Fara í innihald

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Festaþáttur

Úr Wikiheimild
Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins (1992)
Höfundur: óþekktur
Festaþáttur

1. OF ÞAÐ HVER RÉTTUR ER FASTNANDI KONU.

Sonur sextán vetra gamall eða eldri er fastnandi móður sinnar, frjálsborinn og arfgengur, svo hygginn að hann kunni fyrir erfð ráða. En ef eigi er sonur, þá er dóttir sú er gift er, og á þá búandi hennar að fastna mágkonu sína. En þá er faðir fastnandi dóttur sinnar. En þá skal bróðir samfeðri fastna systur sína. En ef eigi er bróðir, þá skal fastna móðir dóttur sína. Þar aðeins fastnar kona konu.

Nú lifir eigi móðir, þá skal systir samfeðra ef hún á búanda. Þá á bróðir sammæðri að fastna systur sína. Þá systir sammæðra ef hún á búanda. En þar hið næsta sonur laungetinn, en þá sá maður er á dóttur hennar óskírborna. Ef hún er ógift eða eigi til, þá á bróðir samfeðri laungetinn festar. Þá skal sá maður er á systur laungetna samfeðra. Þá bróðir sammæðri laungetinn. Þá sá maður er á systur sammæðra laungetna. En þar næst eru karlar fjórir jafnfram til festanna, föðurfaðir og móðurfaðir, sonarsonur og dóttursonur. Þá búendur fjórir jafnskyldra kvenna. Þá föðurbróðir og móðurbróðir, bróðursonur og systursonur. Þá sömu konur fjórar gefnar. En þá skal fastna hinn nánasti niður karlmanna, arfgengra og samlendra, nema konur sé þær nánari er bændur eigi, þá eigu búendur þeirra.

2. OF FESTAR OG FRÆNDSEMI.

Þar er ekkja föstnuð manni, þá skal hennar ráð fylgja nema faðir fastni, þá skal hann ráða. Eigi skal faðir neyða dóttur sína til ráða ef hún vill vígjast láta til nunnu. Ef fleiri menn eru til ráðanna, þá skal sá ráða er elstur er bræðranna, ef þá skilur á, enda biði hún þá ráða fyrir. En ef hún kveður á eitthvað, þá skal sá þeirra ráða er hennar ráði fylgir ef það þykir jafnræði, en engu ræður aldurinn þá, og svo hvarvetna þess er eigi eru bræður. En ef þeir vilja dvelja ráð fyrir henni, og synja tveim mönnum þeim er jafnræði þætti, þá skal hún ráða við hinn þriðja ef það þykir jafnræði, við ráð frænda síns nokkurs. Ekkja á svo að ráða eða mær tvítug eða eldri. Ekkja á að fastnast sjálf manni þeim er hana átti fyrr, þótt eigi sé ráð lögráðanda til, ef meinalaust er með þeim, nema því aðeins að þau væri skild fyrir ómagasakir.

Ef frændsemi kemur upp með þeim er konu hefir fastnað sér og konunni, sú er eigi er byggjandi, þá skal sá þeirra fara, er ráði vill renna, á hálfum mánaði hinum næsta er hann verður vís, til fundar við annan og telja frændsemi sem að dómi og sanna svo að leggja það undir þegnskap sinn jafnt sem að dómi, og hafa menn fimm til að sanna með sér. En ef frændsemi er með þeim byggjandi, og sé þó fégjald á höndum þeim, þá skal af þess þeirra fé bera í lögréttu, er það vill eigi fyrir ráðum láta standa.

3. OF SIFJAR OG MEIRI TÍUND.

Nýmæli: Það er nýmæli að jafnnáið skal byggja sifjar og frændsemi, að fimmta manni hvort. En ef að fimmta manni er hvorttveggja að frændsemi, þá skulu þau ráða ráðum ef þau vilja. En þau skulu gera tíund hina meiri af fé sínu öllu saman, enda skal bera hundrað álna af því tíundarfénu í lögréttu ef svo vinnst til. En þó að tíundin sé minni, og skal þó bera hundrað álna í lögréttu sem áður. En ef hann gerir eigi tíundina meiri, þá varðar fjörbaugsgarð, og skal kveðja níu búa til á þingi, og á hver sök er vill.

Ef nánara er en svo, þá varðar fjörbaugsgarð samförin, nema þau geti þann kvið að hann vissi eigi frændsemi með þeim þá er hann gekk að eiga konu þá, enda sé firnara en annarrabræðra. Eigi skal févíti þá dæma, en skilnað skal dæma með þeim, og verst hann svo málinu. En ef frændsemi er að fimmta manni og sétta, þá skal bera hundrað álna í lögréttu. En ef að sétta manni er hvorttveggja, þá skal tíu aura.

Þar er þriðjabræðra er með mönnum að frændsemi hafði það lögmál á verið að þar skyldi til ómegðar leggja tíu aura, en nú er það af tekið.

[K: En þar er frændsemi er að sétta manni og sjönda skal bera tíu aura í lögréttu, en þar hundrað álna er að sétta manni er hvortveggja. En ef frændsemi er að fimmta manni og sétta usque, og á hver sök er vill.]

[K: En ef frændsemi er nánari en að fimmta manni og sétta manni, þá varðar fjörbaugsgarð samförin nema þau geti bjargkvið þann að hann vissi eigi frændsemina þá er hann gekk að eiga konu þá, og sé firnari frændsemi en annarrabræðra, þá er ekki févíti að dómi, og verst hann málinu, og skal þá dæma skilnað þeirra.]

4. OF SIFJAR HVORARTVEGGJU.

Eigi skulu og vera skyldri sifjar með þeim, ef hann hefir konu átta áður eða hún búanda, en að fimmta manni. Guðsifjar skulu og eigi vera með þeim, þær er annaðhvort þeirra hafi haldið öðru undir skírn né undir prímsignan né undir biskupshönd, og hvortki þeirra annars börnum, og hvortki skal skírt hafa annað né annars börn.

Slíkt er mælt um prestinn, ef hann skírir konu eða börn hennar, sem um guðsifjar.

5. OF ÞAÐ EF SÁ VERÐUR SJÚKUR ER KONA ER FÖSTNUÐ.

Ef sá maður verður sjúkur er kona er föstnuð, þá skal hann orð gera hálfum mánaði fyrr þeim manni er fastnað hefir konuna, að hann myni eigi til eiginorðs koma fyrir veilindis sökum, og eigi þarf þá konu honum heim að færa þó að það sé mælt, og segja hvað að sökurn er. Þá skal eigi brullaup vera fyrr en að jafnlengd, nema sá vili fyrr láta vera er konu skal eiga, og skal hann þá orð gera hálfum mánaði fyrr eða meira méli, og skal hann þá sitt fé eitt til leggja. En ef honum bætist eigi á tólf mánuðum hinum næstum, þá skulu lausar vera festarnar, nema þeir vili hvorirtveggju annað.

6.

Ef kona verður sjúk, þá skal sá gera orð er fastnað hefir konuna, að hún er sjúk, en hinn skal ráða hvort hann vill ganga í sama sæng konunni eða eigi. En ef þá takast eigi ráðin, þá skal hinn ráða, er inni skal hafa brúðkaupið, hvort takast skulu fyrir jafnlengd eða eigi, og gera hinum orð hálfum mánaði fyrir. En ef henni bætist eigi fyrir jafnlengd, þá eru og lausar festarnar nema hann vili lengur bíða. En ef sakir koma á hendur honum eða henni, þær er hann er eigi æll, þá skal það fyrir ráðum standa. En ef legorðssakir þær koma á hendur honum er fé hans á sekt að dæma ef hann verður sannur að, eða þær er hann á vígt um fyrir alþingi, þá hinn kost, hvort sem hann vill, að hætta til haldsins eða eigi. Þá verður rétt haldið konunni ef hann verður sannur að sök. En ef hún er login þá verður eigi rétt haldið.

Ef frændsemi finnst, þá skal sá er fastnaði eða fastnandinn gera mann til hins, og telja frændsemi og leggja undir þegnskap sinn sem að dómi, en síðan skal segja í sundur festarnar.

Nýmæli: Ef sá ifast ráða er sér hefir konu festa, og varðar eigi við lög, en mund skal heimta svo sem mæltur var, og með þeim máldaga sem mælt var að festamálum, ef hann skyldi af hendi leysa. En hann á kost að stefna að heimili þess er sóttur er, eða þar er stefnustaður er réttur, um allan mund saman, enda er kostur að stefna þar er brúðkaup er mælt, og um allan mundinn saman, hinn næsta dag rúmhelgan því er ráð skyldu takast, og skal sækja við festavottorð, en dómur skal dæma gjalddaga svo sem vættið bar máldaga til.

7.

En ef sá ifast ráða er konuna hefir fastnað, þá skal hinn fara þangað þann dag er brúðkaup var mælt, og beiða konunnar og vistar ef hann náir eigi ella. En þann dag er næstur er rúmheilagur skal hann fara þangað og verja lýriti innihöfn hennar, eða lúka hurð og hjarra um hana. Og rétt er honum að stefna um heimanfylgju þá, er þá skyldi fram koma, og svo um það fé er hinn skyldi til brúðkaups leggja. Enda er rétt að heimta heimanfylgju með slíkum máldaga öllum sem áður var tínt of mundinn, ef hann þurfti að heimta.

Rétt er að stefna honum og þar, þann dag er næstur er rúmheilagur, á þeim bólstað er brúðkaupið skyldi vera, um það er hann hefir konunni haldið, og er rétt að stefna svo að hann heyri sjálfur, ella að heimili hans, og láta varða fjörbaugsgarð, og svo varðar öllum þeim er á heyra og samvistum eru við hana síðan er hann ver lýriti innihöfn hennar, og svo þeim er fregna er samvistum eru við hana.

8. OF ÞAÐ EF AÐRIR MENN FIRRA MANN RÁÐUM.

Þeim mönnum öllum varðar fjörbaugsgarð er firra hann festarkonu sinni, hvort sem þeir gera það í ráðum eða í öðrum hlutum. Skal kveðja níu búa til á þingi frá heimili þess er sóttur er.

Nýmæli: Ef aðrir menn standa fyrir ráðum en fastnandinn, og varðar þeim fjörbaugsgarð við hvorntveggja, þann er fastnandinn var og þann er fastnaði sér.

Og er stefnustaður réttur við þá alla er standa fyrir ráðunum í þeim stað sem brúðkaupið var ætlað. Þá skal kveðja níu heimilisbúa til á þingi þess er sóttur er, en um samvistur konunnar skal kveðja tylftarkviðar þar til. Sá er sóttur er skal kveðja sér bjargkviðar, fimm heimilisbúa sína, að hann vissi eigi að hann væri í sama húsi konu þeirri síðan er lýriti var varið innihöfn hennar, og þess annars að hann vissi eigi að lýriti var varið innihöfn hennar.

Nýmæli: En ef sá maður fastnar konu er eigi er lögráðandi, þá varðar hinum ekki er lögráðandi er þó að hann renni ráðunum, og svo og öðrum mönnum.

En ef maður gengur konu þá að eiga er eigi hefir lögráðandi fastnað, þá á lögráðandinn að stefna honum, og láta varða fjörbaugsgarð og telja rétt úr fé hans. Hinum varðar og fjörbaugsgarð við lögráðandann er fastnaði. Sá maður er konuna hefir eignast hann skal kveðja eða beiða sér bjargkviðar að hann hugði að sá væri lögráðandi er honum fastnaði, og tær það því aðeins, ef hann vissi eigi að sá maður var með honum. Skal-at hann svo lögvillur verða að hann vissi fyrir þeim sökum eigi hver lögráðandi hennar var. Ef það ber kviður, þá er hann varður sökinni. En hann skal þó réttinn gjalda þeim er festarnar átti, nema kona hafi sig sjálf fastnað, þá bergst hann eigi við bjargkviðinn, og skal þá sækja sem legorðssakir aðrar.

Ef sá verður sekur er konu hefir fastnað, þá á hinn rétt úr fé hans er við konunni tók. En þó að hinn sæki hann eigi er lögráðandi er, þá á sá þó réttinn að heimta er konan var fest. En því aðeins gerir honum sá ef hann vissi eigi þann er lögráðandinn var, enda varðar fjörbaugsgarð þá við hann þeim er fastnaði. En skal-at hann lögvillur verða svo að honum haldi það uppi.

Eigi skal maður festar taka af konu, nema af móður, nema hann taki af ekkju eða meyju tvítugri eða eldri, og þó því aðeins að áður hafi beðið tveir menn, og sé þessi hinn þriði, enda sé jafnræði við hvern þeirra. Svo skal sækja, ef aðrar konur fastna, sem um legorð, heldur en þessar sem nú voru taldar.

9. OF ÞAÐ HVE KONA ER AÐ LÖGUM FÖSTNUÐ.

Þá er kona föstnuð að lögum ef maður tínir mundarmál. En síðan á lögráðandi og sá maður er konan er fest að nefna votta. „Að því vætti nefnum við,“ skal hann segja, sá er konu eignast, „að þú, N., fastnar mér, N., lögföstnun, og þú handsalar mér heimanfylgju með inningu og efningu alls þess máldaga er nú var með okkur um stund tíndur og taldur fyrir vottum að véllausu og breklausu, heilt ráð og heimilt.“ Þá er heimilt er sá fastnar er festarnar á að lögum. En þá er heilt ef hún er eigi vanheil svo að hún væri verði að verri þó að hún væri ambátt að hún hefði slíkt óheilindi, eða aðrir ókostir eða andmarkar þeir er hún væri verði að verri, og slík þá er hún var sextán vetra gömul. En ef þeir annmarkar reynast að konunni, og varðar það fjörbaugsgarð þeim manni er honum fastnaði konuna vísvitandi, og fyrir ráðum á það að standa ef hinn vill er sér fastnaði konuna, ef hann kvað svo að og hafði í máli sínu: „heilt ráð og heimilt,“ en eigi ella.

Nú vill hann heimta mund, þá skal stefna sá er sér hafði konu fastnað um það að hann hafi þessa konu fastnað vísvitandi, er þeir annmarkar sé að, að hún væri verði að verri ef hún væri ambátt. Hann skal stefna til fjörbaugsgarðs og kveðja til níu búa hans á þingi. Nú ber kviður á hinn, og sekst hann þá, enda er eigi heimting til mundarins þó að af honum beri. Nú ber það kviður að hann vissi eigi annmarka að konunni, og verst hann þá málinu, en er-at heimting til mundar nema sækjandinn fái kvið þann, fimm heimilisbúa konunnar, að eigi sé þeir annmarkar að henni, og raknar þá mundurinn.

10. OF ÞAÐ EF KONA ER MEÐ BARNI, SÚ ER FÖSTNUÐ ER.

Ef sá maður verður vís, er konu hefir fastnaða, að sú er þá með barni, og skal hann gera orð þeim er konan er föstnuð og segja honum. En hann skal ráða um síðan hvort hann vill ganga að eiga konuna eða eigi, og er hann variður sökinni, ef hann getur þann kvið að hann vissi eigi að konan væri ólétt þá er hann fastnaði.

En ef síðan er legið með konunni, er hún var föstnuð, þá skal hann kjósa hvort hann vill eiga konuna, og á hann þá legorðssökina, en hinn á rétt úr fénu er konuna hefir fastnaða. En ef hann vill eigi samför við konuna, þá á hinn legorðssökina er fastnaði en hann á þá réttinn, og skiptist þá svo um.

Leysingi skal fastna dóttur sína, svo hið sama sem frjálsborinn maður, og réttu að taka á henni, og svo leysingja, hið sama og laungetnir menn.

11. OF KVONFANGSEIÐ OG LÖGRÉTTUFÉ.

Ef maður gengur konu að eiga, hann skal eið vinna á vorþingi hinu næsta, að hann veit eigi áttarmót með þeim, það er févíti fylgi. Það er og rétt að hann vinni eið fyrir goða þeim er hann er í þingi með. En goði skal þá segja með votta í þingbrekku, þá er meiri hlutur er þar þingheyjanda. En ef hann vinnur eigi eiðinn, þá varðar honum sex merkur við þann er sækir, og á sökina hver er vill. En ef hann veit áttarmót með þeim, og skal hann þá segja til þess að hann vill það láta fyrir eiðinum standa að bera fé í lögréttu, og kveða á hve mikið er.

Nýmæli: En ef hann ber eigi fé í lögréttu hið næsta sumar, tíu aura, þá varðar honum það sex marka víti ef manns er vant, enda hundrað álna ef tveggja er vant, og varðar honum það tólf merkur ef eigi kemur fram, og á sá það fé hálft er sækir, en hálft skal dæma að bera í lögréttu, en sá á sök er vill. Skal þó dómur dæma á hendur honum að bera fé í lögréttu sem áður. En borið skal féið í lögréttu drottinsdag hinn fyrra í þingi.

Svo skal dæma lögréttufé sem aðrar útlegðir.

12.

En fé það, er þeim skal dæma til handa er sótti, á að dæmast að heimili þess er sóttur er, fjórtán nóttum eftir vopnatak, þar er þeir eru sams fjórðungs, en utanfjórðungsmanni á hönd á að dæma miðvikudag í mitt þing í búanda kirkjugarði, annað sumar.

13. OF ÞAÐ HVE SÆKJA SKAL UM LÖGRÉTTUFÉ.

Þar er maður sækir um lögréttufé, og er rétt að stefna heiman sök þeirri, og skal hann telja þá frændsemi að dómi, hefja upp að systkinum, og telja knérunnum, og leggja það undir þegnskap sinn með þriðja mann, að sú er frændsemistala sönn og rétt með þessum manni og þessi konu er hann á, og nefna þau bæði.

Svo skulu og sannaðarmenn hans leggja það undir þegnskap sinn að þeir hyggja þá frændsemistölu sanna og rétta er hann taldi. Skulu þeir allir þrír hafa unnið þegnskaparlagningareið áður. Hinn skal beiða sér bjargkviðar, fimm heimilisbúa sína, að hann vissi eigi áttarmót með þeim, og bergur honum eigi sá lengur en hið fyrsta alþingi líður.

Rétt er að lýsa og þá sök að Lögbergi til sóknar hið sama sumar. Hann skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess manns er sóttur er, hvort hann hafi fé borið í lögréttu eða eigi.

14. OF ÞAÐ EF MENN BYGGJA AÐ FIMMTA MANNI.

Ef menn byggja svo að að fimmta manni sé hvorttveggja enda tíunda þau eigi fé sitt svo sem mælt er í lögum, að þá varðar þeim fjörbaugsgarð samgangurinn, og eigu þeir sök þá er biskup býður um, eða þingvallarmenn að sínum hluta. En ef þeir vilja eigi sækja, þá á sök hver er vill. Stefna skal sök þeirri heiman, um það að hann hafi gengið að eiga konu þá er að fimmta manni er hvorttveggja þeirra að frændsemi, og gerva eigi hina meiri tíund síðan af fé sínu öllu, og láta varða fjörbaugsgarð, og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess manns er sóttur er, enda sanna frændsemistölu að dómi með þeim, og leggja það undir þegnskap sinn með þriðja mann. Hinn á og að beiða sér bjargkviðar fimm búa úr sóknarkvið, þá er honum eru næstir, að bera um það hvort hann vissi frændsemi þá með sér og konunni áður stefnt var um eða eigi.

Ef hann getur þann kvið að hann vissi þá eigi, og verst hann þá sökinni. En gjalda skal hann tíundina ef hann vill hafa samfarar við konuna, ella er jöfn sök við hann fram á leið, og bergst hann þá eigi við bjargkviðinn.

Það er rétt og, um þann hluta fjár þess er í lögréttu skal bera, að láta varða tólf merkur og sækja sem áður var tínt.

Nýmæli: Svo skal að sókn fara um öll lögréttufé, að láta svo fremmi kvið bera, er frændsemi er áður sönnuð að dómi.

Nú ber það kviður að hinn hafi eigi borið féið í lögréttu, og svo á þá að bera um það hvort hann vissi áttarmót það með þeim svo miklu fyrr en stefnt var um, að hann mætti það gjald af hendi leysa svo sem mælt er, eða vissi hann eigi. En ef það ber kviður í hag honum, og verst hann þá sökinni ef hann hefir unnið eið hið næsta vor eftir er hann kvongaðist, svo sem mælt er, og skal hann þó gjalda lögréttufé sem hann á. Nú hefir hann eigi unnið eiðinn fyrir öndverðu, og bergst hann þá eigi við bjargkviðinn þótt hann hafi eigi vitað áttarmótið.

15. OF SAMGANG FÉLÍTILLA MANNA.

Ef þeir menn ganga saman er minna fé eigu en hundrað lögaura sex álna aura fyrir utan hversdagsklæði sín, ómagalausir menn, það varðar þeim fjörbaugsgarð, nema kona sé eigi barnbær, og skal eigi eiga féránsdóm að þau, og verður eigi fé þeirra sekt, og skulu þau á brott fara með ómaga sína af landi og koma eigi aftur nema fé þeirra vaxi svo að þau eigi hundrað eða meira, eða kona sé eigi barnbær.

Það varðar og fjörbaugsgarð þeim manni er konu þá fastnar, nema hann eigi fé svo að hann færi fram ómaga þeirra þá er þau ala, og ræður hann sér á hendur ómaga þá er þau ala, en eigi frændum sínum þótt hann seli öðrum manni í hönd festarnar, eða lofar hann að annar maður fastni. Þá er sem hann sjálfur fastni ef hinn er fastnaði á eigi hag til að taka við ómögum. Þá er svo mælt um þann er inni hefir brúðkaup það, og varðar þeim slíkt hið sama sem hinum er fastnaði. Skal kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Þeir menn eigu sókn til þessa saka, er til ómaga standa þar er óauðgir menn ganga saman þó að þeir segi ósátt sína á, og er það sem þeir mæli ekki um, nema þeir sæki um. Það er stefnusök, og skal kveðja heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

16. OF ÞAÐ Á HVERJUM TÍÐUM BRULLAUP SKAL GERA.

Það er mælt að menn eigu eigi þá nótt að ganga saman, er lögheilagur dagur er eftir næstur eða lögfasta. Brullaup skal eigi gera nær páskum fyrir en lokið sé þvottdag þann fyrir níu vikna föstu. Skal og eigi nær eftir en vika sé liðin frá páskadegi hinum fyrsta. Menn skulu eigi brúðkaup gera frá þvottdegi þeim er næst er gagndögum fyrir, og allt þar til er líður hina hægu viku [K: hina helgu viku]. Brúðkaupi skal vera lokið þvottdag hinn næsta fyrir jólaföstu, enda skal eigi nær jólum eftir en vika sé liðin frá hinum þrettánda degi.

Það varðar þeim mönnum fjörbaugsgarð er brullaup gera á þeim tíðum er nú eru frá numnar, og er það stefnusök, og skal kveðja níu heimilisbúa til á þingi þess er sóttur er, og á sá sök er vill.

17. OF HJÓNASKILNAÐ.

Hjónaskilnaður skal hvergi vera á landi hér, nema þar er biskup lofar, nema því aðeins að þau skilist fyrir ómegðar sakir, eða þau vinnist á þann áverka er hin meiri sár metast.

Þar er hjú tvö eru, og á annað þeirra fé en annað ekki. Nú koma ómagar á hendur því er félaust er eða hafa komið fyrr og eytt fénu, þá á það þeirra er fé á eftir að segja til búum sínum og nefna votta „að eg vil skilja við félagað minn fyrir þær sakir að eg vil eigi ómaga félaga míns láta eyða fé mínu“. Það þeirra er skilnað gerir skal nefna votta að skilnaði þeirra svo að hitt heyri og segja búum til síðan, ef þeir eru eigi þá við. Svo skal fara hvar þess er hjú skiljast um þær sakir sem hér eru taldar. Þá skal biskup, sá er yfir þeim fjórðungi er, ráða hvort þau skulu ráðum sínum ráða eða eigi.

Ef frændsemi sú kemur upp með hjúum tveim að þau ætti að skiljast ef þau væri sótt um, þá megu þau skiljast að ósekju fyrir lof biskups fram. Ef skilnaður verður ger með þeim af þeim sökum að frændsemi eða sifjar komi upp með þeim nánari en þriðjabræðra, og á það þeirra skilnaði að ráða er fyrr vill sæng skilja. Ef kona vill skilnað af því gera, og varðar ekki innihöfn hennar þótt lýriti sé varið. Það þeirra er skilnað vill gera skal búa láta kveðja og telja tölur með þeim þrim nóttum fyrr eða meira méli. Rúmhelgan dag skal kveðja, og svo skipta. Þau skulu eiða vinna að tölum, að réttar eru taldar.

Ef búum þykir hið óauðgara eigi hafa fé til framfærslu ómögum, þá skal það þeirra segja skilið er féið á og nefna votta að. Ef skilnaður verður ger með hjónum tveim af þeim sökum að þau hafa eigi fé til að færa ómaga sína fram, og á það að halda, hvort sem þau ráða það sjálf eða sá maður er ómagar þeirra horfa til handa. Sá maður skal svo að því fara að ganga í þingbrekku, þá er hann hefir um nótt verið á því sóknarþingi er hann heyr sjálfur, svo að meiri hlutur þingheyjanda heyri, og nefna sér votta að því að hann segir skilið með þeim, og nefna þau bæði, af því að hann vill eigi færa fram ómaga þeirra, og mæla það svo fremmi er einn er kominn á fé hans, þeirra ómagi. En ef þau ala börn síðan, og er þá sókn til sem um legorð, annað en þá eigu frændur konunnar sökina, en ef þeir vilja eigi, þá á sá er skilnaði þeirra réð.

18. OF ÞAÐ EF HJÚ TVÖ VILJA SKILJAST.

Þar er hjú tvö vilja skiljast, og á það þeirra er skilnað vill gera að bjóða hinu til biskupsfundar eigi síðar en sjö vikur eru af sumri, ef til þings skal fara til fundar hans. Maður skal fá konu sinni reiðskjóta þann er fær sé, hvort þeirra sem boðið hefir öðru til biskupsfundar. Ef konan býður öðrum manni um, þá skulu vottar fara, þeir er það beri að hún hafi þeim manni sín mál seld.

Nú skulu þau bera mál sín fyrir biskup, þann er yfir þeim fjórðungi er sem þau eru úr, föstudag þann er fyrri er í þingi, en biskup skal segja þeim þvottdaginn eftir hvað hann lofar. En ef biskup sker ekki úr um skilnað þeirra, þá skal heimta fé hennar sem hann hefði lofað skilnað. Bera skal láta vætti þau öll fyrir biskupi er nefnd voru heima í héraði, en það þeirra er hann lofar skilnað skal nefna votta að lofi biskups, en síðan að skilnaði þeirra, að hann eða hún segir skilið með þeim. Skal það þeirra er biskup lofar skilnað hafa slíkan hlut fjár við annað sem hitt hafi forurtalaust skilnað gervan.

19. OF ÞAÐ EF MAÐUR ÓRÆKIR AÐ SAMREKKJA VIÐ KONU SINNI.

Ef karlmaður hvílir eigi í sama sæng konu sinni sex misseri fyrir óræktar sakir, þá eigu frændur fjárheimtingar hennar, og svo réttafar hennar, enda á hún sjálf fé sitt að varðveita.

20. OF ÞAÐ EF KARLMAÐUR VELDUR SKILNAÐI.

Ef karlmaður veldur skilnaðinum, þá á hún heimting til mundar síns og heimanfylgju, og er rétt að stefna um fé það hinn næsta dag rúmhelgan eftir helgina ef gögn eru til á þingi, en ellegar annað sumar. Þó á hún fé að heimta ef hún vill, þótt hún sé eigi komin til mundar. Slikan fararbeina skal hann fá henni af þingi að öllu sem til þings, hvegi er mál fara með þeim. En ef hann gerir eigi svo, þá varðar honum útlegð. Hún skal svo fara að fjárheimtingu þeirri, að hún skal láta bera vætti það í dóm næst stefnuvætti, er hún stefndi honum til biskupsfundar, og svo það er biskup lofaði þeim [K: lofaði henni] skilnað að gera, ef þess er kostur, svo það er að skilnaði þeirra var nefnt. Þá skal bera festavætti, og það er að félaginu var nefnt með þeim, ef það hefir verið, hversu skilt var fyrir félagi þeirra.

En ef eigi var félag þeirra gert, eða svo gert að það átti að rofna þá er skilnaður þeirra var ger, og skulu búar hennar fimm bera kvið um það hve mikils fjár hún hefir neytt síðan er samgangur þeirra var ger.

Ef erfðir hafa komið undir þau meðan samför þeirra var, og á það þeirra jafnmarga aura að taka af fénu að afnámi sem erfðin tæmdist. En bæði skulu þau vaxta hafa neytt, nema annan veg hafi mælt verið í félagsgerð þeirra. Það þeirra er erfð tæmdist á kost að láta erfðafé eigi koma í félag þeirra, og taka sjálft vöxtu af.

Og það þeirra er skilnað vill ráða við annað, og til biskupsfundar vill stefna öðru heima í héraði, skal gera vart við hálfum mánaði fyrr eða meira méli þar, að sækja megi biskupsfund á fjórtán nóttum. Skal svo því máli fara sem á alþingi, og svo skal öll vætti fram færa sem á alþingi, ella verður eigi að réttu skilnaður þeirra.

21. OF ÞAÐ EF MAÐUR VILL HLAUPA AF LANDI MEÐ FÉ KONU SINNAR.

Ef maður vill hlaupa af landi á brott með fé konu sinnar, þá á hún kost að selja það mál þeim manni er hún vill, að banna honum farar og sækja hann, ef þarf, og þá menn er ferja hann á brott.

22. OF ÞAÐ EF MAÐUR VILL FERJA KONU SÍNA NAUÐGA AF LANDI.

Ef maður vill ferja konu sína nauðga af landi á brott héðan, þá á hún að segja skilið við með þeim ef hún vill, hvargi sem þau eru stödd. Þess er hún geri það að sönnu, og varðar honum brauthöfn hennar og fjár hennar síðan sem þau hafi engar fjárreiður saman áttar, og að engu er honum sú kona heimilli síðan er skilnaður þeirra var ger heldur en sú önnur er hann hefir engar reiður við áttar.

Hún þarf eigi að vanda votta til þess annan veg en nefna þá menn er vottbærir eru, að því að hún segir skilið við hann. Þeir skulu eigi segjast úr því vætti, en um ráðahaginn þeirra skal um þessar sakir svo fara sem biskup lofar.

23. OF ÞAÐ HVE HJÚ SKULU SKILJAST.

Svo skal fara, hvort sem hjú skiljast um þær sakir sem nú voru taldar, og svo þó að aðrar sé, að þau skulu því aðeins ráða ráði sínu ef biskup sá bannar þeim eigi er yfir þeim fjórðungi er, er þau eru úr.

En hvar þess er þeim ráðum er ráðið svo að eigi er um ráðið við biskup, og vottar við það hafðir að um var rætt við biskup, og hann látist eigi munu banna það ráð, eða er ráðið þótt biskup banni, þá verða börn þau eigi arfgeng er svo eru getin, enda varðar fjörbaugsgarð fjórum mönnum. Þar er sá einn er fastnar konu, annar sá er hún er föstnuð, þriðja er konan, fjórði sá er brullaup hefir inni vísvitandi, og á sá maður sök þá er vill, og skal stefna heiman og kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess manns er sóttur er.

Kona á að taka þriðjung úr réttafari við búanda sinn, því er ber undir þau um börn þeirra, enda á hún svo við bræður samfeðra.

24. OF ÞAÐ HVERJU KONA Á AÐ RÁÐA EÐA KAUPA.

Þar er samfarar hjóna eru, og skal hann ráða fyrir fé þeirra og kaupum. Eigi er konu skylt að eiga í búi nema hún vili. En ef hún á í búi með honum, þá á hún að ráða búráðum fyrir innan stokk, ef hún vill, og smalanyt. Kona á að ráða fyrir hálfs eyris kaupi eða minna, sex álna eyris, á tólf mánuðum. Búandi hennar á kaup að rifta ef hún kaupir meira en svo, en honum er heimilt það er hún tekur við, en þeim varðar útlegð er við hana kaupir meira kaupi en mælt er, og á sá eigi heimting til þess er hann seldi henni. Ef kona skýtur fé búanda síns á brott, og á hann heimting til þess alls, enda á hann orði að ráða við hinn er við tekur.

Ef maður sendir konu sína til þings að lúka skuldum fyrir sig eða fjárreiðum þeirra, og eigu þau handsöl hennar að haldast, enda svo þau er hún fer til skipa með kaupum þeirra að ráði hans, en eigi fleiri nema hann vili. Það á og að halda, ef hún kaupir það er skyldlega þarf til bús þeirra að hafa heima meðan hann er á þingi. Kona á eigi að selja land, hálft byggðan bólstað eða meira, án ráð lögráðanda, né goðorð, né hafskip, ef hún á.

25. OF HJÓNAFÉLAG.

Hjú tvö eigu að gera félag sitt ef þau vilja, ef með þeim er jafnmæli, og svo við erfingja þeirra. Festamál eigu að halda með hjúum meðan festavottar lifa, og eigi eru önnur mál á ger, en ef festavottar lifa eigi, þeir er þau muni, þá leggja lög fé þeirra saman, ef hann átti mörk eða meira fé, þá er samgangur þeirra var og mundur var goldinn, ef þau hafa búið þrjá vetur eða lengur. Ef þau æxla fé úr öreigð, þá leggja lög fé þeirra saman. Og svo leggja lög fé hjóna saman jafnan, að hann á tvo aura [K: tvo hluti] en hún þriðjung.

26. OF FJÁRTÖLUR HJÓNA.

Eigi á kona í búi með búanda sínum nema hún játi því. Ef gjöld koma á hendur öðru þeirra, og á það með sínu fé að bæta sinn misverka, er gert hefir, en ef þau leggja fé sitt saman, þá það þeirra er gjöldin hafa eigi á hendur komið eða borist að hafa jafnmarga aura að afnámi, leigulausa.

Kost á kona að beiða talna búanda sinn um fjárfar á milli þeirra meðan festavottar lifa tveir, en dauðir sé jafnmargir eða meir. Skal hún hafa kvadda til búa þeirra fimm, að telja tölur með þeim. Ef þeir vottarnir gera þau eigi sátt á fjártölur, eða hann lætur eigi skil uppi, þá skulu búar telja með þeim hve lengi fé hennar hefir á vöxtum verið undir honum, og svo hvers hún hefir af neytt. Hún skal nefna votta að því sem þeir bera, eða annaðtveggja þeirra, enda á það að halda með þeim síðan meðan þeir vottar lifa, nema þau vili annað mál á gera.

Jafnan kost á hvort þeirra við annað, að standa við því að lög leggi fé þeirra saman. Ef annað þeirra á fé en annað er félaust, og sé það þeirra þeim mun meiri umsýslumaður um fé þeirra og hag, og leggja þá lög fé þeirra saman. Slíkan kostnað skal hvort þeirra hafa fyrir ómögum sínum sem fé á til, og svo um heimangerðir dætra sinna. Ef þau hafa eigi lagt fé sitt saman, þá á hún að gegna þriðjungi fyrir ómaga þeirra, og svo að gera dætur heiman, en hann á að tveim hlutum. Ef þau eigu fé saman, þá á slíkan hlut hvort þeirra að taka ef erfðir barna þeirra ber undir þau, og svo fébætur þar er þau eigu að taka eftir börn sín, sem fé á til. Nú er karlmaðurinn andaður, en kona hans lifir, þá á hún að taka þriðjung að sakbótum um börn sín jafnan við bræður þeirra samfeðra.

27. OF LAUNKOSSA OG LEGORÐSSAKIR.

Ef maður kyssir konu á laun fyrir öðrum mönnum, og að ráði hennar, og varðar það þriggja marka sekt, en sá á sök sem um legorð. En ef hún reiðist við, þá á hún sökina sjálf, og varðar þá fjörbaugsgarð. Ef maður kyssir mannskonu launkoss, það varðar fjörbaugsgarð þótt hún lofi, og svo þótt hún banni, og skal kveðja níu búa til á þingi. Ef maður biður konu svefnis, og varðar það fjörbaugsgarð. [K: Það eru stefnusakir, og skal kveðja heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.] Ef maður gengur til sængar konu, að drýgja misræðu við hana, og varðar það fjörbaugsgarð. Ef maður feldur sér til vélar við konu eða fer hann í kvenklæði, og varðar það fjörbaugsgarð. Ef maður brýtur konu til svefnis, eða fer í sæng hjá henni til þess að koma fram legorði við hana, og varðar það skóggang [K: og skal stefna heiman, og kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er].

Kona á sakir þær allar ef hún vill reiðast við, enda komi eigi fram legorðið, og vili hún sótt hafa, en ella á lögráðandi hennar. Það eru allt stefnusakir, og skal kveðja heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er til fjörbaugssaka og skóggangssaka, en fimm búa til útlegðarsaka.

[K: Ef konur gerast svo afsiða að þær ganga í karlfötum, eða hverngi karlasið er þær hafa fyrir breytnis sakir, og svo karlar þeir er kvennasið hafa, hverngi veg er það er, þá varðar það fjörbaugsgarð hvorum sem það gera. Það er stefnusök, skal kveðja er til búa fimm á þingi þess er sóttur er. Sá á sök þá sækja vill.]

[K: Ef kona klæðist karlklæðum eða sker sér skör eða fer með vopn fyrir breytni sakir, það varðar fjörbaugsgarð. Það er stefnusök, og skal kveðja til búa fimm á þingi. Sá á sök er vill. Slíkt er mælt um karla ef þeir klæðast kvenna klæðnaði.]

Ef maður liggur með konu frjálsri og heimilisfastri, og varðar það skóggang. Það er stefnusök, en búa skal kveðja frá vettvangi, ef maður veit, en ellegar frá heimili hans, en rétt er að kveðja frá hennar heimili ef hann veit hvortki hinna.

28. OF AÐILDIR LEGORÐSSAKA.

Sakaraðili er fyrstur búandi konu, ef hann er. [K: Sakaraðili er fyrst búandi konu ef til arfs er alinn. Þá er faðir.] Þá sonur, ef hann er til arfs alinn, sextán vetra gamall eða eldri. Þá er sá er á dóttur hennar til arfs alna. Þá er faðir, þá bróðir samfeðri, en þá móðir. Þá er systir samfeðra, ef hún á búanda, þá bróðir sammæðri, þá systir sammæðra, ef hún á búanda, þá sonur laungetinn, þá búandi dóttur laungetinnar. Enda á sá maður jafnan legorðssök um hana sem festar.

Hinn skyldasti maður skal sækja legorðssök sem vígsök. Ef legið er með lögskuldarkonu, og á sá sök þá er fé á að henni. En fjörbaugsgarður varðar og hálfur réttur. Skal kveðja á þingi níu búa þaðan sem um önnur legorð, nema sá eigi vígt um, þá varðar skóggang. Ef legið er með ambátt, og sekst maður þar þrem mörkum. Skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er. Ef legið er með leysingju [K: með leysingskonu], og varðar það fjörbaugsgarð, nema barninu sé frelsi gefið, þá varðar skóggang, og skal kveðja heiman til níu heimilisbúa, og svo ef hún á son frjálsan. Enda er slíkt mál um lögskuldarkonuna, ef hún á soninn, en búa skal kveðja heiman níu.

29. OF GÖNGUKONUR.

Ef legið er með göngukonu, og varðar það eigi við lög ef maður gengur í gegn legorðinu, en sækja skal til faðernis. Rétturinn varðar ef maður synjar [K: ef maður dylur legorðið]. Skal kveðja fimm heimilisbúa til á þingi. Því aðeins varðar eigi legorðið, ef konan hefir á þeim hálfum mánaði með húsum farið, er barn var byrjað á.

Ef maður getur barn með konu þeirri er með húsum fer, þá skal hann taka við henni og varðveita til þess er barn er alið og hún er heil þeirrar sóttar, og svo ef hann vill til skírslu halda. Ef hann gerir eigi svo, þá varðar rétturinn [K: útlegð], og er það stefnusök, og skal kveðja fimm heimilisbúa á þingi þess er sóttur er. Sá á sök þá er vill, nema einn hver varðveiti konuna, og leggi kostnað fyrir. Þá á sá sökina, og skal sækja til réttar og til fúlgna tvennra. Skal kveðja heimilisbúa fimm þess er fé hefir lagið fyrir konuna eða barnið, um fúlgurnar.

30. OF GÖNGUMANNAKONUR.

Ef maður liggur með göngumannskonu varðar slíkt sem um aðrar manna konur, og á búandi konu sökina ef hann fer í löghrepp sínum. En þó að hann fari víðara, ef hann er ómagi, og á hann bætur að taka um konuna þó að annar sæki um. Slíkt varðar frændsemisspell og sifjaspell þar sem í öðrum stöðum, og á sá sakir þær er sækja vill.

31. OF ÞAÐ EF LEGORÐSSÖK ER Á HENDI DAUÐUM MANNI.

Ef legorðssök er á hendi dauðum manni, þá á að stefna þar er hann vissi lögheimili hans síðast, til faðernis og réttar í fé hans, og kveðja búa fimm á þingi. En ef áður er höfðuð sökin, áður hann sé dauður, og sekst þá féið allt.

32. OF KVENNAFYLGJUR.

Hvort sem maður fylgir konu úr fjórðungi eða af landi, þá varðar fjörbaugsgarð þeim öllum er fylgja að sínu ráði, vísir vitendur og að ósátt lögráðanda. Skal kveðja búa frá stefnustaðnum. Nú tekur maður við konu þeirri er numin er á brott, og vill hann eigi halda henni þar lengur en eftir henni er komið, og skal hann þá segja til þess á mannamótum, enda varðar honum þá eigi við lög.

Ef maður fylgir konu og beinir for hennar til skips, þeirrar konu er af landi vill fara, eigi að ráði frænda eða forráðanda, svo að hann veit að eigi fylgir frændaráð, og varðar þeim fjörbaugsgarð og svo stýrimönnum er á brott ferja hana, og svo þeim er fylgju takast á hendur við hana. En hásetum öðrum varðar þrjár merkur. Ef maður fylgir konu til þess að firra hana ráði lögráðanda, það varðar fjörbaugsgarð.

33. OF ERLENDISLEGORÐ.

Ef maður liggur með konu erlendis og getur barn við, ef nokkuð þeirra kemur út, þá varðar skóggang. Svo og ef með mannskonu er legið, og skal sækja við goðakvið. En ef skuldleikar eru með þeim, og er þá slík sókn til um frændsemisspell eða sifjaspell sem hér væri gert, er sótt er um legorðið. Og skal eigi taka til sóknar áður þrír vetur eru frá liðnir, nema út komi fyrr nokkuð þeirra, faðir eða móðir eða barnið. Þá er þegar rétt að taka til sóknar, og skal sækja við goðakvið.

34. OF ÞAÐ EF MENN SÆTTAST FYRIR LOF FRAM Á FRÆNDSEMISSPELL.

Í öllum stöðum varðar fjörbaugsgarð hvorumtveggja ef menn sættast á þau mál er eigi á að sættast á fyrir lof fram, um frændsemisspell eða sifjaspell eða um guðsifjar þær er kviðu á að ryðja um eða um mannakonur, og á sakir þær hver er vill, frumsökina og svo þá er þeir hafa sæst á það mál er eigi áttu á að sættast. Þar skal kveðja níu búa til á þingi. [K: Þetta eru allt þriggja þinga mál, og svo um austmannabörn við konu.]

Of frændsemisspell hið meira eða sifjaspell hið meira, ef þeim sökum verður rétt stefnt, og verður maður sannur að, þá eigu eigi varnir að metast um þau mál. Of mannakonur og nunnur varðar slíkt sem um frændsemisspell hið meira eða sifjaspell hið meira.

35. OF ÞAÐ EF BISKUPAR BIÐJA SÁTTALEYFIS.

Nýmæli: Þar er biskupar vilja biðja lofs að sættast um frændsemisspell hið meira eða sifjaspell hið meira, eða mannskonulegorð, þá skulu þeir segja til hverja sýknu þeir vilja að þeir menn hafi, þá þegar er þeir biðja lofsins, og svo hvað þeim er á hendi, og eigu menn svo að sættast á sem menn fengu lof til.

Það er hið meira frændsemisspell, ef maður liggur með næstabræðru sinni eða nánari konu. Ef hann á þá konu er næstabræðra hans er eða nánari, þá bergst hann ekki við bjargkvið þann að hann hafi eigi vitað frændsemina. Það er sifjaspell hið meira ef maður liggur með þeirri konu, og svo þó að hann eigi hana, ef bræðrungur hans hefir átta eða nánari, eða getið barn við og orðið sannur að legorði. Slíkt er og, ef sú frændsemi er með konunum, þeim er hann hefir áttar eða getið börn við eða orðið sannur að legorði, ef þær eru bræðrungur eða systrungur eða nánari.

Sifjaspell hið meira og frændsemisspell hið meira varðar skóggang, og skal sú sök sótt fyrir hið þriðja alþingi, ef eigi er áður, og skal kveðja til níu búa á þingi. Ef sá maður, er aðili er þeirrar sakar, er eigi á að sættast á fyrir lof fram, vill eigi sækja sök þá til fullra laga, þá varðar honum það fjörbaugsgarð. Sá á sök þá er vill, og skal kveðja til níu búa á þingi. Þriggja alþinga mál eru þetta allt, og svo ef austmaður á barn við konu hér á landi.

36. OF LEGORÐ VIÐ NÆSTABRÆÐRU EÐA MANNSKONU EÐA NUNNU.

Nýmæli: Nú liggur maður með næstabræðru sinni eða nánari eða mannskonu eða nunnu eða þeirri konu er svo er skyld hans konu eða þeirri er hann hefir átta, þá varðar skóggang. Eigi skal sættast á þau mál, og eigi biðja framar lofs til en hann sé ferjandi, eigi eigi afturkvæmt nema lof biskupa og lögréttumanna fáist framar.

Nú liggur maður með mannskonu, og skal sú sök sótt fyrir hið þriðja þing, ef eigi er áður. Eigi skulu þar kvittir ráða, því aðeins ef hún segir búanda sínum. Nú býður hann járnburð, og skal eigi því níta.

Nýmæli: Ef kona er ólétt, sú er hún á eigi búanda, og komi sakaraðili til að spyrja hana hver faðir sé barns þess er hún fer með, og er hún skyld að segja honum. En ef hún vill eigi segja, þá er þeim manni rétt, er sakaraðili er, að heimta til fimm búa þá er þeim stað eru næstir er þá er konan, og pína hana til sagna. Svo skal pína hana að hvortki verði að örkumbl né ílit. Ef hún segir hver faðir er barns þess, og skal hann spyrja hana hvar fundur þeirra hafi verið, og skal hann þá búa kveðja heiman níu er næstir búa fundinum, enda sé þeir réttir í kviðnum. Ef hún segir eigi fund þeirra, eða náir hann eigi að spyrja hana, og skal hann þá kveðja búa níu þess manns er hann sækir. En ef hann veit eigi það, og skal hann þá kveðja heimilisbúa níu konunnar.

Eigi skal maður taka minni sátt en rétt um legorðssök, en ef hann tekur minni, eða gerir maður minni sátt, þá varðar sex merkur, en hver á að sækja er vill um hvorttveggja, frumsökina, og þá er hann tók minni sáttina eða hann gerði minni.

37. OF ÞAÐ AÐ SÆKJA UM LEGORÐ.

[K: Konur þær allar er eigi á lofs að biðja til sátta, og skulu eigi arf taka ef þær liggja sér, nema þær væri neyddar til.]

Ef maður vill sækja um legorð, þá skal hann stefna hinum um það að hann hafi legið með konunni og í þær vændir komið að þau mætti barn ala ef þeim væri það skapað, nefna þann er hann stefnir og svo konuna og feður þeirra beggja ef hann veit, telja honum varða skóggang, telja sér rétt úr fé hans. Svo á hann því máli að fara, þó að hann sæki um legorð eitt, sem þá að konan sé með barni. Svo skal hann því máli fara sem nú er talið, þó að hann lýsi heldur en stefni. Skal kveðja níu búa heiman frá vettvangi.

Maður á kost að stefna um legorð er barn er alið, að hann hafi legið með konunni, og nefna hana, og í þær vændir komið að hann mætti vera þess barns faðir er hún ól, og kveða á nær hún varð léttari, og nefna barnið, en ef sá verður ósannur að, og á hann kost að sækja annan annað sumar.

38. OF ÞAÐ EF ANNAR SÆKIR LEGORÐSSÖK EN AÐILI.

Legorðssök engi fyrnist áður sóknaraðili veit, sú er barngetnaður fylgir. Slíkt varðar, hvegi lengi er hann er leyndur, sem þá sé ný er hann spyr. En sótt skal legorðssök á hinu næsta alþingi ef kona verður léttari laugardag í fardögum eða fyrr, eða fregni sakaraðili svo eða fyrr, enda skal svo þá ef það legorð er, er eigi fylgir barngetnaður, þótt hann viti.

Þar er annar maður sækir legorðssök en sakaraðili, og tekur hann minni sátt en hann mundi ef hann skyldi féið hafa, varðar honum fjörbaugsgarð, og skal kveðja til níu búa á þingi. Sá á sök er fé á að taka. Eigi skal maður sækja fleiri menn til faðernis hins sama barns eitt sumar en einn. Sækja á hann svo marga sem hann vill senn á einu sumri um legorð um hina sömu konu.

Nýmæli: Eigi fylgir lögsekt lengur en til hins þriðja alþingis. Sækja skal til faðernis og réttar ef lengur þarf.

Þar er maður sækir mann til faðernis barns, hann skal stefna honum um það að hann hafi legið með konunni, og í þær vændir komið að hann hafi getið það barn er sú kona ól, ef þeim væri það skapað, kveða á hvenær hún varð léttari þess barns, og nefna barnið ef hann veit og svo konuna og svo þann er hann sækir til faðernis. Hann skal stefna að heimili hans, eða þar er hann hittir hann sjálfan að máli, til faðernis og réttar, og kveðja fimm heimilisbúa til á þingi þess er sóttur er. Rétt er að lýsa á þingi til faðernis og sækja hið sama sumar.

39. OF ÞAÐ EF SKÓGARMAÐUR GETUR LAUNBARN MEÐ KONU.

Nýmæli: Eigi skal lýsa legorðssakir né um skáldskap að þinglausnum til sóknar annað sumar á hendur innanfjórðungsmönnum.

Rétt er manni að höfða legorðssök eigi fyrr en barn er alið. Þá er mál uppvíst er aðili hefir spurt svo að kona segir honum, eða þá er barn er alið. Ef kona leggst með manni, og á sakaraðili kost að taka af henni átta aura hins fimmta tigar ef hún á fé til. Nú á hún eigi fé, þá skal hann leggja skuld á hana, og segja til þess að sátt eða að féránsdómi. Legorðssakir allar skulu sóttar vera hið næsta alþingi, þar er kona er orðin léttari þvottdaginn í fardögum eða fyrr, enda sé aðili innan fjórðungs, og hafi þá spurt sök þá. Sókn er til, þar til er líður hið þriðja alþingi, um þær legorðssakir er eru um mannakonur eða frændsemisspell hið meira, og svo ef austmaður getur barn við konu, þaðan frá er aðili hefir spurt.

Ef legið er með konu fyrr en hún er manni föstnuð, og komi það svo fremmi upp er hún er manni gefin, þá eru frændur aðiljar þeirrar sakar en eigi búandi hennar, og þeir eigu bætur.

Ef skógarmaður getur launbarn með konu, og er rétt að lýsa að Lögbergi til faðernis á hendur honum. Skal kveðja fimm búa til á þingi þaðan frá er hún segir fund þeirra verið hafa. Ef hún segir eigi fund þeirra, þá skal frá heimili hennar kveðja búa. [K: En ef maður ifar nokkuð sekt hans, þá skal hann sækja sem sýknan mann.]

Börn þau, er menn verða sekir um faðerni, þarf eigi að færa til féránsdóms, enda skal dæma þeim för um fjórðung þann er féránsdómur er áttur í.

Ef legið er með þess manns konu er erlendis er, þá eigu frændur konunnar að sækja þá sök, þeir er nánastir eru út hér, en hann á að taka bætur. En ef hann andast erlendis, og á hans erfingi bætur að taka.

Ef kona firrist bónda sinn, þá á hann kost að bjóða henni heim og verja síðan lýriti innihöfn hennar þar er hún er, eða þar er hann vissi náttstað hennar síðast, enda varðar fjörbaugsgarð samvista hennar þeim er fregna lýritarvörslu hans. Hann á kost að verja að Lögbergi lýriti innihöfn hennar eða samvistur við hana.

40. OF MANNVILLU.

Fjörbaugsgarð varðar mannvilla. Það er mannvilla ef maður kennir sér annars manns barn, eða hann kennir öðrum manni sitt barn vísvitandi, enda gera þeir menn allir mannvillu er í því standa, hvort sem þeir villa faðerni eða móðerni eða bæði.

41. OF KVENNANÁM.

Ef maður tekur konu nauðga á brott og vill eiga ganga, varðar það skóggang, og svo þeim er honum fylgja að því ráði. Slíkt varðar honum þótt annar maður nemi hana á brott honum til handa og að hans ráði, og svo þeim er í förinni eru. Ef menn kalla til konu í hendur honum eða þeim mönnum er með honum fara og ná eigi, þá eru þeir óhelgir við áverkum öllum við þá menn alla er til konunnar kalla. Búa skal kveðja níu heiman, þaðan er konan er numin. [Bd: Því aðeins skal sækja þann mann er eigi var í förinni ef sá er sóttur er eiga gekk konuna.] Sá maður er sækir þetta mál á kost heiman að stefna öllum þeim þar er konan átti heimili þá er hún var numin, enda á hann kost þess, ef hann vill, að lýsa að Lögbergi á hendur þeim og sækja hið sama sumar. Fjörbaugsgarð varðar þeim mönnum öllum er samvistum eru við þá menn er í þeirri för voru er konan var numin, vísir vitendur, frá því er hún var numin á brott og til þess er sótt er um. Þá menn er konu hafa numið, eða það hafa ráðið eða hafa hana inni, skal í þann fjórðungsdóm sækja er búar eru fleiri úr kvaddir úr fjórðungi.

Þar er kona verður numin á brott, og á hún eigi að selja fjárheimtingar sínar né sakar enigar áður líður það alþingi er sótt er um, nema hún komi aftur til lögráðanda sinna, og sé eigi sakir til búnar.

42. OF FARNING MANNA.

Ef menn ferja þá menn af landi héðan er konu hafa numna og konuna með þeim, og varðar fjörbaugsgarð þeim mönnum öllum er samskipa þeim fara, enda varðar svo ef þeir fara samskipa þeim manni er konuna lét nema sér til handa, þótt hann væri eigi í förinni. Stefna skal þeim sökum að festarhælum, enda kveðja þaðan búa níu á þingi.

Ef meiri eru ráð kennd um konunám þeim manni er eigi var í för þeirri, og skal láta varða skóggang honum, ef menn vilja sækja hann, og svo hið sama þótt fleirum mönnum sé ráð kennd, og skal kveðja til heimilisbúa níu heiman þess manns er sóttur er. Þar er rétt um sakir þær allar er búa skal kveðja heiman til, hvort sem vill að stefna heiman eða lýsa á þingi. Það er og rétt um sakir þær er gerast af konunáminu, í ráðum eða í eiginorði, ef sakaraðilja þykir sér það hægra, að kveðja búa níu heiman um þann stað sem konan var á brott numin.

43. OF FESTARKVENNANÁM

Ef maður nemur festarkonu manns á brott, það varðar öllum þeim skóggang er hlut eigu í því, við lögráðanda hennar og svo við festarmann hennar. Skóggang varðar þeim manni eiginorð, er þá konu gengur að eiga er numin er í brott, þó að hann væri eigi í för þeirri. Of sakir þær allar er af konunáminu gerast, um ráð og um tilfarar og nám og um eiginorð, er rétt að kveðja búa frá heimili konunnar.

En ef þeir ferja konu þá af landi á brott er numin er til eiginorðs, og er rétt að stefna að festarhælum stýrimönnum og hásetum.

Því aðeins skal stefna frá heimili hennar um ráð eða kveðja búa, ef sá er sóttur er konuna gengur að eiga, enda hafi hann eigi í för verið. Ef ráð eru kennd öðrum mönnum, þeim er eigi fóru til, og skal þeim stefna að heimili sínu eða þar er hann finnur þá að máli, og kveðja til níu búa á þingi.

44. OF MANNFRELSI.

Sá maður er manni gefur frelsi, hann skal færa fram börn hans. Jafnt er það sem um arf.

Það er um þræla, að sá maður skal þá fram færa er fé á að þeim. Eigi verður hann fyrr frjáls en hann hefir goldið helminginn verðsins eða meira. Þá er manni frelsi gefið að fullu, er hann er í lög leiddur. Hann skal í lög leiða goði sá er hann er í þingi með, og skal hann taka kross í hönd sér og nefna votta í það vætti, að hann vinnur eið að krossi og segir það Guði að hann mun halda lögum sem sá maður er vel heldur, og hann vill þá vera í í lögum með öðrum mönnum. „Þeim er Guð gramur [K: þeim sé God gramt] er því nítir, nema fé sínu bæti.“ Eigi þarf sá maður þann eið að vinna, er honum var ungum frelsi gefið.

Hálfan rétt skal hann taka ef hann kemur á jarlsjörð, en þá allan og fullan er hann kemur á konungsjörð. Penning skal hann gefa goða þeim er hann leiðir í lög, það skal hinn tíundi hlutur eyris vera. Þeim þræli skal hann frelsi gefa er hann hefir fulla verðaura fyrir fundið. Nú gefur hann þeim frelsi er hann hefir eigi fullu verði keyptan, nú ræður hann sér á hendur þann ómaga en eigi frændum sínum.

Rétt er að maður kaupi til eiginkonu sér [K: til karnaðar sér] ambátt, tólf aurum fyrir lof fram.

Ef þræli er gefið frelsi, og er hann eigi leiddur í lög eða í brekku, þá skal hann hvorki taka frjáls manns rétt né þræls, enda heitir hann þá grefleysingur.

45. OF FRÆNDSEMISSPELL HIÐ MEIRA.

Of frændsemisspell hin meiri, eða sifjaslit hin meiri, ef þeim sökum verður rétt stefnt, og verður maður sannur að, þá eigu varnir eigi að metast um þau mál. Of mannakonur og nunnur, það er slíkt hið sama. En það er frændsemisspell hið meira ef maður liggur með næstabræðru sinni eða nánari konu, og varðar það skóggang. En það eru sifjaslit hin meiri er maður liggur með systrungum tveim, eða þeirri konu er bræðrungur hans hefir barn við getið, það varðar skóggang. En of frændsemisspell hin minni og um sifjaslit hin firnari en svo, þá varðar fjörbaugsgarð. Það eru allt stefnusakir, og skal kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er.

Það er mælt enn, ef maður elur barn við þeirri konu er eigi á að sættast á fyrir lof fram, og vilja þeir menn sættast á er sækja eigu, þá skal sá, er sök er á hendi, handsala sekt sína, ef eigi fæst lof til alsýknu honum, slíka sem lof fæst til. Nú hittast þeir eigi, og skal hann þá selja í hönd öðrum manni að handsala þeim sekt hans. Ef eigi fæst lof til sátta, þá skal gera sekt hans. Þar skal bera vætti það láta í sáttardóm er hann handsalaði sekt sína, og svo það er hann seldi öðrum manni í hönd. Ef nokkur sýkna fæst honum, þá skal biskup segja hverja sekt hann vill að hinn hafi, og skal nefna votta að því á hvað hann kveður um sektina og láta það vætti bera í sóknina.

Það er og rétt að stefna manni heiman til sáttalofs, og skal þá láta dæma sekt hins slíka sem biskup fær leyfi til. Ef sá maður fer annan veg með sér síðan en biskup kvað á, þá er hann bað lofs til sýknu honum, þá á biskup kost á hinu næsta alþingi því er hinn brá af hans boði, að segja til sektar hans að Lögbergi, svo fullrar sem hann vill. Biskup á því að ráða, sá er yfir þeim fjórðungi er, hvort hann vill láta eiga féránsdóm að þann mann eða eigi. Ef biskup vill að dómur sé, þá skal hann á það kveða er hann segir til sektar hins, hvort féránsdómur skal vera, enda skal sá maður upp halda er hann kveður til. Það vætti skal láta bera í dóm þann er nefnt var að orðum biskups, þá er hann sagði til sektar hins. En fé allt og ómagar hins sekja manns skal svo fara sem biskups er ráð til.

Ef þeim manni er borgið eftir féránsdóm, og er það þegar fimmtardómssök, varðar skóggang, og á sá maður sakir þær. Nú vill biskup eigi láta féránsdóm vera, þá skal hann segja til þess að Lögbergi, en svo fer annað allt sem áður er talið, og slíkt varða þá bjargir snemma.

46. OF ÞAÐ HVAÐ MANN FÆRIR Í ÆTT.

Fjórir eru þeir hlutir er menn ber í átt á landi hér. Sá er einn hlutur ef maður á konu þá er hann hvílir hjá, og skal það hans barn vera er sú kona elur. Sá er annar hlutur ef maður handsalar faðerni að barni og viðtöku. Sá er hinn þriði hlutur ef skírsla er ger, og vinni hún mann sannan að faðerni barns. Sá er hinn fjórði hlutur ef kviður sannar mann að faðerni barns.

Að þeim hlut nokkurum skal maður í átt vera að lögum vorum sem nú er talið, en engum öðrum. Eigi skal heimiskvið annan að henda eða illtyngdir. Sú sök fyrnist aldregi að sækja til faðernis.

47. OF UNDIRMÁL Í SÆTTARHANDSALI.

Þar er menn vilja nefna sátt með sér, og vilja þeir lúka með sér fleirum sökum en einni, og verður manni það fyrir að hann kippir á brott hendi sinni þá er sum mál eru tínd en sum eigi, en þó verða svo fremmi hin fyrstu handsöl föst er lokið er hinum efstum, er um þau mál áttu að fylgja.

Ef maður sættist á sök, eða hverngi máldaga þeir gera með sér, og skal það tína fyrir vottum á hvað þeir sættast. Nú verður öðrum þeirra það fyrir, að hann kveður svo að orði „að sakir allar skulu liggja niðri á meðal okkar, þær er fyrir þenna dag eru gervar,“ og veit hann vonir leyndra mála með þeim, og vill hann svo véla hinn, og eru eigi þá sakarnar settri en áður, þær er leynt var, og varðar það fjörbaugsgarð, og á sá sök er hann vildi véla. Skal stefna heiman og kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

48. OF ÞAÐ EF ANNAR HANDSALAR SÁTT FYRIR MANN UM LEGORÐSSÖK.

Ef annar maður handsalar sátt fyrir mann um legorðssök, og skal hann skuldfesta hinn því fé, og gefa honum eigi það fé áður hann hefir unnið hálft af sér eða meira, nema faðir eða móðir eða bróðir eða systkin hans nokkuð leysi hann undan. Þau eigu að gefa honum það fé er þau vilja. En ef annar maður leysir hinn undan, og skal sá skuldfesta hinn öllu því fé er hann geldur fyrir hinn, nema hann gjaldi meira en sá væri verður ef hann væri þræll, og skal hann eigi meira fé skuldfesta en hans verð væri ef hann væri í ánauð.

Þar er maður tekur mann í skuld, þá skal hann segja til heimilisbúum fimm með votta, þeim er honum búa næstir, til skuldfesti hans, og svo að Lögbergi hið næsta sumar eftir, enda má hann þá verja lýriti innihöfn hans ef hann vill. Þá varðar skóggang öllum öðrum mönnum ef hann hafa inni og þiggja verk að honum, og er það fimmtardómssök. Nú getur hann launbarn annað meðan hann er í skuldinni, og verður hann þá þræll hins er féið átti að honum, svo sem hann væri ambáttarsonur. En sá er féið galt fyrir hann skal varðveita barn hans og ala upp í ánauð. En ef handsalsmaður gerir eigi svo, þá verður hann sekur um það sex mörkum, og á sá sök er vill, og skal stefna heiman, og kveðja til fimm heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Þess á maður og kost, sá er aðili er legorðssakar, þar er kona hefir barn alið laungetið, að heimta að henni sex merkur ef hún á fé til, eða skuldfesta hana ella þeim sex mörkum. Það skal hann mæla að heimili konunnar.

Ef kona er ólétt, sú er eigi á sér bónda, usque „né ílit“. Ef sá maður leynir því með henni, vísvitandi, er barn það á, þá skal eigi sættast á legorð það við hann nema einkaleyfis sé að beðið. Jafnt varðar þar við hvort þeirra sem þau hafi gert frændsemisspell hið meira eða sifjaspell hið meira. Svo varðar þar mannvilla sem annars staðar, og skal stefna þeirri sök heiman og kveðja til á þingi níu heimilisbúa þess er sóttur er.

Ef legið er með konu, enda eigi barn hennar bætur að taka eða sá maður er hún á varðveislu fjár, og skal hún eigi að heldur varðveita það fé né taka vöxtu af. Ef ólétt kona verður sek, þá varðar eigi björg hennar, og eigi verður hún óheilög áður hún rís upp af sængu.

49. OF ÞAU MÁL ER EIGI SKAL SÆTTAST Á FYRIR LOF FRAM.

Það er mælt í lögum vorum að hvar þess er menn sættast heima á þær sakir er eigi á að sættast á, og varðar það fjörbaugsgarð hverjum er á sættast, og á hver sök þá er vill. Stefna skal heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er. Sá maður er sök þessa vill sækja skal nefna votta „í það vætti, að eg stefni N. N-syni um það að hann sættist á sök þá er hann er aðili að við þann mann,“ og nefna hann, „þá legorðssök er hann lá með N. N-dóttur,“ þeirri konu er frændsemisspell hið meira fylgir eða sifjaspell, eða hún sé mannskona eða nunna, „en eg teljumk aðili að sökinni. Tel eg hann af sök þeirri sekjan fjörbaugsmann. Stefni eg til þings.“ Síðan skal hann stefna hinum, er sök er á hendi, og mæla svo: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni N. N-syni um frændsemisspell það er hann gerði í því legorði er hann lá með N. N-dóttur. Tel eg hann eiga að verða um sök þá sekjan skógarmann,“ ef hin meiri mein eru. Sanna skal frændsemi að dómi og kveðja búa níu til á þingi, og svo um sifjar.

Rétt er að sækja um legorð ef sá maður vill sótt hafa, þótt kona segi eigi á hendur manni er aðili er. Ef maður verður aðili að sök þeirri er frændsemisspell hið meira fylgir eða sifjaslit hið meira, og vili hann eigi sótt hafa, og varðar það fjörbaugsgarð, enda á sá sok er vill, og skal stefna heiman: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni N. um það að hann hafi eigi selda né sótta legorðssök þá er hann er aðili að á hönd N., er hann hefir legið með N.,“ þeirri konu er fylgir frændsemisspell hið meira, eða sifjaslit hið meira, „á hinu þriðja alþingi síðan er sú sök kom upp fyrir hann. Tel eg hann sekjan fyrir það fjörbaugsmann, og teljumk eg nú aðili að sök þeirri. Stefni eg til þings.“

Þar er maður á frændkonu sína eða sifkonu, og varðar fjörbaugsgarð um hin minni mein: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni um það að hann eigi N. frændkonu sína eða sifkonu. Læt eg að dæma eigi skilnað með þeim þá er frændsemi er sönnuð eða sifjar að dómi. Tel eg hann sekjan fjörbaugsmann. Stefni eg til þings.“

Tvíkvenni varðar enn fjörbaugsgarð. En það er tvíkvenni ef maður gengur konu að eiga, sá er eigi hefir lögskilnað gert við þá konu er hann hefir fyrr átta: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni N. um það tvíkvenni er hann gekk að eiga N., og galt mund við, svo að hann var eigi skildur við N., þá konu er hann hafði brullaup til gert. Tel eg hann um það sekjan fjörbaugsmann. Stefni eg til þings.“

Ef maður á næstabræðru sína eða nánari konu, og varðar það skóggang, enda bergst hann þá eigi við bjargkvið þann að hann vissi eigi frændsemina. Slíkt er og hið sama um sifjar hinar meiri. Ef þeim sökum verður rétt stefnt er fylgir hið meira frændsemisspell eða sifjaspell hin meiri, enda verður maður sannur að, og komi gögn öll fram, þá eigu eigi varnir að metast um þau mál. En það er frændsemisspell hið meira ef maður liggur með næstabræðru sinni eða nánari konu. En það er sifjaspell hið meira ef maður liggur með þeirri konu er bræðrungur hans hefir átt, eða nánari maður, eða er orðinn sannur að legorði við hana, enda er slíkt mælt ef sú er frændsemi með konunum, þeim er hann er orðinn sannur að legorði við báðar, að þær eru systrungur eða nánari.

Ef maður getur barn við göngukonu og vill eigi duga henni eða barni, þá á að stefna honum: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni N. um það er hann tók eigi við barni því er hann gat við N., og eigi við henni sjálfri meðan hún var vanheil. Tel eg hann sekjan um það réttinum, átta aurum hins fimmta tigar. Stefni eg honum til gjalda tvinnra um fúlgur slíkar sem búar virða að dómi að mig hafi kostað fyrir þau. Stefni eg honum til þings.“

Nú vill maður sækja dauðan mann til faðernis, og skal hann svo mæla: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni N. til faðernis barns þess er heitir N., og sú kona ól er N. heitir. Tel eg mér rétt úr fé hans, því er N. átti á deyjanda degi. Stefni eg til þings.“

Það er og, ef maður vill kveðja búa um legorðssök, og skal hann svo mæla: „Nefni eg í það vætti, að eg kveð N. búakviðar að bera um það hvort N. hafi legið með N. og í þær vændir komið að þau mætti barn eiga ef þeim væri það skapað, og hvort hann sé faðir að barni því er N. heitir, og N. ól á vetri,“ eða svo sem alið var. „Eg kveð þig að bera kvið þann nú í sumar fram að alþingisdómi, og í dóm fram með nauta þína átta, en þú sé sjálfur hinn níundi, þar er sök er fram sögð á hönd honum, og bera kvið þann annaðtveggja á eða af. Eg kveð þig allra þeirra orða er þig skylda lög til um að skilja, og eg vil þig að dómi beiddan hafa, og þvísa máli eigu að skipta. Kveð eg þig lögkvöð svo að þú heyrir á,“ ef svo er.

Ef maður vill lýsa legorðssök í þingbrekku eða að Lögbergi, og skal hann svo mæla: „Nefni eg í það vætti, að eg lýsi sök á hönd N. um það að hann hafi legið með N. og í þær vændir komið að þau mætti barn geta ef þeim væri það skapað. Eg tel hann eiga að verða fyrir sök þessa sekjan skógarmann, óælan, óferjanda, óráðandi öll bjargráð. Tel eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft öllum fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eigu að taka. Tel eg rétt úr fé hans, átta aura hins fimmta tigar til handa sakaraðilja. Eg lýsi sök þessa til dóms. Lýsi eg löglýsing í heyranda hljóði,“ í þingbrekku eða að Lögbergi. „Lýsi eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd N. Lýsi eg handselda sök,“ ef svo er. Svo skal maður og því öllu máli fara, þótt hann stefni um legorð, sem nú var tínt.

50. OF MUND.

Þar er hjú koma bæði í eina sæng, að þá er konu heimill mundur sinn, og svo vextir af fé því öllu er henni er mælt í mundarmálum. Kona skal og af sínu fé einu taka til atvinnu sér, enda skal hann eigi leiga það fé er hún á í gripum.

Búandi hennar verður aðili mála þeirra allra er hún var áður aðili að. Svo á hann enga sök þá að taka af henni, og svo verður hann þá aðili að legorðssökum um frændkonur hennar. Þeirra saka er hann seljandi, og svo þeirra allra er hún átti áður hún væri gefin.

51. OF SAMFARAR HJÓNA.

Ef samfarar hjóna versna svo mjög að konu þykir sér óhægindi verða á því öllu er hún þarf að hafa til atvinnu sér í fémunum, og á hún að segja til biskupi þeim er yfir þeim fjórðungi er. Biskup á að lofa henni, ef honum líst það ráð, að heimta fé sitt, hvort sem hann vill lofað hafa að heimta féið allt eða sumt, enda skal hún slíkan hlut láta heimta af fé sínu sem biskup lofar henni, hvort sem það er meiri hlutur eða minni fjár hennar.

Kona sjálf er jafnan aðili að fjárheimtingum sínum við búanda sinn, hverjum sem handsalað var í mundmálum, hvort sem er að biskup lofar henni fjárheimting eða órækist búandi hennar við hana svo að hann hvílir sex misseri fyrir utan rekkju hennar af óræktum.

Ef lögráðandi giftir konu þá er ólétt er, vísvitandi, svo að hann leynir hinn því, og varðar það fjörbaugsgarð honum, þótt lögráðandinn vissi eigi þá er hann fastnaði hana, og verður vís síðan og fyrir samgang þeirra. Það er stefnusök, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

52. OF LEGORÐSSAKIR.

Legorðssakir þær er aðili hefir spurt hinn fimmta dag þá er fjórar vikur eru af sumri eða fyrr, enda sé konan þá orðin léttari, og skal hann stefnt hafa sök þeirri, ef hann er sams fjórðungs, miðvikudag hið síðasta, þá er sex vikur eru af sumri fimmtadaginn eftir, en búar skulu kvaddir þvottdag í fardögum hið síðasta. Ef aðili spyr legorðssök síðar en fjórar vikur eru af sumri, og þó fyrir drottinsdag í fardögum, enda sé konan þá orðin léttari, og sé aðili innan fjórðungs, þá skal stefnt vera sök þeirri hið síðasta, þá er sjö vikur eru af sumri. Ef aðili spyr legorðssök drottinsdag í fardögum eða síðar, og er honum eigi skylt að búa mál til á því sumri nema hann vili, þótt konan sé orðin léttari þá. En ef hann vill sækja það sumar sökina, þá skal stefnt vera hinn fimmta dag þann er átta vikur eru af sumri, og svo búar kvaddir hið sama. Ef sökin kemur svo síð upp, að hann má eigi fá kvadda búa þá er átta vikur eru af sumri, og skal hann þá stefna svo nær þingi sem hann vill, ef hann vill það sumar sækja, og kveðja til búa níu á þingi, þá er næstir búa þeim stað er hann ætti heiman um að kveðja.

Ef aðili legorðssakar er utan fjórðungs, og er honum rétt að hafa þann tilbúnað sem nú er taliður, enda er honum og kostur að stefna heiman og kveðja til búa níu. Ef utanfjórðungsmaður spyr svo síð sökina að hann þykist eigi mega til komast að búa til, hvatki er fyrir stendur, og er rétt að lýsa að þinglausnum til sóknar annað sumar, og kveðja til heimilisbúa níu á þingi eða heiman, ef hann vill það heldur. Ef legorðssakir eru eigi svo sóttar sem nú er talið, og spillast þá sakarnar.

Það er rétt og eigi skylt, að maður búi legorðssök til fyrr en barn sé alið, ef hann vill, og sæki hinn um legorðið. En þá skal sækja annað sumar til faðernis um barnið. Eigi sækir til faðernis fyrr en barn er alið, þó að sótt sé um legorðið. Of legorðssakir þær allar er við níu búa kvið skal sækja, að þar er rétt hvort sem vill að stefna heiman eða lýsa á alþingi.

Sá maður er legorðssök vill til búa að búakvöð, hann skal fara til fundar við konu þá er hann vill sækja um, og spyrja hana hver faðir barns þess sé er hún fer með, eða hún hefir alið. Ef sakaraðili spyr hana þess, og er hún skyld að segja honum. En ef hún vill eigi segja usque „konunnar“.

Ef maður sækir mann til faðernis barns, enda hafi hann sóttan hinn áður um legorð, og skal hann stefna hinum um það að hann hafi legið með konunni, og nefna hana og svo föður hennar, „og í þær vændir komið,“ skal hann kveða, „að hann mátti vera faðir barns þess er hún ól,“ og kveða á nær hún varð léttari, enda skal nefna barnið, og svo þann er hann sækir til faðernis, og stefna lögstefnu. Þar skal kveðja til búa fimm á þingi, þá er næstir búa fundinum, þeirra sem þar eru til. Ef kviðurinn ber af þeim, eða verður hann annan veg ósannur að, og á hinn kost að sækja annan annað sumar, ef hann vill, til faðernis. Eigi skal hann fleiri menn sækja til faðernis eins barns hið sama sumar en einn. En aldregi fyrnist sú sök meðan óreynt er hvers barn er.

Ef kona verður dauð af barnburð, og varðar þeim skóggang er barn á, og á sá sök er legorðssök á, og er rétt að lýsa ef vill, og sækja hið sama sumar, en búa skal kveðja heiman níu, um þann stað er konan andaðist í.

Ef maður tekur minni sátt um legorðssök en rétt þann er mæltur er í lögum, en það eru átta aurar hins fimmta tigar sex álna aura, og verður hann sekur um það sex mörkum, og á hver sök þá er vill, enda er þá glapið legorðssökin, og á hver að taka upp sök þá er vill, og sækja til laga. Ef maður sækir legorðssök handselda, og tekur minni sátt en þá mundi hann að hann skyldi féið hafa, og varðar honum það fjörbaugsgarð. Aðili legorðssakar á sök þá. Þar skal stefna heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess manns er sóttur er. En því aðeins tekur hann legorðssökina ef hinn hefir minni sátt tekna en réttinn.

53. OF HJÓNASKILNAÐ.

Nýmæli: Það er mælt að hvergi skal hjónaskilnaður vera fyrir fátækis sakar, hvortki sá er þau ráða sjálf né frændur þeirra. Skipta skal ómögum þeirra og færa frændum sem áður var mælt. Eigi skulu þau skyld að skilja rekkju sína fyrir þeim sökum.

Ef að réttum tölum verður annað hjóna félaust, þá skulu ómagar þess er félaust er koma á fé þess er féið hefir.

Ef maður getur barn við frændkonu sinni eða sifkonu, svo að því fylgir frændsemisspell hið minna eða sifjaspell hið minna, og svo ef kvongaður maður getur barn við annarri konu en eiginkonu sinni, eða getur maður barn við þeirri konu er búandi hennar lifir, þótt hann eigi eigi að taka réttafar um hana, enda fyrbjóði biskup sá er yfir fjórðungi er, eða umboðsmaður hans, þeim samvistur, og hafa þau eigi það er hann mælir um, þá á biskup að þeim manni þrjár merkur vaðmála, og er eindagi á fé því í búanda kirkjugarði miðvikudag í mitt þing, hið næsta sumar eftir það er eigi er haft það er biskup bauð, og varðar þrjár merkur hald fjár þessa, og skal sá sök sækja er biskup býður um. Ein missari stendur þetta mál, svo að biskup eigi fé að taka.

54. OF ÞAÐ EF HJÚ VERÐA EIGI SAMHUGA.

Þar er hjú verða eigi samhuga, þá er biskupi rétt að lofa konunni fjárheimtingar sínar allar undan búanda sínum, þótt hann geri eigi lögskilnað þeirra, ef honum þykja forurtir til þess. Svo skal fé hennar heimta sem biskup mælir fyrir, hvort sem það er hið næsta vor eða síðar. Kona þarf eigi að láta stefna bónda sínum til biskupsfundar um þetta mál, og því aðeins ef hún vill lögskilnað gera láta. Nú er sótt til fjár þess, og hefir verjandinn það til varna að hann sé réttur forráðandi fjár hennar, og eigi sé lögskilnaður ger með þeim, þá skal sækjandi láta bera fram vætti það er nefnt var að orðum biskups þá er hann lofaði fjárheimting, og á þá að dærmast féið þannug svo mikið sem gögn báru til.

Ef maður fastnar sér konu, þá skulu festar haldast svo lengi sem á var kveðið. En að liðinni þeirri stefnu er á var kveðið, ef sá órækist við að gera brullaup til konu er sér fastnaði hana, þá segja lög lausar festar, og er eigi honum sú kona heimilli en þá að hún væri honum eigi föstnuð. Ef eigi er á kveðið á brullaupsstefnu eða hve langar festar skulu vera, þá halda þær tólf mánaði þaðan frá er kona var föstnuð, og eigi lengur, og segja lög þær þá lausar.

Þá er brullaup gert að lögum er lögráðandi fastnar konu, enda sé sex menn að brullaupi hið fæsta, og gangi brúðgumi í ljósi í sama sæng konu.

Ef frændsemi sú eða sifjar koma upp með hjúum, er þau eigu eigi saman að vera að lögum, enda vili þau eigi skilnað gera, þá skal biskup sá er yfir fjórðungi er, fá til þrjá menn, þá er það leggi undir þegnskap sinn, að sú er frændsemi eða sifjar með þeim. Enda skal þá biskup segja skilið með þeim, og verður það þá lögskilnaður á meðal þeirra.

55. OF MEIRI TÍUND.

Þar er menn skulu gera tíund hina meiri af fé sínu fyrir ráðahags sakir, þá skal af því tíundarfé bera í lögréttu hundrað álna, og er þá sem fimm aurar gjaldist af hverjum fjórðungi tíundar í því. Maður skal og gjalda lögtíund hvert ár af fé sínu jafnvel þá sem áður, þótt hann geri hina meiri tíund, en það vor er hefst gjald hinnar meiri tíundar skal niður falla jafnmikið af hverjum fjórðungi þeirrar tíundar sem maður geldur í fjórðung lögtíundar. En af því tíundarfé er þá verður eftir skal biskup hafa fjórðung, sá er yfir fjórðungi er, en annan fjórðung tíundar skal gjalda til Þingvallar. Síðan skal sá er gjalda á ráða fyrir þeim tveim fjórðungum tíundar, við ráð biskups, er þá eru eftir.

En ef maður gerir eigi tíund hina meiri, þá varðar það fjörbaugsgarð, og skal kveðja til níu búa á þingi, og á sá sök er vill. Of lögtíund eru hin sömu viðurlög, hvegi lengi er tíund er haldið.

Þar er maður sækir um lögréttufé, og er rétt að lýsa sök þá að Lögbergi til sóknar hið sama sumar. Hann skal kveðja til fimm heimilisbúa á þing. En hinn skal beiða bjargkviðar fimm heimilisbúa sína, að hann vissi eigi með þeim áttarmót, og helpur honum eigi sá lengur en hið fyrsta alþingi.

Ef maður liggur með konu erlendis og getur barn við, og varðar skóggang hér, og skal eigi taka til sóknar áður þrír vetur eru frá liðnir. Ef maður hefir legið með mannskonu, og kemur það eigi fyrr upp en búandi hennar er andaður, og eigu konu frændur sökina.

Ef frændsemi er firnari með karlmanni og konu en að þriðja manni, og nánari en að sétta manni, og varðar það fjörbaugsgarð. Nú er þriðjabræðra eða nánara, og skal þá eigi sættast á fyrir alþingi. Þá er maður sóttur er kviður ber á hann, eða ber hann járn, eða tekur hún í ketil. Eigi skal maður eiga þá konu er frændi hans hefir átt, manni firnari en annarrabræðri eða nánari. Ef sifjaspell er hið minna, eða frændsemisspell, og skal eigi sættast á fyrir þing þótt á legorð sé sæst.

Eigi skal maður eiga þá konu er hann hélt barni hennar undir skírn, eða undir biskupshönd, eða hún hélt hans barni. Fjörbaugsgarð varðar ef hann á þá konu, og fyrnist eigi sú sök meðan hann á konu. Sá á sök þá er vill.

Ef hjú eru skilið sex missari, og eigi fyrir hans órækt, þá skal hann bjóða henni til fenginnar vistar svo að hún heyri, eða að lögheimili hennar svo að lögfastir menn heyri. Enda er rétt að bjóða að Lögbergi eða í þingbrekku, og skal hann það gera hvert vor, ella er hann af réttafari um hana. Ekki stoðar heimboð við hana ef biskup lofar henni að ráða fyrir vistafari sínu.

Ef sakaraðili vill eigi sækja réttafarssök þá er yngri maður á en sextán vetra gamall, þá er honum rétt, ef hann er sextán vetra gamall eða eldri, að taka sök upp, og skal hann svo til búa sem hann hafi þá nýspurt, þá er hann veit að hinn hefir glapið sókn fyrir sér. Rétt er að hann seli sök öðrum manni ef hann vill.

56. OF FJÁRVARÐVEISLU BARNA.

Ef laungetin börn eigu réttafar um móður sína, þá skal sakaraðili eiga fjárvarðveislu til þess er börn eru sextán vetra. Nú má eigi faðir þau börn fram færa á fé sínu eða á handmegni. Þá skal af sáttum til taka, en aðili skal varðveita, ef eigi þarf, til þess er börn eru sextán vetra.

57. OF ÞAÐ EF KONA Á LÉR HROSS.

Ef kona lér manni hross, þá á búandi hennar kost að sækja hinni minni sókn, ef hin meiri er reiðin. Eigi varðar þá við lög hin minni reið. En ef hún veit, eða sá er léð er, að bóndi hennar mundi eigi ljá vilja, þá á hún eigi ráð.

Ef fleiri menn eru saman í einni för, þá er óskil verða ger um hrossreiðir eða hrossa eftirrásir, og varðar þeim einum við lög er óskil styðja, en ekki hinum er skil vilja á gera.

58. OF ÞAÐ EF MAÐUR MÚLBENDIR HROSS.

Ef maður bindur tagl í munn hrossi manns, eða bindur keft við fót, eða heftir í graslausu eða í hættleikum, eða múlbendir eða stagar höfuð svo að eigi bítur, og varðar það fjörbaugsgarð, og ábyrgist sá hrossið.

Ef manni fer verr að en hann vili, og spillist af hans handvömmum, og varðar eigi við lög, en bæta skal hann auvisla á fjórtán nóttum, sem búar fimm virða, ella skal eigi metast voðaverk. Ef maður sker tagl úr þrimur hrossum eða fleirum, þá varðar fjörbaugsgarð.

59. OF FJÁRREIÐUR.

Svo er mælt, ef menn eigu fjárreiður saman, og kveða þeir á dag nær gjalda skal og á stað hvar gjalda skal, og verður það þá að eindaga. Þar er og enn eindagi, ef svo er mælt að gjalda skyli, þá er menn hafa verið á skuldaþingis eða um nótt verið, ef á stað er kveðið.

Nú kemur maður svo þangað sem hann á eindagað fé að manni, og er féið eigi uppi látið svo sem mælt var. Þá skal hann nefna votta að því að hann er búinn að taka við fé því og kominn til eindaga þess er þeir áttu mæltan með sér, og kveða á hve mikið fé það er. Þá skal enn nefna votta í annað sinn, að því að hann sér hinn eigi þar kominn, og nefna hann, né þann mann annan er því gjaldi haldi upp fyrir hann. Þá skal hann enn nefna hið þriðja sinn votta, „að því vætti,“ skal hann segja, „að eg kveð N. fjár þess, og kref eg og bind eg álögum þriggja marka útlegð, sex aura handsalsslit, sex aura harðafang“. Síðan má hann kveða svo, að stefna um innstæðu og hálfa fimmtu mörk álaga til gjalda og til útgöngu, þeirra aura skal hann segja, er hann á, og það skal gjalda sem mælt var með þeim. En þá ef hann átti eigi það fé þá til, er þeir mæltu að hann skyldi gjalda, enda ætti hann eigi þess á meðal, og þá er hann skal gjalda, þá er rétt að hann gjaldi í vöru eða búfé eða silfri. Nú nam hann frá allt annað fé, þá er þeir keyptu saman, þá má engu öðru fyrir koma en mælt var.

Það er og mælt ef menn nefna votta að kaupum sínum, eða að öðrum máldögum, og takast eigi í hendur, þá skal haldast máldagi sá er menn kaupast við, en eigi fylgir þar handsalsslit. Nú handsalast menn og gera eigi eindaga á. Þá er rétt að stefna honum heim á viku fresti og biðja hann gjalda, og verður það þá að eindaga. Kostur er og að leggja þriggja nátta stef á, og fylgir þá útlegð og handsalsslit. Þess er og kostur að stefna honum og láta varða útlegð, og fylgir handsalsslit. Nú er eigi handsalað, þá skal stefna honum heim á þriggja nátta fresti, og láta fylgja útlegð ef hann geldur eigi. Á þingi skal búa kveðja jafnan ef maður man eigi votta.

60. UM ÁBYRGÐIR.

Hverngi grip er maður hefir að láni annars manns, og ábyrgist sá er með fer. Ef maður lér manni skips, og hefir hann svo lengi sem honum er létt, og eigi víðara, þá ábyrgist sá er með fer. Engum manni skal hann ljá né á leigu selja skipið, enda er svo sem ólofað sé ef hann hefir lengur eða víðara en þeir voru á sáttir. Hann skal svo um skip búa sem þá var er hann tók og þar upp setja, nema þeir væri á annað sáttir. Ef hann hefir svo lítið lið að hann kemur eigi upp skipinu svo að óhætt sé, þá skal hann gera orð þeim er á, og segja deili á, og bjóða tilför sína. Ef sá fer til sem má fyrst, þá ábyrgist hinn skipið til þess er eigandi kemur til, eða hann mætti til komast ef hann vildi, en eigi lengur en svo.

Ef manni er létt skips, og skal hann hafa menn svo marga sem hann vill með sér á skipinu, en farma skal hann eigi ferja á, nema honum sé það lofað. Ef maður dregur skip manns fram úr stað ólofað, og varðar útlegð og áfang ef hann gengur á. Slíkt hið sama varðar manni ef hann fer á hina minni för, þótt annar dragi fram.

Ef maður hrindur út skipi annars manns, og lætur reka á brott, og varðar fjörbaugsgarð. Skal kveðja níu búa til á þingi þess er sóttur er. Ef maður fellir skorðu undan skipi manns eða tekur á brott, og varðar útlegð, og ábyrgist sá skipið, enda skal hann gjalda auvislabætur ef skaði verður að. En ef fimm aura skaði verður eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð.

Ef menn taka skip manns að gerræði sínu og fara á því um fjörðu, eða svo um þrjá bæi fyrir land fram að þrír bæir eru á aðra hönd, og varðar skóggang. Skal svo sækja sem um hrossreið hina meiri. Ef þeir fara skemmra með skipið en um þrjá bæi eða skemmra en um fjörð þveran, og varðar það útlegð og áfang. Skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er.

Ef skip manns hefur upp og lýstur á annars manns skip, þá ábyrgist sá bæði, er það festi er upp hóf. Svo skal fara hið sama ef viði manns kastar á skip annars. Ef maður tekur árar eða þiljur frá skipi manns eða annað reiði það er þar fylgir, og varðar útlegð ef hann lætur aftur koma. Nú nýtir hann sér, þá varðar gertæki, og gjalda tvinnum gjöldum. Of allt það er maður meiðir að skipi manns, og varðar útlegð og áverk og bæta auvisla, en fjörbaugsgarð varðar ef fimm aura skaði verður eða meiri.

Ef maður dregur skip annars manns úr nausti sínu, hann á svo að festa sem þá mundi hann ef hann ætti.

61. UM HAFSKIP.

Ef tveir menn eigu hafskip saman, og vill annar í för búa en annar vill eigi, þá skal sá er í för vill búa skipið fara að finna þann er skip á með honum og beiða hann með votta að koma til skips, fjórtán nátta fresti, og þess að hann láti honum uppi virðing um skipið, þá sem búar virða, og að skipti sem þeir skipta. Hann skal kvadda hafa fimm búa, landeigendur, þá er næstir búa skipinu, sjö nóttum fyrr er þeir skulu skipta, þá búa er réttir sé í kviðum og að hrörum, að þeir skyli meta og virða við eið skip það með þeim, og allt það reiði skulu búar þeir hinir sömu meta er því skipi fylgir, bæði viðu og vatn, ker og akkeri, og svo allt er þeir eigu báðir saman. Búar skulu virða skip það til vöru eða til brennds silfurs, og virða þann dag sem þeir voru kvaddir. En lengur er þeir hafa virt skipið búarnir, og skal sá kjósa er fara vildi, hvort hann vill hafa skip eða verð. Ef hann vill verð heldur en skip, þá skal hann sækja verðið til heimilis hins fjórtán nátta fresti, og ef hann kýs skipið, þá skal hann gjalda verð hinum sjö nátta fresti þar að skipinu.

Ef búar eru kvaddir til að virða skip, og eru þeir skyldir til að fara, en útlegð varðar þeim er eigi koma til, og skal dæma virðingina á hendur þeim fjórtán nóttum eftir vopnatak, og varðar þá fjörbaugsgarð ef þeir koma þá eigi til. Ef búar koma til þrír, þótt sumir komi eigi til, þá skal kveðja griðmenn til að virða með þeim svo að fimm sé alls. Það er mælt um þau skip er hér eru um veturinn, eða um þau er svo snemma koma út að ráðrúm verður að sækja hið sama sumar búana um það ef þeir varna lögskiptis. Ef stýrimaður varnar skiptis um skipið, og ger eigi handsala, þá skal svo sækja hann sem búana, og slíkt varðar honum sem þeim. Ef eigi er ráðrúm að sækja hið sama sumar, þá varðar þeim þegar fjörbaugsgarð, stýrimanni er hann er beiddur skiptis, og varnar hann, og svo búunum ef þeir eru kvaddir, og koma þeir eigi. Ef maður lætur eigi uppi skiptið um skipið, þá skal sá þeirra er fara vill fara svo að málinu sem þá að hinn léti uppi skiptið, en á lengur er búar hafa virt skipið, þá skal hann selja verð í hönd einum þeirra búanna, sjö nátta fresti þaðan frá er þeir virðu, og verður hans þá skipið, en hins verð. Ef stýrimenn vilja báðir fara, og skilur þá um hald, eða vilja þeir eigi saman eiga skipið þótt þeir vili kyrrir vera báðir, og skal fara að virðingu sem talið er áður, en þeir skulu hluta hvor skip skal hafa eða verð.

Ef maður festir verð fyrir skip og hefir eigi reitt, þá skal hinn halda ábyrgju skipinu til þess er dregið er skipslengd. Ef maður lætur fram draga hafskip að ósátt þess er á skipið með honum, og varðar það fjörbaugsgarð. Ef maður fer á brott með, og varðar það skóggang. Bæði um framdrátt skips og brottför þess skal kveðja níu búa á þingi, þá er næstir búa höfninni.

Ef maður tekur fleiri menn til skips síns en skip beri vöru þeirra, og skulu þeir af ganga er síðast koma til skips með föt sín, og minnst búa að skipinu. Stýrimanni varðar útlegð við hvern þeirra er fari hafa tekið og af urðu að ganga. Menn skulu af ganga til þess er skip er fært. En þeir er af ganga skulu hafa leigur þær er þeir skyldu reiða, og svo það er þeir hafa reitt til búðargagna eða til strengjar.

Þá er skip að farlögum hlaðið er það er fimmdeilt, þrír hlutir í kafi en tveir fyrir ofan vatn, og mæla í miðju skipi.

Ef menn koma eigi til skips, þeir er fari hafa tekið, þá varðar þeim útlegð við stýrimenn og handsalsslit, enda eigu stýrimenn heimting til leigna og til alls þess er þeir urðu á sáttir. Ef þeir eyða skipið svo að ófært sé, þá varðar fjörbaugsgarð þeim öllum er svo ganga af að því ber auðnina.

Ef menn eru kvaddir til skipsdráttar, sjö nóttum fyrr eða meira méli, og koma eigi til, varðar þeim útlegð. Rétt er að kveðja á mannamótum og kveða á útmerki, og rétt þótt heilagt sé. Þeir skulu skyldir allir til að fara, bændur þeir er þingfararkaupi eigu að gegna og eigi eru einvirkjar. Þeir skulu fara með húskarla sína, nema smalamenn. Ef búandinn dvelur húskarl sinn frá, þá útlagast hann, en hinn ellegar. Gridmenn skulu sjálfir fá sér hross ef þeir eigu til. Ef þeir eigu eigi til hross, þá skal búandi fá þeim hross. Eigi er búanda skylt að fá griðmanni hross áður sjö vikur eru af sumri og eigi síðar en fjórar vikur lifa sumars. Svo skal búa kveðja að allir spyri, eða gera þeim orð ella. Þar er firðir eru fyrir eða sund, þá skal búandinn fá þeim skip, enda eru þeir skyldir að fara þótt stýrimenn fái þeim. En stýrimenn skulu fæða þá í tvö mál. Stýrimenn eigu hrófi að skjóta og hlunn til að fá og festar, og um búa að öllu við háseta fullting. Nú koma menn til skipsdráttar, og firra þeir sig útlegð ef þeir taka á festum þrisvar af öllu afli, svo að stýrimenn eru til búnir. Ef skip gengur eigi upp, þá ábyrgjast þeir skipið, er að lögum eru til kvaddir og eigi koma til.

Þar er stefnustaður í höfninni við þá er fari hafa tekið og eigi koma til, enda er rétt að lýsa að Lögbergi þær sakir og sækja hið sama sumar. Þar skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er, nema menn eyði skip fyrir stýrimönnum, þá skal kveðja til hafnar búa níu á þingi, og svo að virða skaða þann ef skip lestist af því að menn koma eigi til skipsdráttar sem kvaddir eru.

Þar skulu menn halda til hafna er skipauppsát hafa verið fyrr, ef komast megu, og eigu þeir að neyta þar vatns og haga, bæði þeir og svo þeir menn er til kaupa koma við þá. Skal-at hinn sami maður þar lengur vera til kaupa við þá samfast en þrjár nætur með hross sín.

Allir menn skulu gjalda hafnartoll nema Noregsmenn, öln vaðmáls eða ullarreyfi það er sex geri hespu, eða lambsgæru. Landeigandi skal það fé hafa, enda skal hann fá húsrúm til reiðis þeirra, enda skulu stýrimenn reiða uppsátseyri landeiganda, níu álnar fyrir skip. Hann skal búa um skip sitt torfi og grjóti, og vinna þau verk þar á landi hins þar er hvorki sé akur né engi.

Hásetar eigu að veita lið stýrimanni og bera vöru hans á skip og af. Þeir skulu fylgja skipi hans til hlunns og bíða hans fjórtán nætur að því enda færa reiði til hirslu með honum. Stýrimenn skulu búa svo skip sitt að öllu að vel sé fært að reiði öllu og að vatni, eigi minna vatn en sex menn sé um sáld. Stýrimenn eignast búðargagnaleigu þegar er neytt er búðargagna, en skips hálfa þegar er þeir hafa segls neytt, en alla þegar er þeir koma til annars lands, svo að nes ganga af meginlandi út um skutstafn þeim, eða í akkerissát.

Ef menn eru svo staddir í hafi að meira hlut manna þykir ráð að kasta, þá skal því fyrst kasta er ofast er höfgavöru, en jafnt skal allra skaði verða það er kastað er, þótt fáir hafi átt. Alla aura skal jafnt skerða. Sá maður er eigi vill reiða skaðabætur þeim er átti það er kastað var, varðar útlegð, og gjalda tvö slík sem til hans kom í gjaldinu. Rétt er að stefna þeim mönnum þar er þeir bera föt sín af skipi, enda er rétt að lýsa að Lögbergi að sækja hið sama sumar.

Hver maður skal húðir fá um vöru sína, svo að jafnmargir sekkir sé undir jafnmikilli húð. Ef maður höggur skýlihögg á hafskip manns, og varðar fjörbaugsgarð, og svo hvatki er maður meiðir að skipinu eða að reiðinu eða að viðum, nema fimm aura skaði sé á ger eða meiri, þá varðar skóggang. Það er stefnusök, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

Jafnskylt er bæði að draga skip upp og fram ef að lögum er til kvatt. Í höfninni, að skipi, er stefnustaður við þá menn er eigi koma til skipdráttar. En til saka þeirra skal kveðja á þingi fimm heimilisbúa þess er sóttur er. Eigi eru menn skyldir oftar á einu sumri en eitt sinn að fara til skipsdráttar hins sama skips. Slíkt hið sama er mælt um framsetning skips.

62. UM SKIPAKAUP.

Það er mælt í lögum órum að menn skulu eigi kaupa dýrra austrænan varning að skipum að farmönnum en þeir menn ráða að leggja þrír er til eru teknir í hverju héraðstakmarki. Takmark er frá Langanesi til Lónsheiðar, frá Lónsheiði til Arnarstakksheiðar, frá Arnarstakksheiði til Þjórsáróss, Frá Þjórsárósi til Reykjaness, frá Reykjanesi til… Þeir skulu leggja lag á mjöl og á léreft og við og vax og tjöru, en þar skulu liggja við tólf merkur vaðmála ef menn kaupa dýrra en lag er á lagt. Þeir skulu lag hafa á lagt á hinum næsta hálfum mánaði er skip er landfast orðið. En ef fyrr er keypt en lag er á lagt eða er dýrra keypt, þá eigu þeir menn sök þá er fyrir kaupum skulu ráða. Skal sá stefna þeirri sök heima að sín sjálfs, á þeim hálfum mánaði er hann hefir spurt kaupið, og sækja að hreppadómi. Hann skal kveðja heimilisbúa sína fimm, landeigendur, þrem nóttum fyrir dóminn. Dómur skal vera fjórtán nóttum síðar en stefnan var. En sá skal verða var við viku fyrir dóminn, er sóttur er. Þar skal tólf manna dómur vera. Slíkt varðar það ef sá varningur fylgir kaupinu er spilla þykir á nokkura lund. Dómur skal dæma tólf merkur að gjalda sakaraðilja, en hann á kost að minnka fégjald það ef hann vill, og taka sex merkur, en eigi minna fé. Sakaraðili á kost að selja öðrum manni sök ef hann vill, og skal sá svo með fara sem sjálfur sakaraðili. En ef þeir vilja eigi sækja á þeim hálfum mánaði þá sök, þá á hver er vill innanhéraðsmanna í því takmarki sök þá að sækja með hinu sama atferli. En ef fleiri skip koma í eina höfn eða í hinu sama takmarki, þá skulu hinir sömu forráðsmenn ráða hví muna skal kaup við hverja skipkomu, hafa ráðið á viku fresti þaðan frá er skip verða landföst. Eigi skal kaupa þá viku áður lag er á lagt. Eigi er rangara að búa þau mál til þings eða til vorþings ef það vill heldur.

Rétt er að búa mál til þessa héraðsdóma á hendur utanlandsmönnum um vígsakir og um áverka og um legorðssakir og um rán. Skal mál höfða að heimili eins hvers manns þess er fyrir skipakaupum skal ráða á hálfum mánaði þeim er sakaraðili spurði mál. Skal kveðja níu dómstaðarbúa þrem nóttum fyrr, eða meira méli, en dómurinn skal vera. En tólf manna dómur skal dæma um sök þá fjórtán nóttum síðar en mál er höfðað. Þar skal dæma um ómaga og um fé og slík gögn öll fram færa sem að féránsdómi, en eigi skal hann vera. Þar skal sakaraðili taka við sátt, ef þar kemur fram að dómi. Skal einn hver þeirra manna sátt gera, er fyrir skipakaupum ráða, og skal vinna að fimmtardómseið, að hann mundi eigi meira fé gera sér til handa fyrir slíka sök. En sakarverjandi skal þaðan til bjóða, og er-at sakaraðili sátt ella skyldur að taka nema svo sé boðið.

63.

Fjórtán dagar eru þeir á tólf mánuðum er eigi skal hafskip fram draga eða upp ef til hlunns er ráðið áður. Of þann mann er hann kemur eigi til að setja skip fram ef hann er kvaddur, eða upp ef þess þarf heldur, og verður hann sekur um það sex mörkum ef eigi gengur skip fram eða upp, og eigu stýrimenn sök, og er rétt að stefna hinn næsta dag rúmhelgan eftir, svo að þeir menn heyri er þar hafa tekið far svo sem mælt er í lögum. En ef þeir heyra eigi, og skal lýsa fyrir þrem búum þar.

64.

Öll skulu kaup haldast með mönnum vottlaus nema fjögur: Ef maður kaupir land, eða goðorð, eða hafskip, eða fastnar sér konu. Fjörbaugsgarð varðar ef maður bregður þeim málum, en þriggja marka útlegð um önnur kaup, hvervetna þess er búar bera að keypt var, eða vottar.