Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/59

Úr Wikiheimild

Þetta sama haust stefndi Ólafur konungur fjögurra fylkna þing norður á Staði á Dragseiði. Þar skyldu koma Sygnir og Firðir, Sunn-Mærir og Raumdælir. Fór Ólafur konungur þannug með allmikið fjölmenni er hann hafði haft austan úr landi og svo það lið er þá hafði komið til hans á Rogalandi og Hörðalandi. En er Ólafur konungur kom þar til þings þá boðaði hann þar kristni sem í öðrum stöðum. En fyrir því að konungur hafði þar styrk mikinn fjölmennis og óttuðust þeir það. En að lyktum þess máls þá bauð konungur þeim tvo kosti, annaðhvort að þeir tækju kristni og létu skírast eða að öðrum kosti að þeir skyldu halda við hann orustu. En er bændur sáu eigi föng til að berjast við konung þá var hitt ráð upp tekið að allt fólk kristnaðist.

En Ólafur konungur fer þá með liði sínu á Norð-Mæri og kristnar hann það fylki. Síðan siglir hann inn á Hlaðir og lætur brjóta ofan hofið og taka allt fé og allt skraut úr hofinu og af goðinu. Hann tók gullhring mikinn úr hofshurðinni er Hákon jarl hafði látið gera. Síðan lét Ólafur konungur brenna hofið. En er bændur verða þessa varir þá láta þeir fara herör um öll fylki og stefna her út og ætla að konungi. Ólafur konungur hélt þá liði sínu út eftir firði og stefnir síðan norður með landi og ætlar að fara norður á Hálogaland og kristna þar.

En er hann kom norður í Bjarnaura þá spyr hann það af Hálogalandi að þeir hafa þar her úti og ætla að verja land fyrir konungi. Eru þeir þar höfðingjar fyrir liði Hárekur úr Þjóttu og Þórir hjörtur úr Vogum, Eyvindur kinnrifa. En er Ólafur konungur spyr þetta þá snýr hann leið sinni og siglir suður með landi. En er hann kom suður um Stað þá fór hann allt tómlegar og kom þó öndverðan vetur austur allt í Víkina.