Fara í innihald

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Þingskapaþáttur

Úr Wikiheimild
Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins (1992)
Höfundur: óþekktur
Þingskapaþáttur

1.

Það er mælt í lögum vorum að vér skulum fjóra eiga fjórðungsdóma. Skal goði hver nefna mann í dóm er fornt goðorð hefir og fullt, en þau eru full goðorð og forn er þing voru þrjú í fjórðungi hverjum en goðar þrír í þingi hverju. Þá voru þing óslitin. Ef goðorð eru smærra deild, og skulu þeir svo til skipta er hlut hafa af fornum goðorðum að svo sé nefnt sem nú er talið. Þá eru fjórðungsdómar fullir.

Það er mælt að dómar skulu í dag vera nefndir eða ráðnir. Skal goði hver nefna sinn þriðjungsmann í dóm nema hann hafi lögréttumanna lof til annars. Skal karlmann tólf vetra gamlan eða eldra nefna í dóm, þann er fyrir orði eða eiði kann að ráða, frjálsan mann og heimilisfastan. Þann mann skal eigi nefna í dóm er sóknaraðili er eða varnaraðili, eða hann hefir sök handselda eða vörn handselda svo að nú sé búin til þings. Þann mann skal eigi í dóm nefna, er eigi hefir mál numið í barnæsku á danska tungu, áður hann hefir verið þrjá vetur á Íslandi eða lengur. Ef sá maður lætur í dóm nefnast er nú var frá skiliður, eða selur hann öðrum manni sökina af því að hann vill láta í dóm nefnast, og verður hann útlagur um það þrem mörkum og ónýt mál hans, sóknir eða varnir, ef hann átti, nema hann geti þann kvið að hann vissi eigi að sakar voru búnar á hönd honum.

Ef goði nefnir þann mann í dóm er frá var skiliður eða nefnir í annan dóm en hann hafi hlotið, og er hann útlagur um það hvorttveggja þrem mörkum og úr goðorði, nema hann geti þann kvið að hann vissi eigi að hinn hefði sök eða vörn handselda eða hann væri sóknaraðili eða varnar. Að Lögbergi skal stefna goðanum og kveðja heimilisbúa hans, og á hver að sækja þá sök er vill.

Goði skal ganga í Hamraskarð og setja niður þar dómanda sinn ef hann vill dóm nefna, og nefna sér votta tvo eða fleiri: „Nefni eg í það vætti, að eg nefni þenna þegn í dóm,“ og nefna hinn á nafn, „að dæma um sakar þær allar er hér koma í dóm þenna og lög skylda hann til um að dæma, og býð eg til sakarsækjanda og sakarverjanda að ryðja dóm þenna, og ann eg honum ísetu í dómi nema lögrengd rétt komi til. Þá fæ eg annan réttan í stað hans ef hann er úr numinn að lögum,“ og kveða á í hvern dóm hann nefnir, „og nefni eg lögdóm.“

Dómar skulu út fara þvottdag og vera úti til ruðningar uns sól kemur á Þingvöll drottinsdag. Ef þá má eigi ganga þurrt í Hólminn…

2. UM LÝSINGAR.

Menn skulu í dag og á morgin lýsa sakar þær allar er til fjórðungsdóms skal, enda er jafnrétt að lýsa annan dag viku ef menn vilja það í þingsköpum hafa. Og svo ef menn vilja lýsa um tíundarmál, þeir menn er til þeirrar sóknar eru teknir eða aðilja eru, eða þeir er af þeim hafa tekið, þá skulu þeir menn eigi hafa síðar lýst en nú er talið. En aðrir menn eigu að lýsa um tíundarmál uns dómar fara út.

Ef maður vill lýsa sök á hönd manni, hann skal nefna sér votta þrjá eða fleiri: „Nefni eg í það vætti, að eg lýsi sök á hönd honum,“ og nefna hinn á nafn og kveða á sökina, og svo hvað hann telur honum varða. Hann skal lýsa að Lögbergi svo að meiri hlutur manna sé hjá og lögsögumaður, og lýsa löglýsing og handselda sök, ef svo er, og lýsa til fjórðungsdóms. Geta skal þess ef sú er sök er hann lýsti fyrra sumar.

3. AÐ SPYRJA AÐ ÞINGFESTI MANNA.

Menn eigu að spyrja að þingfesti manna þeirra er menn vilja sækja hér á þingi, og spyrja í dag eða á morgin, ef menn vilja dóm ryðja, enda er rétt að spyrja uns dómar fara út til sóknar. Sá maður, er hann vill vita þingvist annars, hann skal nefna sér votta. „Nefni eg í það vætti,“ skal hann kveða, „að eg spyr bændur alla í heyranda hljóði að Lögbergi hver löggrið hafi handsalað N.N. Er mig það undir frétt þeirri að eg vil vita hverja búa eg skal kveðja til sakar þeirrar er eg hefi höfðað á hönd honum. Spyr eg lögspurning.“ Hann skal nefna votta að svörum þeim er verða, ef maður gengur við heimilisfangi þess manns er hann spurði að, og svo þótt engi gangi við. Hann skal enn nefna votta, „í það vætti, að eg spyr goða alla í heyranda hljóði að Lögbergi hver sér kenni N.N. að þingmanni eða þriðjungsmanni. Er mig það undir frétt þessi að eg vil vita í hvern fjórðungsdóm eg skal sækja sök á hönd honum. Spyr eg lögspurning.“ Hann skal nefna votta að svörum þeim er verða. En ef maður gengur við þingfesti þess manns er að var spurt, þá á hann að segja í þann dóm sök sína er sá goði er í fjórðungi, er í gegn gekk þingfesti hans. Hann á þann goða að kveðja tylftarkviðar ef sú sök er, er tylftarkviður kemur til. Þó er rétt að hann spyri hann sjálfan að griðfangi sínu og þingvist sinni, og verður það jafnfullt sem þá er goði gengur við þingfesti hans. Rétt er að goði gangi við þingfesti hans meðan eigi eru hlutaðar framsögur saka, enda sé eigi áður kvatt tylftarkviðar, enda er jafnrétt að ganga við þingfesti manns með votta, þótt eigi sé að Lögbergi, ef hann finnur hinn sjálfan.

Ef maður hefir spurt mann heimilisfangs og þingvistar í héraði, og þarf eigi sá spyrja á þingi þess manns þingvistar er hann spurði véllaust í héraði.

Ef maður hefir stefnt manni fyrir fardaga þeirri sök er tylftarkviður fylgir, og hafi hann eigi spurt hann þingvistar í héraði, enda sé stefnt að heimili hans, þá skal hann spyrja þingvistar hans á þingi, um þann fjórðung er sá átti heimili þá er hann stefndi, og spyrja goða alla að Lögbergi hver sér kenndi þann mann fyrir fardaga að þingmanni eða þriðjungsmanni. „Er mig það undir frétt þeirri að eg vil vita hvern goða eg skal kveðja tylftarkviðar um sök þá er eg hefi stefnt honum. Spyr eg lögspurning.“

Hvarvetna þess er maður spyr lögspurningar annan, eða svo þó að hann spyri fleiri, þá skal maður nefna sér votta að spurningu og að svörunum, og svo þó að öngu sé svarað.

Um sakar þær er menn lýstu fyrra sumar hingað til sóknar eða stefndu fyrir fardaga svo að þeir vissu eigi heimili, þar skal að því spyrja hver sér kenndi þann mann fyrra sumar að þingmanni, nema hann spyrði þá.

Þar er eigi er við gengið þingfesti manns, skal sökina segja í þann fjórðungsdóm sem aðilinn er í fjórðunginum. Ef eigi er gengið við heimilisfangi manns þess, er búakviður fylgir sökinni, þá skal kveðja til heimilisbúa þess er aðili var frumsakarinnar, og svo þar er eigi er gengið við þingvist manns eða heimilisfangi, eða svo ef maður svarar eigi þar er maður er sjálfur spurður, eða svo þó að hann svari lögvillu. En það er lögvilla ef maður svarar öðru en er, eða þegir hann við. Ef maður er spurður þingvistar, og svarar hann öðru en er, og varðar það útlegð, enda er rétt að kveðja þann mann tylftarkviðar er hann læst vera í þingi með, enda skal dæma svo sem á hann sé borinn kviðurinn ef hinn heldur, hvorts hinn finnur við, að hann sé eigi þar í þingi eða læst hann eigi hafa goðorð.

Þar aðeins er þörf að spyrja í annað sinn að þingfesti manns, ef hann hefir spurt hann fyrir þing, enda komi sá eigi til þings er hann kvaðst vera í þingi með eða í gegn gekk ef hann spurði hið fyrra sumar. Þá á hann að spyrja hver með goðorð það fari. Ef menn hafa eigi gengið við þingfesti þess manns er að var spurt fyrr en dómar fari út, eða við heimilisfangi, eða svo ef maður svarar einugi þar er hann er spurður sjálfur, eða svo þótt hann svari lögvillu, enda vili hann það hafa til varnar fyrir sig, en hinn segi í annan dóm sökina en koma eigi, eða annar goði beri tylftarkvið um hann en sá er í þingi með, eða eigi hafi hans heimilisbúar borið um hann. Ef sá átti til að koma, þá skal sækjandinn láta bera vætti það í dóm þann er sökin er í sótt, er hann spurði að þingfesti hans eða að heimilisfangi, en þau önnur er hann nefndi, að eigi var við gengið, eða svo ef hann hefði nefnt að lögvillunni.

Ef maður spurði að því hvar hann er í þingi, og veit hann eigi, og svarar hann svo rétt að hann svari að „eg em á vist með honum,“ og nefna búandann. Ef maður er spurður að því hvar hann er í þingi, og eigu fleiri menn goðorð það er hann fylgir en einn, og svarar hann þó rétt að hann svari svo að „eg em í þingi með þeim þeirra sem goðorð hefir,“ og nefna þá er hlut eigu í því goðorði.

Ef goði gengur við þingfesti hans, þá er hann er spurður, en hinn sé eigi í þingi með honum, og er hann um það útlagur þrem mörkum og úr goðorðinu, nema hann geti þann kvið að hann hefði þar verið í þingi og væri svo farinn á braut að hann vissi eigi. Þá verst hann sökinni. Ef goði dylst við þingfesti þess manns er í þingi er með honum, og verður hann útlagur um það þrem mörkum og úr goðorði sínu, nema hann geti þann kvið að hinn hafði svo farið í þing að goðinn vissi eigi.

Lýsa skal til framfærslu ómaga meðan dómar eru úti.

4. HVERSU GOÐAR SKULU KOMA TIL ÞINGS.

Goðar allir skulu koma til þings fimmta dag viku er tíu vikur eru af sumri, áður sól gangi af Þingvelli, en ef þeir koma eigi svo, þá eru þeir útlagir og af goðorði sínu, nema nauðsynjar beri til, ef þeir koma eigi. Samþingsgoðar eigu að ráða því hver með goðorð skal fara og upp taka, þriðjungsmanna þess goða er heima situr.

Þingheyjendur skulu koma hinn fimmta dag viku til þings og fara til búðar með þeim goða er þeir eru í þingi með og skal hver þeirra hafa tjald um þvera búð. Þá skal hver þeirra taka þingfararkaup, en gjalda eigi, enda er hver þeirra þingheyjandi bæði um sín mál og annarra manna. Goðinn er þá skyldur að fá honum búðarrúm. Ef hann fær honum eigi, og varðar þingmanninum eigi við lög að hann fari til annarrar búðar, og á hann þó að heimta þingfararkaupið.

Nú kemur maður eigi til öndverðs þings, enda komi hann drottinsdaginn fyrra í þingi, og er sá þó þingheyjandi, bæði um sín mál og annarra manna, og skal hann eigi gjalda þingfararkaup, enda skal hann eigi taka, og skal hann eigi fara af þingi fyrir þinglausnir nema lofað sé. Ef hann fer, og varðar honum fjörbaugsgarð. Rétt er að hann taki þingfararkaup ef hann gengur í dóma eða ber kviðu. Rétt er að nefna þá menn í dóm er til þings koma fyrr en dómar sé nefndir.

Þeir menn allir er sakar hafa að sækja eða verja, eða menn eru kvaddir þingfarar, að þeir skulu koma drottinsdag hinn fyrra í þingi. Ef þeir koma eigi svo, þá eru ónýtar sakar þeirra og svo varnir þær er þeir bera fram, enda virðast einskis vætti þau er þeir bera, ef þeir voru heiman kvaddir.

Ef maður kemur síðar en drottinsdag hinn fyrra í þingi, og er sá eigi þingheyjandi, hvortki um sín mál né annarra manna, og skal hann ríða af þingi þá er hann vill, og skal hann gjalda þingfararkaup en eigi taka.

Menn skulu svo gjalda þingfararkaup sem þeir eru á sáttir í þriðjungi hverjum við goðann.

Þingheyjendur skulu eigi vera um nótt af þingi eða lengur. Þá eru þeir af þingi er þeir eru úr þingmarki. Fara eigu menn um daga að leita hrossa sinna svo að eigi dveli það gögn fyrir mönnum eða dómnefnu fyrir goðum ef hann vill þá í dóm nefna eða hafa þá í nokkurum lögskilum með sér. En ef þeir fara, og er það þingsafglöpun og varðar fjörbaugsgarð.

Bændur eru þingheyjendur, og goðar, og þeir menn er þingfarar og gagna eru heiman kvaddir.

Ef þingheyjendur fara eigi til búðar með goða þeim er þeir eru í þingi með, og vill goðinn sækja þá um, og skal hann stefna honum að Lögbergi og láta varða þriggja marka útlegð og stefna þar til dóms. Ef hinn ræður að hlaupa úr þriðjungi goðans fyrir það er hann var sóttur, þá varðar honum þriggja marka sekt við goðann, og skal þeirri sök stefna heiman og kveðja heimilisbúa fimm á þingi þess manns er sóttur er, hvort sem hann færi af því á braut eða eigi.

5. UM LÖGBERGSGÖNGU.

Vér skulum fara til Lögbergs á morgin og færa dóma út til ruðningar svo hið síðasta að sól sé á gjáhamri hinum vestra úr lögsögumannsrúmi til að sjá á Lögbergi. Lögsögumaður skal fyrstur út ganga ef hann hefir heilindi til. Þá eigu goðar að ganga með dómendur sína ef þeim er meinalaust, ella skal hver þeirra geta mann fyrir sig. Þá skal goði setja niður dómanda sinn, og skal hvers þeirra forráð jafnrétt er þá er til tekinn. Lögsögumaður skal ráða og að kveða hvar hvergi dómur skal sitja, og skal lögsögumaður láta hringja til dómaútfærslu.

Þeim er rétt sakar að sækja og verja er hér eru komnir drottinsdag hinn fyrra í þingi, en öngum þeim er síðar kemur, nema þeir atburðir verði að sakar gerðist svo síðarlega, eða upp kæmi, að þeir mætti eigi komast fyrr til þings en eftir drottinsdaginn, og verða þeir menn þó saka sækjendur og þingheyjendur um þau mál öll er þeir höfðu með að fara ef þeir komu svo snemma að ganga mætti fyrr til kveðja en dómar færi út. Þeir eigu eigi dóma að ryðja um sín mál.

6. DÓMRUÐNING.

Sá maður, er hann vill dóm ryðja, hann skal ganga þar að er sá maður situr í dómi er hann vill úr ryðja og mæla svo að hann heyrði eða goði sá er hann nefndi í dóminn. En ef hvorgi þeirra er þar, og er honum þó rétt að mæla ruðningarmálum þars hann hyggur að sá maður hafi setið, er hann vill úr dómi ryðja, og verður honum þó rétt að fara því máli þótt hann kynni varla þar að jafnt er rúm hins hafði verið.

Saka sækjendur og verjendur saka skulu dóm ryðja ef þeir vilja og vinna eiða að. Ef maður vill dóm ryðja, og skal hann nefna sér votta: „Nefni eg í það vætti, að eg vinn eið að krossi, lögeið, og segi það Guði að eg mun svo rengja mann úr dómi sem eg hygg sannast og réttast og helst að lögum.“ Ef hann vill eigi oftar eið vinna, þá skal hann það láta fylgja að „eg mun svo sakar sækja,“ skal hann kveða, „og verja, og vitni og vætti bera og öll lögmæt skil af hendi leysa þau er undir mig koma meðan eg em á þvísa þingi.“

Maður skal hefja frændsemistölu að bræðrum eða að systkinum eða að systrum, og skal telja knérunnum uns þar kemur er sá maður er, er í dómi situr, og sá maður er þar, er aðili er sóknar eða varnar. Ef sá maður taldi frændsemi er firnari er aðilja sakar eða varnaraðilja en næstabræðra, þá þarf hann eigi annarra manna að leggja undir þegnskap sinn að sanna frændsemistölu. Ef maður telur svo að hann var einn eða annar, og er hinn eigi þá skyldur að rísa úr dómi. Ef maður telur rangt eða ber ljúgvitni á alþingi, og varðar það skóggang. Við þá skal ryðja er sakaraðilja eru.

Rétt er að hver er vill kveði bjargkviða þeim manni er fyrir sökum er hafður, ef sá er eigi á þingi, og hafi sá öngum manni selda vörn fyrir sig. Eigi skal maður dóm ryðja, sá er eigi hefir vörn tekna af þeim er sóttur er, en ryðja skal hann kviðu alla sem hann vill. Jafna ruðning eigu hvorirtveggju, þeir er sækja og hinir er verja.

Næstabræðra eigu upp að rísa úr dómi og nánari menn að frændsemi, og að sökum, og námágar þrír, ef maður á dóttur manns eða systur eða móður, hvor sem annars frændkonu á, sá maður er í dómi situr eða aðili. Guðsifja þrír eigu úr dómi að rísa, ef annartveggi hefir haldið öðrum undir prímsignun eða undir vatn eða undir biskupshönd. Eigi skal ryðja að guðsifjum við sjálfan sig.

Menn skulu nefna sér votta að því vætti, „að eg legg það undir þegnskap minn að sú er frændsemistala sönn og rétt með þeim,“ og nefna þá báða er úr dómi skal ryðja og aðilja. Ef hann ryður að mægðum, „að eg legg það undir þegnskap minn að sú er mægð með þeim, að hann á þá konu,“ eða átti, „er eg vissa“. Þá verður honum þó þegnskaparlagning rétt að hinn sé skiliður við konuna, enda er-at honum þá skylt að rísa úr dóminum.

Þar er maður vill ryðja dóm að guðsifjum, og skal hann það þar undir þegnskap sinn leggja hverjar guðsifjar með þeim eru, aðilja og dómanda, og nefna hvorn þeirra.

Ef að sökum skal dóm ryðja, hann skal telja frændsemi með þeim er í dómi situr og með veganda og með aðilja og hinum vegna, og leggja það undir þegnskap sinn „að sú er frændsemistala sönn og rétt með þeim hvorumtveggjum er nú er talið, en þær sakar með þeim aðilja og hinum er í dómi situr,“ og nefna hvorntveggja þeirra á nafn. Við þann mann skal að sökum ryðja, er körinn er til veganda að lögum, en eigi við fleiri menn þótt að vígi hafi verið.

Ef sá er eigi réttur teljandi er undir þegnskapinn lagði, þá skal hann hafa tvo menn aðra er það legði undir þegnskap sinn að sú er frændsemistala sönn og rétt er hinn taldi, og nefna hann. Sannaðarmenn skulu eiða vinna, þá er þegnskaparlagning eigu að fylgja. Skal svo sannaðarmenn vanda að frændsemi við aðilja að þeir sé firnari en næstabræðra.

Hann á að nefna votta, „að eg nem þig úr dómi,“ og nefna hann, „af því að nú er lögrengd rétt til komin,“ og kveða á hvort hann nemur hann úr sínu úrnámi eða annars manns. Ef hann vill eigi úr dómi rísa og vill þó sitja kyrr, og er það þingsafglöpun og varðar það fjörbaugsgarð. Þá skal hann verja honum lýriti ísetuna.

Ef hann, guðinn, hefir eigi sjálfur á heyrt á ruðning hans, né sá er úr er ruddur, þá skal ganga til búðar goðans og segja honum það að hann hefir rengdan þriðjungsmann hans úr dómi, og kveða á dóminn, og nefna hinn á nafn og nefna föður hans eða móður. Ef goðinn vill eigi trúa að hann hafi hann rétt rengdan, þá er ryðjandinn skyldur að mæla þeim málum öllum fyrir goðanum er hann mælti þá er hann ruddi hinn úr dómi, nema hann þurfi eigi eið að vinna. Ef hann náir eigi að ganga í búð inn, þá skal hann mæla fyrir búðardurum svo að hinir heyri inn. Ruðningarmálum skal mæla þar er þeir koma framast, ef þeir ná eigi að ganga til búðar. Ef þeir ganga í búð inn, og eigu menn við þá lýritnæmar sakar, þeir er þar eru búðfastir, þá eigu þeir út að ganga og sá fyrstur er efstur gekk inn.

Ef goðinn lofar ryðjandanum að mæla eigi ruðningarmálum í annað sinn, þá skal ryðjandinn nefna votta að lofinu, enda er goðinn skyldur að nefna annan í dóminn þegar, svo að ryðjandinn sjái ef hann vill vörð halda til. Ef ryðjandinn sá eigi hvern goðinn nefndi í dóm í annað sinn, og er goðinn skyldur að segja ryðjandanum hvern hann nefndi í dóm ef hann spyr, og nefna dómandann og svo föður hans eða móður ef þau voru íslensk. Ef goðinn vill eigi segja, þá skal ryðjandinn nefna sér votta, „í það vætti,“ skal hann kveða, „að eg beiði þig,“ og nefna goðann, „að segja hvern þú nefndir í dóm,“ og kveða á dóminn, beiði eg þig lögbeiðing. Ef goðinn ger eigi segja, og verður hann útlagur og úr goðorði sínu. Ef hann finnur eigi goðann, þá skal hann beiða að rúmi hans og segja hvar hann er í búð. Ef goðinn forðast fund hans til þess að hinn verði eigi vís hvern hann hefir í dóm nefndan, eða dvelur dómnefnu til þess að þá verði færri ruddir, þá varðar honum útlegð og úr goðorði sínu.

Þar er menn ryðja dóma, og er sá þó skyldur að rísa úr dómi er úr er numinn ef ruðningarmálum er mælt að lögum þótt rangt sé undir þegnskap fólgið, nema þar er menn leggja mágsemd þá undir þegnskap sinn er sá er skiliður við konuna er í dóminum situr. Þá skal goðinn ganga út og nefna mann í dóm, og skal hafa nefndan áður sól er komin á Þingvöll ef ráðrúm er að því.

Ef goðinn hefir eigi þriðjungsmann til að nefna í dóm, og ganga ruðningar svo að þá skal hann beiða goða þá er goðorð hafa í því þingi að fá honum þriðjungsmann sinn og nefna í dóminn. Hann er skyldur að fá honum ef hann hefir til. Ef annar þeirra hefir til en annar eigi, þá er sá skyldur til að fá honum er til hefir, og eru þeir skyldir að ganga í dóm svo sem sá goði nefndi hann í er hann er í þriðjungi með. En ef hann ger eigi í ganga, þá varðar honum það fjörbaugsgarð. En ef hann er í dóminum, þá skal hann þangað taka þingmenn með þeim goða er hann nefndi í dóm. En ef goðarnir metast það við hvor þeirra skal fá honum, og skulu þeir hluta með sér, og skal sá þeirra fá honum er hlýtur, ef hann hefir manna til. Ef annar hefir til, og er sá skyldur að fá honum. En ef hann vill eigi fá, þá er hann útlagur og úr goðorði sínu.

Ef goðinn vinnur eigi dóm fullan áður sól komi á Þingvöll, þá er hann útlagur og úr goðorði, og svo ef hann nefnir annan í dóm en hann eigi. Þá á dómur að dæma um sakar allar sem fullur sé dómurinn. Eigi skal dóm ryðja lengur en sól komi á Þingvöll. Sá skal sækja goðann er sótt vill hafa til fullra laga, þeirra manna er sakar hafa í dóm þann, en ef þeir bregðast um, þá skulu þeir hluta með sér, og skal sá sækja er hlýtur.

7. UM VOTTORÐ.

Maður skal kvatt hafa vottorða allra og frumkviða þeirra er sök hans eigu að fylgja áður dómur fari út.

Rétt er að kveðja tylftarkviða áður dómur fari út, og svo að dómi. Þá er rétt kvatt ef hann heyrir sjálfur á eða að rúmi hans, ella svo að búðunautar hans heyri. Þar er maður vill kveðja tylftarkviðar, hann skal nefna sér votta „að því vætti,“ skal hann kveða, „að eg spyr þig að því,“ og nefna goðann, „ef þú hefir goðorð fullt, að þú nefnir dóma fulla með og ber tylftarkviðu. Spyr eg lögspurning.“ Ef hann læst hafa, og skal hann nefna votta að svörum hans og „að því vætti,“ skal hann kveða, „að eg kveð þig tylftarkviðar,“ og nefna goðann og kveða á hvað hann kveður hann, „og bera með þriðjungsmenn þína ellefu en þú sér sjálfur hinn tólfti. Kveð eg lögkvöð.“

8. BÚAKVAÐIR.

Þar er maður vill kveðja búakviðar, hann skal ganga þangað til búðar er sá maður er í er hann vill kvaddan hafa, og er honum rétt að kveðja þar er hinn heyrir sjálfur á, enda er honum rétt að kveðja að rúmi hins, er hann vill kvaddan hafa, svo að þar heyri búðunautar. Ef maður veit eigi hvort hinn er búandi eða griðmaður, er hann vill kvaddan hafa, og á hann að spyrja hinn með votta hvort hann sé búandi eða griðmaður, og segja hvað honum er undir fréttinni, og spyrja lögspurning og nefna votta að svörum þeim er verða. Ef hann vill þann mann kveðja er þingheyjandi er fyrir bú annars manns, og á hann að spyrja með votta, ef hann veit eigi áður, hvort hann eigi þar lögheimili eða eigi, eða sé hann þingheyjandi fyrir bú þess manns, og nefna búandann. Hann skal svo gera um kvöð við hann sem hinn svarar honum, er spurður er. En ef sá vill ekki til segja er spurður er, eða lýgur hann til, og verður hann sekur um það þrem mörkum, og á sá sök við hann er hann spurði eða búi sá er kvaddur er í stað hans, ef hinn vill eigi sök hafa. Sök þeirri skal stefna að Lögbergi og kveðja til heimilisbúa hins fimm, er sóttur er. Ef maður kveður griðmenn, og hugði hann að búandi væri, eða kveður hann þann griðmann fyrir annars manns bú er eigi átti þar lögheimili, og verður honum rétt sú kvöð þótt menn vili á leita við hann, hvarvetna þess er hann getur þann kvið að hann kvaddi þá er hann hugði að réttastir væri, enda átti hann eigi kost að spyrja. Ef maður kveður griðmenn búakviðar eða þann fyrir bú manns er eigi er þingheyjandi, og kveði hann svo að þeir heyri á sjálfir á kvöð hans, og eigi hann kost að spyrja lögfréttar ef hann vill, og ónýtir hann þá málið fyrir sér. Þar bergst hann við bjargkviðinn er hann kvaddi þá svo að þeir heyrðu eigi á.

9. DÓMAÚTFÆRSLUR.

Dómar skulu fara út þann dag er menn kveða á, og eigi síðar en sól kemur á gjábakka hinn hærra frá Lögbergi úr lögsögumannsrúmi að sjá. Þá er lögsögumaður og goðar allir skyldir til að ganga út með dómendur sína, og svo þeir menn er með sakar fara. Sá maður er með sök fer, þá verður hann útlagur ef hann gengur með fleiri menn en tíu til dóms.

10. UM HLUTFÖLL.

Ef sex dómendur eru út komnir eða fleiri, að það er rétt þeim manni er með sakar fer að bjóða til hlutfalla að dómi þeim mönnum öllum er sakar hafa í dóm þann, og kveða á stað þann er þeir skulu hluta framsögur með sér. Hver maður þeirra er sök hefir með að fara í dóm, þá skal hlut bera í skaut einn þótt hann hafi fleiri sakar í dóm þann. Hver maður skal merkja hlut sinn og bera alla saman í skaut, og skal maður taka fjóra hluti senn upp.

Ef sá maður kemur eigi út, er sök hefir að sækja, þá er sól er komin á gjábakka hinn vestra úr lögsögumannsrúmi að sjá, og verður hann sekur um það þrem mörkum, og á sá sök er hann hefir mál á höndum. Skal sök þeirri stefna að Lögbergi og kveðja heimilisbúa fimm þess manns er sóttur er. Ef hann getur þann kvið að hann mundi fyrr út koma ef sól um sæi, og verst hann þá sökinni.

Þeir skulu fyrst segja sakar sínar fram sem hljóta, svo hver að öðrum sem hlotið hafa. Nú koma sumir eigi til hlutfallsins, þá skulu þeir síðast fram segja. Það er og rétt að annar maður beri hlut hans í skaut, og skal þá að þeirra hlutun fram segja. Þær sakar skal eigi hluta er eigi varð fyrra sumar um dæmt ef þær eru eigi fleiri en fjórar, enda eigi færri. Þá skulu þeir hluta með sér sakarnar ef þær eru fleiri en fjórar. Þær sakar skal allar fyrstar segja fram, en þær sakar næst er hér hafa gerst á þingi. Ef sá verður eigi búinn til er fyrstur hefir hlotið, þá skal sá biðja lofs til er síðar hefir hlotið, að segja sök sína fyrri fram, en hann skal lofa honum. En ef hann lofar honum eigi, þá er honum rétt að segja sök sína fram, ef hinn er eigi til búinn, ef dómendur lofa.

11. BJÓÐA AÐ HLÝÐA TIL EIÐSPJALLS.

Sá maður skal nefna sér votta er sök sína vill fram segja: „Nefni eg í það vætti, að eg býð þeim manni er eg vil hér sökum sækja að hlýða til eiðspjalls míns og til framsögu sakar, eða þeim manni er vörn hefir fyrir hann, og goða þeim er tylftarkvið skal bera um þá menn er hann hefir sök á hendi.“

12. UM FRAMSÖGU SAKAR.

Hann skal vinna eið að því að hann segi sök sína fram og kveða á það hverjum hann stefndi eða um hvað hann stefndi eða hvað hann lét honum varða, og kveða á til hvers þings hann stefndi, og hann stefndi lögstefnu, og hann segir svo skapaða sök sína fram í dóm yfir höfði N.N., sem hann stefndi honum.

Þá skal einn hver þeirra telja vætti fram og hafa þau orð öll í vættisburð sínum sem hinn hafði í stefnu, en þeir skulu aðrir gjalda samkvæði sitt að vitnisburð þeim er hann hefir þar borið, enda er þeim rétt að skynda meir að vitnisburð sínum. Þeir skulu kveða á það hverjum hann stefndi og hvað hann taldi honum varða, og hann hafði fram þau orð öll sem hann hafði í framsögu sakar sinnar, og hann stefndi lögstefnu, „og það er vætti vort allra,“ skulu þeir kveða, „og berum svo skapað vætti fram í dóm“. En ef þeir verða eigi á sáttir, þá skulu þeir hluta með sér hver þeirra skal vætti fram bera, og skal sá þeirra fram telja sem hlotið hefir.

Ef maður segir sök sína svo fram, að hann hafi eigi unnið eið að, og er svo sem hann hafi ósagða sök sína fram, og skal hann eið vinna og segja fram sökina í annað sinn og láta stefnuvætti bera, og verður-at honum það að sakarspelli ef hann fer svo að, enda skal-at honum það verða oftar en um sinn. Ef vætti er svo borið að eigi sé eiður unninn að, þá er svo sem óborið sé, og skulu þeir eiða vinna og bera stefnuvætti á lengur, og verður-at honum að sakarspelli ef eigi verður þeim oftar en um sinn. Ef hann segir svo sök sína fram að hann hefir eigi boðið að hlýða til eiðspjalls síns eða til framsögu sakar, og er svo sem þá sé ósögð sökin fram. Hann skal segja í annað sinn fram sökina og fara svo öllu máli um sem hann hafi áður ekki um mælt, en hann bergur þeim kosti sökinni ef eigi hafa önnur gögn fram farið þar á meðal. Ef maður segir sök þá fram er tylftarkviður á að fylgja, og býður hann eigi goðanum til að hlýða, og er hann skyldur sökina fram að segja í annað sinn í tylftarkviðinn, nema goðinn lofi honum annað.

13. EF VOTTAR SITJA HEIMA.

Ef stefnuvottar hans koma eigi til þings svo sem í lögum er mælt, og skal hann þá stefna þeim um heimasetuna að Lögbergi og láta þeim varða fjörbaugsgarð. Honum er rétt að stefna, hvort sem vill, annan dag viku hinn fyrra í þingi, eða þá ella er hann skal til þeirra taka. Hann skal sök sína fram segja í þann dóm sem frumsökin átti í að koma. Hann skal vætti það láta bera þar er hann kvaddi hann heiman þingfarar. Hann skal kveðja heimilisbúa hans fimm, er hann sækir, hvort hann væri hér kominn drottinsdag hinn fyrra í þingi eða eigi, en ef þeir bera það að hann væri eigi kominn hér drottinsdag hinn fyrra í þingi, þá verður hann fjörbaugsmaður um það, nema hann fái lögvörn fyrir sig að hann sé eigi þingfær fyrir veilindi sökum. En það eigu að bera heimilisbúar hans fimm, en sá skal þess kviðar kveðja er vörn hefir fyrir hann, enda er hann varður sökinni ef hann fær þann bjargkvið nokkurn er til þess er taliður.

Ef stefnuvottur er einn á þingi, þá skal sá þó bera stefnuvætti ef kvaðarvottar hans eru komnir, þeir er hann kvaddi stefnuvotta sína, en fimm menn skulu styðja vætti hans og leggja það undir þegnskap sinn að þeir voru í það vætti nefndir er heima sitja, er hann bar. Þeir menn skulu vættin styðja er réttir væri sakaraðilja í stefnuvætti.

Ef stefnuvottar hans sitja heima allir, eða svo ef þeir halda vætti, enda sé þeir kvaddir, og varðar fjörbaugsgarð. Þá skal hann kveðja heimilisbúa sína fimm að hlýða framsögu sinni og bera kvið um það hvort hann nefndi votta sína í það vætti, þá er hann stefndi, er hann nefndi þá er hann sagði sök sína fram, og hvort hann hefði svo skapaðri sök sinni stefnt sem hann sagði fram í dóm. Ef maður missir kvaðarvotta, og verður honum það eigi að sakarspelli, hvervetna þess er hann lofar þeim eigi heimasetu, og beri það kviður að hann hefði þá kvaðarvotta er hann hygði að fara mundi til þings, og heita þeir trúnaðarvottar. Hann skal kveðja heimilisbúa sína fimm í staðinn kvaðarvottanna, ef þeir eru eigi til þings komnir, að bera um það hvort hann hefði svo kvatt heiman þann er heima situr, og nefna hann sem hann segir, eða hefði hann eigi. Hinir sömu búar skulu um það skilja sem það báru að hinn væri eigi drottinsdag á þingi er kvaddur var.

Sök hverri, er fram er sögð, þá skal næst fylgja stefnuvætti, en þá skiptir eigi máli hver gögn þá fara á lengur.

Ef maður hefir þá sök að sækja er vottorð fylgir, og á hann að beiða réttingar að og framburðar. Vottar skulu vinna eiða áður og bera vætti síðan. Þá bera þeir rétt vætti ef þeir bera þau orð öll er þeir voru að nefndir. Þótt þeir beri þau orð rétt, er þeir voru að nefndir, en láta sum liggja þau er máli eigu að skipta, og er það ljúgvitni. Þótt maður beri þau orð öll rétt er hann var að nefndur, enda auki hann því orði nokkuru er hann var eigi að nefndur, því orði er máli skiptir, og er það ljúgvitni. Þótt maður kveði eigi svo að öllum orðum sem hann var að nefndur, og skipti eigi máli, og er þó rétt borið þótt svo sé.

Lengur er þeir eru á sáttir skal einn fram telja vætti en aðrir gjalda á samkvæði sitt. Nú verða þeir eigi allir á eitt sáttir, og skulu þeir hafa sitt mál er fleiri eru saman, og skal maður vætti telja fram úr þeirra flokki. Hinir skulu gjalda samkvæði sitt á, er lið hafa minna, af því að þeir hafa eigi afl til annars. En þeir skulu það mæla, þá er það vætti er borið, að þeir mundi annað vætti bera ef þeir hefði afl til, og kveða á hvert vætti þeir mundi bera, og verður þeim eigi að ljúgvætti þótt hinir sé sóttir um. Nú verða þeir jafnmargir hvorirtveggju, er sitt vilja bera hvorir, og skulu þeir hafa sitt mál er lengra vætti bera þeim orðum er máli skipti með þeim, nema það verði að ljúgvætti. Nú bera þeir jafnlangt vætti hvorirtveggju, enda eru þeir jafnmargir, og skal svo meta þá sem þeim sé í hag borið er vættis kvaddi.

Ef maður er kvaddur þess vættis er hann hyggst eigi í vera, hann skal þó fara til þings og berast úr að dómi, og vinna eið áður og nefna sér votta og kveða svo að orði að „eg berumk úr því vætti,“ og kveða á hvert það er, „berumk af því úr að eg var eigi í nefndur,“ og varðar honum það svo sem hann hafi ljúgvætti borið ef hann hefir í verið, enda berist hann úr. Þeim varðar fjörbaugsgarð, er hann hefir kvaddan, ef hann hefir eigi verið í vætti, enda kvaddi hann eigi af því að hann ætlaði hann í hafa verið. Sá á kost, er vættis er heiman kvaddur, að stefna þeirri sök að Lögbergi og sækja hið sama sumar, enda er kostur að sækja síðar.

Hvergi skulu færri menn hjá ef maður stefnir að Lögbergi eða lýsir sakar en tuttugu, nema ómagasakir.

Þar er vottar eru kvaddir, og er þeim eigi skylt að bera þar er hann nálgast, og hann man, nema þeir hafi því játt þá er þeir voru nefndir að þeir mundi þó bera að þeir væri tveir, þá skulu þeir þó bera.

Vottum er skylt að bera vætti þau öll er þeir hafa verið í nefndir, ef þeir eru svo kvaddir sem í lögum er mælt. Maður skal hafa kvatt votta sína eða búa heiman hið síðasta fjórtán nóttum fyrir þing. En ef vottur manns verður sjúkur eða sár, þá skal hann gera orð þeim er hann kvaddi þingfarar að koma til fundar við hann þar er hann kveður á eða til heimilis hins sjúka, ef hann þykist eigi fær vera. Hann skal gera orð um þeim er hann hefir kvadda þingfarar, og skulu þeir fara til fundar við hinn, og skal hinn sjúki rétta vættið fyrir þeim og eið vinna áður þeir hafi rétt vættið. Svo skal hann rétta vættið sem þeir verða á sáttir, og svo öllum þeim málum mæla sem að dómi. Skulu þar tveir menn taka við vætti hans, en ef vottarnir verða tveir sjúkir, þá er rétt að þrír taki við vætti þeirra tveggja, og verður það þá jafnrétt er þeir bera sem hinir bærier frumvottar voru.

Ef sá maður kemur til skips með vöru sína, er hann er vættis kvaddur og þingfarar, og sé vara hans komin á fljótandi furu, og skal hann svo fara með málum sínum sem hann sé sjúkur. En hann skal fara til fundar við hinn er kvaddan hefir hann, ef hann vill eigi til þings hafa farið, og bjóða honum að fara til fundar við votta og rétta vættið.

14. AÐ KVEÐJA Í GEGN.

Ef sá maður er vættis kvaddur, er hann er eigi þingheyjandi, þess vættis er hann átti eigi úr að segjast, enda vissi hann eigi að þingför mundi af gerast, honum er það rétt að kveðja í gegn hests og matar, og kveða á hvar koma skal með, þann mann er hann kvaddi. Honum er rétt að kveðja þar er hann heyrir sjálfur á kvöð hans eða að heimili hans. Honum er eigi skylt að fara til þings nema honum sé hestur færður, sá er honum er fær til þings með öðrum mönnum. En hann skal þeim manni fylgja til þings og til búðar, er kvaddan hefir hann, ef sá vill það. En þá skal hann, er þeir koma til þings, beiða hann með votta matar þess, er hann kvaddi hann. En ef hinn lætur honum eigi uppi mat þann, þá skal hann stefna honum um og láta honum varða útlegð, enda á hann þó að gjalda honum matinn, en þó skal hann á þingi vera, þó að hinn haldi matinum fyrir honum, til þess er hann hefir þeim málum mælt er hann var kvaddur heiman.

Maður skal meira hluta votta sinna hafa kvatt heiman, þeirra er hann man að nefna, nema þeir hafi því játt þá er þeir voru nefndir í vætti að þeir mundi þó bera það vætti þó að þeir væri eigi fleiri en tveir, og hlýðir honum þá þó að hann hafi minna hlut kvatt votta sinna. Þeir eru þá skyldir að bera það vætti þó að þeir sé kvaddir tveir.

En þar er bæði fylgir einni sök vætti og kviður, þá skal vætti fara fyrr fram en kviður.

Ef stefnuvottar manns andast allir eða verða ómála, og skal hann þá kveðja heimilisbúa sína fimm, og skulu þeir þá sanna stefnuvætti hans, svo sem vottar siti heima, þeir er kvaddir eru stefnuvættis.

15. EF BÚAR SITJA HEIMA.

Ef búar sitja heima, þeir er kvaddir eru heiman, þá er honum rétt að stefna eftir drottinsdag hinn fyrra í þingi að Lögbergi og láta honum slíkt varða sem frumsök ætti að metast, sönn og óspillt. Það er jafnrétt að stefna svo fremmi honum er hann missir hans, þá er kviðarins þarf. Hann skal láta sök þá fara á hendur honum fyrst á lengur er frumsökin er fram sögð og báðar í einn dóm, og kveðja heimilisbúa fimm þess manns er sóttur er, að bera um það hvort hinn væri á þar í dóm vætti það er hann kvaddi hann heiman, og honum er það rétt að kveðja annan fyrir til frumsakar. Sá maður á bjargkviðar að beiða honum er vill, heimilisbúa fimm þess manns er sóttur er, hvort hann hafi að nauðsynjum þeim heima setið, er til eru mæltar í lögum, eða hafi hann eigi.

Ef maður er kviðar kvaddur heiman eða vættis er hann má eigi fullum dagleiðum fara, hvertki veilindi er hann fær, þess er hann er eigi skyldur þingfarar, og er það lögvörn. Eða er hann rangkvaddur svo að hann ætti eigi að fara fyrir þeim sökum nema hann vildi, hvortki þess er þrýtur að réttri kvöðinni, er hann er eigi skyldur þingreiðarinnar fyrir þeim sökum, enda er ónýt sökin sú er hann hefir um kvatt, hvorts hann hefir farið til þess eða eigi, sá er kvaddur var.

En þá er kviður hefir borið á þann um heimasetuna, þá skal hann kveðja annan í staðinn, þann búa er næstur býr þar sem hann kvaddi um, þeirra manna er réttur sé í kviðnum og er á þingi. Ef hann fær eigi þann bjargkvið að hann siti fyrir þeim nauðsynjum heima er til eru mæltar, að þá varðar honum slíkt sem áðan talda eg, og skal þá sökina fyrst sækja, síðan er frumsökin er fram sögð og stefnuvætti borið, og skulu báðar í einn dóm.

16. AÐ RYÐJA KVIÐ.

Þar er kviðir eigu að skilja mál manna, að þá skal hann, er hann hefir kvið þann saman settan, ganga til dóms og bjóða þeim manni er hann hefir sök á hendi með votta, og nefna hann, og bjóða honum að fara til að ryðja kvið þann er hann hefir saman settan, og kveða á hvar það er, og nefna búa alla, og mæla svo að meiri hluti dómanda heyri ef þeir vilja hlýtt hafa, en sá maður skal ganga þangað er ryðja vill kvið þann. Hann skal eið vinna áður hann taki kvið að ryðja, síðan skal hann nefna votta „í það vætti, að eg legg það undir þegnskap minn að sá situr nærri er ókvaddur er,“ og nefna hann og segja hvar hann er í búð. En ef hann ryður að frændsemi kvið, og skulu næstabræðra upp rísa og nánari menn, og námágar þeir þrír ef maður á móður annars eða dóttur eða systur. Hann skal ryðja við sjálfan sig að frændsemi og að mægðum. Hann skal ryðja að guðsifjum þeim þrimur er maður hefir haldið öðrum undir vatn eða undir prímsignun eða undir biskupshönd. Skal-at maður ryðja við sjálfan sig að guðsifjum.

Ef sá maður er kvaddur er svo er vanheill að honum væri eigi þingför skyld þótt hann væri kvaddur, og er honum rétt að ryðja hann upp. Ef sá maður er kvaddur, er hann á fé minna en gegni þingfararkaupi, eða einvirki, og er honum rétt að ryðja þann upp. Hann skal ryðja við sóknaraðilja eða varnar, hvergi er með sök fer. Þá er hann ryður kvið að guðsifjum eða að frændsemi eða að mægðum skal hafa sannaðarmenn tvo, nema sá teli er réttur væri í kviðnum að hrörum. Skulu sannaðarmenn firnari aðilja sóknar eða varnar en næstabræðra. Þar er hann ryður kvið að leiðarlengd, og skal hann þar leggja með þriðja mann undir þegnskap þótt hann sé réttur teljandi.

Ef svo ganga ruðningar að, að meiri hluti verði rangkvaddur þeirra búa er heiman eru kvaddir, og verður honum eigi að sakarspelli ef hann vinnur eið að því að hann kvaddi þá er hann hugði að réttastir væri, en sekur verður hann um þrem mörkum við þann er hann hefir mál á höndum.

Svo skal mæla ruðningarmálum að meiri hlutur heyri þingheyjanda. Hann skal nefna votta síðan að því að hann nemur hann úr kviðnum, og kveða á hvort hann nemur hann úr sínu úrnámi eða annars manns.

Ef búar eru þar allir rangkvaddir, þá á hann kost að nema þá upp alla senn og hafa til sannaðarmenn tvo. Þeir skulu það leggja undir þegnskap sinn að þeir sé allir nærri þeim stað er búa ætti frá að kveðja, og nefna þá alla til og segja hvar þeir eru í búð. Hann skal þá kveðja í staðinn sem sá nefnir til er ruddi kviðinn, og verður-a honum það að sakarspelli um þann búakvið er hann hefir á þingi kvatt, þó að hann hafi alla rangkvadda að násæti, ef hann hefir rétt að kvöð farið.

Ef sá griðmaður er kvaddur er þinghámaður er réttur fyrir bú hans, og er honum rétt að ryðja að því ef hinn er eigi þar vistfastur. Nú vill hann eigi ryðja og hafa það til sakarspells að þar hafi sá griðmaður kvöð upp borna er eigi er réttur í, og vill honum það láta verða að sakarspelli, og verður honum það að sakarspelli, nema vottorð komi það fram að hann hafi því svarað áður hann var kvaddur, að hann var þar heimilisfastur er hann var réttur í kviðum, eða heimilisbúar hans fimm bera það að hann hugði það, þá er hann kvaddi hann, að hann væri þar heimilisfastur er hann væri réttur þinghámaður og réttur kviðu að bera. Ef hann fann hann eigi þá er hann kvaddi hann, enda mátti hann eigi spyrja hann.

Hvervetna þess er sá maður fer til þings fyrir bónda er þinghámaður er réttur fyrir bú manns, þá er bóndinn skyldur að fá honum bæði hest og mat, þann hest er þingfær sé, enda skal bóndi eigi gjalda þingfararkaup, en hinn skal taka sem aðrir þingheyjendur, er fer til þingsins.

Sækjandi skal nefna votta að því að hinn hefir lokið ruðningu eða hann læst eigi vilja ryðja kvið þann, þá skal hann beiða framburðar að þeim á lengur. Það er mælt, áður kviður sé borinn, að þeir skulu eiða vinna allir áður að dómi. Þeir skulu allir fella saman orð sín, að þeir væri allir á eitt sáttir. Þeir skulu hluta með sér hver þeirra skal kvið fram telja, en sá þeirra skal fram telja er hlýtur, nema þeir verði á annað sáttir, og þurfu þeir eigi þá að hluta. Þeir skulu aðrir gjalda samkvæði sitt á. Ef þeir verða eigi á sáttir hvern kvið þeir skulu bera, þá eigu þeir að ráða er fleiri eru saman. Enda eigu þeir fram að telja þann kvið, en þeir eigu allir samkvæði á að gjalda, en þeir skulu það segja að dómi að þeir mundi annan bera ef þeir hefði afl til, og kveða á það hvern þeir mundi bera. En ef sá verður að ljúgkvið, þá varðar þeim það ekki við lög er annað vildu bera, er þeir hafa þeim orðum mælt að dómi.

Ef búar eru um það sóttir að kviður sé síðar borinn en í lögum sé mælt, og er í því talið sem kvið sé haldið. Þeir eigu að beiða sér bjargkviðar um það ef afl það hefir staðið fyrir kvið þeirra að þeir máttu eigi fyrir því bera, eða þeir voru í frumkviðum öðrum svo fastir að þeir gátu eigi fyrir þeim sökum borið kvið þann sem mælt er í lögum. Þá eru þeir varðir máli ef þeir fá þann bjargkvið.

Ef búar eru þeir sumir, er eigi eru svo í lögskilum öðrum fastir, þá skulu þeir ganga til dóms og nefna sér votta að því að þeir eru búnir að leysa kvið þann af hendi þegar er þeir hafa neyti að.

Ef kviðar er svo síð beitt eða boðið til ruðningar að þeir geta fyrir þeim sökum eigi borinn kvið þann svo snemma sem mælt er, þá varðar kviðmönnum ekki, en ónýt er sök hins, enda varðar honum fjörbaugsgarð, og er það þingsafglöpun. Ef sá dylur er til ruðningar er boðið, eða færir svo seint fram ruðningar eða þau skil er hann vill fram hafa fært, að af því verður eigi kviður borinn rétt svo snemma sem mælt er, þá varðar þeim mönnum fjörbaugsgarð slíkt þá metast kviður þeirra sem þá að í mál yrði borinn kviðurinn.

Ef búar halda frumkvið til þess er sól kemur á Þingvöll, þá á eigi að meta kviðburð þeirra ef þeir bera eigi á, er þeir bera síðar, enda er þá eigi skylt að sækja þá um haldið ef þeir bera á, þó að þeir hafi eigi borið áður sól kemur á Þingvöll. En hvervetna þess er haldið er kvið er eigi skylt að sækja fleiri búa en einn, nema vili.

Ef goði er kvaddur tylftarkviðar þar er búakviður kemur til eða búar eru kvaddir búakviðar um þá sök er tylftarkviður kemur til, og skulu þeir ganga til dóms og nefna votta að því að þeir láta það standa fyrir kviðburð sínum að þeir eru þess kviðar kvaddir er þeir eigu eigi um að skilja.

Ef maður þarf bjargkviðu þar er búakviður hefir borið áður á hann, þá skal hann kveðja fimm búa í þann kvið er áður hefir borið á hann þótt þá hafi níu búar borið á hann sóknarkviðinn. Honum er rétt að kveðja þá þar er þeir eru allir saman. Hann skal bjóða þeim manni er sök hefir á hendi honum að ryðja kviðinn, og segja honum hvar þeir sitja, en hann á að því að ryðja ef þeir eru nærri er ókvaddir eru þeirra manna er í frumkviðum voru. En ef hann þarf fleiri bjargkviðu til þess máls, þá skal hann þá beiða framburða að kviðum þeim öllum að dómi. En þeir eru skyldir til að bera kviðu þá alla, er þeir eru beiddir að lögum, er máli eigu að skipta með þeim. Ef haldið er varnarkviðum þeim er kvatt er að lögum og máli eigu að skipta, og varðar það fjörbaugsgarð og á þá svo að meta sem í hag sé borinn kviðurinn.

Ef maður kveður kviðar þess, hvort er hann fylgir sókn eða vörn, er eigi á máli að skipta með þeim, og verður þá ónýtt mál hans, og kalla menn það egningarkvið.

Þar er tylftarkviður ber á mann, ef hann þarf bjargkviðar, þá skal hann kveðja heimilisbúa sína fimm til.

Maður skal bjóða til ruðningar um frumkviðu alla, hvorts eru til sóknar eða til varnar, og þurfu-t þeir það oftar að gera en um sinn.

Allir menn þeir er lögskil nokkur skulu mæla að dómum á alþingi, hvort er þeir skulu sækja sakir eða verja eða bera vætti eða kviðu, og skulu þeir vinna eiða, áður þeir mæli þeim málum, svo að dómendur heyri. Hvar þess er maður hefir þann eið unninn er hann hefir fleira undir skilið, og verði hann tortryggður um eiðinn, þá er hann skal þau fleiri gögn af hendi leysa er eiðar eigu að fylgja, þá skal hann þar láta bera vætti það er hann nefndi að, þá er hann vann eiðinn, eða vinna ella eið í annað sinn.

Hvarvetna þess er menn halda gögnum á alþingi, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal í þann dóm sækja sem frumsökin er í sótt. En menn skulu sakir hafa fram fært allar áður sól sé undir, þær er til eru búnar, áður dómar fari út til sóknar. En ef eigi eru fram sagðar, þá er það vörn, en frumgögn skulu borin áður sól komi á Þingvöll hinn næsta dag eftir, þau er þeim sökum eigu að fylgja.

Ef maður hefir sakir í fleiri dóma en í einn, og er honum eigi að heldur skylt oftar að vinna eið en um sinn. En ef tortryggt þykir um eiðunning hans, þá skal hann vætti það láta bera að dómi öðrum er hann nefndi þá að, er hann vann eið.

17. UM KVIÐBURÐI.

Ef maður hefir tylftarkviðar kvatt, og skal goði nefna þriðjungsmenn sína til kviðar þess með sér, og er honum rétt hvorts þeir eru bændur eða griðmenn. Hann skal ellefu menn nefna aðra en sig. Goði skal ganga til dóms og bjóða þeim manni til ruðningar er kvaddi hann tylftarkviðar, og nefna hann, og segja honum hvar hann hefir saman settan kviðinn, og hann á svo að ryðja tylftarkvið sem dóm.

Ef þeir verða eigi á sáttir hvern kvið þeir skulu bera, þá skulu þeir ráða er fleiri eru saman. En ef þeir eru jafnmargir, þá skulu þeir þann bera er goðinn vill.

Ef sú sök kemur á hendur goða er tylftarkviður kemur til. Nú á hann að nefna kvið um sjálfan sig, en sækjandi skal beiða samþingsgoða hans, þann þeirra sem hann vill ef þeir eru báðir jafnréttir að tengdum, en þann þeirra ella er réttari er, að bera kvið fram, en þeir skulu ganga til dóms og vinna þar eið, en goði skal fram telja þann kvið er þeir ellefu verða á sáttir.

Ef goði hefir þá sök á hönd þriðjungsmanni sínum er tylftarkviður á um að skilja, hann skal þar þriðjungsmenn sína ellefu til kveðja að rétta kvið þann, en þeir skulu til ganga ellefu að rétta kvið þann með sér, og skulu þeir ráða er fleiri eru saman, ef í deilir með þeim, en goði skal fram telja kvið þann er þeir urðu á sáttir, aðrir en hann.

Ef goði heldur tylftarkvið, þá verður goði útlagur um það og úr goðorði sínu, en hinn á kost þess hvorts hann vill goða sækja eða eigi, en svo á það að metast, er hann heldur kviðnum, sem á sé borinn, nema hann fái bjargkvið þann að goði mundi kvið þann bera eigi á hann, og héldi hann af því kviðnum að hann vildi færa honum, og skulu heimilisbúar hans fimm skilja það, hvort hann héldi til fárs honum og þeir mundu af bera ef þeir bæri.

18. UM VOTTORÐ Í MÓTI KVIÐ.

Sókn skal fara fyrr fram hvers máls en vörn nema það sé allt eitt, og sé það annars máls vörn er annars er sókn. Þar er kviða er kvatt til sóknar, en sá hefir votta til þess er verja skal, þá skal þar vætti fara fyrr fram en kviður, þótt það fylgi vörn. Skal-at hann það svo dvelja að eigi sé kviðurinn þá borinn er sól kemur á Þingvöll.

Ef eigi verður allt eitt, það er búar vilja borið hafa og vottar, enda eigi þeir um einn hlut að skilja, þá skal segja að hann hefir vottorð til þess máls sem þeir eru um kvaddir, en síðan skal hann verja þeim lýriti kviðburðinn. Nú bera þeir þó kviðinn, þó að lýriti sé þeim varið, fyrr en vættið kæmi fram, þá á þann kvið enskis meta, enda varðar útlegð öllum, en þá skal þó láta bera vættið. Nú ef eigi verður að ljúgvætti, þá er kostur að sækja hina um það að þeir hafi borið ljúgkvið.

Skulu-t menn andvitni bera og hér á þingi, en ef menn bera varðar það útlegð, enda á það enskis að meta. En það er andvitni er menn bera í gegn því sem áður er borið, vætti í gegn kvið eða kviður í gegn vætti, svo að eigi má hvorttveggja rétt vera. En ef hvortveggja verður andvitni, þá varðar skóggang ljúgvitni en fjörbaugsgarð andvitnið.

19. UM VÖRN.

Áður maður færir vörn fram, og skal hann spyrja þann mann með votta, er sök hefir á hendi honum, ef hann hafi sókn svo fram færða á hönd honum sem hann hyggur, eða hafi hann eigi. Þá á hinn því að svara að hann hafi fram færða sókn sem hann hyggur, nema nokkuð gerist í vörn hins þess er hann vili þá til sóknar hafa tekið. Þá er rétt til varnar að taka er þeim orðum er mælt. Rétt er að hann færi þó fram vörn, þótt hinn geri eigi svara þessum orðum, ef dómendur lofa og lítist þeim svo að hann vili vörn hans glepja í því, og er það þingsafglöpun ef sá dvelur vörn.

Hinn skal taka til varnar þegar er hann vill, en fimm búar skulu skilja um bjargkviðu alla, heimilisbúar þess manns er sóttur er, nema hann sé sóttur við níu búa kvið, þá skal hann þaðan kveðja fimm af þeim búum níu til bjargkviðar sér, þá er næstir eru vettvang þeim er frá var kvatt. Ef búi verður sjúkur í kvið, og skulu þeir er í kvið eru með honum sækja orð hans til búðar. Hann á eið að vinna hvar hann geldur samkvæði á. Þeir skulu votta nefna að orðum hans og telja kvið fram að dómi. Ef maður verður dauður úr kvið eða ómáli, þá skal kveðja annan í staðinn fyrir. Það á ráða um mál hans hvort þá er, er þeir spyrja hann.

Sá maður er vörn vill fram færa, hann skal ganga til dóms og nefna sér votta í það vætti að hann býður honum, og nefna hann, þeim manni er sök hefir fram færða á hendur honum, að hlýða til eiðspjalls síns, ef hann hefir eigi fyrr unnið eið, og til varnar þeirrar er hann mun þar fram færa. En síðan skal hann fram færa vörn fyrir sig hvorts hann hefir til þess kviðu eða vætti. Þá er varnargögn eru fram komin, þá skal sækjandinn spyrja með votta ef hann hafi vörn svo fram færða fyrir sök þá sem hann hyggur, en hinn á því að svara, að hann hafi þá fram færða vörn sem hann hyggur, þegar er það er. En þegar er hann hefir nokkur varnargögn fram færð, þá þarf-at hann bíða til þess er hinn hefir vörn svo fram færða sem hann hyggur. Þá á hvortveggi þeirra að færa fram sókn og vörn á lengur svo sem þeir eru búnir til.

20.

Þar skal hefja upp við arftökumann ómaga. Þá sök skal lýsa að Lögbergi á hönd arftökumanni til framfærslu og varðveislu ómagans, og nefna hvorntveggja, ómagann og þann er á hönd er lýst, og kveða á til hvers dóms hann lýsir og lýsa löglýsing. Sá maður er sækir skal kveðja heimilisbúa fimm þess er sóttur er, að bera um það hvort hann eigi arf að taka að þann ómaga eða hvort hans ómagi sé eða eigi, og nefna hvorntveggja. Ef það ber kviður að þess ómagi sé, og skal honum dæma ómagann. Sá er verja vill skal kveðja hina sömu fimm heimilisbúa að bera um það hvort hann eigi fé eða færi til að færa þann ómaga fram eða eigi. Ef þar ber auðn, og er þá rétt að lýsa þeim á hendur er vill og nánastur er þeirra manna er fé eða færi eigi til að færa þann ómaga fram. Þar skal telja frændsemi með ómaganum og þeim er á hönd er lýst og leggja það undir þegnskap sinn með þriðja mann að sú er frændsemistala rétt og sönn með þeim N.N. og N.N. Þá á þeim manni að dæma á hönd ómagann nema lögvörn komi fram. Kost á sá er ómaga vill lýsa að lýsa þegar á hendur þeim er nánastur er, þeirra manna er fé eða færi hefir til, þótt hann lýsi eigi á hönd arftökumanni áður.

21. UM REIFING.

Lengur er menn hafa sókn fram færða og vörn sem vilja í dóm þann, þá skal hver maður hafa, er sókn hefir í dóm þann eða vörn, reifingarmann að máli sínu, hvort sem hann þarf að sókn eða vörn. Þann er honum rétt að hafa er honum vill veitt hafa, þeirra manna er í þann dóm eru nefndir. Ef þeir veita honum eigi það að reifa mál hans, þá skal hann beiða þá með votta að reifa mál hans. Þeir eigu að hluta með sér hver reifa skal mál hans, og skal sá þeirra reifa mál hans er hlýtur. Ef þeir gera eigi hluta með sér, og varðar þeim það fjörbaugsgarð öllum er í þeim dómi eru, en það er þingsafglöpun er þeir gera, er þeir taka eigi við máli hans. Það er og að sá á sök þá að sækja er með það mál fer er dómendur gera eigi við að taka.

Ef sök kemur á hendur þeim manni er í dóm er nefndur, að honum er rétt, hvort sem hann vill, að verja sök þá eða selja öðrum vörn fyrir sig. Ef sök kemur í þann dóm, þá skal hann þó eiga dómsætt, enda skal hann gjalda samkvæði sitt á dóm þann er þeir segja upp. Það er og ef hann á sök að sækja, þá er síðar gerðist en hann væri í dóm nefndur, þá er honum rétt, hvort sem hann vill, að sækja sjálfum eða selja öðrum. Ef sú sök kemur í þann dóm er hann er í, og skal hann þó eiga dómsætt. Skulu-t mál hans standast um þá sök, enda skal-at hann til véfangs ganga um það mál. Hann skal og samkvæði sitt gjalda á þann dóm er þeir segja aðrir upp.

22. UM DÓMENDUR.

Það er og áður þeir taki á dómi sínum, að þeir skulu eið vinna áður nema þeir hafi unninn áður. Þeir skulu nefna sér votta: „Nefni eg í það vætti, að eg vinn eið að krossi, lögeið, og seg það Guði að eg mun þann dóm dæma sem eg hygg lög vera.“

Það er og að þeir skulu reifa mál þeirra, þau fyrst er fyrst eru fram komin. Þeir skulu sókn reifa hvers máls fyrr en vörn. Sá maður er reifir sókn eða vörn, hann skal tína það er reifir hver gögn fram hafa komið og segja hveim á hendur var, hvort sem er til sóknar eða varnar, en sókn skal fyrr reifa hvers máls en vörn um hina sömu sök. Sá maður er vörn skal reifa, hann skal tína gögn þau öll er til varnar hafa fram farið.

Ef dómendunum þykja menn ganga of mjög að dómi, þeir skulu beiða, er í dóminum sitja, goða þá þrjá er í þeim fjórðungi eru, er dómurinn er við kenndur, og beiða þá með votta að fá þeim menn þrjá til dómvörslu, en goðar eru útlagir ef þeir gera eigi svo að fá menn til dómvörslu, og úr goðorði sínu, og eigu dómendur sök þá við guðana. Þeir skulu svo skipta með sér að þeir skulu mann fá úr þingi hverju hinu forna. Þeir menn er til dómvörslu eru teknir, þeir skulu rista reitu tvo fyrir utan það er dómendur sitja. En ef menn ganga yfir inn, og eigu þeir að nefna votta að því er þeir eru gengnir yfir inn. Nú hleypur hann út aftur, og er hann eigi þá útlagur, en ef hann hírir við, og verður hann þá útlagur, og eigu dómvörslumenn sök þá að sækja. Þeir skulu ganga til Lögbergs og stefna þar sök þeirri, og á í þann dóm sök sú að koma sem dómvörslumenn þeir eru úr fjórðungi, að þeir skulu með vottorð þá sök sækja, og eigu dómvörslumenn hálfa útlegð þá en dómendur hálfa.

Ef maður er í lögskilum fastur, sá er í dómi situr, þeim er í annan dóm eigu að koma, hann á það að mæla áður hann gangi í brott að hann segir sátt sína á þann dóm er þeir verða sáttir á meðan hann er á brott.

Þær sakir skal fyrst dæma er fyrra sumar varð eigi um dæmt, ef þær eru, en um þær sakir næst er hér hafa gerst á þingi, ef þær eru í þeim dómi sóttar. Þá skal um þær dæma er fyrst voru reifðar, nema það sé að þær horfi til véfangs. Þá skal um þær síðast dæma ef þær horfa til véfanga.

Þeir skulu hafa manntal að dómur þeirra sé fullur, og skulu þeir að fullum dómi segja dóm sinn upp ef þeir eigu þess kost. Ef maður verður sjúkur eða sár er í dóm er nefndur, svo að hann má eigi úti vera, þá skulu þeir ganga til búðar þangað er hinn sjúki er, og skal hann vinna eið fyrir þeim, slíkan sem hann skyldi vinna að dómi. Hann skal samkvæði sitt gjalda á þann dóm er þeir verða sáttir á. Þá verður þeim það rétt að dæma um sakir allar nema til véfangs horfi. Ef sá maður andast eða verður ómáli er í dóm er nefndur, þeim er þá jafnrétt að dæma sem fullur sé dómur þeirra. Þeir eigu að dæma eftir gögnum þeim er þar hafa fram farið í dóm þar til sókna og til varna. Þeir eigu að dæma sök hverja annaðtveggja mæta eða ómæta.

Ef á gögn þau verður kveðið, er í dóm þann eru komin, er máli skiptir með þeim, þá skulu þeir um aðrar sakir fyrr dæma að gögnum þeim er fram eru komin. Nú hyggur sá það, er sækir, að verjandi kveði af því á gögn að hann vildi dóm í dvelja, en eigi af því að hann vildi reyna í fimmtardómi. Þá á hann að stefna honum um þingsafglöpun að Lögbergi og láta honum varða fjörbaugsgarð, og kveðja til heimilisbúa níu og láta fara í þann dóm málið sem frumsökin er í. Ef kviður ber á hinn um þingsafglöpun, og verður hann þá fjörbaugsmaður. En þá skal dæma um frumsökina sem eigi væri á gögnin kveðið.

Ef dómendur gera eigi dæma um sakir manna, þá skal ganga til Lögbergs og beiða dómendur að ganga út að dæma um sakir þær er þeir hafa eigi lok á felld, og svo goða þá er þá menn nefndu í dóm að færa dómendur sína út. Ef dómendur ganga þá út er þeir eru beiddir að dæma um mál hans, þá eru þeir varðir máli. Nú vilja dómendur sumir dæma en sumir eigi, þá varðar þeim fjörbaugsgarð er eigi vilja um dæma, enda er rétt að stefna honum um þingsafglöpun þegar að Lögbergi og sækja það sumar í hinn sama dóm þegar er sex dómendur eru út komnir í setur sínar eða fleiri, enda verður jafnfullur þá dómur þeirra sem þeir dæmi allir. Ef þeir gera eigi dæma um mál hans, og er rétt að sækja hvort sem vill hið sama sumar eða annað við níu búa kvið.

Þeir skulu í þeim stað dæma sem þeir hafa niður sest ef þeir ná fyrir ofríki manna of sakir þær allar er í þeim dómi eru. Ef þeir um sitja eigi fyrir ofríki manna, þá er þeim rétt að sitja þar er þeir þykist helst mega lúka dómi sínum, og verður dómur þeirra sá réttur. Ef þeir um sitja eigi fyrir ofríki, þá skal sá er sókn hefir reifða kveða á hvar þeir skulu að finnast, að þeir um lúki helst dómi sínum. Þeir eigu þangað að ganga og lúka þar dómi sínum ef þeir megu. Nú vilja þeir eigi allir þangað til ganga, þá verður dómur þeirra fullur þó að þeir dæmi eigi fleiri um þar en sex, en hinum varðar það fjörbaugsgarð er eigi koma til þangað, og er það þingsafglöpun. Nú hvarvetna þess er dómendur gera þingsafglöpun sumir, þá að þeir vilja eigi dæma um mál þau er þeir eigu um að dæma, þá á jafnt dómur þeirra að standast er um vilja dæmt hafa, ef þeir eru sex menn eða fleiri, sem dómurinn sé fullur.

Sá skal dóm upp segja er mál reifði, þann sem þeir eru á sáttir, og skal sá upp segja er vörn reifði ef þeir vilja dæma ómæta sökina, en sá er sókn reifði ef þeir vilja áfall dæma. En sá er dóm segir upp, hann skal svo mæla: „Læt eg að þá dæmi vér lögdóm ef vér þann dæmum,“ og kveða á hvað hann vill dæma, „er sá dómur vor allra,“ skal hann kveða. Þeir eigu og allir að gjalda samkvæði sitt á þann dóm er þeir eru á sáttir og svara að sá sé dómur þeirra allra. Ef nokkur þegir við og vill eigi samkvæði gjalda á þann dóm er þeir verða á sáttir, og er það þingsafglöpun, og þegir hann sig þá í fjörbaugsgarð.

23. UM VÉFÖNG.

Ef þær sakir eru nokkurar er þeir verða eigi á sáttir á dóm sinn, og skulu þeir þá véfengja. Skulu-t þeir færri til véfangs ganga en sex. Þeir skulu rúmum þá skiptast við hverngi veg er þeir hafa áður setið, og skulu þeir þá sitja allir saman, er saman eru að véfangi. Þeir skulu svo nær sitjast að hvorirtveggju nemi orð annarra. Þeir skulu hvorirtveggju beiða aðra samneytis og nefna votta að því að þeir bjóða samneyti sitt að því sem þeir vilja dæma og kveða á hvern dóm þeir vilja dæma. Þeim málum skulu þeir mæla hvorirtveggju.

Ef nokkur þeirra er svo sjúkur er í dóm þann er nefndur að eigi um ves úti, og má hann þó mæla. Þeir skulu fara hvorirtveggju til fundar við hann og segja honum hvað þeir munu hvorir til véfangs bera. Hann skal vinna véfangseið og kveða á það með hvorum hann mun vera að véfangi.

Þeir skulu ganga til rúma sinna. Þá skulu þeir dómendurnir síðan er sókn fylgja bjóða þeim til hlutfalls að þeir hluti hvorir þeirra skulu fyrri mæla véfangsmálum. Skulu þeir fyrri mæla véfangsmálum er hljóta. Þeir skulu bjóða hvorirtveggju öðrum með votta að hlýða til er þeir vinna véfangseið, eða svo til annarra véfangsmála er þeir skulu fram færa, og bjóða þeim samneyti og beiða þá samneytis að því er þeir vilja dæmt hafa og segja hvað það er. Svo skulu þeir mæla hvorir við aðra. Síðan skulu þeir vinna véfangseið, er saman eru að véfangi. Þeir skulu taka kross í hönd sér, eða bók þá er meiri sé en hálsbók, og nefna votta „í það vætti, að eg vinn eið að krossi,“ eða að bók, „véfangseið, og segi eg það Guði að eg mun það véfengja er eg hygg lög vera,“ og kveða á það hvað hann ber til véfangs, og kveða á af hví hann ber það til véfangs. Þeir skulu slíkan eið vinna hvorirteveggju. Síðan skulu þeir hvorirtveggju segja upp dóm þann er þeir vilja dæmt hafa. Svo skal sá mæla er sókn reifði: „Það berum vér til véfangs, og þann dóm dæmum vér og segjum upp, að vér dæmum áfall honum,“ og nefna hann og kveða á hvert áfall það er. Þeir skulu gjald samkvæði sitt á, er að véfangi voru með honum. Svo skal sá mæla er vörn reifði, að „það berum vér til véfangs og þann dóm dæmum vér og segjum upp, að vér dæmum hann sýknan af því að oss þykir lögvörn fram komin“. Þeir skulu gjalda samkvæði sitt á, er að véfangi voru með honum. Sakarsækjandi og sakarverjandi skulu ganga til Lögbergs og nefna sér votta „í það vætti, að eg lýsi sök á hendur þeim um það að þeir hafa dæmt ólög,“ og kveða á um hvað þeir hafa dæmt. Þeir skulu lýsa til rofs dóminum og láta þeim varða útlegð og lýsa til fimmtardóms. Það eigu hvorirtveggju að mæla við annars dómendur.

24. UM FIMMTARDÓM.

Vér skulum eiga dóm hinn fimmta, en sá heitir fimmtardómur. Mann skal nefna í dóm þann fyrir goðorð hvert hið forna, níu menn úr fjórðungi hverjum. Goðar þeir er hin nýju goðorð hafa, þeir skulu nefna eina tylftina í dóminn. Þá verða fernar tylftirnar, og eru þá menn tólf úr fjórðungi hverjum með þeim, en fimmtardómur skal þá ráðinn er fjórðungsdómar eru nefndir, og skulu allir senn fara út til sóknar, nema lögréttumenn verði á annað sáttir, en fimmtardóm skal setja í lögréttu.

25.

Þær sakir skulu koma í fimmtardóm: Ljúgkviðir þeir er hér eru bornir á þingi eða ljúgvætti eða það ef maður leggur rangt undir þegnskap sinn, enda véföng þau er hér verða, eða féboð þau er hér verða, og fétökur þær hér verða, eða svo ef menn mæla sér fé hér, og um ljúgvitni þau öll er hér verða á alþingi, og um skógarmannabjargir, þeirra er hér er sagt til sektar að véllausu og til þess eru taldir, og um innihafnir skuldarmanna og um þræla þeirra er til skuldfestis er sagt hér á alþingi, og svo það er menn þiggja verk að þeim mönnum, og um innhafnir kirkjupresta eða svo um samvistur við þá þegar þeir fara annan veg en í lögum er mælt.

Þær sakir allar er nú eru taldar skal lýsa í dag og á morgin, enda er rétt annan dag viku og hinn þriðja ef þeir eru rúmhelgir.

Ef maður lýsir til fimmtardóms um bjargir manna, og skal á kveða á sökina og veita honum í því lögmæta björg. Engi skal ifasök vera.

26. UM DÓMNEFNUR.

Goðar skulu allir ganga til lögréttu, og skal hver þeirra setja niður dómanda sinn. Goði skal nefna sér votta „að því vætti,“ skal hann kveða, „að eg nefni þegn í fimmtardóm,“ og nefna hann, „að dæma um sakir þær allar er hér koma í dóm þenna og lög skylda heldur til að dæma um, og ann eg honum ísetu nema hann sé numinn úr. Nefni eg lögdóm.“ Hann skal nefna votta „að því vætti,“ skal hann kveða, „að eg vinn eið að bók, fimmtardómseið. Hjálpi svo mér Guð í þvísa ljósi og öðru sem eg hygg það að eg hafi þann mann í dóm nefndan er eigi vili annar maður betur ráða fyrir lögum órum eða landsbúi en sjá maður,“ og nefna hann, „þeirra manna er eg eigi kost í mínum þriðjungi hér á þingi.“ Slíkan eið skal goði hver vinna er menn nefnir í fimmtardóm.

27. AÐ BJÓÐA TIL HLUTFALLA.

Þeir menn er sakir eigu í fimmtardómi, og skulu þeir ganga til dóms og skal einn hver þeirra nefna sér votta og bjóða þeim mönnum öllum er sakir hafa í fimmtardómi til hlutfalla, og kveða á hvert til skal ganga og bera þar hluti í skaut, og fara svo að hlutfalli því sem að fjórðungsdómi. Þær sakir skal eigi hluta er um véföng er sótt. Þær skal fyrstar sækja nema þær sé fleiri en fjórar. En ef þær eru fleiri, þá skal þær hluta.

Hann skal ganga til dóms og bjóða þeim mönnum að hlýða til eiðspjalls síns er hann hefir sök á hendi, eða þeim manni er vörn hefir fyrir hann, og biðja hann hlýða til framsögu sakar sinnar, og nefna sökina. En hann skal taka bók í hönd sér, meiri en hásbók, og nefna sér votta „í það vætti, að eg vinn eið að bók, fimmtardómseið. Hjálpi mér svo Guð í þvísa ljósi og öðru,“ skal hann kveða, „sem eg mun svo sækja sök mína á hendur honum,“ og nefna hann, „sem eg hygg sannast og réttast og helst að lögum, og eg hygg hann sannan að sök þeirri er eg hefi á hendi honum,“ og kveða á sökina, „og eg hefk-a fé boðið í dóm þenna til liðs mér um sök þessa, og eg munk-a bjóða. Hefk-a eg fundið og munk-a eg finna, hvorki til laga né til ólaga.“ Sannaðarmenn tveir skulu honum fylgja. Skal hann svo vanda þá sem stefnuvotta. Þeir skulu taka bók í hönd sér, meiri en hálsbók, og nefna sér votta „í það vætti, að eg vinn eið að bók, fimmtardómseið. Hjálpi svo mér Guð,“ skal hann kveða, „í þvísa ljósi og öðru sem eg hygg það að N.N. muni svo sækja sök sína á hendur N.N. sem hann hyggur sannast og réttast og helst að lögum, og hann hyggur hann sannan að sök þeirri,“ og kveða á sökina er hann hefir á hendi honum, „og hefir-at hann fé boðið í dóm þenna til liðs sér um sök þessa og mun-at hann bjóða, og hefir-at hann fundið og mun-at hann finna, hvorki til laga né til ólaga.“ Slíkan eið skulu sannaðarmenn hans finna. Síðan skal hann segja fram sök sína á hönd honum, svo skapaða sem hann lýsti.

Menn skulu að bók vinna eiða þá alla að fimmtardómi, þeirri er heilög orð eru á ritin og meiri en hálsbók.

28.

Sá maður er hann hefir sök að verja, hann skal nefna sér votta og bjóða þeim manni er sök hefir á hendi honum að hlýða til eiðs þess er hann mun vinna að vörn þeirri, og til varnar þeirrar er hann mun fram færa fyrir sök þá er hann hefir á hendi N.N. En síðan skal hann taka bók í hönd sér og nefna sér votta „í það vætti,“ skal hann kveða, „að eg vinn eið að bók, fimmtardómseið. Hjálpi mér svo Guð í þvísa ljósi og öðru að eg mun svo verja sök þá fyrir mig,“ og kveða á sökina, „er hann hefir á hendi mér,“ og nefna hann á nafn, „sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum, og eg em eigi sannur að sök þeirri ef þess eru efni,“ og kveða á hvað hann hefir til varnar, „og eg hygg að það sé lögvörn, og eg hefk-a fé boðið í dóm þenna til liðs mér um þessa sök, og eg munk-a finna, hvorki til laga né til ólaga.“ Þar skulu og sannaðarmenn tveir fylgja honum að vörn, enda skal vanda þá jafnt sem stefnuvotta. En þeir skulu taka bók í hönd sér, meiri en hálsbók, og nefna sér votta „í það vætti, að eg vinn eið að bók, fimmtardómseið. Hjálpi mér svo Guð í þvísa ljósi og öðru að eg hygg það að hann mun svo verja sök fyrir sig sem hann hyggur sannast og réttast og helst að lögum,“ og nefna hvorntveggja þeirra, „og eg hygg að hann sé eigi sannur að sök þeirri er hann hefir á hendi honum,“ og kveða á sökina, „og hefir-at hann fé borið í dóm þenna til liðs sér og mun-at hann bjóða, og hefir-at hann fundið og mun-at hann finna, hvorki til laga né ólaga.“

Hann skal nefna sér votta „að því vætti,“ skal hann kveða, „að eg færi vörn fram fyrir mig hér í dóm þenna,“ og kveða á hvað hann hefir til varna og hver vörn sú er, „og kalla eg það lögvörn“. Slíkan eið skal hvortveggi sannaðarmanna hans vinna sem nú hefi eg tínt.

Ef maður hefir fleiri sakir í fimmtardóm en eina, hvort sem hann hefir einum manni á hendur eða fleirum, og skal hann slíkan eið vinna að sökinni hverri sem áðan tínda eg, og skulu svo sannaðarmenn fylgja sök hverri sem áðan var tínt, og svo eiða vinna. Sá er sök hefir að verja í fimmtardómi, hvort sem hann hefir eina eða fleiri, þá skal hann slíkan eið vinna, varnareið, að sökinni hverri, sem áðan tínda eg, og svo sannaðarmenn hans.

Sá maður er hann hefir sök að sækja í fimmtardóm, hann skal taka sex menn úr dómi og nefna votta að, og nefna þá alla, „og eg nem yður úr dómi og ann eg yður eigi ísetu um sök þá,“ og kveða á sökina, en þeir skulu úr rísa dóminum. En ef þeir vilja eigi úr rísa dóminum, þá eru þeir útlagir, enda ómæt orð þeirra. Sá maður er hann hefir sök að verja í fimmtardómi, hann skal og taka aðra sex menn úr dómi og nefna þá alla á nafn. „Ann eg yður eigi ísetu um sök þessa er hann sagði á hönd mér,“ og nefna hinn á nafn, er sökina hefir á hendi honum, og kveða á sökina. En þeir eigu að rísa úr dóminum og sitja í dómhring innan meðan um sök þá er dæmt. Eigi skulu þeir á brott ganga nema nauðsynjaörindi sé. En ef þeir vilja eigi rísa úr dóminum, þá varðar þeim útlegð, enda ónýt orð þeirra. Ef hann vill þá eigi úr taka dóminum, þá skal sóknarinn taka þá úr hvoratveggju. En ef sóknarinn vill þá eigi úr taka dóminum, þá er ónýt sök hans. Þeir eru þó réttir til að reifa mál þeirra, er úr dóminum eru numnir, en eigi eigu þeir um dæma.

Dómendur allir, áður þeir taki að dæma, skulu vinna eið, fimmtardómseið, um það að þeir munu þann dóm dæma er þeir hyggja lög vera. Dómandi skal nefna sér votta „að því vætti, að eg vinn eið að bók, fimmtardómseið. Hjálpi svo mér Guð í þvísa ljósi og öðru sem eg mun þann dóm dæma er eg hygg lög vera, og eg hefk-a fé mælt mér í dóm þenna og munk-a eg mæla, og hefk-a eg tekið og munk-a eg taka, hvorki til laga né til ólaga“. Þeir skulu reifa mál manna, bæði til sóknar og til varnar, jafnt sem í fjórðungsdómi. En þeir eru réttir að reifa mál manna er úr eru numnir dóminum. Þá er um er dæmt eina sök, að þá eigu þeir aftur að ganga í dóminn, en þeir eigu tólf menn að nema úr dóminum að hverri sökinni. En þeir eigu kost að nema úr dómi hvort sem þeir vilja hina sömu eða aðra.

Þeir skulu dæma um sakir þær allar er í fimmtardóm koma, um þá fyrst er fyrst er fram sögð, enda er vel ef þeir verða vel á sáttir. Nú verða þeir eigi á sáttir, þá skal hinn meiri hlutur ráða dómanda. En ef þeir verða allir jafnmargir, þá eigu þeir að dæma áfall, en þar er véföng eru, þá eigu þeir að hluta, en ef þeir eru allir jafnmargir í öllum stöðum þeim er dómendur hafa véfengt og hafa hvorirtveggju farið rétt að véfangi, og á þeirra dómur að rofna er síður hafa að lögum dæmt. En ef aðrir hafa farið rétt að véfangi en aðrir rangt, þá á þeirra dómur að standast er rétt fóru að véfangi þótt aðrir hafi málaefni betri fyrir öndverðu. En ef hvorigir hafa farið rétt að véfangi, þá á þeirra dómur að rofna sem firr hafa farið því að véfangi sem lög eru, og á sá dómur að rofna er þeim hefir þótt firr lögum dæmdur.

Um sakir þær allar er hér hafa gerst á þingi, þá skal beiða dóms út meðan ósagt er misseristal upp. En ef dómendur vilja eigi dæma um sakar, þá varðar þeim fjörbaugsgarð.

Engi maður dræpur fyrr en, svo sem dómur dæmir hann, eftir vopnatak.

29. UM FÉRÁNSDÓM.

Féránsdómur skal vera eftir hvern mann, þeirra er sekur er orðinn, þá er fjórtán nætur eru liðnar frá því þingi er hann varð sekur á. Dóm þann skal eiga þar er heimili hans var, þá er sök var höfðuð á hönd honum, áður hann yrði sekur. Nú veit sá eigi, er hann sekti, hvar það er, þá skal vera að heimili goða þess er sá er í þingi með er hinn gerði sekjan. Nú hefir hann handsalaða sekt sína heima í héraði, eða verður hann að sátt sekur, þá skal féránsdóms kveðja á alþingi hinu næsta eftir það er hann var sekur ger. Sá maður er hann sekti skal spyrja að Lögbergi að heimilisfangi hans og svo að þingfesti hans, ef hann veit eigi áður. Nú gengur engi við heimilisfangi hans, en goði gengur við þingfesti hans. Þá skal að þess goða eiga féránsdóminn og beiða hann að nefna. Nú er við hvorigu gengið, þá skal að þess goða eiga féránsdóm sem hann er sjálfur í þingi með og beiða hann að nefna. Hann skal eftir dóma beiða að Lögbergi eða þar er goði heyri sjálfur á. Ef hann var eigi að Lögbergi, þá skal hann segja honum til. En ef hann beiðir í öðrum stað, þá skal hann segja til að Lögbergi. Sá maður er féránsdóms vill beiða, þá skal hann nefna votta „í það vætti, að eg kveð og beiði N.N. að nefna féránsdóm eftir N.N. fjórtán nóttum eftir vopnatak“. Hann skal kveða á stað og biðja hann þar koma svo að dómur sé nefndur fyrir miðjan dag.

Dóm þann skal nefna utan garðs þar er hvorki sé akur né engi, og eigi firr garði en í örskotshelgi við garðinn, og þangað frá garði er sá á heimili er sótti, ef þar má vel vera.

Skyldir eru menn að fylgja goða til féránsdóms, allir þeir er næstir eru, ef hann vill þá kvatt hafa, hvorts þeir eru hans þingmenn eða eigi. Þriggja marka útlegð varðar þeim er synja ef hann vinnur dóminn fullan, en fjörbaugsgarð ella. Hann skal þar koma fyrir miðjan dag og nefna svo dóminn, og svo skulu þeir menn koma er þar skulu lögskil af hendi leysa. Þar skal vera tólf þegna dómur. Dóm þann skal ryðja sem tylftarkvið. Sá er dóms beiðir skal þangað hafa kvatt búa fimm þrem nóttum fyrr eða meira méli, þá er næstir búa því er dómurinn skal vera. Eru þeir skyldir að bera kviðu þá alla er þar þarf, hvergi er þá beiðir. Hann skal og hafa kvatt dómsuppsöguvotta eða sáttargerðarvotta, þá er nefndir voru, ef hann varð að sátt sekur.

Þeir menn er fé áttu að hinum, þá er hann varð sekur, skulu kvatt hafa votta sína, eða búa ef þeir hafa eigi votta til, og skal til kveðja gagna þeirra allra er þar þarf fjórtán nóttum fyrr eða meira méli.

30. UM SÓKN.

Sá maður er féránsdóms beiddi skal sér nefna votta „í það vætti, að eg vinn lögeið að bók, og segi eg það Guði að eg mun svo færa mál öll fram hér að féránsdómi þessum á hendur N.N. sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum“. Í dóm skal bera dómsuppsöguvætti eða sáttarvætti, er hann var sekur ger. Þá er dómur er ruddur skal láta bera þar vætti það hve fyrir sekt hans var mælt, eða fyrir hvað hann varð sekur, eða hvar hann varð sekur. Þá skulu menn hluta hve þar skulu sakir fram færa.

Jafnt skal þangað búa fémál öll sem til skyldadóms og svo of landsvirðingar og svo dæma konu sitt fé ef hún átti, eða veðmála ef voru, og hverjum sína aura fulla ef svo má, en ella jafnt skerða sem að skuldadómi. Rétt skal dæma úr fénu ef réttarsök er, en fólagjöld ef þjófsök er. En ef fé vinnst betur, þá skal dæma goða þeim er dóminn nefndi kú eða uxa fjögurra vetra gamlan. En ef fé er meira, þá skal dæma hálft þeim er hinn sekti en hálft fjórðungsmönnum ef hann varð á alþingi sekur, en þingunautum ef hann varð á vorþingi sekur, þeim er í því þingi eru er féránsdómur er í áttur. Þeim skal dæma varðveislu fjár þess, er hinn sekti, er fjórðungsmenn skulu hafa, en því skal skipta á vorþingi hinu næsta. Honum skal og dæma varðveislu þótt þingunautar eigi, en hann skal hafa það til leiðar hinnar næstu, þeirrar er hann heyr sjálfur. Ef þeir eru samþinga, þá skal allt fé það er hann hefir þá heimt skipta þar við þá. En það er hann hefir þá eigi heimt að viðtökum eða að handsölum, þá skal því skipta á vorþingi. En ef sá er utanþingsmaður er hinn sekti, þá skal skipta á alþingi hinu næsta. Skipta skal því öllu að féránsdómi er má og selja í hendur goða þeim er dóminn nefndi.

Fé það er þingunautar eigu skulu þeir hafa til ómagabjargar þess er sekur er orðinn, sem vinnst, ef hann átti ómaga, en ellegar skal hafa til þurftar þeim ómögum öðrum er þar eigu að fara í því þingi eða um þau þing.

Fjörbaugsgarð varðar ef maður leynir sektarfé, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

31.

Ef ómagar koma til féránsdóms, þá skal beiða til tylftarkviðar, hvort þeir sé ómagar hins sekja eða eigi. En þá á hans ómaga að dæma er hann á arf eftir að taka og þá aðra er búar bera að hann hafi fé með tekið svo að það væri jafnmæli. Ef fleiri menn eru jafnskyldir ómaga, þá eigu búar þeir fimm, er til féránsdóms eru komnir, að skipta því, og skal dæma för öllum að þeim hluta er honum byrjar til handa um fjórðung þann er féránsdómur er í áttur, ef hann varð á alþingi sekur. Ef fjórðungsmenn hafa skipt fjórðungi til ómagaframfærslu, þá á það að halda allt er þeir urðu á sáttir. Nú eru þing tvö á einum þingvelli. Þá skulu þeirra ómagar fara um þau þing bæði, er í því öðru þingi urðu sekir, enda svo áttur féránsdómur að.

Það er mælt að eigi er skylt til féránsdóms að færa barn það er maður varð sekur um faðerni né kveðja gagna til, og á því för að dæma.

Nú gera þeir menn eigi ómaga færa til féránsdóms, er skyldir eru til að lögum. Þá ráða þeir sér á hendur ómaga, ef þeir vissu að féránsdómur skyldi vera, og máttu til komast fyrir nauðsynjum. Nú fela menn fyrir þeim ómaga, og ráða þeir sér á hendur ómaga, en eigi eru erfingjar þeirra skyldir til.

Nú verða menn eigi varir við að féránsdómur skyldi vera, eða máttu þeir eigi til komast með ómaga. Þá skal lýsa hið næsta sumar eftir á hendur þeim fjórðungsmönnum eða þingunautum, er sá goði er í þingi er nefna lét féránsdóminn, og kveðja hann til tylftarkviðar hvort N.N. væri ómagi hins sekja manns eða eigi, en heimilisbúa sína fimm að skilja um það hvort hann mætti komast til féránsdómsins eða eigi fyrir nauðsynjum. Ef kviðir þeir ganga í hag sækjanda, og koma eigi lögvarnir fram, þá skal dæma för ómögum í alþingisdómi, jafnt sem féránsdómur átti að dæma ef þeir hefði þar til komið.

32. UM FÉRÁNSDÓM.

Jafnt skal eiga féránsdóm eftir fjörbaugsmann sem eftir skógarmann og gögn öll til færa, og svo skulu menn fé sín þar heimta, þeir er átt hafa að honum, og svo skal dæma för ómögum þeim er hann átti.

Nú varð maður sekur um dómrof eða um fé, þá skal fé það allt gjaldast að féránsdóminum, svo mikið sem gögn báru til. En ef fé það gelst eigi þar, þá verður hann sekur skógarmaður óferjandi. Nú verður hann sekur um spellvirki, og gjaldast eigi skaðabætur að féránsdómi. Þá verður hann og skógarmaður óæll.

Þar skal gjaldast mörk lögaura að féránsdómi goða þeim er féránsdóminn nefndi. Það fé heitir fjörbaugur, en einn eyrir þess fjár heitir alaðsfestur. Ef það fé gelst eigi, þá verður hann skógarmaður óæll. Nú gelst þar fjörbaugur og alaðsfestur, þá skal svo dæma sektarfé sem skógarmannsfé. Þar á goði og að hafa kú eða oxa fjögurra vetra gamlan, og á þá fjörbaugur að fara sem annað sektarfé, ellegar eignast goði þá mörk. Það er rétt að gjalda mörk þá þar að féránsdómi, enda er rétt að maður handsali að gjalda á fjórtán nátta fresti að heimili goða, og skal þá eindagi á því fé. Kostur er að gjalda í gripum svo sem lögmetendur virða til lögaura.

33. HEIMILI FJÖRBAUGSMANNS.

Þá er féránsdómur er áttur að fjörbaugsmann, þá skal segja til heimila hans. Hann skal eiga þrjú heimili. Þeirra skal eigi lengra í miðlum vera en fara megi um dag á annan veg. Hann skal heilagur vera að þeim heimilum og í örskotshelgi við á alla vega, og á götunni á millum heimilanna, ef hann fer eigi oftar en um sinn á mánaði, og í örskotshelgi við götuna. Nú fara menn á móti honum, þá skal hann fara af götunni svo að þeir um taki eigi spjótaoddum til hans. Óheilagur verður fjörbaugsmaður ef eigi er sagt til heimila hans að féránsdómi. Þar skal nefna votta að fjörbaugur galst eða annað það fé er hann yrði sekur skógarmaður ef eigi kæmi fram.

Ef féránsdómur er áttur að þann mann er sekur er orðinn skógarmaður ferjandi, þá skal nefna votta þar að allri sekt þeirri er gögn báru að honum væri mælt, og á sú öll að halda. En ef hann er jafnvandhæfur og fjörbaugsmaður, þá á þar að féránsdómi að kjósa honum heimili þrjú, jafnt sem fjörbaugsmanni.

Ef fjörbaugsmaður gerir fjörbaugssök, og varðar honum skóggang. En engi maður skal banna för fjörbaugsmanni eða skógarmanni ferjanda, þótt fé eigi að þeim.

34. BEIÐA FARS FJÖRBAUGSMANNI.

Sá maður er fjörbaugsmanni fylgir til skips skal beiða fars með votta, að þeir taki við honum, og láta bera vættisvætti þau er nefnd voru að féránsdómi, hve fyrir sekt hans var mælt, og svo þau er fjörbaugur galst ef hann var fjörbaugsmaður, eða þau fé önnur er hann yrði skógarmaður ef eigi gyldist. Ef vættisvætti þau koma fram, þá varðar þeim útlegð þriggja marka, bæði stýrimanni og hásetum, ef þeir tóku eigi við honum. Ella er vítilaust þeim. Hann er jafnheilagur á götu er hann fer til skips sem hann fari á millum heimila. Honum skal beiða fars að skipi öðru og láta bera vætti það er er hinneg var nefnt. Ef honum er synjað þar, þá skal beiða að hinum sama hætti á hið þriðja skip, enda er eigi skylt þá að beiða á fleiri skip á því sumri þótt þeir syni, en þeim varðar jafnt öllum synjunin. Þá eru þeir og eigi útlagir, ef þeir hafa tekið við þrem fjörbaugsmönnum eða skógarmönnum áður þeir hafa beiddir verið, þó að þeir syni þessum. Hann skal þá fara til vista sinna hinna sömu. Hann er og jafnheilagur í þeirri för til þess er hann kemur aftur til heimila sinna og svo á gistingum, ef hann fer fullum dagleiðum. En annað sumar skal hann og svo hið sama við för leita, og svo verða þeir enn útlagir er þá synja. En hið þriðja sumarið varðar fjörbaugsgarð öllum þeim er þá synja, enda helpur honum það ekki að vetri ef hann er hér staddur.

Ef þeir taka við honum, og er hann að skipi meðan þeir hafa búðir á landi, þá er hann heilagur í örskotshelgi á alla vega á land við búðina. En þó að skip liggi firr búð en svo, og er hann þó heilagur þar á milli. En á lengur er þeir hafa búðir á skipi, þá er hann heilagur í örskotshelgi á land upp á alla vega þaðan frá fjöru er skemmst er til lands frá skipi, enda skal svo hvargi er þeir liggja við Ísland á því sumri, eða við þær eyjar er byggðar eru. En ávallt er þeir liggja í bryggjulægi við Ísland, þá er hann heilagur í örskotshelgi frá bryggjusporði á alla vega. Ef þeir verða afturreka, eða halda þeim veður í hinni sömu höfn, og komast þeir eigi á brott, og skal hann eigi ganga fyrr af skipinu en skip er brotið svo að eigi er í för búanda á því sumri, eða eytt svo ella að þeir hafa eigi lið til braut að halda. Ef þeir verða afturreka, og koma þeir til þeirrar hafnar er þeir vilja skipi til hlunns ráða, þá er slík helgi hans mælt þar að skipi sem þá er hann kom til skips meðan búðir haldast að skipi og stýrimenn eru þar, enda er hann ávallt jafnheilagur að skipi. Enda skal hann jafnt leita við brottförina þeirra þriggja, enda er hvert sumar frá öðru slík helgi hans mælt. En þegar er hann leitar nokkurt sumar eigi svo við brottförina sem mælt er, þá er hann haust það sekur maður að vetri, dræpur og óæll.

Ef hann verður afturreka, þá skal hann til vista sinna fara, hinna sömu, ef hann kemur sams fjórðungs við þær. Nú kemur hann eigi í þann fjórðung, þá skal hann taka sér vist þar er hann vill á þeim hálfum mánaði er þeir verða landfastir, enda er hann jafnheilagur á þeirri götu og á gistingum sem þá er hann fór til skips. Kost á hann að fara til hinna sömu vista sinna ef hann vill það, enda er jöfn helgi hans meðan hann fer svo með sér sem mælt er. Hvort er hann fer fullum dagleiðum, þá er slík helgi hans, en hið þriðja sumar verður hann skógarmaður að vetri, ef hann kemst eigi á brott þá.

Ef hann kemur fyrr út hingað en hann hafi þrjá vetur á brott verið, og verður hann skógarmaður. Nú fær hann tylftarkvið þann að hann varð sæhafi út hingað, og hann vildi til annars lands farið hafa. Þá skal hann svo við brottför leita sem það sumar yrði hann fjörbaugsmaður. Ef hann kemur út hingað þá er hann hefir þrjá vetur á brott verið, þá er hann svo sýkn sem aldregi kæmi sú sekt á hendur honum. Hann skal þá taka erfðir allar, slíkar sem þá ber til handa honum, og svo skal hann taka við ómögum þeim er að féránsdómi voru fyrir hans sakir á för dæmdir, og svo við þeim er þá ber til handa honum, og svo gjalda skuldir sínar ef vanloknar voru er hann fór héðan, ef hann hefir fé til.

Rofnar sekt fjörbaugsmanns ef eigi verður að lögum áttur eftir hann féránsdómur, og skal sækja þá um og gera þá sanna að því er féránsdóm skyldu eiga, og á hver að sækja þá sök er vill, enda rofnar sekt fjörbaugsmanns, hvergi er þá sækir.

35. EF EIGI ER ÁTTUR FÉRÁNSDÓMUR.

Ef menn eigu eigi féránsdóm eftir þá menn er þeir hafa sekta, eða eigu þeir eigi að lögum, þá varðar fjörbaugsgarð hvatki er þess þrýtur að því er eigi verður að lögum féránsdómur áttur, er honum liggur á hendi, en þeir menn eigu sök þá er til ómaganna standa, þeirra er för átti að dæma að féránsdómi ef áttur væri. Nú vilja þeir eigi, þá eigu þeir er fé áttu að honum, þá er hann varð sekur. En ef þeir vilja eigi, þá á hver er vill.

Ef goðinn ger eigi nefna féránsdóm, enda sé hann að lögum beiddur, eða hverigar vanlyktir, er þær koma af goðans hendi, að eigi sé áttur féránsdómur að lögum, þá varðar goðanum fjörbaugsgarð, og á sá sök er féránsdóms beiddi.

Goða er rétt að selja öðrum manni í hönd að nefna féránsdóm, ef fleiri menn hafa beiddan hann en einn, og sínum þriðjungsmanni, enda varðar þeim og fjörbaugsgarð er goðinn seldi að nefna féránsdóm, ef af hans völdum verður eigi áttur að lögum féránsdómurinn. Goðinn sekst ef hann getur engi til að nefna féránsdóm, og ábyrgist hann þótt fleiri menn hafi kvaddan hann en einn.

Ef sá maður verður sóttur er hinn hafði sektan um það að eigi hafi verið féránsdómur áttur að lögum að þann mann er hann sekti, þá skal hann það hafa til varnar fyrir sig að sækja goðann um og gera hann sannan að völdunum þess er féránsdómur varð eigi áttur að lögum. Ef goðinn er um sóttur, enda hafi hann öðrum manni í hönd selt að lögum að nefna féránsdóminn, þá skal hann og sækja þann um og verja svo fyrir sig. Sá þeirra sekst um er völdin berast á hendur. Það eru stefnusakir, og skal kveðja níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Of þá menn er fé það hafa að varðveita er sá maður hafði átt er sekur er orðinn. Nú ef þeir fregna hvar hinn hafði beitt féránsdóms, þá eru þeir skyldir að koma þangað og segja þar til fjár þess, hvorts þar tekst féránsdómur eða eigi. Nú verður þar engi mannafundur, eða fregn hann eigi hvar féránsdómur skal vera, eða mátti hann eigi til komast fyrir nauðsynjum, þá skal hann segja til á leið þeirri er hann heyr, hvað hann hefir þess fjár að varðveita, og svo á vorþingi, og svo á alþingi eftir um sumarið, enda er rétt að hann segi til á alþingi það sumar er hann veit að hinn varð sekur, svo að það heyri meiri hluti manna og þingheyjanda.

Það er mælt um þá menn, er þeir áttu fé að þeim er sekur er orðinn skógarmaður, enda sé eigi áttur féránsdómur, að þá skulu þeir stefna þeim mönnum er þeir vitu að féin hafa, þau er sá átti hinn seki, til alþingis og til þess fjórðungsdóms, þeim öllum er hinn varð sekur í, enda er rétt að lýsa að Lögbergi og sækja hið sama sumar, utanfjórðungsmönnum, eða þeim er svo síð fregna að eigi um stefnir. Skulu þeir menn allir færa þangað gögn sín er fé höfðu átt að honum, jafnt sem til féránsdómsins, enda skal svo dæma fjórðungsdómur þeim öllum sína aura sem féránsdómur ætti að dæma ef áttur væri að lögum.

Ef sá maður hleypst á brott af landi, er sekur er orðinn, með fé það er hann átti, eða er hann austur, þá er sekt kemur á hendur honum, með það fé er hann á og sekt ætti að verða hér að féránsdómi. Nú kemur hann út með fé það eða það er hann hefir af því æxt, enda verði það tekið af honum hér, hvorts hann verður drepinn eða eigi, og á sá heimting til þess fjár er hann hefir sektan.

Þeir menn er svo verða sekir gervir að eigi er sekt féið þeirra, þá eigu erfingjar að taka arfinn, ef þeir andast meðan þeir hafa eigi farið sýknu sinni, þeirri er þeim var mælt. En hinn á heimting fjárins alls er hinn sekti, þegars hann hefir sýknunni þeirri sinni farið er honum var mælt áður hann yrði sekur skógarmaður óæll og óferjandi, og skal það þá fara sem sektarfé annað.

36.

Það er mælt um þá menn er sekir verða skógarmenn, að eigi kemur úr alþingisdómi sekt þeirra upp full. Þá skal stefna um björg þeirra og láta varða fjörbaugsgarð og stefna til fjórðungsdóms, og kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er. Enda skal þar láta bera í dóm vættisvætti þau er nefnd voru að féránsdómi, hve fyrir sekt hans var mælt.

Nú hefir eigi áttur verið féránsdómur, þá skal láta bera vætti þau í fjórðungsdómi sem í féránsdómi skyldi, ef áttur væri. Nú á lengur er nokkur maður er sóttur um björgina þess skógarmanns, á þessa lund sem nú er talið, og vætti þau hafa fram farið í féránsdóminn, þá varðar þeim mönnum öllum skóggang er þá bjarga þeim skógarmanni síðan, og skal þá menn sækja í fimmtardóm. En hin sama sókn er við þá er fyrr hafa borgið honum sem áður var tínt.

Þeir skógarmenn er farning er mælt, enda verður eigi áttur féránsdómur eftir þá, skal kjósa þeim heimili eitt og segja búum fimm, þeim er næstir búa heimilinu, enda verður hann þar heilagur á lengur að því heimili sem þá að körið væri að féránsdómi, og svo skal á götu til skips þaðan frá því heimili, enda skal hann láta bera þau vætti fram er honum er fars beitt sem í féránsdóminn skyldi, ef áttur væri, nema honum væri helgi meiri mælt en fjörbaugsmanni, og þarf eigi þá að kjósa honum heimilið.

Þeir menn er sýkna er lofuð að lögréttu og upp sögð síðan svo að Lögbergi að þeir skyli vera ferjandi, þá skal þeim svo beiða fars sem fjörbaugsmanni, eða þeim skógarmanni er að sátt verða sekir, og láta bera þau vætti til er nefnd voru að uppsögunni, hver sýkna honum var lofuð. Ef þeir menn fara sýknu sinni, þeirri er þeim var lofuð, þá skal svo sækja um björg þeirra og láta slíkt varða björg þeirra sem skógarmanna er að sátt verða sekir.

Ef mönnum er sýknulofs beðið að lögréttu, skógarmönnum eða fjörbaugsmönnum, og á það því aðeins standast ef allir lögréttumenn leyfa, enda veri engi maður lýriti fyrir utan lögréttu, svo að þeir menn heyri er í lögréttu sitja. En ekki eigu annarra manna orð að standast þótt í gegn mæli en lögréttumanna, ef eigi verja lýriti.

Þeir menn er sekir fara utan héðan, ferjandi menn, þá eru þeir helgir erlendis sem engi sekt sé á hendi þeim hér fyrir þeim sökum. Ef þeir menn er hér eru gervir skógarmenn óælir og óferjandi, þá eru þeir jafnt dræpir og óhelgir erlendis sem hér fyrir órum löndum.

37.

Vér skulum eiga vorþing á landi voru. Skulu goðar þrír eiga þing saman. Þeir skulu eigi eiga þing lengra en viku þing og eigi skemmra en fjögurra nátta þing nema lofs sé að beðið í lögréttu.

Vorþing skulu þeir eigi eiga síðar en sex vikur sé af sumri er lokið er sóknarþingi. Vorþing skal eigi fyrr vera en fjórar sé af sumri er þeir koma til. Eigi skal nær stefna vorþingi en tvær vikur sé til þess vorþings er sökinni er til stefnt, en gagna skal til kvatt vera viku fyrir þing eða meira méli, nema síðar komi upp sökin, þá skal stefna svo nær vorþingi sem vill, nema heimankvöð sé til, þá skal stefnt hið síðasta viku fyrir þing og kvatt gagnanna.

Þeim sökum skal stefna til vorþings, er menn eru samþinga. Manni er rétt að stefna í það þing er hann er sjálfur í, enda er rétt að stefna til þess þings er sá er í, er hann hefir sakir á hendi.

Goðar þeir allir er í því þingi eru skulu koma til þings öndverðs. Goði sá er þinghelgi á þar, hann skal þar þing helga hinn fyrsta aftan er þeir koma til þings. Skal réttur manns hálfu aukast meðan á því þingi er, í orðum og í öllum áunnum verkum. En goði skal kveða á þingmörk, hver eru, og skal hann svo þing helga sem alþingi, og skal hann kveða á hve þing heitir.

Ef goðar koma eigi til þings öndverðs, þá varðar þeim það útlegð og úr goðorði sínu, nema sakar sé til þings, þá varðar fjörbaugsgarð. Ef sakir eru til þingsins, og svo þótt þar gerist, og eigu þeir menn sakir þar að sækja er sakir hafa búnar til þings þess. Nú vilja þeir eigi, þá eigu samþingisgoðar hans, sá þeirra er heldur vill sótt hafa og á þingi er, ef eigi eru báðir. Nú vilja þeir eigi, þá eigu innanþingsmenn fyrst en þá hver er vill.

Vorþingum öllum skal nafn gefa. En þingheyjendur skulu eigi síðar koma til vorþings en nótt sé af þingi, og svo þeir menn er með sakir fara, og svo skulu þeir menn eigi síðar koma til þings er gagna eru heiman kvaddir en nú hefi eg talið. En ef þeir menn koma síðar er sakir hafa til þings eða sakir vilja verja, og verða ónýtar sakir þeirra og svo varnir ef þeir koma síðar til vorþings en nótt sé af.

Rétt er að vorþing sé skemmra en fjögurra nátta þing ef þingunautar eru allir á sáttir, og sé lokið sökum öllum þeim er búnar voru til þings þess.

Enskis eigu vottar að kveðja í gegn til vorþings.

Nefna skal þá menn alla í dóm er fyrr koma til þings en dóm skal nefna. Ef sök kemur upp síðar en tvær vikur eru til vorþings, enda sé heiman kvatt til, þá skal stefnt viku fyrir þing og svo kvatt gagna til. Nú kemur síðar upp sökin en vika sé til þings, þá skal kveðja búa til á þingi. Rétt er bónda að senda mann til þings að heyja þing fyrir sig, þann mann er samþingi er við hann. Enda ef sakir eru búnar til vorþings, þá varðar goða fjörbaugsgarð ef hann kemur eigi til öndverðs þings, og svo þó að þar gerist.

Stefna skal um eindagað fé um hina helgu viku, ef hún er um þing, til alþingis, ef maður vill.

Ef þeir menn koma síðar til þings en nótt sé af þinginu, er lögskila eru heiman kvaddir, og verða ónýt lögskil þeirra manna ef þeir vilja fram færa. Ef þingheyjendur koma síðar til vorþings en nótt sé af þinginu, eða koma eigi til vorþings, og verða þeir útlagir um það við goðann.

Rétt er að bóndi fái griðmann sinn fyrir sig, og verður sá jafnréttur þingheyjandi sem bóndinn. Hann skal segja goða að hann mun þing heyja fyrir þriðjungsmann hans, og nefna þann annan.

38.

Goðar skulu þar dóm nefna, og skal hver þeirra tólf menn nefna í dóm að dæma um sakir þær allar er þar koma í dóm þann er þá skylda lög til. Hann skal bjóða til sakarsækjanda og sakarverjanda að rengja þá menn úr dómi, „og emk búinn annan í að nefna ef þessir verða úr rengdir að lögum“.

Það er og rétt að þeir hafi þingsköp þau er þingheyjendur verða á sáttir, hvervetna þess er þeir taka eigi af alþingismáli, en þeir eigu kost að auka er þeir vilja. Meiri hlutur goða skal ráða hvenær dómur skal út fara.

Of sakir þær allar er samþingismenn eigu saman, þá eigu þeir kost að vinna, hvorts sem þeir vilja, að hafa sakir til alþingis eða til vorþings, nema þar er útlegðir fara einar saman, en þær skulu fara til vorþings. En útlegðarsakir skulu eigi standa um vorþing, þar er þær fara einar saman, ef þær koma upp fyrir stefnudaga.

Það er mælt um ómagasakir, að þær skal vinna hvorts er vill, að lýsa til framfærslu ómaganum á vorþingi eða stefna heiman ella. Því aðeins er rétt að lýsa ómaga á hönd manni á vorþingi, ef sá er sjálfur á þingi er á hönd er lýst, og skal segja honum sjálfum með votta ef hann heyrir eigi á lýsing.

En ef menn vilja búa vígsakir eða legorðssakir til vorþings, þá er rétt, hvorts sem vill, að stefna heiman eða lýsa í þingbrekku. Ef lýsa skal sakir, þá skal kveðja búa hálfum mánaði fyrir þing eða meira méli. Það er og mælt að kvatt skal kviða allra og frumgagna áður dómur fari út, sem á alþingi.

39. UM DÓMAÚTFÆRSLUR.

Dómar skulu fara út svo að sakir komi í allar fyrr en sól sé undir. En menn skulu svo sakir hluta jafnt sem á alþingi, og svo eiða vinna og fara að sökum öllum, og svo að vörnum, sem á alþingi. Ef menn halda gögnum, þá varðar þeim slíkt sem á alþingi haldi þeir, en þeim á þar að stefna um í þingbrekku til dóms. Ef menn eru búakviðar kvaddir þar er tylftarkviður átti til að koma, þá eigu þeir það að láta standa fyrir kviðburð sínum að þeir eru þess kviðar kvaddir er þeir eru eigi réttir um að skilja. Ef goði er kvaddur tylftarkviðar þar er búakviður á um að skilja, og skal hann láta standa fyrir kviðburð sínum ef hann er eigi réttur um að skilja. Ef maður heldur gögnum, sá er utanþingsmaður er, og á hinn kost, hvorts hann vill, stefna honum þar í dóm eða til alþingis.

Ef þingheyjandi fer þaðan á brott úr þingmarki, og er á brott um nótt eða lengur, og varðar það fjörbaugsgarð, og er rétt að stefna þeirri sök í þingbrekku og þar til dóms. Skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

Öll þingsafglöpun sú er menn gera þar, og varðar slíkt þar sem menn geri á alþingi, og svo skal sækja að öllu um vorþingsafglöpun sem á alþingi væri gert. Ef vorþing verður svo afglapað að eigi megu mál lúkast þar fyrir þeim sökum, þá skal sá er þær sakir átti að sækja stefna þeim er valda um þingsafglöpunina og láta varða fjörbaugsgarð. Nú ef kviður ber á þá, þá má hann sækja þær sakir á alþingi og í þann fjórðungsdóm sem þing var í, og eigu þær svo þar að metast sem þær voru til búnar, enda eru gögn þau öll sjálfkvödd til alþingis er þar verða eigi af hendi leyst og áður var til kvatt, og svo gagnagögn.

Ef þing ber á hina helgu viku, að það á eigi fyrir þeim málum að standa er þar þarf að hafa á þingi, hvorki fyrir eiðum né fyrir stefnum. En eigi skal þá stefna til alþingis nema um eindagað fé.

Ef innanþingsmenn bera annaðtveggja, ljúgkviðu eða ljúgvætti, og skal þeim stefna þar í dóm og láta þeim varða það fjörbaugsgarð og kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er. Ef sá maður ber ljúgkviðu eða ljúgvætti er utanþingsmaður er, og er rétt, hvort sem hann vill, að stefna honum þar í dóm eða til alþingis ella, og skal kveðja goða þann, er sá er í þingi með er sækir, á vorþingi.

Hvervetna þess er á gögn er kveðið, og er stefnt til alþingis, og á svo dómur að dæma sem rétt borin sé gögnin. Ef á gögn er kveðið á vorþingi, þau gögn er máli þykir skipta með mönnum, þá skal dómur dæma svo sem gögn sé rétt borin. Þá skal dómi stefna til rofs sá er á gögnin kveður, og á dómur að rofna ef að ljúgvitni verður, ef dómurinn rofnar.

Þá skal svo fara að reifingum og að öllu sem að alþingisdómi, en þeir skulu dæma um sakir manna, og er þá vel ef þeir verða samdóma. En ef þeir verða eigi samdóma, þá skulu þeir véfengja og ganga til véfangs eigi færri en sex og fara svo að véfangi sem í alþingisdómi. Þar skal stefna mönnum á þingi eftir dóma um véföng, og láta þeim varða útlegð, og stefna til þess fjórðungsdóms er þingið er í fjórðungi, og stefna til rofs dómi þeirra, enda er rétt að stefna þeim um véföng heima í héraði að heimili hvers þeirra. Þau mál er menn hafa véfengd á vorþingi, þá skulu þau lúkast í fjórðungsdómi þeim sem þingið er í fjórðungi ef þar megu lúkast. En ef þar verður enn véfengt, þá skal lúkast í fimmtardómi. Vætti þau skal láta bera öll í fjórðungsdóm er þeir nefndu að hve þeir fóru að véfangi hvorirtveggju.

Eigi skal stefna innanþingsmönnum þeim stefnum er eigi skal sækja þar á þingi meðan sóknarþing er fast, enda er rétt að stefna innanþingsmönnum til alþingis lengur er sóknarþing er laust þó að skuldaþing sé fast. Honum skal svo stefna að hann heyri á sjálfur, enda er rétt að stefna honum að búð ef þeir finna hann þar að máli, enda er rétt að stefna ef hann heyrir upphaf, er vottar eru nefndir, þó að hann renni undan. Enda er rétt að stefna utanþingsmönnum á vorþingi þó að sóknarþing sé fast, og svo utanþingsmönnum, er rétt að stefna innanþingsmönnum þó að sóknarþing sé fast.

Ef utanþingsmanni er stefnt til vorþings, og eigu dómendur að dæma um þá sök ef eigi kemur lýrit fyrir þá sök. En honum er það rétt, hvort sem hann vill, að láta lýrit koma fyrir sök þá er honum er á hendi eða stefna dómi til rofs. Það er honum rétt, hvort sem hann vill, að stefna einum eða fleirum, og stefna um það að þeir hafi dæmt um utanþingsmann, og skal stefna til rofs dóminum. Þá skal hann kveðja sér bjargkviðar heimilisbúa sína fimm, að bera um það hvort hann var þá þar í þingi eða eigi með goða þeim er hann kveður á, þá er honum var stefnt. En ef hann fær þann kvið að hann væri þar í þingi, þá er honum var stefnt, þá rofnar dómurinn og verður ónýt sökin. Ef hann spyr svo síð að hann getur eigi stefnt á stefnudögum, þá er honum rétt, hvort sem hann vill, að stefna svo nær alþingi sem hann vill eða lýsa að Lögbergi til sóknar hið sama sumar. Nú kemur hann eigi til þings, þá er rétt að sá taki til er vill að verja fyrir hann svo sem sá sé réttur aðili, ef hann hefir eigi áður spurt.

Manni er rétt að láta lýrit koma fyrir sök þá er honum er á hendi. Hann skal fara til fundar við goða þann er hann er í þingi með, enda er rétt að annar maður taki lýritinn af goðanum. Hann skal nefna sér votta „í það vætti, að eg spyr þig eftir,“ og nefna goðann, „hvort þú hefir goðorð þitt það er þú nefnir dóma með eða ber tylftarkviðu, eða hafir eigi“. En goði skal svara honum. En hinn skal nefna votta að svörum þeim er verða og goðinn svarar honum. En ef goði svarar því að hann hafi goðorð það, þá skal hinn nefna sér votta í það vætti, að hann tekur lýritið af goðanum, en goðinn selur honum goðalýrit, löglýrit fullan, að verja dómendum að dæma um sök þá, og nefna sökina og nefna mann þann er honum hefir stefnt, og svo gögn öll fram að færa, þau er lýrit á fyrir að koma. En ef sá maður tekur lýritinn, er eigi á sökin á hendi að vera, fyrir hinn er sökin er á hendi, og skal þá nefna þann á nafn er sökin er á hendi, og fara því máli á lengur sem áður var tínt.

Nú vill goði eigi selja lýritið fyrir þriðjungsmann sinn, og á hinn þá að beiða hann með votta lögbeiðing, og varðar honum þá fjörbaugsgarð, og skal sækja við vottorð það er hann var beiddur. Goðinn á að beiða sér bjargkviðar búa sína fimm, hvort hann vissi að sá maður væri þar þriðjungsmaður er sökin var á hendi, eða vissi hann eigi. Nú ef það ber kviður að hann vissi eigi, og hann mundi selja lýritinn ef hann vissi víst að sá maður væri þar í þriðjungi, og verst hann þá sökinni.

Hann skal fara til þings, er lýritinn hefir tekinn af goða. En hann skal ganga þangað til er dómurinn er settur, en hann á þar að verja lýriti það er dómendur heyra á. Hann skal færa fram, hvort sem hann vill, áður sök sé fram sögð á hendur honum eða síðan. Hann skal nefna sér votta, áður hann færi lýrit fram, „í það vætti, að eg ver lýriti, goðalýriti, löglýriti fullum, dómendum að dæma um sök þá,“ og kveða á sökina, „þá er hann hefir á hendi honum eða mér,“ og nefna goðann og svo þann mann er sökin er á hendi, ef hann ver fyrir annan mann. Enda skal hann svo verja kviðmönnum lýriti að bera kviðu um hann ef hann vill, og svo öll gögn nema stefnuvætti, nema fleiri gögn sé fram komin áður.

Ef menn bera þá ofliði og láta þá eigi ganga til dóms, þá eigu þeir að nefna sér votta og beiða þá að þeir gangi til dóms, en ef þeir ná eigi að ganga til dóms, þá skulu þeir þar verja lýriti er þeir koma framast og mæla þar þeim málum öllum sem að dómi.

Það vætti skal láta bera, ef hinn tók af goðanum lýritinn, en þeir skulu hafa öll orð slík í vættisburð sínum sem þeir voru að nefndir, þá er hinn tók lýritinn af goðanum. Þeir skulu eiða vinna áður þeir beri vætti, jafnt sem á alþingi. Ef goði færir lýrit sinn sjálfur fram, hvort sem hann færir fyrir sig eða fyrir annan þriðjungsmann sinn, og skulu þar engi tökuvætti fylgja. Hann skal nefna sér votta „í það vætti, að eg ver lýriti mínum, löglýriti, dómendum að dæma um sök þá“. Þar þurfu engi tökuvætti að fylgja né eiðar.

40. UM DÓMENDUR.

Dómendur skulu nefna sér votta og láta það standa fyrir dómi sínum að goðalýrit er komið fyrir sök þá, og nefna sökina, og svo ef fleiri eru. Ef kviðar er kvatt til sakar þeirrar, og eigu þeir að nefna sér votta í það vætti, að þeir láta það standa fyrir kviðburð sínum, ef þeim var varið að bera kviðinn, að goðalýritur er kominn fyrir sök þá. Ef vætti fylgir sökinni, þá eigu þeir það að láta standa fyrir vættisburð sínum að goðalýritur er kominn fyrir sök þá. Sá maður er lýrit hefir fram færðan, hann skal nefna votta að því hver gögn eru fram komin til varnar, og tína þau, og nefna hinn er sökin er á hendi. En sá maður er sökina hefir að sækja, hann skal nefna sér votta í það vætti, hver gögn eru fram komin til sóknar. Hann skal það vætti láta bera í alþingisdómi.

Of sakir þær allar er lýritur kemur fyrir á vorþingi, þær skulu fara til alþingis og í þann fjórðungsdóm er þingið er í fjórðungi og gögn þau öll er óborin verða á vorþingi, þá eru þau sjálfkvödd til alþingis og svo gagnagögn.

Ef goði selur lýrit fyrir annars þriðjungsmann, og er hann útlagur um það og úr goðorði sínu. Ef maður færir lýrit fram, annan en goðalýrit, og varðar það fjörbaugsgarð hvorumtveggja, og er það stefnusök hvorttveggja, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er, að bera um það hvort hann tók lýrit af goða eða eigi. Þá á hann að beiða sér bjargkviðar búa sína fimm, hvort hann hugði að sá maður færi með goðorð, er honum seldi lýrit. En ef sá kviður verður borinn á goðann að hann hefði eigi goðorð þá með að fara er hann seldi lýritinn, og sekst hann þá. Ef goði er sóttur um það að hann hafi lýrit sinn látið koma fyrir annars goða þriðjungsmann, og á hann sér bjargkviðar að beiða búa sína fimm, að bera um það hvort hann var þar þá í þingi eða eigi, er honum var stefnt. En ef það ber kviður að hann var þar þá í þingi, þá verst hann sökinni.

Ef maður er spurður með votta hvar hann var í þingi eða í þriðjungi. Nú svarar hann því að hann var þar í þingi sem honum var stefnt til. Ef maður færir lýrit fyrir sök þá, og á sá lýritur eigi að standast er vætti þau komu í dóm fram, þar er sá var spurður þingvistar, er sóttur er.

Ef maður spyr mann með votta hvar hann er í þingi, enda hittir hann einan hann í haga úti, og er honum rétt það að hann svari því að þeir gangi til húss og hann muni þar svara honum er hann hefir votta við, ef hann vill eigi þeim vottum hlíta er hinir hafa.

Ef maður svarar einugi er hann er spurður með votta hvar hann er í þingi, og varðar honum það útlegð, enda skal hann til þess þings stefna honum er hann er sjálfur í, er með sökina fer, og á eigi lýritur fyrir þá sök að koma. Ef þeir eigu fleiri goðorð það saman, er hann hefir þriðjungsvist með, og er honum rétt að hann svari því: „Með þeim þeirra em eg er með goðorð það fer,“ og nefna þá.

Ef maður stefnir öðrum í það þing er hvorgi þeirra er í, og verður hann útlagur um það og ónýt sök hans.

Búanda er rétt að senda annan mann til að heyja þing fyrir sig, þann mann er samþinga sé við hann, en hann skal fara hinn fyrsta aftan er hann kemur til þings að finna goðann og segja honum að búandinn hefir hann sendan þangað að heyja þing fyrir hann, og verður sá réttur að nefna í dóm og svo tylftarkviðu að bera með goðanum. En goði á þess kost, hvort sem hann vill, að sækja bóndann um heimasetuna eða ella heimta þingfararkaup að honum, hálfan eyri, ef hann sendir engi mann til að heyja þing fyrir sig. Ef bóndinn gengur úr þingi goðans fyrir þær sakir að hann var sóttur um heimasetuna, og varðar honum það þriggja marka sekt, og á goðinn þá sök að sækja.

Ef þingheyjendur eru um nótt af vorþingi, eða svo að það standi fyrir gögnum, þá varðar þeim fjörbaugsgarð, og kveðja skal búa níu á þingi, hvora sem hann vill, heimilisbúa þess er sóttur er eða hina er næstir búa þingvellinum, en hver á að sækja þá sök er vill.

Ef maður er kvaddur vottorða til þinga tveggja, þá skal hann fara til þess þings er hann er í, en hann skal rétta vættið, það er til hins þingsins skal. Ef hann er búakviðar kvaddur til annars þings, en til annars þings vottorðs, og skal hann rétta vættið og fara til þess þings er hann er búakviðar kvaddur. Ef hann er kvaddur búakviðar til tveggja þinga, og skal hann til þess þings fara er hann er fyrr kvaddur.

Goðinn á það að gera ef hann vill að ganga í þingbrekku á vorþingi og nefna sér votta í það vætti, að hann skal beiða alla þingheyjendur er þar eru í þriðjungi með honum að þeir skulu fara með honum til alþingis, og þeir skulu hluta eða skipta annan veg með sér ella, en fara skal hinn níundi hver þingmanna hans og þingheyjanda.

Þing skal laust segja að miðjum degi, þann dag er menn hafa fjórar nætur verið en eigi fyrr, nema þingunautar verði allir á eitt sáttir, enda sé settar sakir þær allar eða dæmdar er þar voru búnar til þess þings.

Þing skulu standa svo öll sem nú eru sett vorþing. En ef menn vilja muna vorþingi, og skulu samþingisgoðar það handsalast og segja til þriðjungsmönnum sínum á leið. Þess eigu þeir og kost, ef þeir vilja, að slíta svo þingi að þeir færi tvö saman, ef þó væri áður slitin, og verði þeir allir á það sáttir, þeir goðar er í þeim þingum eru. En þeir skulu biðja lofs að í lögréttu og segja upp að Lögbergi, og skulu þeir nafn gefa þinginu og kveða á þingmörkin.

Ef menn verða sekir á vorþingi, og skal kveðja féránsdóms, dag þann er sóknarþing er laust, goða þann er sá er í þingi með er sekur er orðinn, að eiga á fjórtán nátta fresti að heimili þess er sekur er orðinn, og fara svo að féránsdómi þeim sem þá að hann yrði sekur í alþingisdómi.

Ef menn verða sekir á vorþingi, og eru þeir menn alnir þar á milli er féránsdómur er áttur að þeim og til sektar þeirra er sagt er að Lögbergi, og varðar það fjörbaugsgarð, en þeirri sök skal stefna heiman og kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er. En þeim einum mönnum varðar eldi þeirra manna, er sekir verða á vorþingi, er fregna.

Of ljúggögn þau öll er borin verða á vorþingi eða á héraðsdómum heima í héraði, þegnskaparlagning eða kviðburði eða vætti, það varðar fjörbaugsgarð. Það eru stefnusakir, og skal kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er.

41.

Ef maður verður sekur að sátt, en þá verður maður sekur að sátt er hann handsalar sekt sína, eða svo handsalar hann að hinn skal gera sekt hans ef hann vill. Það er mælt að eigi gerir einn maður sekt manns nema á sé kveðið á sektina þá er hann handsalar sektina, og skili þeir þá fyrir þegar. Ef hann hefir svo handsalað að hann skyli gera sekt hans ef hann vill, þá má hann eigi um gera sekt hans annan veg en nefna til ellefu menn, en hann sé sjálfur hinn tólfti. En ef á var kveðið á sekt hans, þá er sektin var handsöluð, og megu þeir eigi gera aðra sekt hans þá en til var skilið fyrir vottum. En bera skal vætti það áður sáttin sé upp sögð, svo að sáttarmenn heyri, er að var nefnt þá er hann handsalaði sektina. Ef annar maður handsalaði sekt hans en hann sjálfur, þá skal vætti það láta bera þar áður sáttin sé upp sögð, er hann hafði honum í hönd sektarhandsalið selt. Þeir skulu eiða áður vinna, og svo vinna eiða og vætti bera að sættarmenn heyri. Ef maður handsalar manni sátt slíka sem hann vill gerva hafa, usque in finem „og á það að halda“.

Ef maður handsalar manni á kveðna sekt sína skýrt, þá þarf eigi að dæma. Segja skal þá til að Lögbergi. Eigi um gerir sekt manns ella nema á sé kveðið á sektina þá er hann handsalar sáttina, en hann um gerir eigi ella sektina nema hann geri með tólfta mann, en það vætti skal láta bera áður annar maður handsali sekt hans. Þeir skulu svo eiða vinna og vætti bera að sáttarmenn heyri.

Þær eru lögsektir þrjár á landi voru. Ef maður er ger skógarmaður óferjandi, eða fjörbaugsmaður, en sú hin þriðja að auka svo fjörbaugssekt að hann skyli eigi eiga fært út hingað.

Ef menn verða tveir aðilja að einni sök, og vill annar búa til vorþings en annar til alþingis, og á sá að ráða er til alþingis vill búa. En ef hinn hefir búið til vorþings sökina, þá á hinn kost, hvort sem hann vill, hafa til alþingis að láta lýrit koma fyrir sökina eða stefna ella dóminum til rofs.

Ef fjörbaugssakir eru tvær á hendi manni einum og í einum dómi, og skal þá dæma hann skógarmann ef einn er aðili að báðum. Ef þær sakir eru tvær á hendi manni, fjörbaugssök og skóggangssök í einum dómi, þá skal dæma eftir skóggangssökinni, og á sá féránsdómi upp að halda. En ef skóggangssakir eru tvær á hendi einum manni, og hafa tveir menn þær sakir með að fara, og skulu þeir hluta með sér hvor þeirra skal féránsdómi upp halda, en hvortveggi þeirra skal færa gögn sín til féránsdóms og láta það bera hve mælt er fyrir sekt hans. En þeir eigu báðir jafnt sektarfé, og svo að sækja um björg hans.

En ef tveir menn hafa sakir á hendi einum manni, og skulu þeir hluta með sér hvor þeirra skal upp halda féránsdómi. Nú hverigi vanlyktir er hann átti sekur um að verða við báða, þá skulu þeir svo skipta með sér sem þeir hafi báðir gervan skógarmann. En ef við annan þeirra verður muna vant, þá er sem hann hafi einn sektan hann, en skipta skulu þeir sektarfé að öllu öðru með sér sem áður.

Hvorts vant er meiri bóta eða minni á sekt hans þá að hann sé skógarmaður óferjandi, enda komi skóggangssök á hendur honum, þá skal sækja hann sem sýknan mann og sækja hann fullri sekt.

Ef maður verður fjörbaugsmaður, og eigu menn honum eigi farar að banna, enda á eigi sekt hans að aukast nema hann geri þær sakir að hann verði skógarmaður um að vera.

Hvorts sem maður verður sekur að sátt eða á vorþingi, og standa sakir á hendi honum, annaðtveggja fjörbaugssök eða skóggangssök, og skal sá maður er þær sakir á að sækja stefna hinum, er sektan hefir hann, og láta honum varða fjörbaugsgarð það er hann sekti hann breksekt, og hann vildi hans mál í því eyða og hann mundi eigi sækja hann ef eigi stæði sú sök á hendi honum, og skal hann kveðja til heimilisbúa níu þess er sóttur er, að bera um það hvort hann mundi sækja hann til sektar þeirri sök eða eigi, og hann vildi í því eyða þá sök er hann fer með. Ef það ber kviður að hann vildi í því hans sök eyða, og varðar þeim það fjörbaugsgarð er sektan hefir hann, og heitir það þá breksekt, enda á dómurinn þá að rofna.

42. LEIÐARMÁL.

Vér skulum leiðir eiga, og skulu goðar þeir eiga leið saman er þing eigu saman, og skal þar leið þeirra vera sem þingstöð þeirra er, nema þeir fái lof til annars. Leið skal eigi vera síðar en drottinsdag þann er laugardaginn áður lifa átta vikur sumars, enda skal eigi leið vera fyrr en fjórtán nætur eru frá alþingi. En leið skal engi vera skemur en dagstundar leið, og eigi lengur en tveggja nátta leið.

En leið skal svo helga jafnt sem þing, enda eykst réttur manns þar á leið helgaðri sem á þingi. Þar skal nýmæli öll upp segja, á leið, og misseristal og imbrudagahald og langaföstuígang og svo ef hlaupár er eða ef við sumar er lagt, og svo ef menn skulu fyrr koma á alþingi en tíu vikur eru af sumri. En sá goði skal það tína er þinghelgi á, nema þeir hafi því skipt annan veg með sér.

Þingmenn allir eigu að gera sér búðir þar er þeir eru í þingi, ef þeir vilja. Þeir eigu hross sín þar að hafa meðan þeir eru á leið eða á þingi eða búðir gera sér. Ef þeir eigu búðir er farnir eru úr þingi þaðan, þá skulu þeir eigi oftar þar gera búðir, en þeir eigu bótsama um þær búðir ef þeir vilja. En ef þeir gera þar búðir, þá eru búðirnar útlagar við þann er landið á undir, hvort sem þar á þingmaður eða annar, en hann sekst á gerðinni.

Ef búðir manna falla, annaðtveggja á alþingi eða á vorþingi, og falla til jarðar og liggja niðri svo þrjú sumur, þá á hver að gera sér þar búðir er vill.

43. FÉRÁNSDÓMUR.

Það er mælt að hver þeirra manna er sekur er orðinn, þá skal eiga féránsdóm eftir, enda skal kveðja féránsdóms að þinglausnum goða þann er sá er í þingi með er sekur er orðinn, og eiga fjórtán nóttum eftir vopnatak að heimili þess er sekur er orðinn, í örvarskotshelgi, þar er hvorki sé akur né engi. En ef hann veit eigi heimili hins sekja manns, þá skal hann eiga féránsdóminn að heimili goða þess er sá er í þingi með er hinn sekti. Enda á svo að fara þá ef hann veit eigi þingvist hans sem þá að hann viti eigi heimili hans, að hann skal kveðja til dómsuppsöguvotta þrem nóttum fyrir féránsdóminn eða meira méli, ef hinn verður í dómi sekur, en ellegar það vætti er var nefnt þá er hinn var í sátt sekur ger, og skal láta bera vættisvætti það er að því var nefnt, er hinn handsalaði sekt sína.

Þeir menn, er fé eigu að þeim manni er sekur er orðinn, þeir skulu kvöðuvotta sína hafa til, en þeir búa er eigi hafa votta til, fjórum nóttum fyrr eða meira méli. Sá á búa að kveðja til er sekti hinn, þrem nóttum fyrr eða meira méli, að skilja um það hvað þar er sektarfjár. Eru þeir búar jafnskyldir að skilja um allra þeirra mál er fé hafa átt að þeim er sekur er orðinn og eigi hafa votta til.

Ef ómagar koma til féránsdómsins, og skal beiða tylftarkviðar að bera um það hvort þeir voru hans ómagar eða eigi, hins sekja manns. Það á hans ómaga að bera, er hann á arf eftir að taka, eða þeir aðrir er búar hafa það borið að hann hafi þá ómaga með fé tekna, svo að það hafi jafnmæli verið. En ef þeir eru fleiri jafnskyldir ómaganum, og eigu þeir búar að skipta með þeim. Skal að þeim hlut för dæma sem hans verður úr ómaganum þeim.

Barn það er eigi skylt að færa til féránsdóms, er maður verður sekur um faðerni. En ef þeir menn færa eigi ómaga til féránsdóms er skyldir eru til að færa, þá ráða þeir sér á hönd ómagana, en eigi erfingjum sínum.

Ef maður leynir sektarfénu, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og skal stefna heiman þeirri sök og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er, hvort hann hafi því fé leynt eða eigi, er hinn hefir um stefnt. Skal þar sinn eyri hverjum dæma ef svo vinnst fé til, en dæma skal rétt úr fénu ef réttarsök er, en þá fólagjöld ef þjófsök er. Ef fé vinnst betur til, þá skal dæma goða þeim er dóm nefndi kú eða uxa fjögurra vetra gamlan. Ef aurar vinnast eigi til, þá skal skerða jafnt alla aura.

Ef sá maður átti konu er sekur er orðinn, og skal svo dæma um fé hennar sem að skuldadómi. Jafnt skal þangað öll fémál til búa sem til skuldadóms og svo um landsvirðingar og um veðmála, ef menn eigu, og að öllum fémálum fara sem að skuldadómi þeim, er menn áttu áður fé að honum áður hann yrði sekur, og skal eigi heimanfylgju hennar skerða og eigi mundinn, ef hann átti þá sjálfur aura til mundar. En ef hann átti eigi sjálfur fé til mundar, þá skal skerða mund jafnt sem aðra aura. Ef þau hafa svo gert skuldir að beggja þeirra ráð hafi að verið, þá skal að þeim hlut hvort þeirra gjalda þær skuldir sem þau höfðu nytjar af því fé.

Ef það fé er þar nokkuð er menn hafa veðmælt, og skal sá þeirra hafa veðmála sinn er hann hefir að lögum að farið. En ef tveir menn hafa hinn sama hlut veðmæltan, og skal sá maður hafa þann grip er fyrr hefir veðmæltan, nema sá fari að ólögum að. En ef hinn hefir að lögum að farið er síðar veðmælti, þá skal hann hafa það fé, en hinn eigi er að ólögum fór að. En þá er að lögum að farið er sýnt er vottum veðmáli, enda er þó rétt ef þeim er svo kunnt það fé er veðmælt er að þeir hafa séð, en lýsa skal veðmála fyrir búum fimm, þess manns búum er fé sitt lét veðmæla. Ef aðrir aurar eru skerðir, og skal hann eigi hafa meira fé en hann átti að honum fyrir öndverðu, þó að hann hafi meira veðmælt.

Þeir menn allir skulu eiða vinna er þar skulu lögskil mæla, jafnt sem að þingadómi. En þeir eigu að dæma þeim manni varðveislu fjár þess til alþingis hins næsta er sekti. En þeir eigu helming að dæma aðilja en helming fjórðungsmönnum. Þeir eigu að dæma för ómögum þeim er þar koma til féránsdóms, er sá átti er sekur er orðinn um það þing sem féránsdómurinn er áttur. Nú eru þar þing tvö á einum þingvelli, og skulu þeir þá fara um þau þing bæði.

Ef fé vinnst betur en nú var talið, þá skal það fé dæma hálft þingunautum þeim sem féránsdómurinn er í áttur og ómagarnir eigu að fara, ef eru, en hálft þeim er sekti. Þeim skal dæma varðveislu fjár þess er sekti, er þingunautar skulu hafa. En hann skal hafa fé það til leiðar þeirrar er hann heyr, ef þeir eru samþinga, er hann hefir heimt þá, og skipta þar við þá. En því er hann hefir þá eigi heimt að viðtökum eða að handsölum, þá skal hann skipta við þá á vorþingi. En ef sá er utanþingsmaður er sekti, þá skal hann skipta á alþingi hinu næsta. Skipta skal því öllu að féránsdóminum, er þar má, og selja í hönd þeim goða er féránsdóminn nefndi.

Það fé er þingunautar hljóta, það skal til þess hafa að staðfesta ómaga með, ef eru, meðan það vinnst til. En ef fé er meira, þá skal hafa til þurfta þeim ómögum öðrum er þar eigu að fara í því þingi.

Ef hann á eigi féránsdóminn svo sem mælt er í lögum, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og á sá maður þá sök að sækja er til ómagavarðveislu þeirrar stendur, er þar skyldi för dæma ella. En ef sá maður átti eigi ómaga, er sekur er orðinn, og á sá maður sökina er féið átti að honum. En ef hann átti engar skuldir, þá á hver þá sök er vill, og skal stefna þeirri sök heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

En menn skulu svo koma til dómsins að nefndur sé fyrir miðjan dag, og skal svo gögn öll og svo þeir menn allir er þar eigu fé að heimta, og svo þeir menn allir er ómaga eigu þangað til að færa, með þá ómaga. Ef menn verða eigi svo viður varir að þeir megi til féránsdómsins komast með ómaga, hann skal lýsa hið næsta sumar til framfærslu þess ómaga að Lögbergi á hendur þeim þingunautum er sá goði er í þingi er nefna lét féránsdóminn, og kveðja til tylftarkviðar hvort það voru hans ómagar eða eigi, þess manns er sekur varð, en heimilisbúa sína fimm að bera um það hvort hann mátti til féránsdóms komast fyrir nauðsynjum eða eigi. En ómagar skulu fara.

44. UM SPELLVIRKI.

Þar er maður er dæmdur fjörbaugsmaður um spellvirki, að hinum er sótti skulu gjaldast skaðabætur að féránsdómi, slíkar sem búar fimm virða við bók. Nú gjaldast honum eigi skaðabætur sem mælt er að féránsdómi. Þá verður hann jafnsekur, þegar er féránsdómi er lokið, sem hann verði dæmdur skógarmaður í alþingisdómi, óæll og óferjandi.

45. UM GOÐA.

Ef goði kemur eigi til vorþings öndverðs, þá verður hann um það útlagur, og er hann úr goðorði sínu, og eigu þeir menn sök þá er sakir hafa þangað hafðar til þings þess. Nú vilja þeir eigi, þá eigu samþingisgoðar hins, sá þeirra er heldur vill sótt hafa og á þingi er, ef eigi eru báðir. Nú vilja þeir eigi, þá eigu innanþingsmenn fyrst, en þá hver er vill.

Ef sú sök kemur upp er heimankvöð fylgir, þá skal því aðeins til vorþings búa ef kvaddir eru búar viku fyrir þing eða meira méli, og svo stefnt.

Ef maður sækir utanþingsmann á vorþingi um það að hann hafi borið ljúgkvið, þá skal kveðja goða þann er hann er sjálfur í þingi með.

Ef maður gerist illvirki sá að hann spillir fé manna, svo að hann gerir í því kúgildis skaða eða meira, og varðar það skóggang. Skal kveðja til níu búa á þingi þaðan frá um þann stað er illvirkið var gert. En það er illvirki er maður vill spilla fé manna fyrir önnkost og fyrir illgirnis sakir. Þá sök skal lýsa að Lögbergi um illvirki og sækja hið sama sumar.

46. UM ÚTLEGÐIR.

Ef útlegðir fara einar saman, þá skal dæma gjald þess fjár þar á þingstöðinni sem þingunautar verða á sáttir, fjórtán nóttum eftir sóknarþing. Útlegðir hálfar allar og svo sektarfé þau er á vorþingum verða dæmd, þá eigu þingunautar helming en helming sá er sækir.

47.

Ef maður handsalar sekt sína heima í héraði, eða verður hann að sátt sekur ger, þá skal kveðja féránsdóms á alþingi hinu næsta eftir það er hann var sekur ger. Hann skal spyrja að Lögbergi, ef hann veit eigi áður, að heimilisfangi hans og svo að þingfesti. Nú gengur engi við heimilisfangi hans, en goði gengur við þingfesti hans. Þá skal að þess goða eiga féránsdóm og beiða hann þá að eiga dóminn. Nú er við hvorugi gengið, þá skal hann að þess goða eiga, er hann er í þingi með sjálfur, og beiða hann þá að nefna dóminn.

48. EF EIGI KEMUR FÉ FRAM.

Ef það fé kemur eigi fram að féránsdómi, er þar skal gjaldast, þá verður hann sekur, óæll og óferjandi. Nú gelst þar fjörbaugur og alaðsfestur, þá skal dæma svo sektarfé hans sem skógarmanns. Það skal og dæma úr sektarfé hans, ef svo vinnst, kú eða oxa fjögurra vetra, goða þeim er dóminn nefndi og skal þá svo fara fjörbaugur, en það er mörk sem annað sektarfé, en ellegar eignast goðinn þá mörk eina. Rétt er að gjalda mörk þá að féránsdómi, enda er rétt að maður handsali að gjalda á fjórtán nátta fresti að heimili goða, og skal þar lögeindagi á því fé. Skal gjalda í gripum ef maður vill, og skal taka til sinn lögmetanda hvor.

Þá er féránsdómur er áttur að fjörbaugsmanni, þá skal segja til heimila hans. Hann skal eiga þrjú heimili. Þeirra skal eigi lengra á milli vera en fara megi annan veg um dag. Hann skal heilagur að þeim heimilum og í örskotshelgi á alla vega frá. Hann er og heilagur á þeirri götu og í örskotshelgi við þá götu, ef hann fer eigi oftar en um sinn á mánaði.

Nú fara menn á móti honum. Þá skal hann fara af götunni, svo að þeir taki eigi spjótsoddum til hans. Hann verður eigi heilagur ef eigi var sagt til heimila hans að féránsdómi, og eigi verður hann heilagur ef eigi gelst fé það er þar skyldi gjaldast.

49.

Griðmenn eigu að kveðja í gegn hests og matar og allrar reiðu þeirrar er hann skal hafa á þingi. Slíkt skulu og bændur allir, þeir er óauðgari eru en þingfararkaupi eigu að gegna. Þess skulu þeir og kveðja að hestur komi til heimilis hans. Hestur skal koma til heimilis þess er kvaddur er, sá er vel sé þingfær. Þá eigu þeir í gegn að kveðja ef þeir eru í það vætti nefndir er þeir vissu eigi von þingfarar sinnar, þá er þeir voru nefndir af þeim sökum, eða þeir ætti eigi úr að segjast. Kveðja skal í gegn sem fyrst má, svo að sá heyri er kvaddur er, eða að heimili hans. Jafnrétt er að kveðja hvorn er vill, þann er kveður eða þann er honum seldi kvöðina.

Þar aðeins skal kveðja tylftarkviðar er arftökumaður er erlendis, þess ómaga er á hendur er lýst. Ef þeim manni er lýst á hendur er hér á landi er, skal kveðja fimm heimilisbúa þess er á hönd er lýst, hvort hann sé arftökumaður hans eða eigi, eða hann sé hans erfðaómagi.

50. BEIÐA FÉRÁNSDÓMS.

Eftir dóma skal beiða féránsdóms goða að Lögbergi, og segja goða ef hann er eigi hjá, eða þar er hann heyri. Þá skal segja til að Lögbergi að hann hefir beiddan goðann að nefna féránsdóm, og segja hvar vera skal. Sá maður er féránsdóms vill beiða, hann skal nefna sér votta „í það vætti, að eg kveð þig, N.N., eða beiði að nefna féránsdóm eftir N.N. á fjórtán nátta fresti,“ og biðja hann koma svo að nefndur sé fyrir miðjan dag. Þar skal tólf menn nefna í þann dóm, og skal ryðja sem tylftarkvið.

Sá maður er féránsdóms beiddi skal nefna sér votta „í það vætti, að eg vinn eið að bók, lögeið, og seg það Guði að eg mun svo færa mál öll fram hér að féránsdómi á hönd N.N. sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum“. Í dóm skal bera dómsuppsöguvætti eða sáttarvætti það er fyrir sekt hans var mælt og fyrir hvað hann varð sekur, og hvar hann varð sekur. Þá skulu menn hluta með sér hve þar skulu sakir fram færa.

51. UM SKÓGARMENN.

Ef menn ferja þann mann út hingað er sama sumar varð sekur skóggangsmaður, og varðar það skóggang. Ef þeir vissu eigi að hann var sekur, og varðar þeim þá eigi nema þeir hafi hann þrjár nætur síðan er þeir spurðu, og varðar þá skóggang.

Nú ferja menn út hingað þann mann er fyrr varð sekur skógarmaður annað sumar. Þá skulu þeir gera annaðtveggja, að drepa hann eða að færa hann þeim er hann sekti á þeim hálfum mánaði er þeir spyrja að hann varð sekur. Nú vilja þeir hvorki þeirra, þá varðar þeim skóggang.

52. UM HANDSÖL.

Ef maður handsalar manni sátt slíka sem hann vill gerva hafa, og skilja þeir það mál eigi ger en svo, þá má hann eigi gera sekt hans ne eina, og á enga á hann að kveða gripi hans ef það var eigi skilið til í handsali þeirra. Fésátt skal hann gera slíka er hann vill, og kveða á aura, hve marga hann skal gjalda eða hve stóra, eða hve margir aurar skulu í gripum eða hve margir fríðir.

Ef maður gerir á annan veg þá sátt, er svo er fyrir mælt, en nú er tínt, hvort sem hann gerir sekt hans eða það að hann skyli land sitt gjalda eða goðorð, eða kveður hann á gripi hans nokkura, og skal það enugi halda. Það á allt í sáttargerð að hafa er þeir skildu fyrir vottum til, ef hann vill, og á það allt að halda.

53. UM STEFNUR.

Ef manni er stefnt fyrir fardaga að lögheimili sínu, um það lögheimili skal kveðja búa, þótt um alþingi sé kvatt, og þá menn er þá búa næstir þeim stað er um er kvatt.

Ef sá búi ber kvið, hinn annan dag viku kemur til vorþings, þá verður það að sakarspelli.

54. UM SKÓGARMANNSBJÖRG.

Það sagði Úlfhéðinn lög, ef maður vill sækja um skógarmannsbjörg eða fjörbaugsmanns, er farning er mælt, ef þeir leita eigi við brottför sem mælt er í lögum. Heiman skal stefna manni um björg þeirra til alþingis og til fjórðungsdóms, telja fjörbaugsgarð varða. Sök skal fram segja svo skapaða sem stefnt var og bera stefnuvætti. Það vætti skal næst er nefnt var að féránsdómi, er dómur dæmdi hann skóggangsmann ferjanda og svo vandhæfan sem fjörbaugsmann, og eiga eigi útkvæmt ef svo var mælt.

Ef maður sækir um fjörbaugsmannsbjörg, þá skal fylgja stefnuvætti sök, en því næst það vætti er að vættinu var nefnt í féránsdómi, hver sekt hans var dæmd í dómi þeim er hann varð fjörbaugsmaður. Það skal hið þriðja vætti er sagt var til sektar hans að Lögbergi véllaust og breklaust, slíkrar sem hann var dæmdur eða slíkrar sem sáttarmaður gerði á hönd honum. Þá skal það vætti bera er að því var nefnt að féránsdómur var áttur eftir hann.

Úlfhéðinn sagði það lög að féránsdómur skyli dæma áfall sektar þeirrar sem honum var dæmd eða ger.

Tólftarkviðar skal kveðja goða þann er sá er í þingi er sóttur er, hvort sá maður hafði verið samvistum við skógarmann eða eigi og í því björg veitta. Svo mörg vætti skal bera sem þeir voru að nefndir.

55. UM KVIÐU.

Svo skal meta sem af sé borinn kviður ef sá dvelur er kvaddi uns sól kemur á Þingvöll.

Ef menn leifa nokkuð orð í kviðum eða í vættum, það er máli skiptir, og er þá sem haldið sé kviðnum eða vættum.

56.

Ef maður fer með fésök handselda, og andast hann í þingför eða á þingi, þá skal aðili taka til sakar sinnar og sækja hið sama sumar. Nú er hann eigi á þingi, þá skal hann sækja hið næsta sumar eftir. Ef hinn hefir fram sagða sökina áður hann féll frá, og skal það aðili og taka þar til er hinn hvarf frá og svo að öllu fara sem áður, fyrir það utan að hann skal segja fram sökina. Ef hinn hefir dæma látið féið áður hann féll frá, þá skal hans erfingi stefna um dómrof.

Ef aðili fésakar á fétöku, slíkt skal fara um skóggangssakir, að sá skal sækja um skógarmannsbjargir er sekti mann eða hans erfingi ef hinn er frá fallinn. En aðili frumsakarinnar eða hans erfingi á fétökuna er hinn tekur fé til sýknu honum.

Sá maður skal réttur vera að sitja í fimmtardómi þótt hann hafi sakir í fjórðungsdómi.

Ef alþingisdómur dæmir rangt, þá skal stefna dóminum til rofs og sækja í fimmtardóm hið sama sumar. En ef sá er eigi þar, þá skal sækja annað sumar.

57. UM ÁBYRGÐ HROSS.

Þar er menn selja hross sín til gæslu á alþingi að lögmáli, skal sá er við hefir tekið að engu neyta nema því er hann rekur til gæslu hross eða frá til Þingvallar, og að kaupa gæslu, og ríða eigi meir en það standi eigi fyrir holdum. Hann skal sýna að þinglausnum eiganda hross sitt kvikt eða dautt, enda ábyrgist sá eigi er við tók ef eigi verður af hans handvömmum dautt. Ef hann sýnir eigi að þinglausnum, hvorki kvikt né dautt, þá skal eigandi lýsa sök að þinglausnum til gjalda um hrossið á hönd þeim er við tók til sóknar annað sumar.

58.

Goði á að handsala fyrir þriðjungsmann sinn ómaga eða fúlgur eða hverigi handsöl er þarf, og svo sem hann má minnstu við koma, fyrir þá sök er hann hyggur sanna vera, en hann á heimting til þeirra aura er hann handsalar að hinum. En eindagi verður á því fé á vorþingi því er goði sá heyr annan dag viku í þingbrekku, og skal þar stefna um og kveðja til heimilisbúa fimm þess er sóttur er, hvort hann handsalaði fé fyrir hann eða eigi, svo að hann mátti minnstu við koma, og fyrir þá sök er hann hugði hann sannan að vera. En því aðeins verður eindagi á því fé, ef sagt er þeim er féið er að á leið þeirri er sá heyr, er féið á. En ef sá verður þá eigi var við, þá skal hann vita að sumarmálum hið síðasta. En af fer eindagi ef hann spyr eigi þá eða fyrr, og verður þá rétt að lýsa að þinglausnum og til sóknar annað sumar. Enda hygg eg að rétt sé að stefna þar til dóms að á vorþingi, ef sá spyr er sóttur er, handsölin, enda sé þeir samþinga. Aðrir menn eigu að bjóða goða fyrst að hann handsali fyrir þriðjungsmann sinn. Ef hann vill eigi, og eigu aðrir menn að handsala ef vilja, og á slíka sókn hver maður til síns fjár sem goðinn á.

Þar er maður tekur sókn eða vörn fyrir annan, þá verður þó fullt þótt þeir nefni eigi menn til saka ef þeir vitu eigi þá.

Miðvikudag skulu féránsdómar vera eftir vorþing, hvert þeirra er miðvikudag var þingið laust. Féránsdómur skal sitja til nóns ef menn vitu von að ómagar sé ókomnir til eða gögn.

Alls hvergi skal sök koma undir hinn þriðja mann, nema maður verði sjúkur eða sár í þingför eða á alþingi. Þar á maður að selja handselda sök og hvergi ellegar.

Ef maður tekur sök af manni, og vill hann eigi sækja, og vill ónýta svo fyrir hinum, og varðar honum fjörbaugsgarð við aðilja. Ef sá maður andast er sök hefir selda eða til búna, þá er hann er aðili, og þá hverfur mál það undir hans erfingja. En er hann hefir að engu mál höfðað þá er hann andast, þá er sem hann hafi að engu aðili máls orðið.

Réttir eru þeir menn á þingi að kveðja ef þeir eru þar staddir, ef heiman eru réttir í kvöð fyrir ófærs manns bú þótt hinn sé heill er heima situr, en engi maður má þann kvið af hendi leysa fyrir annan, er hann er heiman kvaddur, nema faðir fyrir son eða sonur fyrir föður. Þá menn skal kveðja fyrir þess manns bú er úr lögskilum hefir sagst, er rétt er að kveðja fyrir ófærs manns bú.

Vanda skal búa í þingakvöð og sektarsakir að fjáreign slíkt sem í heimankvöð. Rétt er að stefna sökum öllum er eigi fylgir heimankvöð til alþingis allt til þess er líður fimmta dag viku, þá er sjö vikur eru af sumri, en eigi er rétt að stefna lengur nema síðar gerist sakir.

Maður á að kveðja búa nónhelgan dag til náttmáls ef hann hefir árdegis upp hafða kvöðina, enda fái hann eigi lokið fyrir nón, ef hann kveður hvern að öðrum.

Ef menn búa saman, og tekur annar þeirra við skógarmanni en annar vill eigi, þá skal sá er eigi vill nefna votta að því að hann vill eigi, og það er að ósátt hans, og segja til fimm búum sínum síðan, þá varðar honum eigi við lög samvista við skóggangsmann ef hann veitir honum í engu öðru björg. Slíkt er mælt um hjú að öllu, en um tólf mánaði stendur þeirra mál, en þrjár nætur óvísaeldi, hvorts þær eru allar saman eða sér hver.

Föður sinn eða bróður eða son skal engi maður í stefnuvætti hafa ef hann er sjálfur málsins aðili. Skal-at aðilja í stefnuvætti hafa handseldrar sakar né son hans né föður eða bróður. Ómætt er vætti þeirra. Er-at það sakarspell ef aðrir vottar eru tveir eða fleiri, enda beri þeir vætti fram. Feðgar tveir eða bræður eru sem einn maður sé í hverju máli eða vitni þeirra, er einn maður nefnir þá að. Réttir eru þeir í þeim vættum öllum er tveir menn nefna þá að.

Ruðningar allar um búa eða dómendur skulu við sakaraðilja eða varnaraðilja vera, en eigi við þann er sök sækir eða ver, ef hann er eigi aðili.

Ef annar maður sækir réttafarssök en aðili er, af því að hann þykist aðili vera, en aðili gefur af því eigi gaum að, að hann hyggur annan aðilja vera en sig, og skal þá aðili eignast þrjá hluti sáttar en hinn fjórðunginn, er sótti. Nú þarf hann að leggja fé til sóknar eða gefa til liðs, og skal þar af sátt til taka en þeir skipta öðru með sér. Nú veit sá er sækir að hann er eigi aðili, þá á hinn heimting til allrar sáttar, slíkrar sem ger var.

Eigi varðar mönnum við lög þótt hingað til lands flyti skóggangsmenn ef þeir vitu eigi sekt þeirra fyrr en þeir eru lengur saman en þrjár nætur þaðan frá er þeir eru landfastir orðnir. Ef maður veit eigi sekt manns, og bergur hann honum af því að hinn er sjúkur eða sár eða vanheill fyrir elli, eða veiti hann honum af því að hann gerir það til sálubótar sér, og sekst hann eigi af því óvísaeldi þótt langt sé. Eigi skal af landi ferja hann.

Á þeim bæ skal mann kveðja sem hann býr þá er átta vikur eru af sumri, og skal hann fyrir það bú vera þingheyjandi þau misseri, nema hann fái annan réttan fyrir sig, og skal hann kveðja fyrir búið ef hann heldur heilsu svo að hann er kveðjandi, og slíkt þótt hann sé af landi á brott. En sá skal þingheyjandi réttur fyrir hann er við búi hefir tekið og sá heimilismaður hans er hann segir á leið, þar er upp er sagt, eða fimm búum sínum síðar, að lögskilum skal upp halda fyrir hann.

Réttur er einvirki í kvöð ef hann á fé svo að skuldahjóna hans hvert hljóti tvö kúgildi.

Ef lið er gert í mót þeim mönnum er búa skulu kveðja, og nái þeir eigi fyrir ofríki annarra að kveðja, þá er rétt að stefna sök þeirri, er kvöðin kom til þar sem þeir koma framast þess er þeir megu fram koma stefnunni, og lýsa stefnu ef þeir heyra eigi á er á mót standa, og kveðja níu búa á þingi, og skal sem engi búi sé kvaddur ef eigi náir alla heiman að kveðja.

Ef maður vill fara af landi á braut, þá skal hann selja sókn og vörn, ef hann vill, og svo varðveislu fjár síns, þess er hann á hér eftir. Þau handsöl skulu standa þrjá vetur, en síðan eigu erfingjar að varðveita.

59. UM HEIMILISFÖNG.

Fardaga skulum vér eiga fjóra á landi hér. Fyrstur er þeirra hinn fimmti dagur viku sá er sex vikur eru af sumri. Þann dag á maður kost að færa heimili sitt árdegis. Annar er föstudagur, þriði er þvottdagur, fjórði er drottinsdagur. Þann dag segja lög mann að aftni af griði því er hann hefir áður haft. Ef maður hefir eigi sér grið þann drottinsdag að aftni eða árdegis þann dag er næstur er, og varðar það útlegð.

Ef maður á konu, og skal hann fengið hafa henni grið og sagt henni til hinn fimmta dag viku þann er sjö vikur eru af sumri hið síðasta. Ef þá er henni ófenginn staður, svo að hún viti, og er rétt þá að hún taki sér grið þar er hún vill, og skal hún þann stað hafa þá tólf mánuði. Ef maður hefir eigi stað þeim mönnum er hann skal fyrir hyggja hinn efsta fardag, og varðar það útlegð um hvern þeirra, og á sá sök er sækja vill.

Maður skal koma til griðs svo sem hann er sáttur á við búandann, annaðtveggja að fardögum eða að miðju sumri. Karlmaður sextán vetra gamall skal ráða sjálfur heimilisfangi sínu, eða eldri. Mær tvítug eða eldri skal og sjálf ráða heimilisfangi sínu.

Þess á maður kost að koma til griðs að miðju sumri og iðna annað þangað til ef hann vill. Ef hann vinnur búverk, og skal hann eigi taka meira kaup en hálfa mörk sex álna aura til miðsumars, en frá miðju sumri skal hann vinna búanda allt til vetrar, slíkt er hann vill, fyrir smalaför utan. Hann skal ganga á fjall um sinn og slátra og fara heimanfarar með húsbónda og slæða um vor og bæta túngarð. Það skal hann vinna til matlauna.

Það er og vítislaust að griðmenn taki tvo aura til allraheilagramessu frá veturnóttum að kaupi. Ómagamenn þeir er eigi hafa fé til að færa ómaga sína fram skulu meira taka ef þeir vilja. Ef maður gætir nauta, og skal öln kaupa gæslu á kú eða oxa fjögurra vetra gamlan en tvö naut við kú ef yngri eru, sex álnum á þrjátíu gamla sauði en á fjóra tigu lamba eyri, brytjun fyrir tíu menn sex álnar vaðmáls. Það er lögeyrir, eða þangað sé virt til ellegar.

Þess á hann og kost að gefa honum umfram. Nú verður honum stefnt um það, og verður eigi gjöf ef það ber að það voru undirmál. Nú kaupir maður dýrra en mælt er, og bergst hann ef það ber kviður að hann náði honum eigi ellegar, enda gjaldi hann eigi meira en lögkaup. Nú vill hann öllu halda, og á hinn heimting til alls þá.

Þrim mörkum verður maður sekur ef hann fer eigi til vistar sinnar. Þar skal stefna til alþingis eða til vorþings eða til hins þriðja þings. Svo um verkakaup, ef hann hafði reitt honum. Sá verður og sekur þrem mörkum er við honum tekur, ef hann veit að hann hafði vist tekið í öðrum stað, við þann búanda er hinn hafði vist tekið. Tekin er vist þegar er búar bera að þeir voru á sáttir.

Nú bregður hann máli við fleiri menn, og eigu jafna sök allir þann er bregður. Slíka sókn eigu griðmenn við bændur ef þeir bregða við þá.

Þá er maður á braut heitinn, ef honum er eigi deildur matur að málum, þótt eitt mál sé haldið fyrir honum.

Ef maður mest dýrra en nú var talið áður, og svo ef hann selst dýrra á leigu, það varðar hvorumtveggja þriggja marka sekt. Ef búandi kaupir dýrra en nú er talið, og varðar honum það þriggja marka sekt.

Smiðar þeir er hús gera úr austrænum viði eða brúar um ár þær eða vötn er netnæmir fiskar ganga í eða gera búðir á alþingi, þeir eigu kost að taka dagakaup um engiverk. Þeir skulu tekið hafa þó sér löggrið á fardögum þótt þeir hirði eigi það. Annartveggi þeirra búandans skal sagt hafa til búum að sá maður hefir þar grið þótt hann sé af landi farinn eða slíka hluti iðni hann sem nú voru taldir, og verður hann þá með þeim búandanum vistfastur, og þar í þingi með þeim goða sem bóndinn er, sá er hann hefir löggrið með.

Ef maður tekur grið með manni, og verður þar löggrið hans meðan hann er af landi héðan. Ef hann læst eða kemur aftur hið sama sumar, og er rétt að hann taki sér annað grið, ef hann vill, enda er rétt að stefna honum að því heimili eða að festarhælum ellegar. Ef að festarhælum er stefnt, og skal eigi kviðu að því heimili ryðja, og eigi að því heimili er hann tók síðar, nema þeir hafi sagt á þingi eða á leið eða búum að hann hefir þar lögheimili.

Ef maður tekur grið með manni, sá er í fiski fer, og varðveitir það ekki og vitust þeir það við málamunda þann, eða svo þótt hann iðni annað nokkuð, og varðar þriggja marka sekt hvorum þeirra.

Ef maður veit eigi lögheimili manns eða hvar honum er löggrið handsalað, enda væri hann úr öðrum fjórðungi á brott, eða veit hann eigi festarhæla þótt samfjórðungs sé, og er honum rétt að stefna þar er hann vissi lögheimili hans síðast.

60.

Ef maður kemur á land úr för, og er rétt að stefna honum að skipi meðan hann hefir búðir þar að skipi, og skal hann tekið hafa sér grið á hálfum mánaði þeim er hann kemur frá skipi, ef hann vill í þeim fjórðungi verið hafa. Ef hann vill sér fá heimili í öðrum fjórðungi, og skal hann fengið hafa sér grið á hálfum mánaði þeim er hann kemur í þann fjórðung. Ef maður á sér konu, og verður hann eigi á sáttur við bónda þann er konan er í vist með áður að þau sé þar bæði, og á hann kost að taka þeim vist í öðrum stað, bæði sér og konu sinni, og varðar henni ekki við lög brottförin, en virða skal verk hennar og fúlgur.

Ef maður fiskar til miðsumars og fer þá í grið, og verður hann þar þingfastur ef hann hefir löggrið, og er það rétt að stefna honum að því heimili. En meðan hann er í fiskiskálunum, og er rétt að stefna þar um það er hann gerir þar eða hann hefir áður gert. Ef maður fiskir um annir, og gengur í grið að vetri, og er rétt að stefna honum að því heimili um þær sakir allar er hann gerir síðan er hann kemur á griðið. Stefna skal honum að fiskiskálum um þær sakir allar er hann gerir áður hann komi á griðið. En þingfesti hans verður þar er sá maður er í þingi, er land það á er hann fiskti af.

61. UM HEIMILISFÖNG PRESTA.

Prestar skulu hafa sér lögheimili að átta vikum sumars eða fyrr og segja til heimilis síns. En ef prestur segir eigi til lögheimilis síns, og er rétt að stefna honum að þess búanda er maður vill, þeirra manna er hann hefir lögtíðir haft að kirkju búandans. Ef prestur kemur á land síðar en að tvímánaði, og skal hann fengið hafa sér heimili á hálfum mánaði þeim er hann kemur frá skipi ef hann vill sams fjórðungs vera, en ellegar á þeim hálfum mánaði er hann kemur í þann fjórðung er hann vill verið hafa.

Ef maður tekur tveggja missera vist, og er hann á því griði tvær vikur fyrir alþingi og um þing og tvær vikur eftir, og þótt hann fari á brott af vistinni, og er þar lögheimili hans og þingfesti að þess búanda er hann var þær vikur sex, og er rétt þar að stefna honum.

Ef maður fer með dagakaup, og er rétt að stefna honum þar er hann er hálfan mánað um annir eða lengur. En ef hann er hvergi hálfan mánað í einum stað um annir, og er rétt að stefna honum þar er hann var þrjár nætur eða lengur um annir. Ef hann var hvergi svo, og er rétt að stefna þar er hann vissi náttstað hans síðast.

Í öllum stöðum þeim er maður veit eigi lögheimili manns, enda á hann eigi kost að koma lögspurningu við hann, þá er rétt að stefna þar er maður vissi lögheimili þess manns síðast. Hann skal kveðja heimilisbúa sína fimm, hvort hann vissi þar lögheimili hans síðast eða eigi, eða hvort hann átti kost að spyrja hann lögspurninganna eða eigi. Því aðeins er manni skylt að spyrja mann heimilisfangs til stefnustaðar ef hann finnur þann mann svo að máli að hann kennir hann og hann hefir votta til, á því méli er hann spurði sökina og hann vill stefna honum.

Ef maður vill eigi fara til griðs þess er hann tók, eða hann fer á brott af vist sinni foráttalaust, og varðar honum það þriggja marka sekt, og á bóndinn að sínu heimili að stefna þar um kaup, ef hann hefir reitt. Ef búandi bregður við griðmann, og varðar honum þriggja marka sekt.

Ef sá maður deyr er grið hefir handsalað manni fyrir fardaga, og ef erfingi býr þar því búi hinu sama, og er föst þá griðtaka þess manns. Kost á hann að bregða búi ef hann vill. Ef hann býr þar, og varðar þriggja marka sekt hvorum þeirra sem bregður við annan. Ef búandinn deyr á hinni sjöndu viku, og á erfinginn kost hvorts hann vill, að búa þar eða að bregða búi ef hann vill, og fá slíkan stað og máldaga þeim griðmönnum er áður voru teknir, sem þeir áttu sér mæltan. Ef erfingi vill hvorki þeirra gera, og varðar honum þriggja marka sekt við hvern þeirra. Ef bóndinn deyr þá er sjö vikur eru af sumri eða síðar, og skal erfinginn þá búa.

Ef griðmaður liggur af verkum sínum, og skal búandinn hafa hann hálfan mánað ef hann þarf eigi gæslu. Ef hann þarf gæslu, og hefir eigi vitfirring, þá er rétt að færa hann þeim manni er framfærslu hans á. Ef hann hefir vitfirring, og skal þá færa bónda þeim er skylstur er, þeirra búanda er eigi þarf að auka hjú til að gæta hans. Þá þarf eigi að auka hjú til að gæta hans, ef hann hefir hjónalið til að gæta hans, ef hann getur af þeim. Ef bóndi á eigi framfærslu hans að lögum, og á sá til að fara að gæta hans er arf hans á að taka, ef bóndi kann þess þörf. Ef maður ger eigi til fara, og er hann sekur þá þrem mörkum, en sá skal inna fúlgur búandanum, er framfærslu á hins óða manns, slíkar sem búar meta, enda á hann við að taka hinum óða manni að fardögum.

Ef griðmaður liggur af verkum, og á bóndinn kost lengur en hinn hefir legið hálfan mánað, hvort hann vill, færa hann þeim manni er framfærslu hans á, eða vill hann hafa hann til fardaga og heimta fúlgu. Sá er framfærslu á, og á hann kost að hafa hann heldur heim til sín, hinn sjúka mann, ef hann vill heldur það en fela á brott.

Hvorts maður liggur af verkum langa stund eða skamma, og skulu búar virða fúlgu eða verk þau er hann vann eða hin er óunnin eru. Að því skal virða sem máldagar voru með þeim.

Ef sá maður andast á griði er verk skyldi vinna, og skulu búar meta hvort meira sé vert, verk þaðan frá er hann lagðist eða fúlgan.

Ef sá maður andast er fólginn var inni, og skulu búar telja til hvers hann hafði neytt eða hvers óneytt í vistinni, eða hví hann var þá verri að hafa er hann var sjúkur en þá er hann tók sér vistina. Ef griðmaður liggur um engiverk þrjá daga, hvort sem hann liggur samfast svo eða eigi, og skal-at búandanum tigla það, en ef hann liggur lengur þá á bóndinn kost að láta virða alla leiguna saman.

Ef griðmaður kvongast, og á í sínum stað hvort þeirra heima, og skal í þeim stað hvort þeirra vera sem þau eigu heimili ef þau eru í verkum föst. Ef þau eru eigi í verkum föst, og skulu þau vera á hans vist að tveim hlutum en að þriðjungi á hennar vist.

Ef maður mælir við griðmann annan fullrétti eða gerir hálfrétti, og skal hann fara af vistinni og hafa ekki veturvistar. Of sakar þær allar, ef hann hafði áður gervar áður hann færi af griðinu, og svo um þá sök er hann fór í brott fyrir, og er þar rétt að stefna þeim sökum að því heimili, og verður hann þar þingfastur um þær sakir. Hann skal fengið hafa sér löggrið á hinum næsta hálfum mánaði er hann fór brott, og verður þar rétt að stefna um þær sakir er hann gerir síðan að því heimili, og verður hann þar þingfastur um þær sakir.

Ef kvongaður maður fer af vist um sakir og ef konan fer í brott, og varðar henni ekki brottförin, og á hann heimting til hennar veturvistar, svo og ef konan fer um sakir á brott en bóndi hennar fylgir henni, og er þá heimting til hans veturvistar.

Ef bóndinn lætur þann á brott fara er vanhluti er, og á hann heimting til veturvistar, og skal-at hann gjalda fyrir það að þau verk sé vanunnin er hann skyldi vinna.

Ef griðmaður gerir fullrétti við búanda, og á griðmaður á brott að fara og hafa ekki veturvistar, og á þó búandinn sókn við hann. Ef griðmaður mælir hálfrétti við búandann, og skal griðmaður á brott fara. Nú fer hann eigi, og verður þá að fullrétti það mál, og varðar honum það fjörbaugsgarð. Þetta eitt er hálfrétti í orðum, er nú var talið, svo að sækja má um. Það er enn um fullrétti þau er griðmaður gerir eða mælir við búanda eða við húsfreyju, og ef eigi ger hann á brott fara og eykst réttur þeirra hálfu.

Ef búandi heitur griðmann sinn af vist foráttalaust, og varðar búanda það þriggja marka sekt, og á griðmaður heimting til vistar við búandann ef hann beiðir vistarinnar við votta bóndann, og lætur hann honum eigi þá uppi.

Ef vígsakir gerast með mönnum lýritnæmar, og skal frændi vegandans á brott fara og hafa veturvistar sinnar slíkt sem búar virða. Það eru lýritnæmar sakir er eyris bót kemur til eða meiri í baugatali. Það er við þriðjabræðra og nánari menn.

62.

Maður sá er bú gerir um vor skal segja sig í þing þar er hann vill. Það er bú er maður hefir málnytan smala. Þó skal hann segja sig í þing, þótt hann hafi eigi málnytu, ef hann er landeigandi. Ef hann er-at landeigandi og hefir-at málnytu, og verður hann þar í þingi er sá búandi er, er hann felur sig inni um. Ef hann er í fiskiskálum, og verður hann þar í þingi er sá maður er, er land það á er hann býr á.

Maður skal segja sig í þing á alþingi eða á vorþingi ef hann vill, við þann goða er hann vill. Hann á kost að selja öðrum manni það mál að láta segja sig í þing á alþingi eða á vorþingi. Hann skal mælt hafa við goðann, að hann vill í þing þar fara, áður um vorið, ef hann lætur sig segja á alþingi. Ef hann hefir eigi sig í þing sagðan, og verður hann spurður hvar hann er í þingi, og skal hann nefna til þann goða er hann vill í þingi með vera, og verður hann þar þingfastur ef goði vill. Ef maður hefir eigi sig í þing sagðan á vorþingi, og skal hann sagt hafa á alþingi áður til dóma sé gengið.

Maður skal segjast í þing með goða þeim er hann vill. Skulu þeir nefna sér votta báðir, hann og goðinn, að því vætti, að hann segst þar í þing og hjú hans og bú og fé, en hinn tekur við. Ef annar maður fer með goðorð en sá er á, og hefir goðinn játt honum þingvist, en sá vill eigi við honum taka er með goðorðið fer, og skal hann þar þó í þing segjast, og verður hann þar þingfastur.

Ef maður segir mann í þing með öðrum goða en hann bauð um, og verður hann þar þingfastur er hann er sagður, ef hann vill. En ef hann vill eigi þar hafa þingvist, og skal hann þar segja búum þegar er hann fregn að hann vill hisi í þingi vera, er hann bað sig í þing segja. Sá maður er hann sagði í annað þing en hann vildi verið hafa verður útlagur þrem mörkum við hvern þeirra þriggja, goðana tvo, enda þann er sagði í þing. Ekki varðar goða að hann gangi við þingfesti hans, þeim er hann var í þing sagður. Hinum varðar og eigi að hann gangi eigi við.

Ef goði þiggur grið með þriðjungsmanni sínum, og verður hann þar í þingi með sér. Ef goði þiggur með annars manns þriðjungsmanni, og skal hann segja um vorið á vorþingi í þeim stað er menn mæla málum sínum, svo að meiri hlutur heyri þingheyjanda, að hann á bú með þeim manni þótt hann gegni eigi tillögum og verður hann þar í þingi með sér. Ef hann leggur ekki í, og verður hann þar í þingi er hann hefir vist. Ef goði hefir vist með þeim búanda er eigi er með honum í þingi, og verður hann útlagur um það þrem mörkum og úr goðorði sínu ef hann fer sjálfur með, og á sá sök er vill.

Ef maður gerir bú eftir alþingi, og er rétt að hann segist í þing á leið helgaðri.

Ef maður kaupir bú manns, griðmaður, og verður hann þar þingfastur sem búið var áður og þar heimili hans um þær sakir er síðan gerast.

Ef menn leggja ger bú saman, og verður þar hvor þeirra í þingi sem áður var, nema þeir vili eina þingvist hafa báðir, og skal þá segja úr þingi annað bú. Ef maður fer minna búi í meira, þá skal hann láta segja sig úr þingi þar er hann var áður og segja sig í þing þar sem sá er í þingi er hann á bú við, og fyrir háða dóma.

Ef maður á bú tvö í einum fjórðungi, og skal hann þaðan gegna lögskilum frá hinu meira búinu, og ef bæði eru jafnmikil, þá skal hann segja til á vorþingi frá hvoru hann vill gegna lögskilum. Ef maður mælir ekki um, þá skal hann gegna frá hvorutveggja.

Ef menn leggja bú saman, þeir er í sínum fjórðungi er hvor áður, og skulu þeir segja búum til hverir hvors griðmenn eru. Ef þeir segja ekki til, og verða þeir hvors griðmenn sem þeir hafa handsalað. Ef þeir hafa eigi handsalað, og er rétt að sækja hjú þeirra í hvort þing sem vill, þeirra er bændurnir eru í.

Ef maður á bú í tveim fjórðungum, og skal í fjórðungi hvorum segja búið í þing, og skal þar lögheimili hvorra hjónanna sem þau eru til bús tekin. Ef hjú fara á miðil búa, og skal búandinn sagt hafa um vorið hver hjú eru að hvoru búinu heimilisföst. Ef ekki er til sagt, og er rétt að stefna í hvort þing sem vill, og svo honum sem hjúum hans.

Ef búandi tekur þá konu er bú á, og á hann kost að kjósa að eiginorði sína þingfesti og heimilisfang þangað er hún á bú eða hennar heimili og þingfesti til bús síns, og þeirra manna er þau eigu varða orð og verk fyrir. Ef maður kýs ekki um, og verður þar hvors þeirra þingfesti sem áður. Ef griðmaður tekur konu þá er bú á, og á hann kost að kjósa heimilisfang sitt og þingfesti til hennar bús.

Ef griðmaður tekur þá konu er grið þiggur, og er þar hvort þeirra í þingi er áður var, enda á hann kost að brullaupinu að kjósa hennar þingvist þangað er hann er áður í þingi. En ef bóndi tekur búlausa konu, og færist hennar þingfesti þá til hans bús.

Ef sá maður andast er býr, og er rétt að kona sú er hann átti kjósi þingfesti sína fyrir fimm búum þangað með lögráðanda sínum, ef hún vill, á fjórtán nóttum þaðan frá er bóndi hennar andaðist, og svo þeirra manna er hún á varða orð og verk fyrir. Ef kvongaður maður skilst við konu sína, og segja lög þingfesti hennar á brott með lögráðanda sínum. Nú eru þeir fleiri en einn, og á hún kost að kjósa með þeim er hún vill.

63.

Ef maður fer vaflunarförum hálfan mánað eða lengur innan fjórðungs, og varðar það útlegð, og svo ef hann fer alls mánað og úr fjórðungi enskis örendis nema hlífa búi sínu eða griði. Ef maður fer og þiggur ölmusugjafir hálfan mánað eða lengur eða hefir gistingar þar er hann getur, og er sá göngumaður.

Ef maður gerist húsgangsmaður, heill og svo hraustur að hann mætti fá sér tveggja missera vist ef hann vildi vinna sem hann mætti, og varðar það skóggang, og er rétt að stefna þar er hann vissi náttstað hans síðast og kveðja til níu búa á þingi frá stefnustöðum.

Ef maður vill færa þingfesti sína, og skal hann þó sitja um skapþing þrjú kyrr, vorþing og alþingi og leið.

64.

Ef maður vill segjast úr þingi, og er rétt að hann segist úr á vorþingi ef hann fer í þess goða þing er samþingisgoði er við hinn, svo og ef hann fer við þann goða í þing, er þing á í hinu sama þingmarki. Rétt er að hann segist úr þriðjungi goða á alþingi, að háðum dómum að Lögbergi, ef goði heyrir. Ef goði heyrir eigi, og skal hann segja honum til, enda er rétt að hann segist brott með votta fyrir honum sjálfum. En hinn sama dag skal hann segja sig í þing við annan goða.

Ef maður segur þá menn úr þingi manns er honum hafa eigi um boðið, og verður það rétt ef þeir vilja það. Ef þeir vilja eigi, og skulu þeir segja búum fimm sínum að þeir vilja í sama stað hafa þingfestina, en hinum varðar útlegð við hvern þeirra.

Ef maður fer búi sínu úr fjórðungi og í annan, og segja lög mann þá á brott nema í Hrútafirði, þótt hann fari þar um fjörð þveran, og má hann hafa þá hina sömu þingfesti. Því að einu er rétt að hafa þingfesti í öðrum fjórðungi heldur en maður býr, ef goða er það lofað þeim að Lögbergi að taka þriðjungsmann utan fjórðungs.

Ef goði vill segja þingmann sinn á brott úr þingi við sig, og skal hann segja honum fjórtán nóttum fyrir vorþing eða meira méli, enda er rétt að hann segi honum á vorþingi.

65. EF GOÐI FER BROTT AF LANDI.

Nú vill goði fara á brott af landi, og er rétt að hann segi um vorþing hver með goðorð hans skal fara. Ef hann fer mánað úr fjórðungi, þann eftir páska, og skal hann segja á samkomu áður hver með goðorð hans skal fara meðan.

Ef þeir eigu tveir goðorð saman, og skal hinn sami með fara þrjú þing, vorbing, alþingi og leið. Þá skulu þeir skipta á leið háðri. Þá er leið háið er upp er sagt. Nú er og rétt að menn selist á þingi goðorð að háðum dómum. Nú vill sá eigi selja meðför goðorðs er með fer. Þá skal hinn stefna honum til skila um og telja hann af sínum hlut goðorðsins og útlagan þrem mörkum. En síðan skulu þeir reyna dóm um. Sínum þriðjungsmanni skal meðför goðorðsins selja en eigi annars.

Ef goði þiggur grið með annars goða þriðjungsmanni, og skal hann eigi við taka áður hann er á brott þaðan.

Nú vill hvorgi goðinn með goðorð fara. Þá skal sá er með fer bjóða hinum meðför goðorðsins. Sá er af sínum hluta goðorðsins og útlagur þrem mörkum ef hann ger eigi þá við taka, en sá skal þá með fara þrjú þing.

Þriðjungsmenn eigu goðorð ávallt þar er goði verður útlagur og úr goðorðinu. Þeir skulu hluta með sér.

Ef maður hefir keypt goðorð eða var honum gefið, og skal það að erfðum fara.

Nú verður goði sekur, og eigu þriðjungsmenn þá goðorðið, en virða skal það að féránsdómi.

Ef goði verður vanheill, og er rétt að hann seli þá meðför goðorðsins. Nú andast hann, og er þar eftir sonur tólf vetra gamall, og er rétt að hann fari með ef menn lofa það. Nú tekur kona þar arf, og skal hún selja þar goðorð nokkurum þeim manni er í þeim þriðjungi er. Nú andast goði fyrir einmánað, þá skulu þeir hluta og hafa fund að hver með skal fara goðorðið, skera krossa og láta fara á alla vega. Nú andast hann eftir einmánað. Þá skulu þeir koma nótt fyrr til vorþings en aðrir menn og hluta hver með skal fara. Nú andast hann nær alþingi eða andast hann í þingför, og skal sá með fara er skylstur er á alþingi. Nú er þar engi til, þá skulu þeir ráða, er þing áttu við hann, hver með skal fara, og hafa ráðið fyrir dóm.

Ef sakar eru til vorþings, þá varðar goða fjörbaugsgarð ef hann kemur eigi til þings öndverðs, og svo þótt þar gerist.

66. UM HVAÐ BÚAR ERU SKYLDIR AÐ BERA.

Eigi eru búar skyldir að bera um hvetvetna. Um engi mál eigu þeir að skilja þau er erlendis hafa gerst eða fyrir austan mitt haf, þótt hér sé sótt. Eigi eigu búar enn að bera um það hvað lög eru á landi hér.

Ef búar eru kvaddir um það er nú var talið, og þeir áttu eigi um að skilja, þá skulu þeir ganga til dóms og nefna sér votta að því að þeir láta það standa fyrir kviðburð sínum að þeir eru um það mál kvaddir er þeir eigu eigi um að skilja, og svo ef þar eru níu búar kvaddir er fimm búar áttu að vera, eða svo fimm búar þar er níu ætti, eða eigi tylftarkviður að skilja það mál er búar eru um kvaddir. Þá skulu búar ganga til dóms og nefna sér votta að því að þeir láta það standa fyrir kviðburði sínum að þeir eru níu kvaddir til þess er fimm eigu að skilja, eða þar fimm er níu ætti að vera, eða eru þeir um það mál kvaddir er tylftarkviður kemur til.

Ef goði er kvaddur tylftarkviðar um það er hann á eigi að skilja, þá skal hann ganga til dóms og nefna sér votta að því að hann er um það mál kvaddur goðakviðar er búakviður eða vottorð átti að skilja.

Hvervetna þess er manni verður svo mjög mistekið til gagna sem nú var tínt, þá varðar ekki þótt gögnum sé haldið, enda er ónýtt málið hvort sem það er sókn eða vörn.