Heimskringla/Ólafs saga helga/211

Úr Wikiheimild

En er Ólafur konungur hafði fylkt liði sínu þá talaði hann fyrir þeim, mælti svo að menn skyldu herða hugi sína og ganga djarflega fram. „Ef orusta verður,“ segir hann, „höfum vér lið gott og mikið en þótt bændur hafi lið meira nokkuru þá mun auðna ráða sigri. Er því fyrir yður að lýsa að eg mun eigi flýja úr orustu þessi. Skal eg annaðhvort sigrast á bóndum eða falla í orustu. Vil eg þess biðja að sá hlutur komi upp er guð sér að mér gegnir best. Skulum vér því treystast að vér höfum réttara að mæla en bændur og því þar með að guð muni oss frelsa eigur vorar eftir orustu þessa en ellegar veita oss miklu meiri laun fyrir það lát er vér fáum hér en vér kunnum sjálfir að æskja oss. En ef eg hlýt um að mæla eftir orustu þá skal eg gæða yður hvern eftir sínum verðleikum og því hvernug hver gengur fram í orustu. Mun þá, ef vér höfum sigur, vera gnógt, bæði lönd og lausir aurar, að skipta því með yður er nú fara með áður óvinir vorir. Veitum sem harðasta atgöngu hina fyrstu því að skjótt mun um skipta ef liðsmunur er mikill. Eigum vér sigurs von af skjótum atburðum en hitt mun oss þungt falla ef vér berjumst til mæði svo að menn verði fyrir því óvígir. Munum vér eiga minna deildarlið en þeir er ýmsir ganga fram en sumir hlífast og hvílast. En ef vér gerum svo harða hríðina að þeir snúa undan er fremstir eru þá mun hver falla yfir annan og verða þeirra ófarar þess að meiri er þeir eru fleiri saman.“

En er konungur hætti ræðunni þá gerðu menn mikinn róm að máli hans og eggjaði hver annan.