Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/34

Úr Wikiheimild

Sveinn sonur Haralds konungs, sá er síðan var kallaður tjúguskegg, beiddist ríkis af Haraldi konungi föður sínum. En þá var enn sem fyrr að Haraldur konungur vildi ekki tvískipta Danaveldi og vill ekki ríki fá honum. Þá aflar Sveinn sér herskipa og segir að hann vill fara í víking.

En er lið hans kom allt saman, og þá var kominn til liðs við hann af Jómsvíkingum Pálna-Tóki, þá hélt Sveinn til Sjálands og inn í Ísafjörð. Þá var þar fyrir með skipum sínum Haraldur konungur faðir hans og bjuggust að fara í leiðangur. Sveinn lagði til orustu við hann. Varð þar bardagi mikill. Dreif þá lið til Haralds konungs svo að Sveinn varð ofurliði borinn og flýði hann. Þar fékk Haraldur konungur sár þau er hann leiddu til bana. Síðan var Sveinn tekinn til konungs í Danmörk.

Þá var Sigvaldi jarl yfir Jómsborg á Vindlandi. Hann var sonur Strút-Haralds konungs er ráðið hafði fyrir Skáney. Bræður Sigvalda voru þeir Hemingur og Þorkell hinn hávi. Þá var og höfðingi yfir Jómsvíkingum Búi digri af Borgundarhólmi og Sigurður bróðir hans. Þar var og Vagn sonur þeirra Áka og Þórgunnu, systursonur þeirra Búa.

Sigvaldi jarl hafði höndum tekið Svein konung og flutt hann til Vindlands í Jómsborg og nauðgaði hann til sætta við Búrisláf Vindakonung og til þess að Sigvaldi jarl skyldi gera sætt milli þeirra, Sigvaldi jarl átti þá Ástríði dóttur Búrisláfs konungs, og að öðrum kosti segir jarl að hann mundi fá Svein konung í hendur Vindum. En konungur vissi það að þeir mundu kvelja hann til bana. Játti hann fyrir því sættargerð jarls. Jarl dæmdi það að Sveinn konungur skyldi fá Gunnhildar dóttur Búrisláfs konungs en Búrisláfur konungur skyldi fá Þyri Haraldsdóttur systur Sveins konungs en hvortveggi þeirra skyldi halda ríkinu og skyldi vera friður milli landa. Fór þá Sveinn konungur heim í Danmörk með Gunnhildi konu sína. Þeirra synir voru þeir Haraldur og Knútur hinn ríki.

Í þann tíma heituðust Danir mjög að fara með her í Noreg á hendur Hákoni jarli.