Fara í innihald

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Um fjárleigur

Úr Wikiheimild
Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins (1992)
Höfundur: óþekktur
Um fjárleigur

1. OF SÖLU LEIGUFJÁR.

Maður skal eigi selja fé sitt dýrra á leigu en tíu aurar sé leigðir eyri til jafnlengdar, hvatki fé sem er. Ef hann selur dýrra, og á hann eigi til meira heimting en slíkra aura sem hann seldi, og lögleigu með. En honum varðar þriggja marka útlegð, hvort sem er að hann selur dýrra fé sitt að leiga, eða metur hann dýrra en að lögum. Sá á sök þá er hann selur féið dýrra eða metur við, ef sá vill, en ef sá vill eigi sækja, þá á sá er sækja vill.

2. OF ÞAÐ HVERSU FÉ SKAL EINDAGA.

Svo skal maður fé eindaga, að kveða á dag þann er féið skal gjaldast og á stað þann er féið skal gjaldast. Vel er ef fyrr gelst. Þó verður eindagi á að svo sé að kveðið að gjalda skyli á skuldaþingi er menn hafa um nótt verið, ef á stað er kveðið. Nú kemur hann til eindagans, þá skal hann nefna votta að hann er kominn til eindaga þess er mæltur var með þeim og er búinn að taka við fé því er þar er gjald mælt á, og engi maður geldur honum fé það. Nú skal hann nefna votta í annað sinn, að hann stefnir honum „um svo marga aura og svo stóra sem mæltir voru hér að gjalda með okkur,“ stefna til gjalda og til útgöngu og um hálfa fimmtu mörk álaga, og kveða á þingið, hvert hann stefnir, og stefna lögstefnu.

3. OF LÖGAURA.

Ef mæltir eru lögaurar með mönnum, og eru lögaurar kýr og ær. Það er og lögeyrir sex álnir vaðmáls [K: eða vararfeldir svo að þeir þyki jafnir sem sex álnir vaðmáls.] Brennt silfur er enn, og er eyririnn að mörk lögaura, enda lögsilfur það er meiri hlutur sé silfurs en messingar og þoli skor og sé jafnt utan sem innan. Melrakkaskinn sex, það er enn lögeyrir.

Ef maður mælir svo að „þú skalt gjalda mér vaðmál, og skil eg frá annað fé allt,“ þá kemur-at hann öðru við. Ef maður mælir svo að „þú skalt gjalda mér vaðmál,“ og skilur-at hann frá aðra aura, þá nítir hann eigi lögaurum, ef það ber kviður að hann hefir eigi vaðmál til að gjalda, og hann mátti eigi á því méli fá.

Ef þeir koma til báðir, er mál eigust við, og verða þeir eigi á sáttir, þá skal hvortveggi nefna til lögsjánda af sinni hendi að sjá fé það er þar skal gjaldast, og skulu þeir sjá það fé, hvort það sé gilt eða eigi, hverigir aurar sem eru. Ef þeir verða eigi á sáttir, þá skal sá þeirra hafa sitt mál er eið vill að vinna. Ef þeir vilja eiða vinna báðir, þá skulu þeir hluta. Ef lögsjáendur eru ósáttir á um það hvort það sé lögsilfur eða eigi, þá skal hvor hinna stefna lögsjánda annars um það að hann hafi það kallað lögsilfur er eigi er, og láta varða þriggja marka útlegð. En síðan er sakir koma í dóm, og verður sá fé sekur er dómendum þykir rangara mæla. Skal bera fram silfur og láta það sjá. Þeir skulu lögsjáendur vera er réttir sé að tengdum í kviðum um hvorntveggja þeirra. Nú eru lögsjáendur ósáttir um metorð, og vill annar hluta en annar eigi. Þá skal eið vinna sá er hlutfallið býður, ef hann vill, og meta, og skal hans metorð þá standa, og verður sem hinn mæli ekki um, er eigi vill hluta.

4. OF ÞAÐ EF MAÐUR SENDIR ANNAN MANN TIL EINDAGA.

Ef maður sendir annan mann til eindaga að gjalda fé fyrir sig, og er-at hinn skyldur við að taka nema hann viti að sá maður sé heimilisfastur, og hann eigi svo fé að það sé jafnmikið sem hitt er hann geldur ef hann vinnur eigi heimilt.

Ef sá kemur til er gjalda skal og lætur fé uppi, en hinn sendi mann til viðtökunnar, nú nefnir gjaldandinn votta, að hann lætur það standa fyrir gjaldi að engi er viðtökumaður þar réttur. Þá skal viðtökumaður votta sína láta vinna eiða og bera vætti það að hann skyldi við fé því taka og þeim málum mæla sem aðiljanum byrjaði. Nú hefir hann eigi vottorðið til, þá ef kviður ber að hinn myndi eigi gjalda þó að vottorðið væri til borið, og er þá jöfn heimting til fjárins sem hinn hefði til viðtökunnar komið fyrir öndverðu sjálfur, er féið átti að taka.

5. OF ÞAÐ EF EINDAGI VERÐUR Á LÖGHELGUM DÖGUM.

Ef eindagi verður á löghelgum tíðum eða um langaföstu, þá skal viðtökumaður nefna votta að því að hann er búinn við fé að taka, í þeim stað sem gjald var mælt, og hann sér eigi þann mann þar er því gjaldi haldi upp sem mælt var. Nefna skal hann votta í annað sinn að því að hann lætur það standa fyrir stefnu þá, að lögheilagur dagur er þá eða langafasta. Þá á hann að stefna hinn næsta rúmhelgan dag í hinum sama stað sem gjald var mælt.

Þar er maður kemur til eindaga, og hann nefnir votta að því að hann er búinn við fé því að taka er þar var gjald mælt, og þar er eigi sá maður er gjald reiði af hendi, eða svo láti fé það uppi sem mælt var. Þá er rétt að hann stefni þar hinn næsta dag rúmhelgan eða þar er hann hittir hann að máli sjálfan, eða að heimili hans að þriðja kosti, þó að því sé síðar, og fylgja þó álögin öll slík sem eindöguðu fé öðru, því er að eindaga er um stefnt. Þess á hann og kost að segja lögleigur á féið að eindaganum meðan stendur undir honum, enda segja slíkt að Lögbergi hið næsta sumar eftir, þá hlýðir það meðan hann man vottana. Ef eykthelgan dag er eindaginn, og á maður kost að stefna fyrir eykt ef hann vill. En við skal hann taka þótt við aftan gjaldist, ef allur dagur var til stefnu.

Ef þeir koma báðir til eindaga, og á sá kost er gjalda skal að bjóða hinum til heimilis þess er hann átti um veturinn. Skal hann handsala að eindaganum að gjalda á fjórtán nátta fresti kýr eða ær á hönd sér. Svo það, ef hann vill gjalda í landi, tvo aura fyrir einn, því landi er bælt er á hálfan bólstað eða meira, svo og ef hann vill í mani gjalda, tvo aura fyrir einn, og á hann lausn á maninu hin næstu misseri ef hann hefir upp alið.

Eigi skal maður heim bjóða í annan fjórðung til gjalds. Er-at manni skylt að taka búfé fyrr en sex vikur eru af sumri, enda er eigi skylt við að taka síðar en átta vikur eru af sumri. Sá er féið reiðir skal hafa kvatt fimm heimilisbúa sína viku fyrr eða meira méli, að þeir komi til að miðjum degi að meta fé það með þeim við bók. Þeir skulu þeim mun ódýrra virða fé það en á skuldamóti gekk sem þeim þykir verra þá við að taka. Ef hinn kemur eigi til, er við fénu skal taka, né gerir annan mann, þá á gjaldandinn kosti þrjá. Þann einn að reka fé til handa honum, er átti við að taka, en af skal hann segja sína ábyrgð lengur er metið er, ef hann lætur með fara sem hans ábyrgð sé á. Sá er annar kostur að láta ganga í landi sínu. Sá er hinn þriði kostur að reka í afrétt þann er hann á. Ef hinn kemur til og tekur við kykfé, og skal hann bregða af marki á sauðum þann dag er hann hefir á brott. En af nautamarki skal hann brugðið hafa á fjórtán nátta fresti.

Ef viðtökumaður kemur eigi til þá er eindaginn er, og eru fjórtán nætur frá gengnar, þá eignast sá búféið er gjalda átti, það er hann galt, ef eigi er hinn næsta dag eftir brugðið af markinu. En hinn á enga heimting til fjárins er goldið var.

6. OF GJÖLD OG EINDAGA.

Ef sá maður kemur til eindaga er gjalda á fé, en eigi hinn er við skal taka, þá skal hann bjóða fé með votta og nefna til lögmetanda af sinni hendi. Nú geldur hann þar silfur, þá skal hann heim hafa það. En hinn á eigi til meira heimting en til innstæða ef breklaust er uppi látið. Kost á gjaldandinn af að segja ábyrgð sína og láta þar liggja fé allt eftir, fyrir utan silfur, enda á hann kost að hafa allt féið heim, og hafa leigulaust þau misseri. En ef hann galt sauði, og kemur hinn eigi til að bregða af markinu, þá eignast gjaldandinn sauðina hinn næsta dag eftir.

Nú stefnir hinn um féið er á, og skal hann neyta vottorðs þess er hann bauð féið að gjalda. Þá skal sækjandinn kveðja heimilisbúa hans fimm, hvort hann bauð af því féið að hann vildi gjalda eða eigi. Nú er fé handsalað og eigi eindagað, þá skal sá er féið á að öðrum stefna honum heim, að hann sé heima á sjö nátta fresti, er hann kemur til að heimta féið, það er hann á að hinum, og kveða á hve mikið féið er. Þeir skulu hafa lögsjáendur til með sér ef metfé er. En ef eigi er metfé, þá skal gjaldandinn hafa kvatt til búa þrem nóttum fyrr að meta fé það. Ef sá vill eigi gjalda, og skal hann svo stefna um innstæða sem um eindagað fé, og svo um álög sem eindagað fé, fyrir utan harðafang, það eitt fellur niður.

Nú selur maður fé að leiga vottlaust, þá ef hann vill eigi gjalda, þá kemst hinn eigi til leignanna nema sagðar sé leigur á. Kost á sá er heimtir, ef handsalað er, að stefna hinum heim, er gjalda skal, biðja hann heima vera á þriggja nátta fresti „og mun eg þá koma að taka við fé mínu eða stefna um“. Nú vill hann eigi gjalda, þá skal hann stefna um svo mikið fé sem er, og láta varða þriggja marka útlegð og sex aura harðafang, stefna til gjalda og til útgöngu.

Ef maður á fé að manni, og er fé handsalað, þá geldur hann af sumt, og er rétt að hinn kjósi er féið á, hvort hann vill stefna um allt féið, og láta hinn leita gagna [K: og láta hinn neyta gagnanna] til hvað af er goldið, enda er hitt rétt að stefna um það fé er ógoldið er. Það varðar þriggja marka útlegð ef maður stefnir um fé þar er allt er goldið, og er við þann heimting er féið á [K: er fé er að].

Þar er maður á fé að manni, og kveða þeir á dag og stað nær gjalda skal eða hvar gjalda skal fé það, þótt þeir handsalist eigi eða þótt þeir takist í hendur, og sé þeir sáttir að þar skyldi lögeindagi vera, þá skal hann svo sækja sem þar sé eindagað féið, nema það að niður fellur handsalsslit. Hann skal kveðja heimilisbúa fimm til á þingi þess er sóttur er.

Nýmæli: Ef maður selur manni í hönd að taka við fé sínu, þar er hann á eindagað að manni, enda tekur sá við, og vill hann eigi gjalda hinum féið er á, né láta hann ná fénu, þá á hann kost að sækja, hvort sem hann vill, hinn er féið var undir eða þann er handsölum tók fyrir féið, enda verst sá málinu, er féið var undir, ef sá getur þann kvið að hann galt þeim manni féið er hinn hafði til sendan. Sá er féið átti, skal stefna þeim um féið er hann bauð um að taka gjaldið, og láta varða þriggja marka útlegð. Skal hann kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er.

Nýmæli: Ef sá maður heimtir fé annars manns er honum er eigi um boðið, og á hann eigi að heimta. Það varðar honum fjörbaugsgarð við þann er hann heimtir fé að, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er. Nú ef hann geldur féið, þá skal hann stefna til gjalda og til útgöngu um féið.

Nýmæli: Ef maður selur manni fé af trúnaði að láni eða til hirslu, og dylur hinn og kveðst við engu tekið hafa, þá skal sá er féið á sækja til þýfðar, ef hann vill, enda á hann kost að stefna til gertækis um féið og til gjalda tvinnra og láta varða þriggja marka sekt.

Nýmæli: Ef maður hirðir fé manns, og hverfi féið úr hirslu hans. Nú áttu þeir þar fé báðir í þeirri hirslu, þá heldur hvor þeirra á sínu fé ábyrgð ef úr einni hirslu hverfur hvorstveggja fé. Nú hverfur þess fé eitt er seldi að hirða. Hann á kost að heimta féið að honum ef hann vill, þeim er hirði, og á sá að gjalda, enda á sá sökina um féið er hirði, enda á hann kost að sækja þann er hann vill um og ráða sjálfur orði.

Nýmæli: Ef maður á fé á leigum, og fellur hann frá. Nú ef hann á sonu eftir, eða lifir faðir hans, þá eigu þeir um það fé, er eindagað er, jafnt að stefna um að eindaganum sem þeim sé handsalað.

Annar kostur er sá er þeir eigu, hvort sem er sonur eða aðrir erfingjar, að sækja um handsalað erfðafé við níu búa kvið á þingi, og láta varða þriggja marka útlegð haldið. Ef fleiri menn telja til arfs og eru ósáttir á hver taka á, þá á hinn að halda til dóms, og verður hann þá eigi útlagur. Ef sá fellur frá, er fé á að gjalda, þar sem eru sönir eftir til arfs, þá er rétt að maður stefni hinum elsta bræðranna um allt féið. Ef fé er engu skipt, og skal sækja við níu búa kvið. Ef bræður hafa skipt arfi, eða svo þótt aðrir erfingjar taki arfinn en synir, og skal um svo mikinn hlut hverjum stefna sem þeir tóku arf til.

Þar er sá maður fellur frá er fé er eindagað að, þá skal að lögheimili hans stefna erfingja hans um það fé. En ef hann leggur lögleigur á, og kemst hann eigi meir til að heldur en til innstæðans. Það sagði Markús lög.

Nýmæli: Ef maður skal heimta fé sitt að erfingja þess manns er hann átti fé að á deyjanda degi hins, að hann skal sækja það við níu búa kvið.

Ef maður kveður fjár að eindaga og stefnir um, og hittast þeir á förnum vegi og sá er gjalda skal, og er rétt að hann taki þar við, og verst gjaldandinn lögmálsstöðum ef hann býður þar. Hinum er rétt að kveðja fjárins á förnum vegi ef hann vill, ef hann kvaddi eigi áður, og er rétt þá að stefna.

Ef maður á fé að manni og vill sá eigi gjalda honum, þá skulu lögleigur leggjast á fé það, svo lengi sem hann heldur fé því, og þarf eigi að segja leigur á. Ef kviður ber það að sá mundi gjalda ef heimt væri að honum, og leggst þá eigi lögleiga á féið, enda á hann kost að bjóða innstæðann af höndum þegar hann vill.

Ef maður finnur fé fyrir ofan jörð í sínu landi, og skal hann segja til þrjú sumur á alþingi, þá ef eigi verður eigandi að hið þriðja sumar, þá eignast hann féið. Ef maður finnur fé í jörðu sinni, og skal hann segja til um sinn á alþingi. Ef eigi verður þá eigandi að, og eignast hann þá. Því aðeins verður að réttu eigandi að, ef sá verður til er það fé hefir frá verið stolið, eða þess erfingjar ella.

Ef maður grefur fé sitt í jörð, gull eða silfur eða gripi aðra, og varðar það fjörbaugsgarð. Sá á sök þá sækja vill, og skal þar kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Ef maður á fé að manni og varnar hann honum fjárins, þá er rétt að lýsa sök á hönd honum að þinglausnum til sóknar annað sumar, og láta varða hald fjárins þriggja marka útlegð. Sá er sökina lýsti skal segja þeim er sök er á hendi með votta, fyrr en sex vikur sé af sumri, ef hann er sams fjórðungs, að hann hefir sökina lýsta á hönd honum. Ef hann má eigi honum sjálfum segja, þá skal hann segja til í þingbrekku á vorþingi eða á leið þeirri er sækjandinn sjálfur heyr. Ef hann segir eigi svo, enda verður hinn eigi vís áður sex vikur eru af sumri að honum er sök á hönd búin, og verður þá sökin ónýt. Þar er maður hefir fésök lýsta á hönd manni hið fyrra sumar, þá skal hann þar þá búa til kveðja er þá hafa heimilisbúar hins verið, er sök var höfðuð á hönd honum, enda búi þeir þar þá næstir því heimilinu er sökin er sótt. Of allar sakir, þær er svo eru til búnar, skal þá búa hafa er þá búa næstir, er sökin er sótt, því heimili er hinn átti þá er sökin var höfðuð á hönd honum.

Ef manni verður grunur að því að sá maður vill hlaupa af landi á brott er hann hefir að þinglausnum sök á hönd búið, þá á hann að banna honum för að Lögbergi, og verja lýriti stýrimönnum öllum, og svo hásetum, að ferja hann á brott af landi. En þeim mönnum öllum er spyrja lýrit þann, þá varðar stýrimönnum fjörbaugsgarð, en hásetum þriggja marka útlegð, ef þeir ferja hann á brott. Slíkt varðar þeim þótt þeirri sök sé heiman stefnt, eða sé hún að skipi til búin, ef þar er lýriti varið brauthöfnin. Að festarhælum skal þeim stefna um samfarar og kveðja á þingi búa fimm til þriggja marka saka, en níu til fjörbaugssaka.

Hvergi á maður að lýsa sakir um fé né stefna, fyrr en hann hefir heimt að manni, og honum er varnað. Ef maður á að manni fé eindagað, og vill sá hlaupa af landi á brott, þá er rétt að banna honum för þótt það sé fyrir eindagann, en því aðeins verður sökin við hann eða við þá menn er hann ferja á brott, ef féið kemur eigi fram að eindaga.

Fé hvert, þeirra er lögleigur áttu á að vera fyrir öndverðu, það skal standa með lögvöxtum þar til er goldið er allt, þótt eigi sé leigur á lagðar að Lögbergi.

Nýmæli: Þar er maður á fé að manni, það er lögleigur eigu á að leggjast, þá skal það standa með lögvöxtum einn vetur og tuttugu en eigi lengur, nema þá sé dæmt eða handsalað. En ef það er þá gert, þá skulu enn upphefjast lögvextir, og vera jafnlanga stund sem áður var tínt.

Þótt maður gefi manni fé eða aðra hluti á skuldarstöðum, þá kemst hann eigi til heimtingar um það fé, nema hinn seli sakir og fjárheimtingar á hönd sérhverjum þeirra. Og ef þeir játa að gjalda honum að ráði hins, er fé átti, þá á hann allt mál við þá, en ekki hinn er fé átti fyrir öndverðu.

7. OF ÞAÐ HVERSU FÉMÁL SKAL SÆKJA.

Fé á að dæma svo mikið sem gögn báru til, í þeim stað sem eindagi var á mæltur, fjórtán nóttum eftir vopnatak, og svo marga aura sem gögn báru til. Nú er eigi eindagað fé, þá skal dæma gjald að lögheimili þess er gjalda á, í örskotshelgi við túngarð hans, þar er hvorki sé akur né eng, þangað frá garði er sá á heimili er fé skal taka. En ef menn vitu eigi það, þá skal dæma gjald að heimili þess er sök sótti.

Nú er úr sínum fjórðungi hvor þeirra, þá skal dæma gjaldið miðvikudag í mitt þing annað sumar eftir, í bænda kirkjugarði. Og svo skal fara þótt eindagað fé sé, ef úr sínum fjórðungi er hvor þeirra er mál áttust við.

Ef maður metur fé sitt dýrra á leigu, eða selur, en á lögleigu, þá er rétt að lýsa sök þá í þingbrekku á vorþingi, ef þeir eru samþinga, og sækja þar í dóm fram. Þar er menn verða fésekir, þá skal dæma gjald fjár þess að heimili þeirra er fésekir verða, ef þeir eru sams fjórðungs og hinn er féið á að taka. Ef þeir eru úr tveim fjórðungum, þá skal gjaldið dæma í alþingi mitt, í bónda kirkjugarði, slíka aura sem mæltir voru á innstæðanum. Útlegðir hálfar skal dæma að gjalda annað sumar í mitt þing í bænda kirkjugarði, en hálfar heima, þar er innstæðinn var dæmdur, og þar önnur álög öll. Útlegðir og öll álög skal dæma lögaura.

8. HÉR ER UM SKULDADÓM.

Ef sá maður andast er öreigi er, og er engi maður skyldur að gjalda skuldir hans. Þá var hann öreigi, ef hann átti eigi eftir mörk eða meira fé. Nú var þar meira fé, og voru þó skyldir meiri en fé, og er erfingi skyldur að bjóða til skuldadóms eftir hann, ef hann hafði átt eftir mörk eða meira fé.

Nú ef hann býður eigi til skuldadóms að lögum, eða geldur hann nokkurum manni af fénu áður hann bjóði til skuldadómsins, þá skal hann gjalda allar skuldir meðan hans aurar vinnast til. Eigi á hann í skuld að ganga fyrir.

Sá maður er til skuldadóms vill bjóða, hann skal ganga í þingbrekku á vorþingi því er hinn var úr andaður, þá er tvær nætur eru af þingi, og nefna sér votta svo að heyri meiri hlutur þingheyjanda. Hann skal svo mæla: „Í það vætti, að skuldadómur skal vera á tveggja vikna fresti að heimili því er hann er frá andaður, og eg býð þangað þeim mönnum er fé látast að honum hafa átt, og koma þar svo að dómur sé nefndur fyrir miðjan dag.“ Sá er til skuldadóms bauð skal kveðja búa fimm, þrem nóttum fyrir eða meira méli, þá er næstir búa því er dómurinn skal vera, þeirra er réttir sé í kviðum að tengdum.

9. AÐ SÆKJA AÐ SKULDADÓMI.

Þeir menn er þar þykjast fjár von eiga sem skuldadómurinn er skulu þangað koma með votta sína. Nú eru eigi vottar til, eða náir hann þeim eigi. Þá skulu þeir búar fimm skilja, er hinn hefir þangað kvadda er dóminum heldur upp, eða þeir er þeir vilja til hafa kvadda, um dómstaðinn, þrimur nóttum fyrir dóminn eða meira méli. Sá er til dóms bauð skal bjóða þeim með votta að nefna hálfan dóminn, en þeir eigu að hluta hver dómi skal upp halda við hann, hvort sem þeir eru aðrir ófúsir eða keppast þeir um. Nú vilja þeir eigi, þá skal hann nefna allan dóminn. En síðan skal bjóða til ruðningar of þá dómendur, hvorir sem nefndu. Dóm þann skal ryðja svo að þar skal engi þeirra manna sitja í dómi er þar eigi fjár von að heimta, og enskis þeirra faðir né sonur né bróðir né námágar þrír þá skulu menn hluta hve sakir skal fram segja í dóm þann, og færa fram síðan hver vætti sín eða kviðu.

Sá er til dóms bauð skal þangað hafa fé það allt er hinn hefir átt. Nú átti hann fé undir öðrum mönnum, og skulu haldast máldagar þeir allir er á því fé voru. Ef þeir menn eigu þangað fjárvon, er eigi eigu sjálfir varðveislur fjár síns fyrir æsku sakir, þá eru þeir menn skyldir til farar þangað er fé þeirra eigu að varðveita, enda ábyrgjast þeir við þá hina ungu menn það er til þeirra kemur, ef þeir gera eigi til koma eða færa eigi gögn til, þau er þarf. Og svo ef ungir menn eru erfingjar þess hins andaða, þá er sá maður skyldur að bjóða til skuldadóms er fjárvarðveislur þeirra á, ef þeir ætti fé.

Ef menn leyna fé því nokkuru, er hann hafði átt þar, og varðar það fjörbaugsgarð. Það er stefnusök, skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er. Þar skal hver hafa sína aura ef svo má.

Nú átti hinn lönd eftir eða goðorð, og skulu búar það virða, landeigendur fimm, þeir er næstir búa landinu. Nú eru lönd fleiri, þá skulu þeir er næstir búa aðalbólinu virða öll lönd, og skal sá hafa þá búana til kvadda er dóminum heldur upp, viku fyrir dóminn eða meira méli. Sá maður skal þar í landi taka er mest fé átti að hinum.

Nú átti hann konu, og skal hún hafa bæði mund og heimanfylgju, ef hann átti þá fé til mundarins fyrir utan skuldir er þau gengu saman. Nú hafi hann eigi þá átt mundinn skuldlausan, og hafi hann átt þó mörk eða meira fé, það er af skuldum gekk, þá skal þá aura jafnt skerða sem aðra. Nú hefir hann eigi átta mörk þess fjár er af skuldum gekk er þau gengu saman, þá skal hún engi hafa mundinn, en hafa á hún þó heimanfylgjuna sem áður. Nú höfðu þau fé sitt saman lagt, þá skal hún gegna skuldum öllum að þeim hluta sem hún átti í fé við hann. En ef hún átti í búi við hann, og var eigi í fé þeirra saman lagið, þá skal hún gegna að sínum hluta þeim aurum öllum er til bús þeirra voru keyptir [K: og öllu því er til hennar þurftar var keypt] en engum þeim er til hans þurfta eins var keypt.

Ef maður átti veðmælt í fé hans, og skal hann hafa það ef hann hefir að lögum veðmælt og lýst að lögum. Nú hafa þar tveir menn veðmæltan einn grip, og báðir að lögum, þá skal sá hafa er fyrr veðmælti. En ef eigi hafa báðir að lögum veðmælt, þá skal sá er að lögum hefir veðmælt. Nú hefir hvorgi að lögum veðmælt, þá skal hvorgi hafa. Þótt hann hafi betra grip veðmæltan en hans skuld gegni, og skal hann eigi hafa, hvegi er mælt var, er mælt var, meira en hans skuld var fyrir öndverðu. Rétt er að þeir fimm búar virði gripinn er þangað eru til kvaddir, þann er hinn hafði veðmæltan, og skal hann þá skjóta í móti slíku sem þeir virða gripinn dýrra en hans skuld var fyrir öndverðu, og skal hann þá hafa gripinn. Jafnt skulu allir missa sinna aura, þeir er þar áttu, ef eigi vinnst til skulda, þeir er eigi hafa veðmælt, og skal þar alla aura jafnt skerða.

Nú þeir menn allir er þar kalla til fjár skulu vinna eiða jafnt sem að þingadómi, og svo þeir menn allir er þar skulu lögskil mæla, en síðan láta bera vætti og þau gögn öll er þeir hafa til. Sakir skulu fram komnar allar áður sól sé undir, síðan skal dæma um nóttina og um morguninn eftir. Lokið skal dómi að miðjum degi annan daginn. Enga heimting á sá til síns fjár, er eigi ger til skuldadómsins koma [K: ef hann spurði og hann mátti til koma]. Nú mátti hann eigi koma til skuldadómsins, eða spurði hann eigi að dómur skyldi vera. Þá skal hann lýsa sök að Lögbergi á hönd þeim mönnum öllum er þar tóku fé, til gjalda og til útgöngu slíks fjár sem á hans hlut mundi koma ef hann væri þar, og lýsa til þess fjórðungsdóms sem dómurinn var í áttur, og á honum að dæma sína aura svo að þeir missi allir jafnt.

10. AÐ VEÐMÆLA FÉ.

Þá er fé veðmælt að lögum, ef svo er að farið, að vottum er sýndur gripurinn, enda er þó rétt ef þeim er svo kunnigt það fé er veðmælt er sem þeir hafi séð, og skal lýsa veðmála fyrir heimilisbúum fimm, þess manns er fé sitt lét veðmæla. Nú eru þeir á það sáttir að eigi skyli lýsa, og er það sem þeir mæli ekki um, þótt þeir hafi votta við það.

Þá er og að lögum ef tveir aurar eru veðmæltir fyrir einn, nema því aðeins ef sá gripur var eigi þess verður er veðmæltur var. Ef sá maður fellur frá, er gjalda á féið, og verða af eindagar allir við hann.

11. UM EINKUNNIR.

Það er mælt í lögum vorum að hver maður sá er sauði á eða búfé, er skyldur að hafa eina einkunn á öllu kvikfé sínu. Hann skal hafa látið einkynna allt ungfé sitt þá er átta vikur eru af sumri, það er hann náir, en ef hann gerir eigi svo, þá varðar útlegð, nema eigi er skylt að einkynna dilka. Hross er og eigi skylt að einkynna.

Ef það fé er skylt er að einkynna kemur í annars manns land en þess er á féið, þá á sá maður kost, er á landi því býr, ef fé er óeinkynnt, að leggja á einkunn sína þá er átta vikur eru af sumri eða síðar, og eignast hann þá féið ef hann hefir áður sýnt búum sínum fimm með votta.

12. UM MISFANGA UM MARK.

Ef manni verður misfangi, og merkir hann lamb annars manns í stekk, og varðar það eigi við lög ef kviður ber að hann hugðist eiga. Þá skal hann bjóða hinum jafngott lamb fyrir, ómerkt [K: ef hann hefir það til], þá er hann verður var við, en hinn á að kjósa hvort hann vill hafa [K: það eða hitt er hann átti áður]. En ef hann býður eigi, þá varðar honum útlegð við þann er átti.

Ef maður einkunnar annars manns fé ólofað, og varðar þriggja marka útlegð ef hann leggur þess mark á sem á féið. Nú merkir hann annars manns marki, þá varðar það fjörbaugsgarð við hvorntveggja, þann er fé á og hinn er mark á. Nú markar maður annars manns fé sínu marki, og vill í því eignast féið, þá á hinn kost að ráða orði um, er féið á.

Ef menn eigu kaupafé, og á hver að færa mark til síns marks og gera sem má líkast. Það eitt er lögmark er eyru eru merkt á öllu fé, nautum og sauðum, svínum og geitum, nema á fuglum, þar skal fitjar merkja.

Ef maður gerist illvirki að fé manna og gerir í því kúgildis skaða eða meira fyrir öndkost, þá varðar skóggang, og skal lýsa að Lögbergi og sækja hið sama sumar, og kveðja til á þingi níu búa þaðan er illvirkið var gert.

13. UM GELDFJÁRSAFNAÐ.

Búandi hver er skyldur að láta safna geldfé öllu um land það er hann býr á, því er aðrir menn eigu, og láta reka til lögrétta þeirra er hreppsmenn [K: héraðsmenn] eru sáttir á að vera skulu. En ef hann gerir eigi svo, þá varðar útlegð, þrjár merkur, og á sá sök þá er vill, þeirra manna er að þeirri rétt eigu von fjárheimtingar við hann, enda ábyrgist hann féið [K: féið það er hann safnar eigi svo, við þá er eigu]. Sitt fé eitt skal hann í brott reka frá rétt, nema hann reki að ráði eiganda fleira, en ella varðar þriggja marka útlegð. Enda ábyrgist hann féið til þess er það kemur til þess er á.

14. UM DILKA.

Svo er mælt, þó að dilkur fylgi móður sinni ómerktur, að sá eignast hann er ána á. Nú villast dilkar í rétt, og skilur menn á um eiginorð, þá skal nokkur beiða þar lögskiptis með votta alla þá er til telja. En síðan skal hver þeirra sýna ær þær, er þeir telja að leitt hafi dilkana, búum fimm þeim er næstir búa réttinni, þeirra manna er þá eru þar, og skulu þeir skipta þeim öllum er ær kannast eigi við.

Nú verður eigi skipt að hinni næstu rétt að lögum [K: Nú verða eftir dilkar þeir er eigi kennast ær við, enda sé skiptisins til beitt að hinni efstu réttinni], þá skal búandi sá er varðveitir réttina sýna búum fimm, og leggja á mark sitt, og eignast hann þá. Nú ganga þeir sauðir þaðan á brott ómerktir, þá á hver að merkja í sínu landi er vill. Ein lög eru um dilksauði og naut og geitur.

15. UM HRÚTA.

Ef maður á hrúta, og skal hann inn láta fyrir veturnætur, eða gera fyrir svo að eigi fái ær við [K: þótt blæsma gangi, þá alla er hann má heimta geta]. Ella varðar þriggja marka útlegð, og á sá sök þá er vill. En ef hrútur gerir skaða, þá skal sá bæta auvisla sem búar þess virða, er skaða fékk af, og á hann þá útlegðarsökina. Nú verður fimm aura skaði að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð [K: þeim er hrút á. Ef hrútur manns gengur í annars manns sauðum eftir veturnætur og sé eigi fyrir gert, þá á hann að gelda hrút þann ef hann vill, og fara svo að sem hann geldi sinn hrút. Svo skal fara um hafra hið sama. Ef hrútur deyr af geldingu, þá skal hann gera til og varðveita til handa þeim er á, ef hann finnur].

Eigi ábyrgist eigandi þó að hrútur geri skaða, er hann mátti eigi heimtan vinna, enda kemst hann eigi til bótanna, þótt hrútur verði dauður ef geldur er, ef hann gengur með annars manns sauðum eftir veturnætur, við þann er þá sauði á, ef hann lætur svo að fara sem hann mundi ef hann ætti, og látið svo gera til og varðveita til handa eiganda.

16. UM HAFRA.

Jafnt skal varðveita hafur og hrút að lögum. Of fé það er eigi verður eigandi að, að hinni síðustu réttinni, þá skal sá maður er réttina varðveitir kveðja til búa fimm, landeigendur þá er næstir búa réttinni, þeirra manna er þangað eigu sauðum til að safna, og skipta að lögum sauðum þeim með sér til varðveislu.

Þeir búar sex er sauði þá varðveita skulu segja til að kirkjusóknum eða mannafundum, hve margir sauðir þar eru þeir eftir, er eigi eru eigendur að, og kveða á mark. En ef eigandi gerir eftir, þá á hann að sýna varðveislumanni og hafa síðan að ósekju á braut, ef það er fyrir sólhvörf.

17. UM ANNARS MANNS FÉ Í SÍNU LANDI.

Hvar þess er maður veit að fé annars manns er í landi því er hann á að varðveita, þá skal hann sagt hafa mönnum til á fjórtán nóttum hinum næstum er hann varð var við að féið var þar. En ef það er þar til þess er tveir mánaðir eru [K: er mánaður er] af vetri eða lengur, þá skal hinn láta uppi varðveislumanni fúlgu slíka sem búar virða að rétt [K: að vert] er, ella varðar útlegð þrjár merkur brotthöfnin, og fúlgan umfram, enda er þá vítislaust varðveislumanni þó að hann haldi fénu, ef eigandi kemur eftir, ef honum er eigi uppi látin fúlgan.

18. UM GELDFJÁRVIRÐING.

Nú verður eigi eftir gert að miðjum vetri, þá skal varðveislumaður heimta til heimilisbúa sína fimm að virða, og sýna þeim mark það er á er, og færa síðan til síns marks, og eignast hann þá féið. En búar skulu svo virða sem þá var vert er þangað kom. Og hann skal gjalda verð hið næsta vor er hann veit hver á, og sá heimtir, ella varðar þriggja marka útlegð haldið. En ef hann bregður eigi af marki eða lætur eigi virða féið, þá má hinn á brott hafa, og láta uppi fúlgur sem búar virða.

19. EF MAÐUR VARÐVEITIR ANNARS MANNS FÉ.

Hvort er hann hefir virða látið féið eða eigi, eða brugðið af marki, þá skal segja til vor hið næsta eftir, í þingbrekku á vorþingi því er hann heyr sjálfur þá er sóknarþing er fast, og vísa til heimilis síns þeim mönnum er fé það eigu, þá er átta vikur eru af sumri. [K: Sá maður er féið hefir varðveitt um veturinn, hvort er hann hefir af einkunn brugðið eða eigi, þá skal hann segja til einkunnar fjár þess, er hann hefir varðveitt um veturinn, í þingbrekku á sóknarþingi því er hann heyr sjálfur, og vísa þeim mönnum til heimilis síns og taka þar hvort er þeir eigu heldur sitt fé að hafa eða verðið, þá er sjö vikur eru af sumri.]

Nú kemur eigi eigandi til, enda hefir hann eigi virða látið féið, þá á hann þó að hafa nytjar af fénu sem af sínu fé, enda ábyrgist hann þá eigi, en á engan veg skal hann þá á brott lóga. Hann skal segja til þrjú vor í þingbrekku, svo að meiri hlutur heyri þingheyjanda, og hið þriðja vorið á alþingi að Lögbergi. En ef þá verður eigi eigandi að, þá eignast hann féið. Ein eru lög um, hvort sem eru naut eða sauðir.

20. OF ERFÐAMÖRK.

Ef menn taka mark að erfð, þá skulu þeir skipta því sem öðrum arfi. Nú vill sá maður gera bú, er ekki á mark. Þá skal hann segja til í þingbrekku á vorþingi því er hann heyr sjálfur, hvert mark hann vill hafa. Og spyrja ef menn viti nokkurn mann þann er þetta mark eigi, þeirra manna er samgöngur fjár eigi við hans fé, og eignast hann þá mark ef eigi finnast eigendur.

Ef maður færir bú sitt á millum hreppa, þá skal hann segja til marks síns á samkomu hinni næstu í þeim hrepp sem hann hefir búið [K: í fært]. En ef nokkur maður er í þeim hrepp [K: í því héraði] áður, sá er það mark eigi, þá skal sá þeirra af bregða er skemur hefir búið í því héraði [K: hvar þess er sauðagang þeirra ber saman]. Ef menn verða varir við að þeir eigu mark saman [K: að hvorttveggja ber saman, sauðagang þeirra og einkunn], þá skal sá segja til er fyrri fregn og finna hinn. Nú hefir annar mark eignast að erfð, en annar að kaupi eða að gjöf, enda hafi þeir báðir jafnlengi búið í því héraði, þá skal sá af bregða er eigi á erfðamark. En ef þeir eigu erfðamark báðir eða hvorgi, þá skal sá af bregða er færri sauði á. En ef þeir eigu jafnmarga, þá skulu þeir hluta.

Nú verða þeir svo fremmi varir við að þeir eigu mark saman er féið er rekið í afrétt. Þá skulu þeir telja það og segja hvað hvor þeirra rak á fjall eða hve gamalt féið var, um það er þeir vitu, og vinna eiða að, að þá er rétt talið. En um haustið eftir skulu þeir sýna búum sínum fimm, og láta skipta að jafnaði svo sem heimst hefir til. Eignast hvor þeirra, þótt eigi sé skipt, því er þeir koma lögkennöndum til, og á sá þeim mun færra úr skiptinu sem það hefir verið að afnámi.

21. OF LÖGKENNENDUR.

En þeir eru lögkennendur er réttir eru í kvið að tengdum og að frændsemi. Sá maður er kennendur vill færa til fjár síns, hann skal vinna eið að því að hann átti fé það, þá er í afrétt fór, og hefir eigi síðan lógað, en kennendur skulu leggja það undir þegnskap sinn að hinn átti fé það, þá er í afrétt var rekið.

Nú heimtir annartveggi þeirra fleira en von átti og leggur laun á. Þá á hinn að ráða orði um [K: er einkunn á við hann] ef sá missir síns. Nú heimtir annar betur en annar, þá skal hinn beiða hann lögskiptis. Nú lætur hann hinum eigi lögskipti uppi, þá varðar þriggja marka útlegð, og skal stefna um féið til gjalda, og um jafnmargt sem honum er vant það sumar og svo gamalt. Skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er heimtir féið, hve margt hann hafði óheimt eða hve gamalt það var. Ef þar koma eigi lögvarnir fram, þá skal dæma gjald það allt á hendur þeim sóttur er, ef þar fást gögn til að hann hefir misst.

22. OF ÞAÐ AÐ LJÁ MARKS.

Nú bregður sá maður búi sínu er mark á, og er honum rétt að ljá öðrum mark [K: og á hann þó að hafa þegar er hann vill sína einkunn]. Nú lér hann engum manni, enda verður hann örsauði, þá er mark það eigi hans heldur en annars manns.

23. OF ALSTÝFINGA.

Svo er mælt, ef maður leggur alstýfingamark á fé sitt, þá varðar fjörbaugsgarð nema honum sé lofað í lögréttu. Nú tekur maður að erfð alstýfinga, þá er honum rétt að hafa það mark á því fé er hann tók að erfð meðan það lifir, en eigi skal hann fleira svo marka. Eigi eigu menn að gjalda alstýfinga né taka, nema þegar lógi af, eða sjálfur eigi það mark.

Nú skal til saka þessa allra, er hér gerast í þessu máli, kveðja níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er, þar er fjörbaugsgarð varðar, en fimm búa þar er févíti liggur við, enda allt það er annan veg er gert í þvísa máli en hér var mælt, þá liggur við þriggja marka févíti, nema meiri sekt sé til talið.

24. OF ÞAÐ EF MAÐUR LEIÐIR BERFÉ SITT TIL GRAÐFJÁR ANNARS.

Ef maður leiðir berfé sitt til graðfjár annars manns ólofað, kú yxna til griðungs eða meri álægja til hests eða sú ræða til galtar eða á blæsma til hrúts eða geit til hafurs, og varðar það allt þriggja marka útlegð.

25. OF LEIGUR Á BÚFÉ.

Ef maður leigir búfé að manni að leigumála réttum, þá skal hann þvottdag þann í fardögum skyldur að leysa af hendi sér, þeim er næstir eru eftir þá er hann leigði. En ef hinn kemur eigi svo eftir, og á hann kost að segja af sína ábyrgð hinn næsta dag helginni eftir, ef þá er heilt féið og óhætt. Ef hann heldur á fénu þá er hinn kemur eftir er á, og náir hann eigi [K: enda sér hann], og er það rán það rán og varðar það fjörbaugsgarð [K: varðar skóggang]. Nú náir hann eigi að sjá, og er þá sem hann taki frá honum.

26. OF BÚFJÁRHALD.

Svo er mælt að þrjár merkur varðar haldið á búfé því er maður hefir selt að leiga, ef eigi er merkt hans marki, ella varðar skóggang, enda beiði hann þvottdag í fardögum. Nú nýtir hann sér nyt fjár þess fyrir það ofan, þá varðar honum það skóggang, og hverjum manni þeirra er fjárnytjar þeirrar neytir vísvitandi.

Nú lætur hann uppi féið að lögum, þá skal hinn taka við fé sínu, því er hann seldi honum að leiga, ef það fé er jafngott sem mælt var að hann skyldi honum af hendi inna. En ef það fé er þá verra, þá skal sá er af hendi leysir hafa kvatt til heimilisbúa sína fimm þrem nóttum fyrir, og skulu þeir virða þann mun, og skal hann gjalda honum þar þann mun. Nú er honum verra fé uppi látið en hann átti mælt, þá á hann kost á, hvort sem hann vill, að hafa fé það á brott er honum er boðið og heimta það er eftir er, eða hafa ekki á brott og stefna um allt saman féið til gjalda og til útgöngu. En ef hann tekur eigi við þá er honum er boðið féið, þá sekst hinn eigi á nyt fjár þess, er áður hefir haft féið. Ef það fé er dautt, er hann hafði á leigu selt, þá skal hann gjalda honum búfé annað svo vara, ef hann hefir eigi búfé til. Hann skal eigi lamblausar ær gjalda, nema hann hefði svo leigðar.

27. OF LEIGU Á FÉ.

Ef annmarkar þeir verða á búfénu, er honum sýnist svo að það sé eigi á vetur færanda, eða myni það eigi í gjöld ganga þótt það komist fram, þá á hann kost að láta af fé það, og gjalda honum annað fé jafngott fyrir.

28. OF AFTÖK LEIGUFJÁR.

Ef maður lætur af búfé það er hann hefir leigt að öðrum manni, svo að búum þykir nauðsynjalaust, að það varðar skóggang nú, og skal stefna heiman og kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er. [K: Nú lætur hann af fé það eða lógar á nokkurn veg, er eigi eru þeir andmarkar að, þá er það gertæki og færir til meira máls og varðar skóggang.] Eigi má til þýfðar færa nema leynt sé, enda á hann heimting til fjár þess, hvargi sem niður kemur, ef hinn hefir selt eða gefið.

Ef sá kemur eigi eftir svo snimma sem mælt er, er á leigu á féið, enda segi hinn eigi ábyrgð sína af er áður hafði hinn næsta dag helginni, þá sekst hann eigi á nyt fjár þess til hins fimmta dags þess er sjö vikur eru af sumri, ef hann býr í sama stað, enda komi hinn eigi til áður er á, en hvergi skal hann á brott fara með. Rétt er þeim manni er þar býr að láta mjólka fé það og láta varðveita nyt fjárins, þar til er sá kemur eftir er á. Enda á hann kost að reka fé það til handa þeim er á, og fara svo með sem sitt fé, enda ábyrgist hann eigi féið ef hann fer svo með.

29. OF NYT AF ANNARS MANNS BÚFÉ.

Hvar þess er maður þiggur nyt af annars manns fé en þess er á, ólofað vísvitandi, þá á hinn kost að láta varða skóggang, eða gertæki ef hann vill það heldur. Ef hann vill til hins meira máls færa, og skal hann stefna og láta varða skóggang, og kveðja til tylftarkviðar goða þann, er sá er í þingi með er sóttur er, hvort hann hefir þegið nyt af fé því er hann hefir stefnt um.

Nú ber tylftarkviður á hann, þá skal hann beiða sér bjargkviðar heimilisbúa sína fimm, til þess sem hann þykist helst efni hafa, hvort sem verið hefir að hann hefir eigi vitað eða hefir hinn lofað honum er á. Nú hvorn þeirra sem ber í hag honum, og sekst hann eigi þá, enda skal hann slíkt kveðja sér bjargkviðar þótt til gertækis sé fært. Eigi tær bónda sá bjargkviður að hann hafi eigi vitað, ef fjárnytin hefir þar verið höfð hálfan mánað eða lengur samfast.

30. OF FÚLGUFÉNAÐ.

Nú felur maður fé inni að öðrum, og á sá máldagi að haldast með þeim sem þeir verða á sáttir. Nú felur hann fé inni að fúlgumála réttum. Hann skal ala fé það svo að óhætt sé fyrir holda sakir, og gæta svo sem síns fjár, og svo sem þá mundi hann ef hann ætti það fé. Hann ábyrgist við þeim auvirðum öllum, er það fær af því skaða er hann gætir þess annan veg en síns fjár þess kyns.

Þegar er hann nýtir nyt af fúlgufénu, þá ábyrgist hann að öllu það fé, hvort sem það er fyrr eða síðar, enda skal hann svo af hendi leysa það fé sem leigufé. Nú hvað sem því fé verður að váglata, þá skal hann svo því fé að bjarga, og svo af láta og svo varðveita að öllu sem þá mundi hann ef hann átti það fé.

31. OF HROSSAFÚLGUR.

Ef maður felur hross inni að manni að fúlgumála réttum, og ábyrgist hinn það jafnt sem annað fúlgufé. Ef menn neyta hross þess, og á sá að sækja um nautnina er hross á. Enda verður sá jafnt sekur um nautnina sem aðrir menn, nema hann skyldi að öllu ábyrgjast, þá á hann að neyta sem sinna hrossa og spilla eigi, og á sá að sækja um hrossnautnina sem ábyrgist. Eigi á sá að neyta hross sjálfur, er á, né lofa öðrum mönnum.

32. OF HROSSAREIÐIR.

Ef maður hleypur á bak hrossi manns ólofað, það varðar sex aura áfang. Nú ríður hann fram úr stað, og varðar það þriggja marka útlegð.

Þrjár hrossreiðir eru þær er skóggang varða. Ein er ef maður ríður svo að þrír bæir eru á aðra hönd, og ríði hann um þá. Önnur ef maður ríður um fjöll þau er vatnföll deilir af á meðal héraða. Þriðja ef maður ríður á milli landsfjórðunga. Þótt hin meiri sé reiðin, og er þó kostur að stefna um hina minni.

Þá er maður stefnir manni um hrossreið, að hann hafi riðið hrossi hans um þrjá bæi, og lætur varða skóggang og áfanga með, tylftarkvið skal til hafa þá er skóggang varðar. Nú ber kviður á hann, þá á hann að beiða sér bjargkviðar, hvort hann hafi riðið um þrjá bæi, þá er allir lægi á aðra hönd, svo nær að sjá mætti reið hans heileygur maður í ljósi af öllum bæjum, ef að væri hugað, enda bæri eigi leiti fyrir né hæðir svo að það meinaði.

33. OF LÁNHROSS.

Ef maður lér manni hross, eða hefir hann leigt, og varðar honum eigi meðförin nema hann hafi lengur eða víðara en honum væri lofað. Ef maður lér manni hross annars manns, og varðar honum slíkt sem hann fari sjálfur með. Enda á sá kost, er hross á, að sækja þann er léð er. En sá verst sökinni ef það ber kviður að hann hugði hann eiga eða leigt hafa, er honum léði.

Ef hann leigir hross til þingreiðar, og ábyrgist sá er með fer. En ef sárt verður, þá skal standa fjórtán nætur er heim kemur, ef þá er heilt, þá skal ekki bæta fyrir. Ef þá er eigi heilt, þá skal virða allt saman ef hinum hefir mein að verið að missa svo lengi. Ef hross verður dautt í þingförinni, þá skal hann gjalda svo sem þá var virt er hann leigði. Ef þá var eigi virt, þá skulu búar fimm meta, þess er hross átti, svo sem vert var áður hinn leigði, enda skal þar standa leigan í hrossverðinu þá. Eigandinn á sókn við þann er léði eða leiga seldi, og sekst sá á ef kviður ber að lengur sé haft hrossið en hann lofaði eða leiga seldi. Hann á kost að höfða sök við hvorn sem hann vill.

Ef eigandi sendir mann með hross sitt eða með eyk síns örendis, og ábyrgist eigi sá er með fer, ef hann fer svo með sem hinn bauð, og þá mundi hann ef hann ætti.

34. OF ÞAÐ EF HROSS KEMUR Í HAGA MANNS.

Ef hross kemur í haga manns, það er eigi eigu þeir menn er næstir búa honum eða þeirra húskarlar, og er búanda heimilt að ríða því hrossi í síns búfjár gangi í sínu landi, og svo þeim mönnum er þingheyjendur eru fyrir búi hans, og svo heimamönnum hans, þeim er hann lofar. Hann skal eigi hefta hross það til nautnar, og eigi ríða spellreiðir ne einar.

Búandi skal segja að kirkjusóknum eða á samkomum að það hross er þar komið, er hann veit eigi hver á. Ef það hross hefir þar verið hálfan mánað síðan er hann sagði til, og er rétt að hann heimti til fimm búa að virða hross það við bók, og síðan er það er metið er rétt að hann neyti og ábyrgist. Eigi skal hann neyta lengur en hálfan mánað hross, nema virt sé. Ef eigandinn kemur til, og hann kost að hafa hvort er hann vill, hross eða verð. Svo skal hross virt vera sem þá var vert er búandinn sagði til. Hann skal ábyrgst hafa í sinni nautn, ef hinn kýs hrossið, er á, og skal búandinn tigla honum, ef þá er hross það verra en þá er hann tók við.

35. OF FÉLAGSHROSS.

Ef tveir menn eigu hross saman eða fleiri, eða skip eða aðra gripi, þá skal sá ábyrgjast að öllu er með fer, og er hverjum þeirra heimilt í sína þurft. Engi á að ljá öðrum mönnum eða á leigu að selja, nema allra ráð fylgi. Engi lér þess er annar á. Útlegð varðar þeim er þiggur lán eða leigir, ef hann veit að fleiri eigu.

Nú vill annar sækja um nautn, en annar hafi léð. Þá varðar þeim eigi nautn ef hann getur þann kvið að hann hygði það að hinn ætti fyrir að ráða er honum léði. En ef hinn vissi, er neytti, að hann vildi eigi hafa láta, annar er átti, þá varðar honum slíkt sem þá að hvorgi léði.

Nýmæli: Ef maður hefir lengra grip, þann er honum er léð eða hefir hann leigt, en lofað væri, þá varðar honum slíkt sem hvergi sé léð.

Nú fer maður eigi lengur með né víðara en leyft er, þá verður heimilt til meðfarar öllum þeim er hann vill léð hafa í þeirri för, hvort sem er hross eða skip.

36.

Nýmæli: Ef hross gengur misgöngum í land manns, það er búandi veit hver á, þá skal senda orð um það, ef þangað má fara tvívegis þann dag er þá er, og neyta eigi áður. En ef hinn vill eigi koma eftir hrossi sínu á hálfum mánaði, þá er hann veit hvar er, þá er bónda rétt að setja hross það inn og láta virða og neyta sem hann eigi, og selja eigi fyrir alþingi. Hinn skal hafa hvort er hann vill, hross eða verð þá er hann kemur til.

Nýmæli: Ef maður tekur hross manns úr landi sínu, þá á hann að taka af haft ef hann vill, og leggja á haftið áður hann hverfi frá. En ef hann má þá eigi taka hrossið, þá varðar honum ekki ef haft er áfast hrossi, og svo þótt hann ríði til handa þeim er á. Ef maður tekur haft af hrossi manns ólofað, eða setur hann inn, eða færir í fylgsni fyrir þeim er á, og varðar það þriggja marka útlegð allt, nema það sé gert við þingmenn eða brúðmenn, svo að þeim verði faradvöl að, og varðar þá fjörbaugsgarð. Það eru allt stefnusakar, og skal kveðja níu búa á þingi þess er sóttur er um fjörbaugssakir, en fimm til útlegða.

Nýmæli: Ef hross það er maður hefir í þingför, eða í öðrum förum, verður tekið frá honum eða villt á nokkura lund, og ábyrgist hann við eiganda, enda skal hann sækja um öll óskil og verða aðili að. Ef hann vill eigi sækja, þá á hrosseigandi að sækja ef hann vill.

37.

Hvort sem menn eigu saman hross eða annan grip, og vill annar hvor þeirra skipta. Hann skal beiða hinn með votta skiptingar, að skipta á viku fresti. Hann skal kvadda hafa heimilisbúa fimm til þess er gripinn hefir að halda, þrem nóttum fyrr, að skipta með þeim, og meta við bók þann grip að heimili þess en gripinn hefir að halda. Þeir skulu hluta síðan, og skal sá þeirra hafa er hlýtur, en gjalda verð hinum að þess heimili er gjalda skal, á tveggja vikna fresti. Ef hann kemur eigi til að gjalda, og sé eigi handsalað, þá varðar það útlegð og harðafang.

38. OF HROSSREIÐIR OG HROSSARÁSIR.

Þótt búar manns eigi hross á hann að ríða af engjum sínum eða úr heyvi, hvort sem vetur er eða sumar. Svo skal hann með fara sem með sín hross.

Nýmæli: Ef fleiri menn ríða hrossi manns, eða ráða fleiri um hrossreiðina, eða hvegi er þeir fara með því um þrjá bæi eða þær reiðir aðrar er skóggang varða, þá varðar þeim öllum skóggang er saman ráða um meðförina.

Ef hross beisltamt rennur eftir manni á næsta bæ, og skal hann beiða menn að taka hross það, og sekst hann eigi þá á, þótt renni til annars bæjar. Hinum varðar útlegð ef þeir varna, og svo hið sama á öðrum bæ. Ef á hinum þriðja biður hann, og er honum eigi veitt þar, þá varðar þeim fjörbaugsgarð er þar varna, enda hafi hann beðið áður í tveim stöðum, en útlegð ella, og á hann þær sakir. Hvort sem maður lætur hross renna eftir sér um tvo bæi eða einn, og varðar honum þriggja marka útlegð ef hann biður eigi menn hefta á næsta bæ. En ef hann lætur renna á hinn þriðja bæ, og varðar honum það fjörbaugsgarð. Manni er rétt, ef hross renna eftir honum, að setja inn og segja mönnum. Ef þeir fara fleiri saman, og vilja sumir skil á gera en sumir eigi, og varðar þeim við lög er óskil gera á.

Nýmæli: Ef maður fer og tekur hross manns, og sé eigi öðrum manni um boðið um varðveisluna svo að hann viti, og færi hann þeim manni er á, enda fari hann svo með sem þá mundi hann að hann ætti, og varðar honum eigi við lög ef hann tók af því hross og færði þeim er átti, að hann vildi honum gagn gera.

Ef maður lætur renna eftir sér hross annars manns úr héraði og yfir þær heiðar er vatnföll deilir af tveggja vegna á millum héraða, og varðar fjörbaugsgarð. Ef maður lætur renna eftir sér hross manns frá bæjum á milli fjórðunga, og varðar það fjörbaugsgarð. Ef hross kemur að manni í óbyggðum, og varðar manni eigi eftirrásin ef hann heftir á næsta bæ, þótt það renni fjórðunga á milli, eða um heiðar þær er vatnföll deilir af tveggja vegna á milli héraða.

Ef maður bindur tagl í munn hrossi manns, og varðar fjörbaugsgarð.

Nýmæli: Ef menn reka hross frá mönnum á áiföngum eða skaka skellu að í þingför eða brúðför og gera honum farardvöl, það varðar fjörbaugsgarð, en útlegð í öðrum förum.

Það er mælt að jafnmikið varðar ef maður ekur eða ber klyfjar á, eða hefir í togi þótt eigi sé klyfjar á, hrossi manns, sem reiðin jafnlöng.

Nýmæli: Það varðar skóggang ef maður neytir hross hinni meiri nautn, þótt hann hafi skammt. Sú er hin meiri nautn ef svo er að það beri kviður að hrossi væri eigi það verra að því væri riðið hæfilega hart dagleið eina til alþingis. Um allar hrossnautnir þær er skóggang varða, þá eru það þriggja þinga sakir, og skal stefna heiman og sækja við tylftarkvið.

39. OF TAGLSKURÐ.

Ef maður sker tagl úr stóðhesti manns, það varðar skóggang. Ef maður sker tagl úr þinghesti manns eða þess manns hesti er í brúðför er, þá varðar fjörbaugsgarð. Þá er þinghestur er hann er í þingförinni. Ef maður sker svo að bein nemur, varðar fjörbaugsgarð. Nú sker hann tagl úr öðrum hesti, og verður hann þá útlagur um það þrem mörkum.

Nú særir maður hross manns, og verður hann útlagur um það fjórum aurum ef ekki verður mein að. Nú særir hann svo að mein verður að, þá verður hann útlagur þrem mörkum. Nú verður fimm aura skaði að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð.

40. OF ÞAÐ HVE SÆKJA SKAL UM HROSSREIÐIR.

Hrossreiðarsök hver skal sótt á hinu þriðja alþingi þaðan frá er ger er.

Nýmæli: Ef menn selja hross sín til gæslu á alþingi, og skal alin kaupa gæslu á hvert hross, og er eindagi á fé því miðvikudag í mitt þing íbúanda kirkjugarði, og varðar það hálf fimmta mörk haldið. Sá er gætir hrossa skal að því einu neyta þeirra að ríða að gæslu og reka til þings og til gæslu, og skipta því að jafnaði með hrossum, og ríða engu meir en það standi eigi fyrir holdum, og ábyrgjast að öllu og varðveita svo sem hann mundi sitt eigin, og vildi vel. Hann skal sýna eiganda að þinglausnum annað hvort hross kvikt eða dautt, áður misseristal sé upp sagt, ella er hann útlagur þrem mörkum. Skal þeirri sök stefna til annars þings.

Réttur er sá dagur allur til stefnu. Verst hinn sökinni, ef sækjandi hefir hross sitt, áður meiri hlutur manna sé á brott riðinn. Ef gæslumaður geldur sitt fé fyrir horfið hross, þá verður hann aðili og heimtandi ef hross er tekið.

41. OF HREPPALÖG.

Það er mælt í lögum vorum að löghreppar skulu vera á landi hér. En það er löghreppur er tuttugu bændur eru í eða fleiri. Því aðeins skulu færri vera ef lögréttumenn hafa lofað.

Þeir bændur skulu eiga að gegna þingfararkaupi allir er til hreppatals eru taldir, þó að menn skipti hrepp sínum í fjórðunga eða þriðjunga, eða svo sem þeir vilja skipt hafa til matgjafa eða tíundaskiptis, og er rétt að þeir verði þar færri í hlut hreppsins saman en tuttugu. Svo skulu hreppar settir að hver bóndi skal sitja hið næsta öðrum. Skulu svo hreppar allir settir sem nú eru til taldir.

Landeigendur fimm skulu vera teknir til sóknar í hrepp hverjum, að sækja þá menn alla er óskil gera í hreppinum, og svo að skipta tíund manna og matgjöfum eða sjá eiða að mönnum. Rétt er að þeir menn sé eigi landeigendur er sóknarmenn eru í hrepp, ef hreppsmenn eru allir á það sáttir. Ef maður situr að hreppamóti, og kemur hann í annan hrepp með bú sitt, þá á hann kost að kjósa sig í annan hrepp með bú sitt, ef hinir eru tuttugu eftir eða fleiri, enda lofi þeir sem fyrir sitja.

Þeir menn eru til þess skyldir er til sóknar hafa hlotist, eða svo eru til teknir að allir hreppsmenn eru á það sáttir, að skipta matgjöfum og tíundum og mannaeldi, í sínum hrepp hverir sóknarmenn. Þeir skulu svo skipta mannaeldi að jafnmikil verði gisting á hundraði hverju skuldlausu, þeirra manna er þar búa í hrepp. Hreppsmenn eru skyldir að ala þá menn er sóknarmenn skipta á hendur þeim til eldis. Þeim mönnum skulu þeir skipta á hendur þeim, er þeir verða þar þrotráða í hrepp, og þeim er svo koma á hendur þeim að þeir vissu eigi þá von til, er þeir byggðu lönd sín eða tóku sér hjú.

Nýmæli: Sinni landsbyggð skal hver maður bjarga, hvort sem hann á í sínum hrepp eða öðrum, til fardaga þeirra er hann hefir þeim byggt. Þá skal hann láta neyta fjár síns fyrst, en ef þeim vinnur eigi sitt fé þörf, þá skal sá leggja sitt fé fyrir þá er þeim byggði, eða færa þá menn til framfærslu ella. Þriggja marka sekt varðar er maður bergur eigi sinni landsbyggð sem mælt er.

42. OF FJÓRÐUNGSÓMAGA OG GÖNGUMANNAELDI.

Fjórðungsómaga og þá menn er hreppsmenn eru skyldir að ala, þá skulu þeir ala jafnvel sem hjú sín og fá þeim klæði. Þá menn skal eigi af landi selja né í skuld taka. Ef erfingjar ómaga eru í tveim hreppum, þá skulu þeir skipta þeim ómögum og færa á millum hreppa til framfærslna sinna. Eigi skulu þeir hann láta ganga með húsum.

Ef maður lætur ganga sinn ómaga i hrepp, eða skýtur hann niður eða færir í hrepp annan en vera eigi, eða hleypst hann frá, og varðar það þriggja marka útlegð, og skal honum færa, en láta eigi ganga með húsum.

Ef ómagi er þar færður á hendur manni í hrepp að ólögum, eða er þar skotið í hrepp, þá skal sá maður er ómaginn er færður skera kross ef hann þykist hreppsfundar þarfi, og bera þar til hins næsta húss, og nefna þar hreppsfund að sín á sjö nátta fresti eða meira méli og kveða á hvert hinn skal bera krossinn. Enda skal hver þeirra bera láta krossinn frá sér, svo sem sá mælti er skar, og láta fara sem dagur endist. Ef menn dvelja krossförina, eða koma þeir eigi til hreppsfundar, þá varðar það hverjum þeirra þriggja marka sekt. En þá dvelja þeir krossförina ef þeir færa eigi þegar af hendi, er þeir vitu að kross kom, ef eigi bægja nauðsynjar þeirra. En þá koma menn eigi til hreppsfundar ef eigi koma fyrir miðjan dag, þann dag sem á kveðið var. Allir búendur eru skyldir að bera hreppsfundarboð, þeir er í hrepp eru saman, þótt þeir sé sumir óauðgari en þeir eigi þingfararkaupi að gegna [K: enda eru þeir og jafnskyldir allir að koma til hreppsfundarins]. Enda eru þeir jafnskyldir þá að koma til hreppsfundar, ef menn vitu, þótt eigi fylgi kross boðinu á hendur þeim. Sóknarmenn eigu jafnt að skipta þeim mönnum á hendur er heima sitja manneldi, sem hinum er þar eru. Eigi skulu þeir bæði senn ala þá menn er þar eigu að fara í hrepp, karlmann og konu barnbæra. Eigi skal svo skipta manneldi á hendur þeim að þau sé bæði senn þar.

Nýmæli: Eigi skulu menn ala göngumenn utan hrepps. En ef þeir ala, þá varðar það fjörbaugsgarð [K: þriggja marka sekt]. Það varðar og fjörbaugsgarð [K: þriggja marka sekt] ef þeir ala þá menn eigi sem hjú sín er sóknarmenn hafa skipt á hendur þeim, eða gefa eigi svo matgjafir sem skipt var.

Hvarvetna þess er maður gerir svo illa við þann mann er hann skyldi fram færa að honum sé óvært við, hvort sem hann hefir hann með sér eða felur hann inni, þá á hver maður kost er vill að taka þann ómaga af þeirri vist er honum er óvært við og fá honum betri vist, og heimta fúlgur tvennar að hinum, slíkar sem heimilisbúar fimm virða við bók, þess er heimta á fúlguna.

Nýmæli: Þar eru tvennir aðiljar þeirrar sakar við bónda, ef hann gefur eigi matgjöf þeim manni er honum var skipt að gefa. Þar er aðili sóknarmaður í hrepp, enda er sá aðili er þiggja skyldi.

Sóknarmenn eru jafnskyldir að ala menn í hrepp og gefa matgjafar sem aðrir menn, enda varðar þeim og fjörbaugsgarð [K: enda eru sóknarmenn sekir þrem mörkum] ef þeir sækja eigi þá menn í hrepp er eigi gefa matgjafar, eða ala eigi þá menn er sóknarmenn hafa skipt á hendur þeim að réttu, eða sækja eigi hreppsfundi, eða bera eigi hreppsfundarboð, eða ala utanhreppsmenn.

43. OF ÞAÐ AÐ SÆKJA AÐ HREPPADÓMI.

Ef maður vill annan sækja að hreppadómi, þar skal sóknari fara og marka dómstað í örvarskotshelgi utan garðs þess manns er hann vill sækja, og marka til síns heimilis, þar er hvortki sé akur né eng. Hann skal það gera rúmhelgan dag. Hann skal fara til húss þess manns er hann vill sækja og nefna votta „í það vætti, að eg legg dómstefnu við þig,“ og nefna hann á nafn, „á sjö nátta fresti, að við skulum dóm eiga, og koma þar svo að dómur sé nefndur fyrir miðjan dag,“ og kveða á dómstaðinn. En síðan stefna honum um það sem hann vill sækja um, og til þess dóms er hann hefir lagðan, og láta varða fjörbaugsgarð [K: og telja honum varða þriggja marka sekt]. Sóknari skal kveðja heimilisbúa fimm, þess er sóttur er, um það sem hann hefir stefnt um, og kveðja þrem nóttum fyrir dóminn eða meira méli, og kveðja rúmhelgan dag og svo stefna. Hvor þeirra skal hafa innanhreppsmenn til dóms, og skal hvor þeirra hafa tíu menn og taka þar úr dómendur og votta. Kviðmenn skulu vera umfram. Þrjá menn skal hvor þeirra nefna í dóm.

Nú vill verjandinn eigi nefna dóminn, þá skal sækjandinn nefna allan dóminn, og er það jafnrétt sem þeir hefði báðir nefndan dóminn. Dómur skal vera rúmhelgan dag. Dómur skal eigi vera um langaföstu né um löghelgar tíðir. Eigi skal dómur vera þær vikur sex, tvær fyrir alþingi og þingvikur tvær og tvær vikur eftir þing hinar næstu. Svo skal tíð vanda til að eiðfæra ómaga heima í héraði sem til þess að eiga hreppadóm. Þá er dómur er nefndur skal hvor þeirra bjóða öðrum til ruðningar að ryðja dóm þann, og skal svo ryðja sem kvið. Sá skal bjóða til ruðningar um kviðinn sem kvaddi og bjóða þeim er um er kvatt. Fullur er kviður þótt griðmenn sé tveir í, ef búar eru úr ruddir. Þeir skulu eiða vinna þar sem að þingadómi, allir þeir menn er þar vilja lögskil mæla, og fram færa að dómi. Ef þeir hafa fleiri menn til dóms en tíu hvor þeirra, þá verður sá þeirra útlagur þrem mörkum er til þess biður menn, enda er útlagur hver þeirra er fylgir þeim. Útlegð varðar hverjum þeirra er varnar til farar eða nokkurs þess er þarf til að hafa, innanhreppsmanna.

Ef utanhreppsmenn koma til dóms, og skulu þeir eigi vera í lögskilum. En ef þeir mæla lögskil, þá er sem þeir mæli ekki. Ef það ber kviður á mann að hann hafi alið utanhreppsmenn, þá á hinn að beiða sér bjargkviðar að bera um það hvort hann hugði að hinn væri heimilisfastur eða eigi. Nú ber það kviður að hann hugði að hann ætti heimili, þá verst hann sökinni. Þeir skulu dómendur sitt mál hafa er fleiri eru saman þar. Ef þeir eru jafnmargir, þá skal áfall dæma.

44. OF SKIPAMENN.

Þeir menn er að skipum eigu búðir, þeir skulu eigi ala utanhreppsmenn né konur þær er barnbærar eru, þó að þær sé innanhreppsmenn. Þá menn skulu skipamenn eigi ala er göngumenn eru. Svo skal fara að sókn allri við skipamenn sem við bændur, nema það að sá er sækja vill skipamenn um manneldi skal leggja dómstefnu heima að sín. Enda skal sækjandinn hafa svo marga menn sem hann vill til dóms, en verjandinn tíu menn, og á skipamaður slíka vörn fyrir sig sem bóndinn. Þeir skulu þann dag lúka dómi sínum sem þeir koma til.

Dómur á að dæma gjald á hendur skipamönnum fjórtán nóttum eftir dóminn, þar sem dómurinn var áttur. Gjald skal dæma á hendur búandanum fimmtadag þann er sjö vikur eru af sumri, þar í dómstaðnum, vítigjald, en matgjöld fjórtán nóttum eftir dóminn, ef um það er sótt. Ef þeir eigu gjalddaga saman, og skal þar gjalda vítið.

45. OF GJÖLD EFTIR HREPPADÓM.

Víti skal gjalda í lögaurum, enda er rétt að gjalda í gripum. En gripir skulu vera eigi verri en tveggja aura sé verður hinn ódýrsti. Það fé skal öfundlaust vera. Lögmetendur skulu þeir hafa til fjármets þess, sá er taka skal og sá er gjalda skal. Þeir eigu að meta fé til fullra aura.

Þar er dómur dæmir gjald, þá skal dæma fyrir miðjan dag, enda skulu þeir svo til koma, sá er taka skal og gjalda. Ef menn glepja dóm, það varðar fjörbaugsgarð þeim er það gerir. Þeirri sök skal stefna heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

46. OF HÉRAÐSDÓM.

Héraðssókn skal upp vera hafið á fjórtán nóttum þeim hinum næstum er sóknaraðili veit sökina. Ef víti verður svo nær þingi að eigi mátti sækja að héraðsdómi, þá skal sóknarmaður í hrepp stefna þeirri sök heiman og kveðja heimilisbúa fimm til á þingi þess er sóttur er. Ef sóknarmenn vilja eigi sækja að hreppadómi, þá á hver að sækja þær sakir er vill, innanhreppsmanna, og stefna til þings. Þar er sóknarmenn vilja eigi sækja þær sakir sem þeir eru til teknir, og varðar þeim það fjörbaugsgarð, og eigu hreppsmenn þær sakir. Þeim sökum skal stefna heiman og kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er. Ef þeir vilja eigi sækja, þá á hver er vill sökina.

Ef annar maður sækir sökina, þá er sóknarmaður er til tekinn, og stefnir til þings og bregður sökinni við þann er sækja skyldi. Sóknarmaður á kost þó að sækja ef hann vill, ef hann getur þann kvið að hann vissi eigi svo að hann mætti dóminn hafa áttan fjórtán nóttum fyrir alþingi, að hinn hefði gerva sökina, þá er hinn hefir stefnt um. Enda ber það kviður að hann mundi sækja hann um þótt hinn hefði eigi stefnt.

Rétt er að sóknarmenn skipti hreppsmönnum með sér, hverja hver þeirra skal sækja, þeirra manna er óskil gera í hrepp, og skal þá hver þeirra sækja sem skipt er til handa. Hvarvetna þess er févíti eru dæmd að hreppamáli að þingadómi, þá skal dæma fjórtán nóttum eftir vopnatak í örvarskotshelgi utan garðs, þar er hvortki sé akur né eng, þangað frá garði er sá á heimili er sótti.

47. OF LÖGHREPPA MANNA.

Nýmæli: Hver maður skal þar eiga löghrepp sem hann hefir á framfærslu verið, nema hann sé að lögum af kominn, eða þar ella sem næstabræðri hans er vistfastur eða nánari maður. En það er rétt að ala þá menn er fara til löghrepps síns náttverðareldi, því aðeins að dagverði ef lögheilagt er. En það er rétt að ala þá menn er fara til löghrepps síns náttverðareldi, því aðeins að dagverði ef lögheilagt er. En þá er þeir koma í löghrepp sinn, þá eru þeir bændur er þingfararkaupi eigu að gegna allir skyldir að ala þá slíku eldi sem hreppsmenn verða á sáttir, nema þeir færi þá á framfærslur. En ef þeir menn eru framfærslulausir, er engi eigu næstabræðra vistfastan eða nánara mann, þá eru landsmenn allir skyldir að ala þá slíku eldi sem hinum var mælt áðan. En ef þeir verða veðurfastir, eða meina þeim vötn eða firðir, þá er rétt að ala þá menn meðan maður vill, hinu sama eldi. Eigi skal göngumönnum veita húsrúm, þeim er eigi er eldi mælt, og engar veislur, nema til skúa eða fata.

48. OF AFBRIGÐ HREPPAMÁLS.

En um afbrigð þessa máls, hvort sem menn eru ofalnir eða vanalnir, þá varðar það fjörbaugsgarð, og eigu hreppsóknarmenn þær sakir. Nú þykir biskupi eigi gaumur að gefinn, þá er rétt að hann fái mann til sóknar. En þar er hreppsmenn gera eigi sækja, þá er utanhreppsmönnum rétt að taka svo til sókna hér sem um aðrar hreppssóknir. En fjörbaugsgarð varðar þeim mönnum er til sóknar eru teknir ef þeir sækja eigi. En fimm búa skal kveðja til fjörbaugssaka þeirra allra á þingi.

Það er rétt að stefna heiman að lögheimili manns, eða þar er hann heyri á sjálfur, til alþingis eða til vorþings þess er sá er í er sóttur er. Enda er rétt að lýsa á alþingi ef sá er á þingi er sóttur er. Rétt er að lýsa að þinglausnum til sóknar annað sumar.

Ef menn stefna þeim sökum í gegn, er það ber kviður að eigi mundi ella sóttar vera, þá eigu þær eigi að metast. Þar er menn eru sóttir um manneldi, þá er það lögvörn ef þeir geta þann kvið að þeir hugðu að þeir ætti að ala þá menn. Það er enn lögvörn ef maður býður gerð biskups, og handsalar það, þá skal því eigi níta. Það er enn lögvörn ef menn taka göngumenn og hýða fullri hýðing, og verður þó rétt að þrír bændur hverfi að og hýði einn mann. Metast þær varnir um þær sakir allar er þeir höfðu áður gervar, áður barsmíðin væri. Biskup á kost að þoka þessu máli ef hann vill, og hafa uppi í lögréttu. Þeim mönnum er lögvörn það, er til sóknar eru teknir, ef þeir geta þann kvið að þeir vissu eigi að þær sakir voru gervar, er þeir voru sóttir um að þeir höfðu eigi til tekið. Þeir göngumenn eru til hýðingar taldir er eigi er eldi mælt.

49. OF SAMKOMUMÁL.

Til samkomna þeirra er hreppsmenn eigu að lögum eru bændur allir skyldir að koma fyrir miðjan dag, þeir er innan hrepps búa. Þriggja marka útlegð varðar þeim er eigi vill koma. Ef maður má eigi koma til samkomu, þá skal hann senda húskarl sinn til samkomu, þann er skilum haldi upp fyrir hann á samkomu. Varður er hann sök ef hann gerir svo.

Sóknarmenn skulu samkomumenn taka þrjá eða fleiri, hvert vor á samkomu þeirri er höfð er næst vorþingi eftir, þá er sæki menn um afbrigð samkomumála öll, þau er á þeim misserum verða ger.

Sá maður er að byggð vill fara í hrepp úr öðrum hrepp, hann skal fara til samkomu þeirrar er menn eigu um langaföstu og biðja sér byggðarleyfis. Menn eigu að lofa þeim manni byggð, nema hann hafi þýfigjöld goldin eða að þjófskap sannur orðið eða sé hann svo fátækur að þess þyki að von að hann megi eigi bjargast með lið sitt þau missari, nema hreppsmenn dugi honum. Ef maður má eigi komast til þeirrar samkomu, eða ræður hann síðar bú sitt, þá skal hann biðja sér byggðarleyfis á samkomu þeirri eftir vorþing. Ef maður má eigi koma til þeirrar samkomu, þá skal hann beiða sér byggðarleyfis búa sína fimm, landeigendur, þá er næstir búa því landi er hann vill á búa. Því aðeins vinnur honum þörf þeirra leyfi, ef hann átti eigi kost á samkomu um að ræða.

Nýmæli: Ef sá maður fer í hrepp að byggð ólofað, er menn ætti byggð að leyfa ef hann bæði lofs, þá má hann þó búa þar í hrepp ef hann vill, en í engum verður hann lögskilum með öðrum hreppsmönnum. Eigi eru menn skyldir að bæta honum skaða þótt hann bíði.

Ef sá maður gerir þar bú er menn eigu fyrir þær sakir byggð að banna sem áður var tínt, hvort sem er að hann biður sér eigi byggðarleyfis eða vill hann þó búa að honum sé bannað, þá eigu hreppsmenn að taka upp bú hans eða færa hann á brott úr hrepp ef þeir vilja. Eigi skulu menn tíundir miðla við hans lið né matgjafir. Það skal samkomumál vera allra manna á milli fast, sem þeir verða á sáttir er til samkomu koma. Meiri hlutur búanda skal ráða, ef eigi verða allir á eitt sáttir um ný samkomumál. Eigi skal fornum samkomumálum þoka, nema allir verði á sáttir, þeir er í hrepp búa.

50. OF SKAÐABÆTUR.

Skaðabætur eru mæltar ef fallsótt kemur í fé manns, svo að fellur fjórðungur nautfjár þess er hann hefir, eða meiri hlutur. Þá skulu hreppsmenn bæta honum skaða. Hann skal kveðja til nábúa sína fimm á hinum næsta hálfum mánaði er fallsótt lætur af, að virða skaða sinn. Hann skal segja til skaða síns og sýna þeim hold og húðir þess fjár er af er farið. Hann skal síðan vinna eið fyrir þeim að sá er skaði hans sem þeir hafa virt, eða meiri. Síðan skal hann segja til á samkomu hve skaði hans hefir virst, en bændur skulu bæta honum hálfan skaða. Þeir skulu svo bæta að jafnmiklu sé bætt af hundraði hverju. Eigi eru menn skyldir að bæta framar en svo að sex álnir sé goldnar af hundraði hverju, sex álna aura.

Ef fleiri menn bíða skaða á einum misserum, þá skal jafnt öllum bæta til þess er sex álnir eru af hundraði hverju goldnar. Ef þá vinnst eigi til þess að hálfur skaði verði bættur hverjum þeirra, þá skulu bændur telja svo til að þeim mun minna hafi hver þeirra af bótum sem þeir hafa minna skaða beðið.

51. OF HÚSBRUNA.

Hús eru og þrjú í hvers manns híbýlum, þau er til skaðabóta eru mælt ef upp brenna. Eitt er stofa, annað eldhús, hið þriðja búr það er konur hafa matreiðu í. Ef maður á bæði eldhús og skála, þá skal maður kjósa á samkomu um vorið hvort hann vill heldur að menn ábyrgist með honum eldhús eða skála. Ef kirkja eða bænahús er á bæ manns, þá er það hið fjórða hús til skaðabóta talið, þar er það er til.

Ef nokkurt brenn upp fyrir manni, þessa húsa er nú eru talið, þá skal hann heimta til búa sína fimm og láta virða skaða sinn þann er orðinn er. Þeir skulu skaða þann virða er að húsi er orðinn og að klæðum og að gripum þeim er inni hafa brunnið. Þann einn klæðnað eða gripi skal til skaðabóta telja er húsbóndi átti og hvern dag þurfti að hafa. Eigi skal gersimar, né vöru enga, til skaðabóta telja. Mat skal til skaðabóta telja, ef inni brenn. Ef kirkja brenn upp, þá skal með henni til skaðabóta telja kirkjutjöld og sönghús og klukku þá er best hefir verið, þá er inni hafi brunnið, ef fleiri hafa verið en ein, og það skrúð hennar allt er hvern dag þarf að hafa. Slíkt er mælt um bænahús hið sama.

Nú hvertki sem upp brenn þessa húsa, þá skal þar og hálfan skaða bæta, að þeim hætti sem áður var tínt. Sá er eindagi á skaðabótum sem hreppsmenn verða á sáttir að vera skal, og skal svo stefna sem um annað eindagað fé, nema eigi fylgir handsalsslit og eigi harðafang. Eigi eru menn skyldir að gjalda hinum sama manni oftar skaðabætur en þrisvar.

Ef maður tekur hjú úr öðru þingmarki, hann skal sjálfur þeirra vendræði öll ábyrgjast, en hreppsmenn eru til öngra úrlausna skyldir um það framar en þeir vilja.

52. OF RÉTTAFARSSAKIR VIÐ ÚTLENDA MENN.

Það er mælt, ef réttafarssakir eru á hendi útlendum mönnum, að rétt skal sakaraðilja að stefna þeim sökum að heimili goða þess er sá er í þingi með, sjálfur sakaraðili, til dóms þess er hann ræður að nefna að heimili goðans á viku fresti þaðan frá er stefnt er. Sækjandi skal þann mann láta vita, er sök er á hendi, að honum er stefnt, þrem nóttum fyrir dóm eða meira méli. Þar skal sækjandi kveðja níu heimilisbúa til sakar þeirrar, þá er næstir eru vettvangi og réttir sé að tengdum, þrem nóttum fyrir dóm eða meira méli. Sækjandi skal nefna tólf menn í dóm, þá er vistfastir sé og kunni að hyggja fyrir orði og eiði. Svo skal að sókn fara að dómi þeim sem að þingadómi, og svo skal vörn fram færa.

Ef vörn kemur engi fram, og verður maður sannur að sök, þá á dómur að dæma fulla sekt hans, og þegar í stað sekt fé hans allt og tiltækt. Ef utanhéraðsmenn eigu þessa sök að sækja þá skulu þeir stefna, og eiga dóm að heimili goða þess er þeir kjósa til af þeim sem goðorð hafa í þeirri þingsókn sem sakir gerast í, og skulu þeir svo að sókn fara sem áður var tínt.

53. OF ÁLNAR RANGAR, OG SÆKJA AÐ HÉRAÐSDÓMI.

Svo er mælt ef maður mælir álnar rangar, svo að munar áln eða meira í tuttugu álnum, að það varðar fjörbaugsgarð. Sá á sök þá er síns missir í því. Til þeirrar sóknar skal kveðja á þingi níu heimilisbúa þess er sóttur er. Sök þeirri skal stefna að heimili þess er sóttur er, eða þar sem hann heyrir á sjálfur. Rétt er þeim er sækir að stefna í þingbrekku á vorþingi því er hann heyr sjálfur, og skal því aðeins rétt að stefna þar í dóm ef sá er á þingi er sóttur er, en ella skal stefna til alþingis. Ef þessi sök er rétt höfðuð, og koma þau gögn fram með henni að dómi sem henni eigu að fylgja, þá eigu varnir eigi að metast um það mál, og eigi skulu gagnsakir metast, ef það eru eigi sektarsakir, á mót álnasök.

Þótt eigi sé lengra vaðmál röngum álnum mælt en þrjár álnar, og varðar það fjörbaugsgarð, ef von er að muna mundi áln í tuttugu álnum, ef svo langt vaðmál væri mælt slíkum álnum. Slíkt varðar um rangar álnar á léreftum sem á vaðmálum.

54.

Rétt er að sækja austmenn að héraðsdómi, slíkri sókn sem mælt er um réttafarssakir.

55. OF ÞAÐ EF AUSTMENN GERA AFLAGA Í KAUPSTEFNUM.

Ef austmenn gera aflaga í kaupstefnum um réttafar karla eða kvenna, eða álnar eða vættir, og á aðili kost að stefna að heimili goða þess er sá er í þingi með er sækir til dóms, á viku fresti, og gera orð austmönnum þrem nóttum fyr dóm eða fyrr, og kveðja níu heimilisbua goðans þrem nóttum fyrir dóminn eða fyrr. Og skal sækjandi nefna tólf menn í dóm og fara að sókn sem að þingadómi, dæma hann alsekjan og sekt fé hans allt og upptækt eftir dóm, nema lögvarnir komi fram, eða handsöl góð sé boðin og gerð goða. Og skal goði vinna fimmtardómseið, að hann mundi slíka sátt gera vorra landsmanna í millum, og hann hafi eigi fé tekið til liðs af austmönnum. Þriggja marka sekt varðar ef maður tekur minni sátt um réttafarssök en sex merkur.

Ef kaupstefna er í annarri þingsókn en sá goði heyr er aðili er í þingi með, eða í öðrum fjórðungi, þá skal aðili kjósa að hvers goða hann vill dóm eiga, þeirra er í þeirri þingsókn eru er kaupstefna er í, og stendur það mál um þrjá fjórðunga. En í Austfirðingafjórðungi er jafnrétt að sækja að graftarkirkju hinni næstu kaupstaðnum sem að kjósa goða til.

56. OF HEIMILISFÖNG MANNA.

Fardaga skulum vér eiga fjóra á landi hér. Þeirra er fyrstur hinn fimmti dagur viku, sá er sex vikur eru af sumri. Þann dag á maður kost að færa heimili sitt árdegis. Annar er föstudagur, þriði laugardagur, fjórði drottinsdagur. Þann dag segja lög mann að aftni af griði sínu, því er hann hefir áður haft.

Nú hefir maður sér eigi grið þann drottinsdag að aftni eða árdegis annan dag viku, þá verður hann útlagur þrem mörkum. Ef maður á konu, þá skal hann fengið hafa henni grið, og sagt henni til, hinn fimmta dag viku, þá er sjö vikur eru af sumri hið síðasta. Nú er henni ófenginn staður svo að hún viti, þá er rétt að hún taki sér grið þar sem hún vill, og skal hún þann stað þá hafa tólf mánaði.

Nú hefir maður eigi stað þeim mönnum er hann skal fyrir hyggja hinn efsta fardag. Þá verður hann útlagur þrem mörkum um hvern þeirra, og á sá sök þessa er sækja vill. Maður skal svo koma til griðs sem hann var á sáttur við bónda, annaðtveggja að fardögum eða að miðju sumri. Karlmaður sextán vetra eða eldri og mær tvítug eða eldri skulu sjálf ráða heimilisfangi sínu. Rétt er að maður komi í grið að miðju sumri og iðni annað þar til.

57. OF VERKAKAUP.

Nú vinnur maður búverk, þá skal hann eigi meira kaup taka en hálfa mörk sex álna aura til miðs sumars. En frá miðju sumri skal hann vinna bónda allt til vetrar, fyrir utan smalaför, og ganga á fjall um sinn og slátra og fara heiman með bónda og slæða um vor og bæta túngarð. Það skal hann vinna til matlauna. Það er rétt að maður taki tvo aura til allraheilagramessu frá veturnóttum að kaupi. En þeir menn er eigi hafa fé til að færa ómaga sína fram skulu taka meira kaup ef þeir vilja.

Nú gætir maður nauta, og skal kaupa gæslu alin á kú eða oxa fjögurra vetra gamlan, en tvö naut við kú ef yngri eru. Sex álnum skal kaupa gæslu á gamla sauði þrjátíu. Á fjóra tigu lamba skal og kaupa sex álnum gæslu. Sex álnum skal og brytjan kaupa fyrir tíu menn. Sex álnir vaðmáls er lögeyrir eða þangað virt við ellegar. Kost á maður að gefa honum umfram ef hann vill, ef eigi eru undirmál með þeim. Nú verður honum stefnt um, og verður eigi gjöf, ef það ber kviður að það voru undirmál. Nú kaupir maður dýrra en mælt er, og verst hann ef það ber kviður að hann næði eigi ella, enda gjaldi hann eigi meira en lögkaup. Nú vill hann öllu halda, og á hinn þá heimting til alls.

Þriggja marka sekt varðar þeim manni ef hann fer eigi til vistar sinnar. Þeirri sök skal stefna þar heima ef vill til alþingis eða vorþings hið síðara sumar, enda er rétt að stefna þá enn til alþingis og um verkakaup ef það var reitt. Þeim manni varðar og þriggja marka útlegð, er við honum tók, ef hann vissi að hann hafði vist tekna í öðrum stað, við þann bónda er hinn hafði fyrst til sín ráðið. Þegar er vist tekin er búar bera að þeir voru orðnir á sáttir. Nú bregður maður við fleiri menn máli, og eigu jafna sókn við hann þeir er hann bregður við. Slíka sókn eigu griðmenn við bændur ef þeir bregða máli við þá. Þá er maður braut heitinn ef honum er eigi matur deildur að málum, þótt eitt mál sé haldið fyrir honum.

Ef maður mest dýrra en nú er talið, og svo ef hann selst dýrra á leigu, þá varðar þriggja marka sekt. Ef bóndi kaupir dýrra en nú er mælt, þá varðar honum þriggja marka sekt.

Rétt er að sá maður fari frá búi sínu er ómaga á, og láti kaupast verk að, enda er rétt að börn hans vinni til matar sér um sumar, þá stund er þau megu.

Ef maður ger eigi fara til griðs þess er hann tók, eða fer hann á brott af vist sinni forurtalaust, og varðar honum það þriggja marka sekt, og á búandinn að sínu heimili að stefna um það, hvort sem er þeirra, og svo að stefna þar um kaup, ef hann hefir reitt.

58. OF SMIÐA OG FARMENN.

Þeir menn eigu að fara með kaup sín er smíða eldhús eða stofur eða önnur hús af austrænum viði, eða gera brúar um vötn þau er netnæmir fiskar ganga í, eða gera búðir á Þingvelli, eða fara með sverðskreið. Þeir eigu kost að fara með dagakaup um engiverk, þeir skulu þó hafa tekið sér löggrið á griðfangadögum, þótt þeir hirði það eigi. Annartveggi þeirra bóndans skal sagt hafa áður til búum að sá maður hefir þar löggrið, og svo þótt hann fari af landi eða iðni slíka hluti sem nú voru taldir, og verður hann þá þar vistfastur með þeim búanda og þar í þingi með þeim goða, er sá bóndi er í þingi með.

Ef maður tekur grið með manni, sá er á brott fer af landi, og verður þar löggrið hans meðan hann er af landi héðan, og skal annartveggi þeirra hafa sagt heimilisbúum sínum fimm til, að hann hefir þar grið, og er þar þá rétt að stefna honum. Nú læst hann, eða kemur aftur hið sama sumar, og er þá rétt að hann taki sér annað grið ef hann vill, enda er rétt að stefna honum að því heimili, eða að festarhælum ella. Ef að festarhælum er stefnt, þá skal eigi kviðu ryðja að því heimili, og eigi að því heimili er hann tók síðan, nema þeir hafi sagt til á þingi eða á leið eða búum, að hann hefir þar lögheimili. Ef farmaður tekur grið með bónda, eða sá maður er í fiski fer, og varðveitir hann það ekki, og vitust þeir við málamunda þann sín á miðli, eða svo þótt hann iðni annað nokkuð, þá varðar hvorumtveggja þeirra þriggja marka sekt.

Ef maður veit eigi lögheimili manns, eða hvar honum er löggrið handsalað, enda fari hann úr öðrum fjórðungi á brott, eða veit maður eigi festarhæla hans þótt hann fari innan fjórðungs, þá er honum rétt að stefna þar er hann vissi lögheimili hans síðast.

59. OF ÞAÐ EF MAÐUR KEMUR Á LAND ÚR FÖR.

Ef maður kemur á land úr för, þá er rétt að stefna honum þar meðan hann hefir búðir að skipi. En er hann fer frá skipi, þá skal hann hafa fengið sér vist á hálfum mánaði, ef hann vill innan fjórðungs vera. Nú vill hann í öðrum fjórðungi vera, og skal hann hafa sér fengið vist á hálfum mánaði þeim er hann kemur í þann fjórðung.

Nú á hann konu, og verður hann eigi á sáttur við húsbúanda þann, er konan er í vist með áður, að þau sé þar bæði, og á hann kost að taka sér vist í öðrum stað, og báðum þeim og konu sinni, og varðar henni ekki brautförin, en virða skal verk hennar og fúlgur.

60. OF ÞAÐ EF MAÐUR FISKIR.

Ef maður fiskir til miðs sumars, og fer hann þá í grið, og verður hann þá þar heimilisfastur og þingfastur sem hann hefir löggrið, og er þar rétt að stefna honum að því heimili. En meðan hann er í fiskibúðum eða skálum, og er rétt að stefna þar um þær sakir er þar gerast eða hann hefir áður gert.

Ef maður fiskir um annir og gengur í grið að vetri, þá er rétt að stefna honum að því heimili um þær sakir allar er hann gerir síðar er hann kemur í griðið. En að fiskiskálum skal honum stefna um þær sakir er hann gerði fyrr en hann kæmi í griðið. En þingfestur hans verður þar er sá maður er í þingi, er land það á sem hann fiskir af.

61. OF PRESTAHEIMILI.

Prestar skulu sér hafa grið að átta vikum sumars, og segja til heimilis síns búum fimm, eða að kirkjusóknum ef þeir hafa þing, en ef prestur segir eigi til lögheimilis síns, þá er rétt að stefna honum að þess bónda er maður vill, þeirra manna er hann hefir lögtíðir haft að kirkju búandans. Ef prestur kemur á land síðar en að tvímánaði, þá skal hann hafa fengið sér heimili á hálfum mánaði þeim er hann kemur frá skipi, ef hann vill innan fjórðungs vera, en ella á þeim hálfum mánaði er hann kemur í þann fjórðung er hann skal vera.

62. OF STEFNUSTAÐI.

Nú tekur maður sér vist til tveggja missera, og er í því griði tvær vikur fyrir alþingi og tvær eftir þing og tvær um þingið. Og svo þótt hann fari á brott úr vistinni, og er þar lögheimili hans og þingvist sem hann var þær sex vikur, enda er rétt þar að stefna honum.

Ef maður fer með dagakaup, þá er rétt að stefna honum þar sem hann var hálfan mánað um annir eða lengur. Ef hann hefir hvergi hálfan mánað í einum stað verið eða lengur, þá er rétt að stefna honum þar er hann var þrjár nætur eða lengur um annir. Ef hann er hvergi svo, þá er rétt að stefna þar er hann vissi náttstað hans síðast.

Í öllum stöðum þeim er hann veit eigi lögheimili hans, enda á hann eigi kost að koma lögspurning við hann, þá er rétt að stefna þar er hann vissi lögheimili hans síðast. Hann skal kveðja til heimilisbúa sína fimm, hvort hann vissi lögheimili hins þar síðast eða eigi, eða ætti hann kost að spyrja hann lögspurningar eða eigi. Því aðeins er maður skyldur að spyrja mann að heimili til stefnustaðar, ef hann finnur hann að máli sjálfan, svo að hann kemur þar er hann kennir hann, og hann hefir votta til, á því méli er hann spurði sökina og þangað til er hann vill stefna honum.

63. OF ÞAÐ EF BÓNDI ANDAST.

Ef búandi sá er grið hefir handsalað manni fyrir fardaga andast, og ef erfingi býr þar því hinu sama búi, þá er föst griðtaka hans. En kost á erfingi að bregða búi ef hann vill. Nú býr hann þar, og er sá þeirra útlagur þrem mörkum er máli bregður við annan, búandi eða griðmaður. Nú andast búandi á hinni sjöndu viku sumars, og á erfingi kost, hvort sem hann vill, að búa þar eða bregða búi ef hann vill, og fá þeim mönnum slíkan stað og mála, sem þar var er bóndi andaðist, er þar voru ráðnir. Nú býr erfingi eigi þar, enda gerir hann hjúum eigi þann kost, þá varðar honum þriggja marka sekt við hvert þeirra. Nú andast bóndi er sjö vikur eru af sumri eða síðar, og skal erfingi þá búa.

64. OF ÞAÐ EF GRIÐMAÐUR LIGGUR AF VERKUM SÍNUM.

Nú liggur maður frá verkum, og skal bóndi annast hann hálfan mánað, ef hann þarf eigi gæslu. Nú þarf hann gæslu og hefir eigi vitfirring, þá er rétt að færa hann þeim manni er framfærslu hans á. Ef hann hefir vitfirring, og skal hann þá færa þeim bónda er skyldastur er, þeirra bænda er eigi þarf að auka hjú sín til að gæta hans. Þá þarf eigi að auka hjú til að gæta hans ef hann hefir hjónalið til að gæta hans, ef hann getur af þeim.

Ef bóndi á eigi framfærslu hans að lögum, þá skal arftökumaður fara til að gæta hans, ef bóndi kann þess þörf. Ef hann ger eigi til fara, og er hann þá sekur þrem mörkum, enda skal sá inna bónda fúlgu, er framfærsluna á hins óða manns, slíka sem búar meta, enda á hann við að taka hinum óða manni að fardögum. Nú liggur griðmaður í annarri sótt, þá skal bóndi gera hvort sem hann vill, færa þeim manni er framfærslu hans á, eða annast hann til fardaga og heimta fúlgu hans.

65. OF ÞAÐ EF MAÐUR LIGGUR, OG EIGI AF VERKUM.

Nú liggur maður, og eigi frá verkum, þá skal bóndi annast hann til fardaga og heimta fúlgu. En sá er framfærslu á þess manns skal hafa heim með sér hinn sjúka mann ef hann vill það heldur en fela hann á brott. Nú liggur griðmaður um engiverk þrjá daga, hvort sem hann liggur samfast svo eða eigi, og skal-at búandanum inna fyrir það. En ef hann liggur lengur, þá á bóndi kost að láta virða leguna alla saman. Hvort sem maður liggur frá verkum langa stund eða skamma, og skulu búar virða fúlgur eða verk þau er hann vann, eða hin er óunnin eru. Að því skal virða sem máldagar voru með þeim.

Ef sá maður andast á griði er verk skyldi vinna, og skulu búar meta hvort meira sé vert verk þaðan frá er hann lagðist eða fúlgan. Ef sá maður deyr er fólginn fólginn var inni, og skulu búar telja til hvers hann hafði neytt eða hvers óneytt í vistinni, eða hví hann var verri að annast er hann var sjúkur en þá er hann tók sér vistina. Ef griðmaður liggur frá verkum, og á bóndi kost, lengur er hinn hefir legið hálfan mánað, hvort er hann vill, að færa hann þeim manni er framfærslu hans á eða vill hann annast hann til fardaga og heimta fúlgu.

Ef griðmaður kvongast, og á í sínum stað hvort þeirra manna heimili, og skal í þeim stað hvort þeirra vera sem þau eigu heimili, nema búendur lofi, ef þau eru í verkum föst. Ef þau eru eigi í verkum föst, og skulu þau vera á hans vist að tveim hlutum en að þriðjungi í hennar vist.

66. OF ÞINGVISTIR MANNA.

Maður sá er bú gerir um vor, hann skal sig segja í þing með goða þeim er hann vill. Það er bú er maður hefir málnytan smala að. Hann skal segjast í þing ef hann á land, þótt hann hafi eigi málnytu. Nú er hvortki, að hann hefir eigi málnytt fé, enda er hann eigi landeigandi, þá verður hann í þingi þar sem búandi sá er, er hann er inni með. Nú er hann í skálum [K: fiskiskálum], þá verður hann í þingi þar sem búandi sá er, er land það á, er hann býr á.

Rétt er að maður segi sig í þing, hvort sem hann vill, á alþingi eða á vorþingi, og spyrja goða eftir, ef hann vili við honum taka. Rétt er að selja öðrum manni í hönd að mæla því máli. Nú hefir hann hvergi í þing sagst, og verður þar þá þingvist hans ef goði vill það. Nú hefir hann eigi í þing sagst á vorþingi, og skal hann í þing segjast á alþingi áður til dóma sé gengið. Maður skal segjast í þing með goða þeim er hann vill. Þeir skulu nefna sér votta að því að hann segir sig þar í þing og hjú sín og bú og fé sitt, og hinn tekur við. Nú fer annar maður með goðorð en sá er á, og hefir goði játt honum þingvist, en sá vill eigi við taka er með goðorð fer, og skal hann þar þó í þing segjast, og verður hann þá þar í þingi.

67. OF ÞAÐ AÐ SEGJAST Í ÞING.

Nú segir maður mann í þing með öðrum goða en honum var um boðið, og verður hann þar þá þingfastur ef hann vill. En ef hann vill eigi þar, þá skal hann segja búum sínum fimm til, þegar er hann fregn að hann vill þá þingvist hafa sem hann hafði um boðið, en hinn verður útlagur við hann þrem mörkum, og svo við goðann hvorntveggja, enda verður hann þar í þingi sem hann vildi verið hafa. Svo skal og ef maður segir þann mann úr þingi er honum var eigi um boðið. Ekki varðar hvorumtveggja goðanna að þeir gangi svo við þingvist þess manns sem fyrir þá er komið, þar til er þeir spyrja það um er rétt er.

Nýmæli: Ef goði þiggur grið með þriðjungsmanni sínum, og verður hann þá í þingi með sér.

Nú þiggur hann grið með annars goða þriðjungsmanni, og skal hann segja til þess á vorþingi í þingbrekku, að hann á í búi með þriðjungsmanni sínum þótt hann gegni eigi framlögum, og kveða á hver sá er, og hafa votta að við þann, og verður hann þá í þingi með sér. En ef hann leggur ekki orð í, þá verður hann þegar í því þingi sem húsbúandi hans, og varðar honum þriggja marka útlegð, enda er hann úr goðorði sínu, ef hann fer sjálfur með.

Ef maður gerir bú eftir alþingi, og er rétt að hann segist í þing á leið helgaðri.

Nú kaupir griðmaður bú, og verður þar þingvist hans sem bú er áður í þingi, og þar heimili hans um þær sakir er síðan gerast. Nú leggja menn ger bú saman, og verður þar hvor þeirra í þingi sem áður var, nema þeir vili eina þingvist hafa báðir, og skal þá segja úr þingi annað búið. Nú fer maður úr minna búi í meira bú, og skal hann láta segja sig úr þingi þar er hann var áður og segja í þing þar er hitt var áður búið, og fyrir háða dóma. Nú á maður tvö bú í einum fjórðungi, og skal hann frá hinu meira gegna lögskilum. Nú eru bú jafnmikil, og skal hann segja til á vorþingi frá hvoru hann vill gegna lögskilum. Nú mælir hann ekki um, og skal hann gegna þá frá báðum.

Nú leggja þeir menn bú sín saman er í sínum fjórðungi er hvor áður, og skulu þeir segja búum til hvorir hvors griðmenn eru. Nú segja þeir ekki til, og verða þeir hvors griðmenn er handsöl áttu við. Nú hafa þeir eigi handsöl að átt, þá er rétt að sækja hjú þeirra í hvort þing sem vill, þeirra sem bændurnir eru í.

Nú á maður bú í tveim fjórðungum, og skal hann í báðum segja búið í þing, og skal þar lögheimili hvorra sem þau eru til bús tekin. Nú fara hjú á miðlum búa, þá skal bóndi hafa sagt um vorið hver hjú eru að hvoru búinu heimilisföst. Nú er ekki til sagt, og er rétt að stefna í hvort þing er vill bæði honum og hjúum hans.

Ef búandmaður tekur þá konu til sín er bú á, og á hann kost að kjósa að eiginorði sína þingfesti og heimilisfang þangað er hún á bú, eða hennar heimili og þingfesti til síns bús, og þeirra manna er þau eigu að varða orð og verk fyrir. Ef hann kýs ekki um, og verður þar hvors þeirra þingfesti sem áður. Ef griðmaður tekur konu til sín, þá er bú á, og á hann kost að kjósa heimilisfang sitt og þingfesti til hennar bús. Ef griðmaður tekur þá konu til sín er grið þiggur, og er þar hvort þeirra í þingi sem áður var, enda á hann kost að kjósa að brúðkaupinu hennar þingvist, þangað er hann er áður í þingi. Ef búandmaður tekur búlausa konu, og færist hennar þingvist þá til hans bús, þótt ekki sé um mælt, þegar er þau koma bæði í eina sæng.

Ef maður andast, sá er býr, og er rétt að kona sú er hann átti kjósi þingfesti sína fyrir fimm búum þangað með lögráðanda sínum, ef hún vill, á fjórtán nóttum þaðan frá er búandi hennar andaðist, og svo þeirra manna er hún á að varða orð og verk fyrir. Ef kvongaður maður skilst við konu sína, og segja lög þingfesti hennar á brott með lögráðanda sínum. Nú eru þeir fleiri en einn, og á hún kost að kjósa með þeim er hún vill. Ef maður mælir ekki um á vor, og verður hann hvergi í þingi til þings fram, en útlagur verður hann þrem mörkum ef hann segst hvergi í þing. Ef maður heitur, og efnir eigi, að segja mann í þing, og verður hann útlagur þrem mörkum við þann er hann hét, og við goða þann er hinn vildi í þingi vera með.

Ef maður tekur arf og gengur í bú, en hann þá grið áður, og verður hann þar í þingi sem hinn var. Eigi þarf hann að segjast þangað. Nú gerir maður við þann mann bú er bjó áður, og verður hann þar í þingi sem sá er, nema hann segist í annað þing.

Nú færa menn bú sitt saman, er búið hafa áður, og verður þar hvortveggi í þingi sem áður var. Eitt þingfararkaup skulu þeir gjalda báðir ef þeir eru báðir í einum þriðjungi. Nú tekur sá maður arf er býr, og tekur hann þar við öðru búi, enda höfðu þeir eigi eina þingvist áður báðir. Þá skal hann segja sig úr öðru þingi, og bú sitt. Eigi þarf hann þá að segja sig í þing.

Nú þiggur sá maður grið, er á ómagabú í öðrum stað, og skal hann segja það nokkur í þing. En þar er hann í þingi sem bóndi sá er hann þiggur grið með. Nú er kona hans í búinu, og er hann þar þá í þingi sem búið er.

Nýmæli: Þegar er maður úr þingi er hann bregður búi, þótt hann geri önnur misseri bú, og skal hann segjast þá í þing.

68. OF VERÐGANG OG VAFLANARFARAR.

Ef maður gengur hálfan mánað eða lengur, eða fer vaflanarförum innan fjórðungs, þá varðar það þriggja marka útlegð, og svo ef hann fer alls mánað, og úr fjórðungi, eða utan fjórðungs, þess örendis að hlífa búi sínu eða griði. Nú fer maður hálfan mánað og þiggur ölmusugjafir, eða lengur, og hefir gisting þar er hann getur, og er sá göngumaður. En ef hann gerist húsgangsmaður, heill og hraustur svo að hann mætti fá sér tveggja missera vist ef hann vildi vinna, þá varðar það skóggang, og er rétt að stefna honum þar er maður vissi náttstað hans síðast, og kveðja til níu búa á þingi frá stefnustað.

69. OF ÞAÐ EF MAÐUR FÆRIR ÞINGVIST SÍNA.

Ef maður vill færa þingvist sína, þá skal hann þó sitja um skapþing þrjú kyrr, vorþing og alþing og leið. En þá er rétt að segjast úr á vorþingi, ef hann vill í þess goða þing segjast er samþingisgoði sé við hinn, og svo ef hann er með þeim goða í þingi er í hinu sama þingmarki á þing.

Rétt er að segjast úr þriðjungi goða á alþingi að háðum dómum að Lögbergi, ef goði heyrir. En ef goði heyrir eigi, þá skal hinn segja honum til, enda er rétt að segjast á brott með votta fyrir honum sjálfum. En hinn sama dag skal hann segja sig í þing með öðrum goða. Ef maður segir þá menn úr þingi manns er honum hafa eigi um boðið, og verður það rétt ef þeir vilja það. En ef þeir vilja eigi, og skulu þeir segja búum sínum fimm að þeir vilja í sama stað hafa þingfestina, en hinum varðar útlegð við hvorn þeirra.

70. OF ÞAÐ EF MAÐUR FÆRIR BÚ SITT FJÓRÐUNGA Á MILLI.

Ef maður fer búi sínu úr fjórðungi og í annan fjórðung, þá segja lög þingvist hans í brott, nema í Hrútafirði, þótt maður fari um þveran fjörðinn, þá má hann hafa hina sömu þingfesti. En því aðeins er ellegar rétt að hafa í öðrum fjórðungi þingfesti en hann á bú í, ef goðunum er lofað að taka þriðjungsmenn utan fjórðungs að Lögbergi.

71. OF ÞAÐ EF GOÐI SEGIR MANN SINN ÚR ÞINGI.

Nú vill goði segja þingmann sinn á brott úr þingi við sig, þá skal hann hafa sagt honum fjórtán nóttum fyrir vorþing eða meira méli, enda er rétt að hann segi honum á vorþingi, að hann leiti sér annarrar þingvistar. Hann skal fara úr þingi hans á vorþingi, ef hann fer í þing samþingisgoða hans, eða svo ef hann fer í þing með þeim goða er í því hinu sama þingmarki á þing, þótt það sé annað þingið, ef hann vill þar á brott segja, en rétt er að segja honum á vorþingi ella, ef hann vill hann síðar á brott segja.

Nú ger þriðjungsmaðurinn hvortki á brott segjast á vorþingi né á alþingi. Þá er goða rétt að segja hann á brott að Lögbergi að háðum dómum og föstu þingi.

72. OF SÁTTARGERÐIR.

Ef menn verða missáttir, og vilja svo sættast að þeir taka menn til gerðar að gera sátt, og játa þeir ígöngu, og varðar þeim fjörbaugsgarð ef þeir gera eigi, eða hvegi er þeir glepja.

Nú koma þeir í þann stað er sátt skal gera, þá skal sá er sátt vill gera láta, beiða sáttargerðar og mæla svo: „Nefni eg í það vætti, að eg beiði þig, N., að gera sátt með okkur N., þá sátt er þú játtir í að ganga. Beiði eg lögbeiðing.“ Slíkt varðar gerðarmanni, ef hann vill eigi til koma að gera sátt, sem þá að hann varni gerðar ef hann er beiddur. En það er lögvörn gerðarmanni ef hann má eigi koma fyrir nauðsynjum.

Eigi er manni skylt að gera sátt ef hann játar eigi ígöngu. Hvort sem tveir menn eða fleiri gera sátt, enda verða þeir eigi á sáttir, þá er rétt að þeir taki sér oddamann, ef sá er þar, en ella skulu þeir hluta, og skal sá eið vinna er hlýtur, en sá glepur gjörð er eigi vill. Sá er skil vill á gera skal beiða hinn með votta og mæla svo: „Nefni eg í það vætti, að eg beiði þig hlutfalls að hluta hvor okkar skal sátt þá gera, er við vorum til nefndir,“ og kveða á sátt, „og býð eg þér eið minn ef eg hlýt að gera.“ Þá skal votta nefna að því ef óskil verða af hins hendi, hvergi sem þau eru, og skal stefna þegar, ef þá er rúmheilagt og eigi langafasta, en ella að heimili hans eða þar er hann hittir hann sjálfan, og skal kveðja til níu búa á þingi. Svo skal stefna: „Í það vætti, að eg stefni N. um það að hann hefir glapta sátt þá er við N. nefndum hann til,“ og kveða á hver sátt er, „í því að hann vildi eigi eið vinna, þá er þeir urðu eigi á sáttir á gerð. Tel eg hann sekjan fjörbaugsmann um þetta.“ Þess gerð skal haldast sem eið vinnur að.

Nýmæli: Ef menn mæla óglöggt með sér, eða kveða svo að orði: „Geri hann þá er hann vill,“ eða svo þótt fleiri sé til teknir, og játa þeir ígöngu, og skal eigi fresta gerð lengur en tólf mánaði. Rétt gert er að fyrr sé.

Þar skulu þeir þá gera, er þeim þykir sér hægst, ef þeir vilja svo, og hafa þeir gert orð hinum, er þá nefndi til að koma til gerðar. Þeir skulu til koma ef þeir spyrja, ef þeir megu eigi fá aðra til. Svo skal fara með þessu máli öllu sem áður var tínt í hinu fyrra máli. En ef annar eða sumir vilja lemja gerð, þá skal sá gera með eið, er skil vill á gera, að jafnlengd hið síðasta. Beiða skal sá með votta er gerðar þarf, en sá er gera vill skal bjóða hinum samneyti sitt. Svo skal að sókn fara sem fyrr var tínt.

73. OF SEKTARHANDSÖL.

Ef maður handsalar manni sekt sína, og er það því að einu rétt ef hann handsalar fyrir sektarsök, og skal kveða á sök, og skal eigi lengur fresta sektargerð en sökin ætti sönn og óspillt að standa, og skal eigi sekt gera meiri en sökin er áður. Sá maður er sekt vill gera skal nefna sér votta og mæla svo: „Nefni eg í það vætti, að eg nefni þessa menn tólf með mér“ í sáttardóm eða sektardóm, „og gera sekt N. slíka sem eg vil gert hafa og vér verðum á sáttir.“ Hann skal eið vinna, og svo þeir menn allir er í dómi sitja, eða í gögnum eru þar fastir. Vætti það skal bera láta í dóminn, er hann handsalaði sekt sína, og nefna votta að vættisburð þeim. Sá er sekt gerir skal svo mæla: „Sú er sættargerð mín,“ eða sektar, „að eg geri þá sekt N., að hann skal vera fjörbaugsmaður,“ eða svo sem hann ræður fyrir að mæla, „og eg segi þá sekt N. upp, og þann sektardóm. Er sá dómur vor allra.“ Þeir skulu gjalda samkvæði að. Síðan skal hann nefna votta að dómsuppsögu.

Að féránsdómi skal bera láta dómsuppsöguvætti, og vættisvætti það er að var nefnt að sektarhandsalsvætti, þá er það var borið, en hvatki er þrýtur um sýknu hans, og bregður hann af því sem fyrir er mælt, þá verður hann sekur fullri sekt, enda sekjast þeir þá allir um björg hans, er vitu að sekt hans hefir aukist, og skal svo að öllu auka eða reyna sekt hans í fjórðungsdómi, þá er sótt er um björg hans, sem þá er mælt, er fjörbaugsmanns sekt skal reyna.

74. OF ÞAÐ AÐ BEIÐA MANNI FARS.

Ef maður vill beiða manni fars að skipi, þá skal nefna votta „í það vætti, að eg beiði N. stýrimann og háseta hans að ferja N. í brott af landi. Beiði eg lögbeiðing, og býðk yður að hlýða til vottorðs þess, hve fyrir sekt hans var mælt,“ og lúka svo sínu máli, „og berum svo skapað vætti fyrir N. stýrimanni, og fyrir hásetum hans, þar er N. er fars beitt“. Bera skal það vætti er að var nefnt þá er fjörbaugur galst og alaðsfestur, og fé að féránsdómi.

75. OF ÞAÐ EF MAÐUR SELUR MANNI SÖK.

Ef maður selur manni sök með öllum sóknargögnum að sækja og að sættast á, svo sem hann sé réttur aðili, þá á sá er sök tekur öll forráð sakar þeirrar þaðan frá, og er hann sækjandi og seljandi saka þeirra allra er þaðan af gerast síðan um öll mál önnur, nema um frumsökina sjálfa.

Nýmæli: Ef annar maður kveður búa heiman eða votta, en annar fer með sök á þingi, og á sá sakir um heimasetu búanna eða votta, er þá fer með sök, ef þeir koma eigi svo sem þeir eru skyldir, en eigi sá er þá kvaddi.

76. OF ÞAÐ EF GERÐ VERÐUR GLAPIÐ.

Ef menn glepja gerð þar er þeir eru teknir til sáttargerðar með mönnum, enda sé eigi aðrar úrlausnir til mæltar, og er einn veg um mælt, hvort sem þeir hafa játt ígöngu eða eigi, ef þó verður eigi gert, þá skal þeim er með mál fer, eða sakaraðilja ef hinn vill eigi gaum að gefa, rétt að taka til sóknar um mál það þar sem þá var komið er sátt var nefnd.

Ef sátt verður glapið fyrr en átta vikur eru af sumri, þá skulu búar þeir er kvaddir voru, og svo vottar kvaddir til þess máls, skyldir þingfarar, og allra ummæla slíkra sem þeir þeir voru skyldir áður mál væri sett. Ef mál er ekki til búið þá er sátt var nefnd, þá skal svo málstilbúningur allur fara sem þá sé mál alnýtt, er gerð verður glapið. Ef gerð verður glapið síðar en átta vikur eru af sumri, eða að þingi, eða enn síðar, þá skulu búar þeir er kvaddir voru skyldir að bera kviðu þá er þeir voru kvaddir á hinum fyrrum misserum, ef þeir koma til þings. En á þingi skal rétt að kveðja búa í stað hvers þeirra, er hið síðara sumar missir í kvið. Og er eigi þá sókn til um heimasetu við þá búa er heima setjast. Kveðja skal þá votta af nýju ef þarf, eigi nær þingi en átta vikur sé af sumri, og verða þeir þá skyldir þingreiðar og vættisburðar.

77. OF EINKALEYFI.

Ef manni er brottför á mælt, um þá hluti er einkaleyfis á til að biðja, þá skal þeim manni á því sumri eigi för banna, en sækja skal hann þá öllum sökum, ef þarf, sem áður. Ef maður kveður búa heiman um fardaga eða fyrr, og skal þá búa kveðja, er um alþingi hafa á þeim bæjum búið er hann kveður, ef þeir lifa, þótt þeir sé á brott farnir. Kvatt skal vottorða allra fjórtán nóttum fyrir alþingi, nema maður láti nefnast í það vætti, er hann veit þingfarar af von, og er rétt að kveðja þess vættis, hvegi nær þingi er það er.

78. OF NAUÐAHANDSÖL.

Ef maður handsalar öðrum manni sátt slíka sem hann vill gert hafa, og skilja þeir eigi það mál ger en svo. Hann má eigi gera sekt hans ne eina, og á enga á hann að kveða gripi hans, ef það var eigi skilið í handsali þeirra. Fésátt skal hann gera slíka sem hann vill, og kveða á aura, hve marga hann skal gjalda eða hve stóra eða hve margir aurar skulu í gripum eða hve margir fríðir. Ef maður gerir á annan veg þá sátt, er svo er fyrir mælt, en nú er tínt, hvort sem hann gerir sekt hans eða það að hann skyli land sitt gjalda eða goðorð, eða kveður hann á grip hans nokkurn, og skal það að engu haldast. Það á allt í sáttargerð að hafa er þeir skildu fyrir vottum til, ef hann vill, og á það allt að haldast.

Nýmæli: Nú handsalar maður sekt sína eða sátt, eða fé á kveðið fyrir sig, eða fyrir annan mann, svo að það ber nauðahandsal, og á það engu að halda. En það eru nauðahandsöl ef maður handsalar svo að ella er hætt fjörvi hans eða fé, eða hann yggði sér áljót eða fjárrán.

En hvar þess er kviður ber það að nauðahandsöl hafi verið svo sem nú var tínt, og á það aldregi að halda, enda varðar fjörbaugsgarð þeim mönnum öllum er þess handsals beiddu. Það er stefnusök, og skal kveðja til níu búa á þingi frá þeim stað er nauðahandsöl urðu.

Nýmæli: Nú lúka menn svo málum sínum að nefna aðra menn til gerða meðal sín, og skulu haldast í því öll ákvæði, ef hinir játa ígöngu í málið. En ef gerðarmenn verða eigi á sáttir, og skal þá afl ráða.

Nú eru tveir menn í gerð, og verða eigi á sáttir, þá skulu þeir hluta, og skal sá gera er hlaut. En ef annarhvor býður öðrum hlutun, en annar vill eigi, þá skal sá gera við eið er hluta vildi. Nú gerir sá eigi við eið er hlaut eða hlutun bauð, þá er sem ógert sé. En ef hvorgi vill hluta, enda vill sitt hvor þeirra, og gerir hvortveggi, þá er hvorskis gerð nýt þótt eiður fylgi. Nú segir sá maður sátt upp er gerð átti, og vinnur síðar eið að, og skal eiður unninn fyrr en gjalddagi komi. Það er og gerðarmönnum rétt, ef þeir verða eigi á sáttir hvað gera skal, að þeir taki mann þann til gerðar er þeir verða á sáttir, enda játi sá gerðinni svo að þeir heyri báðir, og eru þeir þá frá lausir, en hins gerð skal þá standast, enda varðar honum þá einum ef gerðin glepst, þar er svo er að ort. Ef þeir menn glepja gerðina, er svo eru til teknir sem nú var tínt og játtu ígöngu, þá varðar fjörbaugsgarð þeim, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er, en stefna heiman um málsafglöpun.

79. OF ÞAÐ EF MENN AFGLAPA GERÐ.

Ef menn afglapa gerð, allir þeir er til voru teknir, eða deyja allir fyrr en sátt er ger, þá skal sá maður er það mál átti, eða hans erfingi, beiða þann mann með votta er sátt handsalaði að hann taki mann til sáttargerðar þeirrar af sinni hendi á sjö nátta fresti að heimili sínu „en eg mun sjálfur fá til annan,“ skal hann segja. „Beiði eg lögbeiðing.“

Ef sinn mann tekur hvor þeirra til gerðar, þá skulu gerðarmenn leita úrlausna að lögum, nema þeir verði sáttir á. Nú vill handsalsmaður eigi fá mann til gerðar, þá skal sá gera einn er heimtandi fékk til.

80. OF ÞAÐ EF GERÐARMENN VERÐA ÓMÁLA EÐA SJÚKIR.

Ef gerðarmenn verða allir ómála eða allir vitlausir, þá skal enn hið sama að fara sem áður var tínt. En ef gagnnefna er með mönnum, og andast annar gerðarmaður, eða verður ómáli eða vitlaus, þá skal sá taka mann í staðinn, er hins missir.

Ef gerðarmaður verður sjúkur eða sár og má eigi komast til þess staðar er gerð var mælt, að nefndum degi, þá skal enn hið sama fara sem nú var tínt, og gerðarmaður dæi. Að slíku móti skal og allt fara með gerðarmönnum sem nú var sagt, þó að þeir sé fleiri en tveir.

81. OF ÞANN ER GERÐ HANDSALAÐI.

Ef sá maður deyr er gerð handsalaði, fyrr en gert sé, þá skal gera á hönd erfingja eða fjárvarðveislumanni hans, ef hann er eigi fulltíði.

82. OF ÞANN ER GERÐ ER HANDSÖLUÐ.

Ef sá maður andast er gerð var handsöluð, þá skal gera til handa erfingja eða fjárvarðveislumanni hans ella.

83. OF ÞANN ER SÁTT SKAL GERA.

Ef einn maður skal gera sátt, enda verður hann sjúkur eða sár, eða meina honum vötn eða veður eða menn, svo að hann má eigi komast til þess staðar er sátt skal gera, þá skal hann þar segja sátt upp er hann kemst framast. Nú hyggur sá maður sér hætt við áljót eða bana er sátt skal upp segja, ef hann leysir þar svo af höndum sem hann var til settur, þá skal hann segja sátt upp þar er hann treystist, þótt það sé síðar, enda skal svo fara þótt fleiri menn skyldi sátt gera, ef þeim er eigi óhætt.

84. OF GERÐARMENN.

Nú er maður svo nefndur til sáttargerðar að hann játir eigi ígöngu í málið, þá varðar honum eigi við lög þótt hann geri eigi sáttina, enda er engi heimting til málsins. En slík er heimting til sáttarinnar, ef hann gerir gerðina, sern hann hefði játt ígöngu í málið.

85. OF STIKAN VAÐMÁLA OG KLÆÐA OG LÉREFTA.

Það er mælt að nú skulu menn mæla vaðmál og léreft og klæði öll með stikum þeim er jafnlangar eru tíu sem kvarði tvítugur, sá er merktur er á kirkjuvegg á Þingvelli, og skal leggja þumalfingur fyrir hverja stiku. Rétt skal að draga við vaðmál kvarða, og við léreft eða klæði tíu álna löng eða lengri, og skal sá ráða er mælir, hvort hann vill mæla að hrygg eða að jaðri, eða þar á milli ef hann vill það heldur. Eigi skulu álnar ganga aðrar en þessar. Vaðmál skulu vera stiku breið en eigi mjórri, og eftir því að öllu ger sem áður var mælt í lögum.

Ef menn hafa stikur rangar eða kvarða ranga, svo að von sé að muni hálfri stiku í tíu stikum eða meira, þótt eigi sé lengra mælt en hálf önnur stika, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal um öll afbrigð þessa máls svo að sókn fara sem mælt er, ef menn mæla álnar rangar. Sá skal ráða er kaupir léreft eða klæði hvort hann vill mæla að hrygg eða að jaðri, eða þar á miðli ef hann vill svo heldur. Rétt skal að sækja við vottorð það er að verður nefnt, þá er maður mælir rangar álnar, þá sök er í því gerist, ef sækjandi vill það heldur en kviðburð.

Nýmæli: Vaðmál skulu eigi vera jaðarflá svo að meira muni en öln í tvítugu vaðmáli. Að hrygg skal mæla ef meiri munur er en svo. Tvíeln skulu vaðmál, og skulu rétt boðin ef fingrum gegna á breidd, og sé kostgóð. Taka skulu þeir er við eigust, lögsjáendur tvo til um gjald, ef jaðarflá er vara eða mjó. Níu búar þess er sóttur er skulu bera jafnan hvort sá hafi í því sinni rangar álnar mælt sem honum var um stefnt. Á skal kveða ávallt, er stefnt er, í hverjum stað mæltar voru þær álnar eða hvenær, eða hverra manna í milli.

86. OF PUNDARA.

Það er lögpundari er átta fjórðungar eru í vætt, en tuttugu merkur skulu í fjórðungi vera. Ef maður á pundara meira eða minna en mælt er, og varðar það þriggja marka sekt. Nú reiðir hann rangar vættir, eða mælir hann rangar álnar, svo að munar um öln í tuttugu álnum, þá varðar það fjörbaugsgarð. Sá á sök þá, er síns hefir í því misst. En ef hann vill eigi sækja, þá á sá er vill. Níu búa skal til þess kveðja á þingi. Stefnusök er það.