Fara í innihald

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Stakir kaflar úr Konungsbók

Úr Wikiheimild

1. EF MAÐUR FINNUR GRIP ANNARS MANNS.

Ef maður finnur grip manns eða annað fé, og veit hann í hvers landi hann hefir fundið, þá skal hann þeim manni færa til varðveislu er á landi býr. En sá skal varðveita og halda upp á mannamótum og á vorþingi og á alþingi. Nú ger sá eigi upp halda er til varðveislu er selt, þá á sá sök er fé á. Nú ger sá eigi upp halda er finnur, þá á sökina er land á.

Nú finnur maður í landi sínu eða í jörðu, þá skal hann segja búum sínum til, enda á þingi. Nú gróf sá maður niður er átti land, eða sá er bjó á landi, og á sá þá er niður gróf ef fyrir veturnætur finnst. Nú finnst á alþingi, þá skal selja þeim til varðveislu er þar býr. Sá eignast þar er finnur, ef eigi verður eigandi að. Nú finnur maður á heiðum uppi, þá skal hann selja þeim manni að varðveita er næstur býr götu. Hann skal upp halda þá, en sá eignast er land á næst fjallinu.

Ef fé finnst á vorþingi eða á leið, og skal þar upp halda og selja þeim manni að varðveita er næstur býr þar. Sá á er land á, ef eigi kannast annar við. Nú eigu þingunautar þar land, þá á sá er finnur. Nú fann utanþingsmaður, þá eigu þingunautar. Nú finnst í almenning þá er menn eru í almenning, þá skal sá upp halda er fann. Eignast hann ef eigi verður eigandi að.

2. FRÁ SILFURGANG.

Í þann tíð er kristni kom út hingað til Íslands gekk hér silfur í allar stórskuldir, bleikt silfur, og skyldi halda skor, og vera meiri hluti silfurs, og svo slegið að sex tigir penninga gerði eyri veginn, og var þá allt eitt, talið og vegið. Það var jafnmikið fé kallað hundrað silfurs sem fjögur hundruð og tveir tigir álna vaðmála, og varð þá að hálfri mörk vaðmála eyrir.

3. UM FJÁRLAG MANNA.

Það er fjárlag að alþingismáli að sex álnir vaðmáls gilds, nýtt og ónotið, skulu vera í eyri. Vararfeldurs fyrir tvo aura sá er fjögurra þumalálna er langur en tveggja breiður, þrettán röggvar um þveran feld. Nú eru feldir betri, það er virðingarfé. Melrakkabelgir sex fyrir eyri. Lambagærur sex fyrir eyri. Geldingaklippingar sex fyrir eyri. Kattbelgir af fressum gömlum tveir fyrir eyri. Af sumrungum þrír fyrir eyri. Mórends vaðmáls fimm álnir fyrir eyri. Eyrir gulls þess er stenst elding fyrir sex tigu. Mörk brennds silfurs fyrir sex tigu. Járnketill nýr og óeldur, og vegi hálfa vætt og liggi í átta skjólur, fyrir fimmtán aura. Stæltur lé, eggelningur, og vegi átján aura heill og stálsorfinn, þeir skulu þrír fyrir tvo aura. Vætt blásturjárns fyrir fimm aura. Vætt fellujárns fyrir sex aura. Það er katlamálsskjóla er tré er sett í lögg, og tekur öðrum megin á þröm tólf þumlunga, meðalmanni í naglsrótum.

Þetta er enn fjárlag, að kýr þrevetur eða eldri, tíu vetra eða yngri, kálfbær og mjólk, hyrnd og lastalaus, eigi verri en meðalnaut, héraðræk að fardögum og mólki kálfsmála, sú er gjaldgeng. Þrjú naut veturgömul við kú. Tvö tvevetur við kú. Kýr geldmjólk og kvíga tvevetur kálfbær leigu verri en kýr. Uxi fjögurra vetra gamall fyrir kú, geldur eða graður. Geldkýr og uxi þrevetur þrír hlutir kúgildis. Uxi fimm vetra gamall þriðjungur annars kúgildis. Uxi sex vetra gamall fyrir tvo hluti annars kúgildis. Uxi sjö vetra gamall fyrir tvær kýr, og svo þótt eldri sé. Arðuruxi gamall á vor, það er metfé.

Sex ær við kú, tvær tvevetrar og fjórar gamlar, og ali lömb sín og órotnar, loðnar og lembdar. Ær átta allsgeldar þrevetrar og eldri við kú. Átta geldingar við kú tvevetrir, átta lambgimbrar, og ali lömb sín. Sex geldingar þrevetrir við kú. Fjögurra vetra geldingur og annar tvevetur fyrir ær tvær. Hrútur tvevetur ágildur. Tólf veturgamlir sauðir við kú. Allt þetta fé gilt og í ullu. Hrútur þrevetur og eldri og forustugeldingur, það er metfé.

Geitur sex með kiðum og svo farið sem ám, en átta geldar, við kú, þrevetrar eða eldri. Átta höðnur við kú, og ali kið sín. Átta tvevetrir hafrar við kú, og fjórir kjarnhafrar, og fjórir algeldir, en sex þrevetrir, við kú, hálfir hvors allsgeldir og kirningar. Fjögurra vetra gamall hafur og annar tvevetur fyrir geitur tvær. Tvevetur hafur við geit. Ef hafrar eru eldri en nú eru taldir, og er það metfé. Tveir veturgamlir geitsauðir við geit, hálfir höðnur eða allsgeldingar en hálfir kjarnhafrar eða graðhafrar.

Hross eru og lögð. Hestur fjögurra vetra gamall eða eldri, og tíu vetra og yngri, heill og lastalaus, við kú. Mer fjögurra vetra og eldri og tíu vetra og yngri geld, heil og lastalaus, fjórðungi verri en kýr. Hestur þrevetur jafn við meri. Mer þrevetur tveir hlutir kúgildis. Tvö hross tvevetur, hestur og mer, við kú. Þrjú veturgömul hross við kú, og er eitt hestur. Ef maður geldur merhross veturgamalt fyrir þriðjung kúgildis, þá skal fylgja eyrir. Þetta skulu vera meðalhross og eigi verri. Stóðhestur, og sé verði betri fyrir sakir vígs, og geldur hestur, og sé verði betri fyrir reiðar sakir, og fylmer í stóði, það er metfé.

Sýr tvevetur eða eldri og níu grísir með við kú.

Breitt léreft, þrjár álnir, fyrir tvo aura. Enskt léreft tvíelnt, tvær álnir fyrir eyri. Tvær merkur vax fyrir eyri. Skrúðklæði ný, skorin eða óskorin, hafnarvaðmál ný og ónotin, hafnarfeldir nýir, kattaskinn og lambaskinn ný, flatsmíði nýtt og vörusmíði, teint járn, eirkatlar nýir, það er allt metfé.

Allt metfé, það er gjalda skal, skulu þeir taka til er gjöld eigust við, sinn mann hvor, lögmetanda og lögsjánda. En ef þeir verða eigi á sáttir, þá skulu þeir hluta og meta við eið sá er hlýtur.

Þrjár vættir gamalla sauða ullar við kú. Þrjár vættir mjölvægs matar við kú, veturgamalla sauða ullar eða öldungshúð, og bæta eyri hvort. Tvær kýrhúðir við öldungshúð. Rétt er og ef snöggvar ær eru goldnar að láta fylgja vætt ullar tuttugu ám.

[Bd: Rétt er að maður reiði vætt ullar af ám tuttugu. Kýr skal vera að níu álnum í hönd en að tíu álnum á frest á leigu. Rétt er að ala vetrung eftir kú að leigu, og skal maður ábyrgjast sem fúlgufé. Tvevett naut á maður að ala eftir kú, ef eigi er kálfbært, og ábyrgjast við megri og við handvömmum sínum.]

4. FRÁ RÉTT NOREGSKONUNGS Á ÍSLANDI.

Sá er réttur konungs úr Noregi á Íslandi að sjálfstefnt skal sökum hans vera, og að lögum þarlandsmanna sækja. Lög og rétt skulu hans menn þar hafa slíkan sem landsmenn.

Arf skal taka á Íslandi frændi eða félagi. En ef þeir eru eigi til, þá skal bíða þaðan erfingja.

5. UM RÉTT ÍSLENDINGA Í NOREGI.

Íslendingar eigu að hafa höldsrétt í Noregi.

Arf eigu að taka í Noregi af Íslandi næstabræðra, slíkt konur sem karlar, eða nánari menn. Eiður þriggja manna skal sanna frændsemi, þá er menn vilja þess beiða. En ef eigi er hér arftökumaður, þá skal halda hér fé það sá maður, vetur þrjá, er hann var í húsum með, nema fyrr komi næstabræðri eða nánari maður.

Íslendingar skulu engi toll gjalda í Noregi nema landaura, eða varðmönnum í kaupöngum. Karlmenn frjálsir, þeir er fullan rétt eigu, skulu gjalda landaura, sex feldi og sex álnir vaðmáls eða hálfa mörk silfurs. Þá er komið til þess gjalds er menn koma í akkerissát eða í landfestar.

Íslendingar eigu í Noregi að njóta vatns og viðar. En þar aðeins eigu þeir að höggva við þann allan er þeir vilja, er konungsmörk er.

Þá eru Íslendingar skyldir útfarar með konungi er her er vís í Noregi og almenningur er úti. Þá skal eftir sitja hinn þriði hver en tveir fara. Noreg eru Íslendingar skyldir að verja með konungi en eigi til lengri herferða.

Eigi skal taka það fé af Íslendingum í Noregi er tæmist í annars konungs veldi.

Útför eigu Íslendingar til Íslands nema vís sé her í Noregi. En Íslendingar eigu að fara af sínu landi til hvers lands er þeir vilja.

En ef Íslendingar gjalda landaura í Eyjum eða á Hjaltlandi, þá eru þeir eigi skyldir að gjalda aðra landaura í Noregi, nema þeir fari út á milli.

Karlmaður hver á utan að fara, heill og hraustur, er landaura má gjalda. En búferla eigu utan að fara þeir er ómögum sínum megu vörð um veita og útgerðir þær gera. Og kona hver, sú er fylgir búanda sínum eða feður eða söni eða bróður, ef hún á þrjár merkur fjár.

Ef útlendur maður andast hér, þá skal húsbúandi taka af sex aura talda til þurftar honum. En síðan skal hann láta húsfasta menn fjóra, þá er næstir eru á tvær hendur, virða fé það. Ef næstabræðri eða nánari maður kemur til, þá skal hann æsta taks að bjarkeyjarrétti til móts. Taksæstingarvottar eru eigi skyldir að vinna eiða ef húsbúandi gengur í gegn taksæstingu á móti. Frændsemi skal sá maður telja, er fé heimtir, með sér og hinum dauða og vinna eið að, og svo að því að hann tekur það fé til úthafnar og vill erfingjum færa á næsta sumri, ef hann má. Sannanarmenn hans tveir skulu eiða vinna að sú er frændsemistala sönn, og eru þeir eigi skyldir að telja frændsemi og eigi að fela fleira undir eið. Þá eigu býjarmenn að leggja dóm á og veita vopnatak að. Síðan skal húsbúandi reiða fé af hendi og leggja eið á að það fé er allt af hendi goldið er hinn dauði átti.

Ef maður týnir svo fé sínu að hann á eigi hag að gjalda alla landaura, þá er hann eigi skyldur að gjalda. Ef þeir menn verða sæhafa í Noreg, er vart hafa til Grænlands eða fara í landaleitan, eða slítur þá út frá Íslandi þá er þeir vildi færa skip sín milli hafna, þá eru þeir eigi skyldir að gjalda landaura.

Þann rétt og þau lög gaf Ólafur hinn helgi konungur Íslendingum er hér er merktur. Gissur biskup og Teitur filius eius, Markús, Hreinn, Einar, Björn, Guðmundur, Daði, Hólmsteinn, þeir svóru þess að Ísleifur biskup og menn með honum svörðu til þess réttar sem hér er merktur, að þann rétt gaf Ólafur hinn helgi Íslendingum eða betra.