð.

Nýmæli: Ef manni verður grunur að því að hann vill hlaupa af landi á brott frá ómögum sínum, þá á hann kost að verja honum lýriti förina, hvort sem hann vill að Lögbergi eða að skipi. Hann skal verja stýrimönnum löglýriti að ferja hann á brott frá ómögum sínum, þeim er hann er til kominn, og svo hásetum. Stýrimönnum varðar fjörbaugsgarð farning ef þeir ferja, og spyri þeir lýritarvörslu hans. En hásetum varðar útlegð. Ef ómaginn situr strandsetri eftir er þeir fara á brott, þá varðar þeim farning hans jafnt sem lýriti sé varið, ef þeir vitu að sá maður er þess manns ómagi er með þeim fer, þótt þá sé eigi lýriti varið.

Ef maður tekur ómaga og felur fyrir þeim er á brott vildi hafa, þá ræður hann sér á hendur ómagann meðan hann á fé til og hann spyr til hans lifanda.

Ef þeir menn leggja eigi orð í er til ómaga standa, þá er hann fer í brott, og verði þeir varir við, þá ráða þeir sér á hönd ómagana meðan hann er á brott.

Ef maður hefir fólgið ómaga sinn inni hér, enda fari hann á brott af landi er ómagann á, þá á sá að hafa ómagann, er við hefir tekið, sex misseri ef hann heldur eigi vörð til er hinn fer í brott. Maður skal fela ómaga sinn sex misseri inni, þá fer hann að ósekju á brott.

12. OF ÓMAGASKIPTI MEÐ MÖNNUM.

Ef þeir eigu tveir ómaga saman, og eru þeir báðir í einum fjórðungi, þá eigu þeir að færa ómaga þann sín á meðal. Ef þeir menn eru í tveim fjórðungum er ómaga eigu saman, þá skulu þeir svo skipta, að annar þeirra skal hafa tvö misseri eða lengur.

Ef ómagar eru fleiri en einn, enda sé þeir menn eigi allir í einum fjórðungi er fram eigu að færa ómagana. Nú skal sá er skil vill á gera kveðja heimilisbúa sína fimm til á þingi að skipta þeim ómögum á milli þeirra, en þeir eigu að hluta síðan ómagana á milli sín að Lögbergi.

Nýmæli: Ef ómaginn er eigi fær á milli héraða, þá skal hann kveðja heimilisbúa sína fimm til á þingi að virða þann ómaga á milli þeirra, hvers verður þyki að taka þann ómaga að alda öðli. En það fé skal eindaga á hendur þeim að gjalda annað sumar í búanda kirkjugarði, miðvikudag í mitt þing. En þá er ómaginn eigi fær milli héraða, ef hann má eigi fara fullum dagleiðum.

Ef þeim þykir féið of mikið gert er utan fjórðungs er, þá á hann kost að sækja ómagann, og heimta féið að slíkum máldögum sem áður var mælt. Ef ómaginn andast brálla, þá skal sá reiða fé slíkt sem fimm búar hins virða, ef hann þykir vanhaft hafa. Ef menn eigu saman ómaga, og andast hann, og skal það vera allra þeirra nyt.

13. OF LEYSINGJAFRAMFÆRSLU.

Sinn leysingja á hver maður fram að færa, nema hann eigi sér björg eða börn skaparfa, son eða dóttur, þann er megi hann fram færa. Þess á hann kost, ef leysinginn kemur á hendur honum, að taka börnin í jafnmikla skuld sem hann leggur fyrir ómagann, hvort sem hann vill fleiri eða færri, ef til eru. Á þeim tólf mánuðum skal það gera, er leysinginn kemur á hendur honum. En að slíkum hlut skal hann fram færa leysingjann sem hann gaf frelsi til.

14. EF TVEIR MENN EIGU ÓMAGA SAMAN.

Ef tveir menn eigu ómaga saman, og vill annar fara af landi á brott. Nú sá þeirra er skil vill á gera, þá skal hann kveðja heimilisbúa sína fimm, að virða hvers ómaginn þyki verður að hafa að alda öðli hér á landi. Sá þeirra skal kjósa er hér á landi vill annast ómagann. Nú vilja þeir báðir hér á landi annast ómagann, þá eigu þeir að hluta með sér hvor þeirra annast skal. En þar skal féið eindaga á fjórtán nátta fresti þaðan frá er þeir hlutuðu, að þess þeirra [K: þeirra heimili] er ómaginn hlaust til handa.

15. EF MAÐUR SELUR ÓMAGA TIL FRAMFÆRSLU.

Ef maður selur ómaga til framfærslu og finnur fé með, en annar tekur við, og á það að halda með þeim. En ef það ber kviður að ómaginn sé seldur til þrots, þá skal hinn tekið hafa sér til handa, en eigi erfingjum sínum. Ef maður selur ómaga til framfærslu og finnur meira fé með en erfingjum hans líki, þá skulu þeir segja ósátt sína á fyrir fimm búum, og á þingi hið næsta sumar, og stefna til rofs máldaganum, og kalla arfskot. Nú ef arfskot berst, og á þá eigi að halda. En ef þeim þykir of lítið féið tekið, er erfingjar eru þess er við tók, þá skulu þeir hafa að hið sama, en ef þeir leggja ekki orð í hvorigir, þá skal haldast máldaginn.

16. EF MAÐUR TEKUR ÓMAGA ARFTAKI.

Ef maður tekur ómaga arftaki, þá skal það hvar þess halda er jafnmæli berst. Nú þykir erfingja hins er tekið hefir eigi jafnmæli, þá skal hann segja ósátt sína á þegar er hann fregn, og lýsa að Lögbergi, og á að rofna málið.

Ef maður selur ómaga af hendi sér með fé, enda verður lýstur á hendur honum sá ómagi síðar, þá má hann eigi það hafa til varnar fyrir sig annan veg, en sækja þann um er féið hafði með tekið til framfærslunnar, eða þá er við eigu að taka, ef sá er frá fallinn.

Ef maður tekur ómaga arftaki, þá skulu heimilisbúar þeirra fimm gera jafnmæli með þeim við bók, þar er maður finnur sjálfur féið. Enda skal annar þeirra vinna eið fyrir búunum, að því að búar viti þar allan máldaga þeirra. Ef ómaginn á bú, og skal hann bregða því og fara heim með hinum, enda skulu engi lausakjör á vera. Því aðeins er arfsal fast ef svo er með farið sem nú var tínt. Ef ómaginn er seldur til þrots, og ræður-at sá sínum erfingjum á hendur þann ómaga, þótt hann taki við.

17. EF ERFINGI ÓMAGA ER ERLENDIS.

Ef sá maður er erlendis er erfingi er ómagans, þá skal hann lýsa á hönd honum til framfærslunnar, og kveðja til tylftarkviðar þann goða er í gegn gengur þingfestinni, eða þann ella er hann er í þingi með sjálfur, og kveðja um það hvort hann sé arftökumaður ómagans, eða hvort hann sé hans ómagi, eða sé hann eigi. Nú ber það að hans ómagi sé, þá skal hann beiða um það tylftarkviðar, hvort hann mundi hag eiga til að færa fram þann ómaga eða eigi, ef hann væri hér á landi með þau auðæfi er hann hefir til. En ef það ber kviður að hann mundi hag eiga til að færa fram þann ómaga, ef hann væri hér með þau auðæfi er hann hefir, þá á dómur að dæma á hendur þeim manni er nánastur er út hér, hinum er ómagann á fram að færa, þó að sá eigi ekki við ómagann, þeirra manna er fé eða færi á til.

En ef hann lýsir til framfærslu ómagans á hendur arftökumanni þess er erlendis er, þá skal tylftarkviður skilja hvort sjá eigi arf að taka að þann er austur er eða eigi. En ef hann lýsir firnara manni á hendur, þá skal hann telja frændsemi á milli þess er erlendis er, og hins er ómaginn horfir til handa, og skulu það þrír menn leggja undir þegnskap sinn að sú er frændsemistala sönn á milli þeirra, er þá hafa þeir talið.

18. EF MAÐUR ER EIGI SAMLENDUR ÓMAGA, OG Á HANN HÉR FÉ.

Ef sá maður á fé út hér er ómagann á fram að færa, þá skal sá maður er ómagann hefir stefna þeim manni er fé það hefir að varðveita hér á landi, og stefna um það féið er hinn á, er erlendis er. Hann skal kveðja heimilisbúa fimm til þess er sóttur er á þingi, en þeir skulu bera hvort þar sé það fé undir honum eða eigi, eða hve mikið það fé er þar, enda á það dómur að dæma hinum til fúlgnanna, svo mikið sem til telst. En ef ekki er féið út hér, þá skal hann heimta fúlgurnar að hinum, síðan er hann kemur út, með vöxtum.

19. UM LEYSINGJA.

Ef maður vill færa leysing til staðar, þá skal hann lýsa á hendur frjálsgjafanum, ef hann lifir, en ella á hönd þeim manni er nánastur lifir frjálsgjafanum arfgengra manna. Hann skal beiða búakviðar að bera um það hvort hinn gaf honum frelsi eða eigi. Ef hann sækir arftökumann frjálsgjafans til framfærslu ómagans, þá skal skilja búakviður hvort hann ætti arf að taka að frjálsgjafann eða eigi. En ef hann sækir firnara mann, þá skal telja frændsemi á milli frjálsgjafans, og þess er á hendur er færður ómaginn. Hann skal beiða sér bjargkviðar heimilisbúa sína fimm um það hvort hann hafi fé eða færi til að færa fram ómagann eða eigi, og svífur þá af honum ef vanefni berast.

Sá er annar kostur til, að hann skal beiða bjargkviðar um það hvort hann gaf sínum mansmanni frelsi, eða gaf hann eigi. Nú ber það kviður að hann gaf annars manns mansmanni frelsi, en eigi sínum. Þá á dómur að dæma af hendi honum, en eigi ella.

Þann á hann hinn þriðja kost, að beiða bjargkviðar um það að bera hvort hann keypti hann til frelsis eða eigi. Nú ef það ber kviður að hann keypti hann til frelsis, og galt hinn meira hlut verðsins, þá dæmist hann af hendi honum og á hendur þeim er verðaura átti að taka fyrr af honum [K: taka fyrir hann af honum].

20. UM ÚTLENDA ÓMAGA.

Ef sá maður verður að ómaga er engi á frænda hér á landi, þá skal lýsa hann á hendur þeim manni er hann vill, og á hendur fjórðungsmönnum. Hann skal kveðja til tylftarkviðar þann goða er sá er í þingi með, er að var nefndur, að bera um það hvort hann varð þrotráði í þeim fjórðungi eða eigi. Nú ber kviður það að hann varð þar þrotráði í þeim fjórðungi. Þá á að dæma á hendur þeim fjórðungsmönnum öllum.

Ef maður kaupir mansmann til forverks sér, og á hann þann fram að færa ef að ómaga verður, og svo á sá í hans átt að hverfa.

21. EF MENN FERJA ÓMAGA HINGAÐ TIL LANDS.

Ef maður fer þann mann út hingað, er hann fær sér eigi mat tvö missari með það heilindi er þá hafði hann er hann tók við honum, þá ræður hann þann ómaga sér á hendur, og skal lýsa á hendur honum og kveðja til tylftarkviðar að bera um það hvort hann hefir farðan út þann ómaga eða eigi. Nú ef það ber kviður að hann hefir farðan út þann ómaga, þá á að dæma á hönd honum. Nú eru þeir fleiri stýrimenn en einn, þá skulu þeir svo hafa þann ómaga sem þeir áttu í skipi til, nema þeir fái lögvörn fyrir sig. En þeir eigu að kveðja heimilisbúa sína fimm til að bera um það, hvort þá skylda lög til að hafa út þann ómaga eða eigi, eða þeir yrði út að flytja þann ómaga fyrir ofríki konungs eða annarra ríkismanna, eða svo ef hann hugði að hann ætti fé út hér ómaginn. Og nú ef þeir fá þenna bjargkvið nokkurn, er nú var taliður, þá kemur eigi ómaginn þeim á hendur, og skal hann þá hverfa í þann fjórðunginn til framfærslu er höfn sú er í er þeir menn settu skip upp er ómagann færðu út, eða báru flestir föt sín af skipi, ef þeir fara tvívegis. Ef frændur ómagans koma út síðar, eða finnast hér nokkurir þeir er hag eigu til að færa fram þá ómaga, þá skal þeim á hönd færa.

Ef menn selja ómaga sína af landi héðan, og eigi við verði, enda verði þeir ómagar færðir út hingað síðan, þá verða stýrimenn jafnskyldir til framfærslu þeirra manna sem áður var tínt um þann mann er þeir ferði út hingað frændlausan hér, og slíkar varnir eigu þeir allir fyrir sig, en engar aðrar.

Nú ferja þeir þann mann út hingað er þeir vitu eigi hér skyldri frændur ómaganum, þá er fé hafi til framfærslu hans, heldur en í þess konungs veldi er þeir færðu ómagann úr. Þá varðar enn stýrimönnum slíkt hið sama um framfærslu þess ómaga sem áður var tínt, og slíkar varnir eru þar til allar.

Ef maður selur ómaga sinn af landi, og verði hinn afturreki er við tók, þá skal sá við taka þann vetur er seldi, og varðveita. En ef dvelst brautferð hins er við tók, annaðtveggja að hann andast eða þrýtur hann að fé, þá á hinn að taka við er seldi ómagann, og heimta féið ef eigi er eytt. En ef eytt er, þá hefir hann ekki nema ómagann.

22. UM ÓMAGA.

Eigi á að ferja þann ómaga út hingað nema hér sé erfingi hans. Ella ræður úthafnarmaður sér á hönd, og skal færa með eið eða að dómi. En hann skal beiða goða þann bjargkviða allra, er hann er í þingi með. Þann bjargkvið eigu stýrimenn um þessa ómaga þrenna, ef þeir tóku svo við þeim erlendis að erfingi ómaganna, sá er fé hafði til framfærslu, var áður á skip kominn, það er út hingað bjóst, og þeir vildi honum þann ómaga færa en eigi öðrum.

23. EIGI SKAL MAÐUR SELJA ÓMAGA SÍNA AF LANDI BROTT.

Hvortki skal maður selja af landi brott föður sinn né móður, og eigi konu sína, og eigi börn sín, né sitt kyn ekki, nema lestir þeir sé að þeim að þau sé verði að verri, ef þau væri mansmenn, fyrir ókostum sínum. Eigi skal löstu virða við þau áður þau eru sextán vetra gömul. En ef maður selur, þá varðar það fjörbaugsgarð, og skal stefna heiman og kveðja til níu búa á þingi. Selja á maður óskyldri menn af landi, og eigi við verði.

Ef maður fæðir barn öðrum manni og tekur til fósturs, og skal hann það barn fæða þar til er það er sextán vetra gamalt. En ef barni verða lestir áður það er sextán vetra gamalt, þá skal féið aftur ganga leigulaust, og telja jafnt til hvers vetrar innstæðann. En ef hann skýtur heim barninu frá fóstri, þá skulu þau auðæfi öll fylgja heim er hann hafði viður tekið. Ef hann hafði honum lið veitt, og tók hann af því að fæða honum barn. Nú lætur hann barnið heim fara, þá skulu búar það virða hvers það þykir vert. Ef maður hefir tekið til liðs barn að fæða, og skýtur heim, þá skal hann án vera liðið. Ef hann launar liðið barnfóstri, enda skýtur heim barni af fóstri, þá skal hann gjalda jafnmikið fé sem búar virða að liðið væri vert.

Ef maður tekur barn brott frá fóstri, sá er á, þá skulu eftir auðæfin öll, þau er þangað fylgdu, nema búar beri það að barni væri eigi vært að fóstrinu, þá skal allt rakna féið það er með var fundið.

Ef annaðtveggja andast, fóstri eða fóstra, þá á það þeirra að annast barn er eftir lifir, ef vill, með þau auðæfi er þá eru eftir. Ef erfingjar þess manns lifa eftir er barn tók til fósturs, þá eigu þeir að hafa með þeim auðæfum er þá eru eftir, ef þeir vilja. Nú vilja þeir láta heim fara barnið, þá eigu þeir að telja til hvað launað er, eða hvað eigi. Ef hinn vill taka á brott barnið er á, þá er þau eru önduð, þá eigu búar það að virða hvað launað er, eða hvað eigi. Ef barn verður vanheilt að fóstrinu, þá eigu þeir að færa heim barnið, og eigu búar að virða hvort neytt sé sums fjárins eða sé alls neytt.

24. UM SKÓGARMANNA EÐA FJÖRBAUGSMANNA BÖRN.

Skógarmanna eða fjörbaugsmanna börn og ómagar skulu fara um fjórðung innan, þeir allir er þeir áttu arf eftir að taka, of þann fjórðung hver sem féránsdómurinn var í áttur.

Barn skal hverfa í föðurátt, hvergi maður er sátt handsalar. Ef faðir handsalar faðerni að barni, þótt hann sé óauðigur, og svo þau börn öll er áður eru í kviði móður áður samgangur hjóna er ger, þar til er þau eru sextán vetra gömul.

25. UM GJÖLD UM KONU.

Maður á að taka gjöld um konu þá er hann hefir fram færða í æsku, ef legið er með henni, en frændur eigu sökina. Svo skal hann heimta af sakaraðiljanum sem annað fé.

Ef maður lætur ómaga sinn eftir á alþingi varðveislulausan, þá varðar honum þrjár merkur ef hann er innan fjórðungs, en fjörbaugsgarð ef hann er firr, og á sá maður sök þá er þar býr. Eigi á maður að færa né ráða ómaga sinn til alþingis, þann er bitum biði þar, og skal eigi hross ljá þeim er til þess fer. Ef það er gert, þá varðar fjörbaugsgarð.

Það varðar fjörbaugsgarð ef maður selst arfsali frá ómögum þeim er á fé hans eru komnir, og svo frá þeim er hann hefir fé með tekið, og svo frá þeim ómögum er eigi eru á fé hans komnir, og nú mun eg telja: Móðir og faðir er þar, og börn hans og systkin hans og þeir menn allir er hann á arf eftir að taka og leysingi manns, sá er hann gaf frelsi. Það er fjörbaugssök um alla þá ef þeir eru vistlausir. Það eru allt stefnusakir, og skal kveðja til níu heimilisbúa þess er sóttur er.

26. OF FÓSTURLAUN.

Nú er hinn ungi maður kominn að framfærslu á hönd öðrum mönnum en erfingjum sínum, enda beri fé undir hann síðar á nokkura lund, þá á sá maður heimting til síns við hann, er fé hefir fyrir hann lagt, eða þess erfingi, og skulu þeir vaxtalaust það heimta að honum. Nú ber fé undir hann áður hann er sextán vetra, og skal hann þá sinna aura neyta, og neytt hafa ef til beggja vinnur. En til þess skal fyrr hafa sem neytt er, en hins er fyrir höndum er, ef eigi vinnur til beggja.

Nýmæli: Ef maður færir ómaga fram, og beri fé undir hann, eða eigi hann fé og hafi leynt, þá skal hann beiða hann með votta að hann seli honum fjárheimting á hönd þeim mönnum er hann á fé undir. Nú vill ómaginn eigi selja honum fjárheimtuna, þá á hann þó að heimta undir sig jafnmikið fé sem hann leggur fyrir ómagann, og verður hann þó aðili þeirra saka. Nú býður ómaginn að selja sök þeim manni er eigi er þingfær, eða konu, en hann vill eigi öðrum selja. Ef þau færa hann fram, og er þá sem hann syni, og eignast hann þá aðildina. Slíkt hið sama er og ef sakir þær ber undir hann er hann á fébætur að taka.

27. OF FÓSTURLAUN

Þar aðeins eigu menn að heimta fósturlaun eða réttafar um þá menn er þeir hafa fram færða, er þeir hafa nokkurs kostar lögskyldir til verið að færa þá fram, er á þeirra framfærslu hafa verið. Að þeim má og heimta fósturlaun eða réttafar, er lögskyldir hefði verið til framfærslu þeirrar ómegðar er hinir hafa fram fært, ef þeir hefði fé til. En hvergi má heimta fósturlaun né réttafar að þeim mönnum er eigi voru skyldir til framfærslu ómegðar. Hvar þess er aðildir saka ber undir þá menn er eigi voru skyldir til framfærslu ómaga, þá eigu þeir það allt er á fæst um réttafar þeirra mála.

Ef maður færir meybarn fram af því að hann er skyldur til, og þeygi sinn ómaga, enda beri svo að, að réttafar þurfi að taka um konu þá, og skal þá sá maður taka er hana færði fram, jafnmikið fé af réttafari hennar sem hann lagði fyrir hana, ávaxtalaust, ef sá maður er sakaraðili eða hans erfingjar, er framfærsluna hennar ætti að hafa. En ef sá maður er sakaraðili, þá er konunni hlekkist á, er eigi hafði átt framfærslu hennar í barnæsku, og má ekki heimta undan þeim manni réttafar konunnar.

Nú hefir maður sveinbarn fram fært í æsku, enda verði sá maður veginn síðan. Þá skal enn sá maður taka jafnmikið fé af vígsbótum sem hann lagði fyrir hann, ávaxtalaust, ef bætur horfa undir þá menn er framfærslu höfðu átt, eða þeirra erfingja. Þótt maður færi fram eldri menn, karl eða konu, í barnæsku, enda berist réttafar síðan um þá menn, þá skal maður jafnt þar sitt heimta sem áður var tínt um hina ungu menn.

Nú eru þeir menn andaðir er þann mann færðu fram er réttafar barst um, og eigu erfingjar hinn sama kost allan sem hinir áttu sjálfir. En ef erfingi er eigi fulltíði, þá á fjárvarðveislumaður hans. Nú er erfingi af landi farinn, en hinn andaður er fé lagði fyrir þann mann er réttafar berst um, þá á sá að heimta er hann er arfi næstur. Nú leggur sá fyrir þann mann fé er hann er eigi lögskyldur til, og má hann því aðeins þar fósturlaun heimta ef hann lýsti því fyrir búum sínum.

28. NÝMÆLI UM FRAMFÆRSLUR.

Þar er maður færir fram þann ómaga er hann er lögskyldur til, og hafi hann eigi gefið ómaga það fé er hann lagði fyrir hann, og græði ómaginn fé síðan, eða beri fé undir hann, og á hann sjálfur, eða erfingi hans sá er eigi er firnari en systrungur, að heimta það fé vaxtalaust, ef sá var þá erfingi er hinn dó, er fram hafði fært. Nú færa hjú tvö fram ómaga, og eigu þá þeirra erfingjar að heimta það fé sem ómaginn var skyldur. Slíkt hið sama skal heimta það fé er gelst um víg þess er fram var færður, eða réttafar, ef undir þá menn ber fétöku er frændur eru þess er fram færði, og í þann knérunn er sá átti frændsemi við.

Ef arftökumaður má eigi fram færa ómaga sinn, og kemur sá af því á hendur firnara manni að lögum, og sé ómaginn arftökumanni systrungur eða nánari, enda græðir arftökumaður fé eða ber undir hann, og á sá er fram færði ómagann að heimta sitt fé jafnmikið, vaxtalaust, sem hann lagði fyrir hann, og erfingjar hans, systrungar eða nánari.

29. EF MAÐUR GENGUR Í SKULD FYRIR BÖRN SÍN.

Maður á kost hvort sem hann vill að ganga í skuld fyrir börn sín eða selja þau í skuld ella. Sitt barn skal hver maður fram færa á landi hér. Ef systkin manns þurfu framfærslu, þá skal hann þau fram færa með verkum sínum, og svo þá menn alla er hann á arf eftir að taka, enda útleggst hann um ef hann órækir, þótt honum sé eigi færður ómaginn.

Eigi er maður skyldur að taka við ómaga, þótt hann sé arftökumaður hans, nema hann eigi sér tveggja missera björg, og svo þeim er þá býðst, og svo þeim er hann á arf eftir að taka er áður eru á fénu.

Þar aðeins skal ómaga færa að hreppsvist á hendur arftökumanni er hann hefir fé til atvinnu sér hina næstu tólf mánaði, eða hann má vinna sér mat, og þó því að einu ef hann á sjálfur varðveislu fjár síns. Eigi á maður að færa ómaga á hendur ómaga félausum. Hinn nánasti niður á fram að færa ómaga ef firnari er, ef hann á fé til.

Því aðeins er maður skyldur að taka við þeim ómögum er hann á eigi arf að taka eftir, ef hann á fé eða færi til. En þá á hann fé og færi til, er hann á betur en fjögurra missara björg sér og konu sinni og sínum ómögum öllum, þeim er hann leggur fyrir á hverjum missörum sex álnir vaðmáls eða meira fé, af því að þeir mundu ella koma á hendur honum að dæmingu eða eiðfærslu. Þeim skal hann öllum eiga fjögurra missera björg, slíka sem búar hans fimm virða, ef hann skal þá einn fram færa, ef þeir verða fullir ómagar. En ef hann stendur að sumum hluta aðeins til ómaganna, og skal að þeim hluta ætla þá. Svo skal og ætla þeim er þá kemur við. Fulla ómaga skal alla telja þótt eigi sé svo, að þeim hluta sem hann á þá fram að færa. Nú ef þeir ómagar koma á hendur honum síðar, er hann á að ganga í skuld fyrir, þá á hann eigi ger að neyta fjárins en fjögurra missera björg sé þeim eftir, og eigu hinir að hverfa af hendi honum er firnari eru.

Nýmæli: Eigi skal maður skyldur að taka við ómaga þeim er hann er annarrabræðri eða manni nánari, nema hann eigi sér og ómögum sínum, og svo þeim er býðst, átta missara björg. En manni firnari skal finna til tíu aura vöru á hverjum misserum, og er hann þá eigi skyldur að taka við þeim ómaga. En ef hann vill eigi svo til finna, þá má honum færa þann ómaga, ef er átta missera björg þeim ómögum er fyrir eru, og svo þeim er þá býðst.

[K: Eigi er maður skyldur að taka við þeim mönnum er honum er manni firnari en næstabræðri eða annarrabræðri, nema hann eigi sér sex missera björg og sínum ómögum, og svo þeim er þá býðst. Maður á kost að beina tíu sex álna aurum til handa þeim ómaga er honum er firnari en annarrabræðri eða þriðjabræðri, eða taka við honum ella. Maður er eigi skyldur að taka við þeim manni er honum er manni firnari en annarrabræðri, og eigi er hann skyldur að taka við þriðjabræðra sínum, nema hann eigi svo aura að honum sé sjálfum átta missera björg og hans skuldaliði, og svo þeim er þá er honum boðinn.]

30. OF ÞAÐ NÆR ÓMAGAR SKULU HVERFA AF FÉ MANNS.

Þá skulu ómagar hverfa af fé manns, er hann á eigi tveggja missera björg öllum ómögum þeim er hann færir fram. Þá er rétt að færa þá á brott, og skal féið leggja meðan nokkur er til þeirra ómaga er hann á arftöku eftir.

Rétt er að lýsa þann ómaga á hendur öllum fjórðungsmönnum er engi á frænda þann hér á landi er fé eða færi hafi til, og nefna einn bónda til, þann er búi í þeirri þingsókn er ómaginn varð þrotráði í, og kveðja goða þann tylftarkviðar, er sá er í þingi með er á hönd var lýst, hvort hann eigi engi þann frænda hér á landi, er fé hafi til að færa þann ómaga fram.

31. OF HJÓNAFRAMFÆRSLUR.

Skylt er hvort hjóna að færa annað fram á fé sínu. Ef fé eyðist svo að eigi sé tveggja missera björg erfðarómögum, þá skal það hverfa á hendur frændum er félaust er. Ef annað hjóna fær gæslusótt, þá skal það færa frændum ef hitt hefir eigi liðskost til varðveislu, nema það auki hjú sín til. Ef því hjóna batnar heilsa er vitfirring hafði, svo að annmarkalaust sé tvö missari eða lengur, þá skal það hverfa til félaga síns, og til hjúskapar.

Hinn nánasti niður skal fram færa ómaga þegar er hann er af ómagaaldri. En ef eru ungir menn, þeir er eigi eigu varðveislu fjár síns, þá skal maður færa ómaga, hvort sem hann vill að dómi eða með eið, á hönd þeim er varðveislu hefir fjárins, og á það fé er hinn ungi maður á. Nú kemur ómagi á þess manns fé er yngri er en sextán vetra gamall, og er sá eigi skyldur við að taka, nema hann eigi sér björg til þess er hann er sextán vetra, og fjögurra missera björg umfram, og þeim er honum er þá á hendur færður. Nú koma síðar á hendur honum faðir eða móðir, þá skal hinn á brott fara, en hann skal taka við þeim ef eigi vinnst til hvorstveggja. Móðir barnómaga, og faðir og bræður og systur, eigu að eta alla aura ómagans sem hann sjálfur, ef hann er arftökumaður þeirra. [K: Það sagði Guðmundur lög að faðir barnómaga og bræður eða systur þær er hann á arf eftir að taka, þeir menn eigu að eta alla aura ómagans sem hann sjálfur.] Ef firnari ómagar eru á aurum hans, þá skulu þeir af hverfa af aurum hans, ef eigi er fé meira en fúlgur, til þess er hann er sextán vetra gamall.

Laungetinn karlmaður skal jafnt færa fram börn sín að öllu sem skírborinn. Svo er mælt um alla menn laungetna að þeir eigu fram að færa föður sinn og móður og systkin, ef þeir hafa fé til, enda hafi þeir menn engir hag til er fyrri eru taldir til arfs í lögum. En þá hafa þeir fé og færi til ef þeir hafa sér og sínum ómögum, og svo þeim er þá kemur til, fjögurra missera björg. Því að einu skulu þau vera handmeginsómagar þeirra, ef þau eigu arftöku eftir ómagana. Eigi eru laungetnir menn skyldir að færa firnari menn fram en svo.

32. EF MAÐUR ANDAST FRÁ ÓMÖGUM ÞEIM ER HANN HEFIR FRAM FÆRÐA.

Ef sá maður andast er ómaga færði fram, þá á sá ómagi arfi að fylgja ef hann var erfðarómagi hans. En ef annar var erfingi ómagans, þá á hinn nánasti niður framfærslu ómagans.

Ef maður færir ómaga fram til þess er hann er þrotinn, og verður hvortveggi ómagi, það kalla menn ómagamót, og á hvor þeirra að hverfa til síns frænda hins nánasta.

Ef maður vill fara brott af landi, sá er ómaga á, og vili hann eigi láta fé eftir, þá skulu þeir menn er standa til ómegðar eftir, ef hann fer frá, verja honum lýriti brottför, hvort er þeir vilja að Lögbergi eða að skipi. En ef þó fer hann á brott, þá varðar honum og stýrimönnum fjörbaugsgarð en hásetum þriggja marka útlegð, ef þeir hafa spurt að honum var bönnuð förin. En ef hinir leggja eigi orð í, þá ráða þeir sér á hönd ómagann meðan hann er í brott.

Ef maður felur ómaga fyrir manni, þá ræður sá sér á hendur. Ef maður situr strandsetrum, sá er með fer, þá varðar þeim jafnt sem honum sé för bönnuð, þótt honum sé eigi bönnuð. Nú ber það kviður að hann ætti hag til, þá skal lýsa á hönd þeim er honum er hér nánastur til varðveislu. En sá skal varðveita þar til er hinn kemur til, þótt hann sé eigi skyldur ómaganum.

Ef hinn andast er austur er, þá skal sá fram færa er nánastur er ómaganum. Ef hinn kemur út, þá skal hann gjalda hinum slíkt sem sá hefir lagt fyrir ómagann. Ef sá maður andast er ómagi hafði tæmst áður hann andaðist, þá á hann arfinum að fylgja þótt hann væri eigi kominn á féið.

Þeir menn eigu fram að færa ómaga sína, er sekir hafa verið, og sé lögleiddir síðan, en eigi á að lofa þeim sýknuna ellegar.

Rétt er að lýsa eigi á hendur arftökumanni, ef hann veit eigi að þar festi ómagann, og svo ef hann veit eigi arftökumanninn, þá skal lýsa þegar á hönd frændanum, þeim er fé á til að færa hann fram. Þá er ómaginn kominn á hendur manni er hann kemur að dómi, eða er hann færður með eið eða votta, eða tekur hann við áður hann er færður, ef þess er von að hann myni færður vera áður hann tekur við, eða hefir hann sína aura fyrir hann lagða af þeim sökum að hann þóttist hann eiga fram að færa að sumum hluta. Fyrir ekki kemur manni þótt hann færi ómaga fram meðan óskipt er. Færa skal hver er vill ómaga þótt ekki sé að langt, hvort sem hann vill að dómi eða með eið. Svo skal ómögum skipta að hvortki sé langafasta né löghelgar tíðir.

Nú ber þar vanefni er menn hugðu eigi, og má þá eigi spyrja að þingfesti. Þá skal segja í þann dóm er fyrst kom sökin í. Ef tveir ómagar eru lýstir senn á hönd einum manni, þá skal hann við þeim taka er honum er skyldri, ef hann hefir eigi fé til að færa báða fram. Eigi skal fleiri ómaga en þrjá lýsa á hendur einum manni á einu þingi úr einum knérunni. Rétt er að maður sæki ómagasök, þótt hann hafi eigi komið til öndverðs þings, ef hann fær eigi annan mann til. Nú er dæmdur ómagi á hendur einum manni, en þeir eru fleiri jafnnánir er fé eigu, og er þó rétt að skipta ómögum. Eigi skal þá með eið færa, með votta skal þá færa. Ef ómagi er dæmdur á hendur manni, þá má hann eigi þeim ómaga af hendi koma á annan veg en að dómi. Skipta má hann láta við jafnskylda ef hann vill.

Á þeim tólf mánuðum skal hann gera, er leysinginn kemur á hendur honum, jafnmikla skuld sem hann leggur fyrir ómagann. Eigi skulu þau meiri skuld eiga en þau væri verð ef þau væri ánauðig, þótt hann leggi meira fé fyrir ómagann.

Þar er ómagar koma á hönd manni, þá á hann kost að leggja lögskuld á ómagann, og segja til búum sínum fimm og á þingi, og banna innihafnir hans, og leggja eigi meiri skuld á en hinn er verður.

Alla menn skal þá færa á framfærslur er eigi megu vinna sér mat og klæði, hvort sem menn eru skyldir að færa þá fram á fé sínu eða handmegni. En um þá menn er þá framfærslu hafa hvergi, þá skal færa í hrepp þann er arftökumaður ómaga er í, ef hann er næstabræðri ómaganum eða nánari. En ef sá er engi vistfastur svo að hann megi sér mat geta af sínu fé eða verkum, er svo náinn sé ómaganum arfgengra manna, þá skulu þeir menn eiga för um allt land.

Svo skulu menn skyldir að ala innanhreppsmenn að öllu sem mælt er í hreppamálum, fyrir utan það að nú varðar fjörbaugsgarð ef þeir eru eigi alnir, eða er þeim hnekkt á annan veg en hreppsmenn eigu mælt. Utanhreppsgöngumenn skal enga ala, og eigi gefa mat, hvortki meira né minna. Gefa skal til skúa og klæða ef vill. Þá er rétt að ala er maður ætlar að til síns hrepps fari eða eigi för um allt land, og ala þá hvoratveggju í eitt mál ef rúmheilagt er. Ráða skal maður sjálfur ef heilagt er, nema þeir menn sé, er eigi eru til lögföstu skyldir, þá skal maður ala ef hann vill í tvö mál þótt rúmheilagt sé. Ef maður elur utanhreppsgöngumann, eða gefur þeim mat annan veg en nú er tínt, og varðar það allt fjörbaugsgarð.

33. OF BÚÐSETUMENN.

Búðsetumenn skulu engir vera, þeir er búfjárlaust búi, nema hreppsmenn lofi. En ef hreppsmenn lofa búðsetuna, þá eru þeir skyldir að annast hann eða færa til framfærslu ef hann má eigi sjálfur bjargast. En ef hann biður eigi leyfis, eða situr hann þótt honum sé eigi lofað, og varðar fjörbaugsgarð, og svo varðar þeim er við honum tekur, og ræður hann sér einum á hendur afhrapa hans.

Ef maður fer vaflanarförum á brott, þá er hann þvílíkur sem göngumenn aðrir. Ef maður hefir konu barnbæra í fiski með sér, og fær hann eigi þeim báðum atvinnu, og varðar þeim báðum fjörbaugsgarð, og slíkt varðar þeim er þau tekur á skip með sér.

Þessum fjörbaugssökum öllum skal stefna heiman og kveðja fimm heimilisbúa þess er sóttur er. Rétt er að lýsa hvort sem vill á vorþingi eða alþingi og sækja þar í dóm fram, ef sá er á þinginu er sóttur er. Engar skulu gagnsakir metast á mót þessum málum, nema þeim sé á mót stefnt, og engar varnir metast ef rétt er heiman búið, enda komi gögn öll fram, og sé sök sönn, nema þessi er nú mun eg telja: Ef maður er sóttur um göngumannseldi, þá skal hann beiða sér fimm búa sína bjargkviðar, að hann hugði að sá færi réttleiðis eða hann ætti eigi lögföstu að gegna, eða hann hygði að sá væri eigi þar hreppsmaður, er hann rak út, enda á hann slíkra bjargkviða sér að beiða um búðsetumenn. Þess á hann kost að bjóða gjörð biskups þess er yfir þeim fjórðungi er, og fá handsalamann þann er biskup kalli vel til fengið. En ef sækjandinn vill það eigi, þá skal verjandinn láta bera vætti það í dóm fram, er hann bauð gjörð biskups, eða hafa við heimilisbúa sína fimm ella, ef vottar eru eigi til, og verst hann þá sökinni. Hreppssóknarmenn eru fyrst aðiljar að þessum sökum, en ef þeir vilja eigi sækja, og varðar þeim fjörbaugsgarð, og á þá hver er vill, og fyrr innanhreppsmenn en utan hrepps. Ef innanhreppsmenn vilja á þingi lýsa um þessi mál, þá skulu þeir hafa lýst fyrir helgina. En ef þá er ólýst, þá eigu utanhreppsmenn eftir helgina þar til er dómar fara út til saka.

Rétt er að búandi bjóði öðrum manni um, að hann mun gegna slíkum skilum sem menn verða á sáttir á samkomu, og skal hann segja á hve mörg hundruð þangað er að skipta manneldi, eða hve fyrir marga menn þar skal matgjöf gefa, eða hve mikil þar er tíund. Slíkt á maður að beiða hreppsfundar þótt ómagar komi á hendur griðmönnum hans eða landsetum sem honum komi sjálfum á hendur, ef þeir hafa eigi hag til. Því aðeins verður það rétt, ef hann vissi eigi von þeirrar ómegðar þá er hann tók sér hjú eða byggði lönd sín, ella ræður hann sér á hönd ómaga. Nú vilja sumir færa ómegð til framfærslu að lögum, þá er þar fer, en sumir hreppsmenn vilja eigi, og ráða þeir sér á hendur eldi þeirra manna er þeir vilja eigi á brott færa.

Þeir menn eru sekir þrem mörkum er eigi koma fyrir miðjan dag til hreppsfundar eða lögsamkomu. Skulu þeirra manna mál standast er þar koma, hvar þess er þeir taka eigi af alþingismáli.

34. EF MAÐUR HLEYPUR FRÁ ÓMÖGUM SÍNUM Í ANNAN HREPP.

Ef maður skýtur niður ómaga með engi lögskil og hleypst frá í annan hrepp, það varðar honum fjörbaugsgarð. Sök þá á sá maður er á landi býr. Ef leiglendingur á sök, og vill hann eigi sækja, þá á landeigandi sök ef hann er innanhreppsmaður. Ef hann vill eigi, þá er sóknarmaður sakaraðili. Ef hann vill eigi, eða er engi sóknarmaður tekinn í hrepp, þá á hver er vill sökina. Þar er stefnustaður við þann mann er hleypst frá ómaga sem hann setur ómagann niður, ef það er á bæ. En ef eigi er á bæ, þá er stefnustaður á þeim bæ sem í landeign er ómaga niður skotið. Til þessa máls skal níu búa kveðja á þingi, þá er næstir búa því sem ómagi var niður settur. Ef maður verður sekur um þetta mál, þá skal féránsdómur vera í stefnustað, og skal sá goði nefna féránsdóm er sá er í þingi með er sótti. Rétt er manni að sækja þessa sök á vorþingi því er hann heyr sjálfur, þó að sá sé utanþingsmaður er sóttur er. Slíkt varðar manni þeim er hleypur frá ómaga sínum í annan hrepp og lætur þar eftir sitja. Það er honum til varnar, ef hann fær þann kvið að hann hefði enga björg í hrepp og honum fengist engi fararbeini úr hrepp. Þar aðeins skal kveðja tylftarkviðar er arftökumaður er erlendis, þess ómaga er á hendur er lýst. En ef þeim manni er lýst á hendur er hér á landi er, og skal kveðja heimilisbúa fimm þess er á hönd er lýst, hvort hann sé arftökumaður hans eða eigi, eða hann sé hans erfðaómagi.

Eigi skal maður sækja ómagasakir, ef hann kemur eigi drottinsdag til þings eða fyrr. Verja skal hann sjálfur fyrir sig ómagasök, en eigi fyrir aðra menn ef hann kemur síðar en svo. Heimilt er hverjum manni er vill að verja sök fyrir þann mann er eigi er sjálfur á þingi, þeirra manna er réttur sé þingheyjandi, og ryðja skal hann kviðu alla sem hinn.

35. OF DÆMDAN ÓMAGA.

Rétt er að maður færi manni dæmdan ómaga í annan fjórðung ef hann vill, og varðar slíkt þar sem áður er talt ef eigi er við tekið, og varðar jafnan fjörbaugsgarð ef maður lætur ganga dæmdan ómaga.

36. OF FRAMFÆRSLUR ÓMAGA.

Eigi er maður skyldur að færa fram laungetin börn þess manns er hann hefir fram færðan föður þeirra að helmingi eða meira hlut, enda ætti hann annarra manna ómagi að vera, ef þeir hefði fé að færa hann fram. Hver maður á fram að færa föður sinn og móður ef hann á fé til, þótt hann sé eigi til arfs alinn, enda skal hann arf taka eftir þau, ef engi lifir þeirra manna er til arfs eru taldir að lögum.

Jafngerla skal virða fé til ómagabjargar sem til tíundar. Allt skal til virða nema búsafleifar og hversdagsgangvera, og slíka svo náttbjörg í klæðnaði, þeim mönnum er hans ómagar eru.

Ef sá maður á barn eftir út hér laungetið, er hann er norrænn eða hjaltlenskur eða orkneyskur eða færeyskur eða katneskur eða úr Noregskonungs veldi, og komi barn það í ætt að handsölum að faðerni eða að kviðburðum eða að skírslum, þá skal rétt vera að færa þeim manni er úr sama fylki er og hinn er barn á. Og skal færa honum hálfum mánaði fyrr en hann fari á brott úr vist með föt sín frá búanda þess er hann hefir með verið, og bjóða honum með tíu aura vaðmála. Nú vill hann eigi við taka, þá skal hinn færa honum í annað sinn að skipi með eið, og sækja um síðan ef þarf. Þeim manni skal færa er hefir sex hundruð álna eða meira fé. Eigi er hann þá skyldur að láta féið fylgja ómaganum nema hann vili.

Eigi eru menn skyldir að taka við eins manns börnum fleirum en tveimur, laungetnum, þeim er annarrabræðra eru, nema geldur sé faðir barnanna.

Hvort skal hjóna færa annað fram, það sem heldur hefir fé til, nema annað þeirra viti eigi vel, en þegar er því batnar, þá er sem áður var mælt.

Rétt er hvort sem heldur vill um fúlgur þær er búar gera, að þeir geri við eið heima eða á þingi að dómi. En ef maður vill sækja um tvennar fúlgur, og skal hann þrjár merkur láta varða.

Eigi skulu laungetin börn meir koma en tvö á hendur föðurfrændum föðurins til framfærslu meðan þau eru í barnómegð, og svo móðurfrændum hans.

37. OF GÖNGUMANNABÖRN.

Börn þeirra manna, er fyrir ómennsku sökum ganga með húsum, skulu eigi koma á hendur frændum meðan þau eru á húsgangi. En ef þau hafa vist tvö misseri eftir húsgang, þá verður rétt að færa börn þeirra á framfærslu. Nú hefir annað þeirra vistir eftir húsgang, og skal það þeirra börn hafa er með húsum gengur, nema það beri kviður að það megi eigi vinna sér björg, er fer, og skal þá rétt að færa börnin til framfærslu. Nú hverfa þau á húsgang síðan, og er þá rétt að þeim sé færð börnin af framfærslunni.

Það er ómennska ef maður gengur með húsum fyrir sakir nenningarleysis eða ókosta annarra, þeirra er góðir menn vili fyrir þeim sökum eigi við þeim taka. Rétt er að gelda göngumenn, og varðar eigi við lög þótt þeir fái örkumbl af eða bana.

Eigi skiptir skuldum til handa konu svo að aðrir menn eigi við hana heimting meðan búandi hennar lifir, nema hún hafi ein við sig skuldir átt, en heimilt verður honum allt fé þeirra til skuldagildis.